Kötluskjálftar

Kötluskjálftar Skelfir

Eldstöðin Katla minnir á sig öðru hvoru með skjálftum eða stöku hlaupum án þess að almennileg umbrot eigi sér stað, en miðað við fyrri hegðun þá ætti Katla að hafa gosið fyrir nokkrum áratugum. Á síðustu 15-20 árum hefur margt þótt benda til að loksins gæti eitthvað alveg farið að gerast. Meira segja að hafa völvuspár tekið undir það þótt slíkir spádómar hafi verið orðaðir á sífellt varfærnari hátt með tímanum.
Fyrirboðar eldgosa eru nokkrir en mesta athygli fá jarðskjálftarnir enda benda þeir iðulega til óstöðugleika í jarðskorpunni. Forleikur Kötlugosa er svo sem ekki mikið þekktur en eldstöðin er annars nokkuð skjálftavæn að öllu jöfnu og því ekki óeðlilegt að ætla að skjálftum fjölgi mánuðina eða vikurnar fyrir gos - enda eru menn sífellt á nálum þegar slíkar hrynur ganga yfir.

Að þessu sögðu kemur hér línurit sem ég hef teiknað upp eftir skjálftagröfum sem finna má á vef Veðurstofunnar. Myndin sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni og Goðabungu sem eru hluti af Kötlueldstöðinni en einnig sést fjöldi skjálfta í nágrannaeldstöðinni Eyjafjallajökli. Hver punktur á línuritinu sýnir uppsafnaðan fjölda á 12 mánaða tímabili og þar skal haft í huga að skil milli tímabila er 1. maí ár hvert og því eru aðeins liðnir tæpir 7 mánuðir af þessu skjálftaári. Rauða brotalínan er því einskonar áætlun um hvert stefnir næsta vor í Mýrdalsjökulsöskjunni með sama áframhaldi.

Kötluskjálftar

Eins og sést þá voru skjálftar undir Goðabungu ansi tíðir á árunum 2002-2004 með tilheyrandi gosóróa meðal jarðfræðinga sem og almennings. Goðabunga er vestarlega í Mýrdalsjökli og eiginlega ekki hluti af Kötluöskjunni og því ljóst að þetta voru ekki alveg hefðbundnir atburðir sem aðdragandi venjulegs Kötlugoss. Hugmyndir um svokallaða gúlamyndun undir jöklinum komu fram eða jafnvel að þetta hafi bara verið jökulhreyfingar. Hvað sem þetta var þó gaus ekki upp úr jöklinum.

En svo kom gos, nema bara ekki í Kötlu. Eyjafjallajökull stal nefnilega senunni. Skjálftar þar jukust mjög í byrjun árs 2010 uns hið heimsfræga gos kom þar upp um vorið. Eins og við munum átti gosið í Eyjafjallajökli bara að vera forsmekkurinn að því sem koma skyldi því í ljósi sögunnar var Katla talin líkleg til eldgoss í strax kölfarið. “You ain't seen nothing yet” eins og einhver sagði.

Sumarið 2011 fjölgaði skjálftum mjög í Mýrdalsjökulsöskjunni og vísbendingar eru um að þá hafi gosið undir jökli. Ekkert var þó að sjá nema einhverja sigkatla og hlaup sem reyndar tók af brúna yfir Múlakvísl. Eitthvað gæti þó hafa breyst í Kötlu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Þótt eitthvað hafi róast eftir óróleikann í Kötlu árið 2011 þá voru skjálftar áfram viðvarandi og á þessu ári hefur skjálftum farið mjög fjölgandi og þá sérstaklega með hrinunni um mánaðarmótin sept-okt.
Þegar þetta er skrifað hafa 1800 skjálftar mælst síðan 1. maí í vor og með sama áframhaldi gæti fjöldinn verið kominn upp í 3000 í lok skjálftaársins. Kannski eitthvað fari loksins að gerast þarna – á næsta ári kannski? Best er reyndar að stilla væntingum í hóf, allavega er ágætt bíða og sjá til dæmis hvað Völva Vikunnar hefur að segja. Aldrei er þó að vita nema önnur eldfjöll troði sér fram fyrir í röðinni, eina ferðina enn. Hekla er víst alltaf í startholunum líka.

- - - -

Heimildir: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_num.html

Skjálftakortið efst er skjámynd tekin af Skelfir.is


Bloggfærslur 28. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband