Heimshiti og Reykjavíkurhiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2014 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Heimshiti - Reykjavíkurhiti
Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn var með hæsta móti árið 2014. Í Reykjavík var þetta næst hlýjasta árið en á heimsvísu náði árið að vera það hlýjasta frá upphafi beinna veðurathugana. Auðvitað er þó alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Á heimsvísu gætu einhver af síðustu árum mögulega hafa verið hlýrri en flestar ef ekki allar stofnanir sem taka saman heimshita byggðan á athugunum á jörðu niðri setja nýliðið ár í fyrsta sæti.

Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróuninin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á þau köldu sem tímabundin undirskot miðað við heimshitann.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan aðrir segja að það haldi áfram að hlýna, eins og reyndar hefur verið að gerast í heildina þegar litið er til baka. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár, þá er frekar ólíklegt að árið 2015 verði hlýrra hér í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Hinsvegar trúi ég heimshitanum til alls um þessar mundir og tel að 2015 gæti hæglega gert enn betur en 2014, ef enn betur skildi kalla.


mbl.is Jörðin hlýnar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband