Svakalega hlýtt yfir jörðinni í febrúar

Ég minntist eitthvað á það í lok janúar að fróðlegt yrði að sjá hvernig gervitunglamælingar á hita jarðar myndu bregðast við El-Nino ástandinu í Kyrrahafinu. Nú eru tölur fyrir febrúarmánuð komnar í hús og niðurstaðan er skýr: Stórt stökk upp á við og svo mikið reyndar að enginn mánuður, frá upphafi gervitunglamælinga árið 1979, mælist með meira frávik frá meðalhita. Þetta má sjá á línuritinu sem sýnir þróun hitans í neðri hluta lofthjúps en samkvæmt gervitunglamælingum UAH (University of Alabama in Huntsville) mældist febrúar 0,83°C yfir meðallagi. UAH er annar tveggja aðila sem framkvæmir svona gervitunglamælingar. Hinir aðilarnir koma frá Kaliforníu og skammstafast í daglegu tali RSS (Remote Sensing System). Þeir hafa einnig birt sínar febrúartölur og er þær reyndar enn hærri eða +0,97°C.

UAH febrúar 2016

Fram að þessu höfðu hlýindi fyrri hluta árs 1998 borið höfuð og herðar yfir aðrar uppsveiflur og gnæft yfir allt annað eins og illsigranlegur hraundrangi sem minnir útlitslega á þann sem finna má í Öxnadal. Nú er hins vegar kominn annar toppur, enn hærri. Spurning er síðan hvort toppnum sé náð í ljósi þess að það var aprílmánuður sem toppaði árið 1998. Það er þó vel mögulegt að toppnum sé náð núna en óvenjumikil hlýindi á norðurslóðum eiga sinn þátt að hlýindum að þessu sinni og hefur hafísinn einmitt fengið að kenna á því. Sumir binda þó vonir við komandi La Nina ástand sem óhjákvæmilega tekur við næsta vetur og ljóst að hitaferillinn skilar sér þá aftur niður – jafnvel niður fyrir núllið.

Nú er það svo að vantrúarmönnum um hlýnun jarðar af mannavöldum, hefur verið tíðrætt um að ekkert hafi hlýnað á jörðinni í einhver 18 ár. Sú fullyrðing hefur einmitt verið rökstudd útfrá niðurstöðum gervitunglaathugana á vegum UAH og RSS sem ber nokkuð vel saman nú um stundir. Það eru einmitt 18 ár síðan síðasta stóra uppsveifla var í hitagögnum þessara aðila og eins og nú kom sú mikla uppsveifla í kjölfar mjög öflugs El Nino ástands í Kyrrahafinu. Hitatoppurinn núna kemur því ekki á óvart. Það má segja að fastlega hafi verið búist honum enda búið að vera öflugt El Nino ástand undanfarið og vitað að hiti í neðri hluta lofthjúps er mjög næmur fyrir þessum El Nino/LaNina sveiflum í Kyrrahafinu. 18 ára pásunni í þessum gagnaröðum er allavega lokið, hvað sem síðar verður.

Um áreiðanlega gervitunglagagna umfram hefðbundnar mælingar á jörðu niðri má alltaf deila enda er eitthvað gert af því. Þær gagnaraðir sem byggja á mælingum á jörðu niðri sýna heldur meiri hlýnun eftir 1998 og samkvæmt þeim var árið 2015 afgerandi hlýjasta árið. Gervitungl mæla ekki hitann við yfirborð jarðar en leggja í stað þess áherslu hitann í 1 til 8 km hæð. Þetta er því alls ekki sama loftið sem er verið að mæla. Báðar aðferðirnar segja þó sína sögu en eiga vissulega báðar við sín vandamál að stríða, þurfa leiðréttinga við og eru sífellt í endurskoðun. UAH gagnaröðin sem nú er í notkun heitir t.d. Version 6,0 beta5. Það má koma fram að umsjónarmenn hennar eru þekktir sem vel volgir efasemdamenn um hlýnun jarðar af mannavöldum og eru því í mismiklum metum eftir því hver dæmir. Síðasta stóra endurskoðunin kom fram í fyrra og er ennþá í prufukeyrslu. Í þeirri endurskoðun var hiti síðustu ára lækkaður dálítið þannig að hlýnunin eftir 1998 varð nánast engin. UAH gagnaröðin varð þar með líkari RSS gagnaröðinni sem einmitt sýndi litla eða enga hlýnun eftir 1998. Teikn eru þó á lofti um að RSS-menn séu að uppfæra sína gagnaröð í átt til meiri hlýnunar eftir 1998 og þá meira í áttina að athugunum á jörðu niðri. Þeir sem taka saman gögn um þróun hita yfirborðs jarðar hafa einnig gengið í gegnum sínar endurskoðanir og þá gjarnan í átt til meiri hlýnunar, eins og tilfellið var á síðasta ári (t.d. NASA-Giss, NOAA og HadCrud). Sjálfsagt hafa menn sínar ástæður fyrir þessum endurskoðunum. Í tilfelli gervitunglamælinga eru menn til dæmis að glíma við misgömul og misáreiðanleg gervitungl í þessum nákvæmisvísindum (sbr. greinargerð frá Roy Spencer hjá UAH: Version 6.0 of the UAH Temperature Dataset Released og þessi tilkynning frá RSS: Release of RSS V4.0 TMT and TTT Air Temperature Data)


En flækjum þetta ekki meira. Hlýjasti mánuður í sögu gervitunglamælinga er nýliðinn febrúar – og úr því að þeir hjá UAH segja það þá hlýtur það að vera rétt. Niðurstöður athugana á jörðu niðri liggja fyrir síðar í mánuðinum.

Best að enda þetta á myndinni hér að neðan frá honum Bob Tisdale þar sem borin er saman hitaþróun jarðar frá 1979 til janúar 2016 samkvæmt athugunum gervitungla og yfirborðsmælinga. (Ath. hér er febrúar 2016 ekki kominn inn)

Graf Bob Tisdale


Bloggfærslur 5. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband