Landið skelfur stranda á milli

Þennan góðviðrisdag þegar þetta er skrifað hefur verið talsverð skjálftavirkni á landinu. Þetta eru allt mjög litlir skjálftar sem sjálfsagt enginn verður var við en dreifing þeirra sést á meðfylgjandi korti Veðurstofunnar. Það má segja að flest af virkustu skjálftasvæðum landsins taki þátt í þessum óróa. Mjög þétt virkni hefur verið út af Reykjanesi en síðan raða skjálftarnir sér eftir Reykjanesskaganum og Suðurlandsbrotabeltinu. Katla er þarna með líka, Vatnajökull og svæði í nágrenni Öskju þar sem skjálftavirkni hefur verið nokkur síðustu ár. Norðurlandið lætur ekki sitt eftir liggja þar sem skjálftarnir raða sér eftir Tjörnesbrotabeltinu. Allt er þetta með meira móti miðað við það sem gengur og gerist hvort sem það boðar eitthvað sérstakt eða ekki. Spurning er þó hvað veldur. Tilviljun eða eitthvað annað?

Skjálftar 26. apríl

Stundum er talað um þann möguleika að tunglið geti haft áhrif á tíðni jarðskjálfta, stóra sem smáa. Tunglið er um þessar mundir í nokkuð beinni stefnu að sólinni frá jörðinni og nýtt tungl myndast þann 29. apríl. Nýtt tunglTunglið er sem sagt á milli sólar og jarðar og snýr iIllsjáanlegri skuggahlið sinni að jörðu. Þar með eru tunglið og sólin nokkuð samstillt í sínu átaki þessa dagana. Með léttri athugun fann ég smá vangaveltur um þetta frá British Geological Survey þar sem bent er á að samkvæmt rannsókn frá 2004 komi fram að engin marktæk tengsl séu á milli jarðskjálfta og tunglsins. Önnur rannsókn frá 2009 bendir hinsvegar til þess gagnstæða og að aðdráttarafl tunglsins geti einmitt liðkað til við að koma einhverri skjálftavirkni af stað þar sem spenna hleðst upp við sprungur.

Eitthvað er þetta því málum blandið en eitt er þó víst að landið okkar er á hreyfingu eins og það hefur alltaf verið.   

 


Bloggfærslur 26. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband