Skaflaferð upp í Gunnlaugsskarð

Gunnlaugsskarð útsýniSunnudaginn 18. september reimaði ég á mig gönguskóna og lagði leið mína upp að hinum vel kunna skafli í Esjunni sem oftast er kenndur við Gunnlaugsskarð og er gjarnan síðastur skafla til að bráðna á sumrin, ef hann bráðnar á annað borð. Þetta er hin sæmilegasta ganga þarna upp eftir og nokkuð brött á kafla. Skaflinn er í um 800 metra hæð á brattri austurbrún skálarinnar við Gunnlaugsskarð og liggur nokkurnvegin í norður-suður. Hann myndast sem hengja vetrum þegar snjóar eða skefur í austan- og suðaustanáttum sem er ekki óalgengt. Skaflinn hefur oftar en ekki náð að bráðna á þessari öld en að þessu sinni lifar hann góðu lífi, heill og óskiptur, og á ekki nokkra möguleika á að hverfa áður en vetrarsnjórinn leggst yfir.

Tilgangur ferðarinnar var ekki síst sá að mæla lengd skaflsins mér til gamans, en til þess nýtti ég mér GPS-hátækni með því að taka hnit á sitthvorum enda skaflsins. Samkvæmt þeirri mælingu er lengd skaflsins um 510 metrar, sem er talsvert og þýðir að lengdin er yfir helmingur af hæð Esjunnar.

Skaflinn mæling

Það að skaflinn skuli vera svona stór núna er svolítið sérstakt í ljósi þess að það hefur verið ágætlega hlýtt í veðri í sumar og árshitinn, sem af er, nálægt meðalhita síðustu 10 ára. Það snjóaði hins vegar heil ósköp í desember síðasta vetur og hafði ekki mælst annað eins í desember í Reykjavík. Enga almennilega hlýinda- og hlákukafla gerði svo það sem eftir var vetrar. Í ofanálag má gera ráð fyrir að stór uppistaða í þessum skafli núna sé snjór sem ekki náði að bráðna í fyrra en þá var skaflinn stærri í lok sumars en verið hafði frá því fyrir aldamót, sem passar líka við það að árið 2015 var afgerandi kaldasta árið í Reykjavík á þessari öld. Reyndar má deila um hvort 2015 hafi í raun verið kalt í ljósi þess hve öll hin voru hlý en í takt við það þá hurfu Esjuskaflar öll 10 fyrstu ár þessarar aldar sem er lengsta slíkt tímabil sem þekkt er.

Ég hef ekki verið nógu duglegur að ljósmynda Esjufannir síðsumars en ætla þó að birta mynd sem einn mikill Valsari tók á úrslitastund þann 15. ágúst í fyrra, árið 2015. Eins og sést var staðan þá í skaflamálum Esjunnar verulega snjónum í vil.

Laugardalsvöllur 15. ágúst 2015

Snjóskaflarnir áttu auðvitað eftir að bráðna eitthvað áður en yfir lauk þarna í fyrra en á Veðurstofuvefnum kemur fram að samkvæmt mælingu á þeirra vegum, þann 8. október 2015, hafi skaflinn verið um 500 metrar sem er einmitt svipað og ég fékk út úr minni mælingu nú um helgina - næstum ári seinna.

Svo má geta þess að þetta er ekki alveg í fyrsta sinn sem ég fer í skaflamælingaleiðangur upp í Gunnlaugsskarð því sunnudaginn 19. ágúst 2012 fór ég við þriðja mann þangað uppeftir en þá dugði að hafa upprúllað málband með í för til mælinga. Skaflinn góði mældist þá ekki vera nema 32 metrar á lengd enda náði hann að hverfa að fullu fyrstu vikuna í september. Að sjálfsögðu var einnig bloggað um þá ferð: Skaflaleiðangur á Esjuna

Til að meta framhaldið þá gæti orðið einhverra ára bið á því að Esjan nái að hreinsa af sér alla skafla á ný í ljósi þess að undir yngsta snjónum leynist það sem eftir lifði frá síðustu árum. Þetta er svo sem ekkert til að hafa áhyggjur af, en það má samt alveg fylgjast með þessu enda ætti afkoma Esjuskafla að vera sæmileg vísbending um tíðarfar almennt og jafnvel jöklabúskap að einhverju leyti.


Bloggfærslur 18. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband