Um áhrif Kyrrahafsstraumana El Nino og La Nina á hitafar jarðar

Það hafa borist fréttir víðar en á Íslandi að kuldar og allskonar vetrarhörkur hafi einkennt veðráttuna undanfarið. Þegar sérfæðingar skýra út hverju þessu valdi þá er athyglinni oftast beint að Kyrrahafinu þar sem hið kælandi hafsstraumafyrirbæri La Niña hefur núna náð sér strik, en La Niña er andstæðan við El Niño fyrirbærið sem veldur hlýnun þegar það ástand varir. Ég ætla mér ekki hér að fjalla sérstaklega um þessa strauma, en það hefur lengi verið ljóst að þessi breytileki í hafsstraumum þarna hefur ýmis áhrif á veðrið í heiminum og einnig margt annað eins og t.d við Chile, þar sem La Nina ástandið hefur jákvæð áhrif á ansjósuveiðar, því þá sogast upp næringarríkur kaldur sjór við strendur S-Ameríku.

Mér datt hinsvegar í hug að kanna nánar tengsl þessara hafstrauma við hitafar aftur í tímann á hnattræna vísu. En þar sem ég fann ekki almennilega mynd sem sýnir þetta, þá gerði ég smá tilraun með útbúa þannig mynd sjálfur. Fyrst fann ég hér mynd sem sýnir hvernig La Nina og El Nino hafa skipst á í Kyrrahafinu frá 1950, síðan sótti ég línurit frá Nasa sem sýnir áætlaða hitaþróun eða frávik frá meðalhita á jörðinni frá 1880. Þegar þessum myndum hefur verið smellt saman þannig að ártölin falli saman (eftir 1950), kemur út þessi mynd.

ts2

Í fljótu bragði sést kannski ekki mjög mikið hvað er að gerast. Þykka bláa línan er nokkurra ára keðjumeðaltal fyrir hitann, en ég hafði meiri áhuga á daufari línunni sem sýnir hita hvers árs. Eftir 1975 hefur hitafarið stigið mikið eins og frægt er og gerir samanburðinn erfiðari. Á myndinni hér að neðan er ég því búinn að hliðra niður hitanum eftir 1975 niður á við til að auðvelda samanburðinn enda er þar á ferð langtímahitafarsbreyting væntanlega af öðrum örsökum. Einnig sýni ég þarna bara árshitann en sleppi keðjumeðaltalinu og búinn að bæta við árinu 2007 þannig að nú fer þetta allt að skýrast betur.

El Ninja / La Ninja / Hitafar
Þá er hægt að bera þetta saman og ekki annað að sjá en að það sé þó nokkur fylgni á þarna á milli. La Nina (blár) hefur yfirleitt kælandi áhrif en El Nino (rauður) áhrif til hlýnunar. Það eru samt undantekningar á fylgninni sem í tveimur mikilvægum tilfellum má skýra með öflugum eldgosum: El Chichon í Mexíkó árið 1982 olli því að árið 1983 varð ekki enn hlýrra þrátt fyrir mjög öflugt El Nino ástand og svo Pinatupo gosið á Filippseyjum árið 1991 sem olli talsverðri kólnun þrátt fyrir nokkurra ára El Nino ástand árin þar á eftir.

Mér finnst augljóst miðað við þessa skoðun að Kyrrahafsstraumarnir geta valdið skammvinnri hnattrænni hlýnun eða kólnun um allt að 0,2°C til og frá. Eins og sést á myndinni eru það núna hin kælandi La  Nina áhrif sem eru nýhafin, en slíkt ástand getur varað í 1-4 ár. Það verður því að teljast líklegt að þegar dæmið snýst við að þá fáum við á ný mjög hlý ár sem jafnvel geta orðið þau hlýjustu á jörðinni. Til lengri tíma eru það þó fleiri þættir sem hafa áhrif á hitafar jarðar og þegar allir þeir þættir tvinnast saman liggur leiðin ýmist upp á við eða niður á við. Einn þessara þátta sem áhrif hafa eru hin sívaxandi gróðurhúsaáhrif af völdum mannsins og þótt um það sé deilt hversu sá þáttur vegur þungt er samt alveg ljóst að þar er bara aukning á ferðinni til langs tíma litið og mun hafa áhrif á hitafar jarðar næstu aldir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er fróðlegur pistill Emil. Takk fyrir.

Ágúst H Bjarnason, 14.2.2008 kl. 22:23

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Glæsilegur pistill.  Alltaf kennirðu manni eitthvað... takk.  

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.2.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband