Loftsteinagígar í Kanada

Í tveimur síðustu færslum hefur Norður-Ameríka verið í brennidepli hjá mér og til að fullkomna þríleikinn ætla ég að halda mig áfram á þeim slóðum. Ég kom inn á það síðast að stór loftsteinn hafi hugsanlega gert mikinn usla í Ameríku undir lok síðasta jökulskeiðs með víðtækum afleiðingum fyrir frumbyggjana og jafnvel þurrkað út heilu dýrategundirnar. Einn gallinn við þessa loftsteinakenningu er sá að ummerki á jörðinni í formi gígs vantar algerlega en það var útskýrt þannig að loftsteinninn eða kannski frekar, ísklumpurinn, hafi sprungið upp til agna í nokkurra kílómetra hæð.

Á jörðinni eru mörg ummerki eftir loftsteina sem hafa fallið á jörðina. Þetta eru gígar sem geta verið yfir 100 kílómetrar í þvermál og svo fjöldamargir smærri, yngri gígar. Þessir loftsteinagígar hafa varðveist misvel og eru líka misvel sýnilegir í dag en þar skiptir miklu máli hvar á jörðinni þeir hafa fallið. Það landssvæði á jörðinni sem virðist vera vænlegast til að varðveita ummerki loftsteina er norðurhluti Norður-Ameríku og þá kannski sérstaklega Labrador-skaginn í Kanada. Þangað er ferðinni heitið til skoða loftsteinagíga með hjálp Google-earth.

 

Pingualuit Crater
Fyrstan skal nefna Pingualuit crater sem er mjög reglulega hringlaga gígur norðarlega á Labradorskaga og talinn er vera 1,4 milljón ára. Þetta er mjög fallegur gígur og eins og með aðra loftsteinagíga á þessum slóðum er hann fullur af vatni. Gígurinn er einfaldur og ekki af stærstu gerð, þvermálið er um 3,4 kílómetrar og dýpið 267 metrar en til samanburðar er Öskjuvatn álíka stórt og dýpið 220 metrar. Vegna þess hve þetta eru fáfarnar slóðir var þessi gígur lítt þekktur umheiminum þar til eftir 1950 þegar farið var að skoða nánar þetta fyrirbæri sem sást á loftmyndum frá árinu 1943. Inúítar höfðu hins vegar lengi þekkt vatnið og kölluðu það „Kristalsaugað“ með tilvísunum óvenjulegs hreinleka vatnsins sem þarna er.

Clearwater Lakes

Clearwater lakes eru nokkuð merkileg því hér hafa tveir allstórir loftsteinar fallið samtímis og myndað þessa tvo gíga. Vötnin er samtengd, það stærra er 36 þverkílómetrar og það smærra 26 km og eru áberandi utan úr geimnum. Í stærra vatninu er eyjahringur sem þýðir að gígurinn er samsettur eins og gjarnan er með stærri gíga. Það þýðir að gígurinn er ekki bara einföld skál því við þungt höggið hefur komið bakslags-bylgja sem mótað hefur innri gerð gígsins. Aldur gígana er um 290 milljón. Ekki virðast menn vera alveg vissir hvort loftsteinninn hafi brotnað í tvennt áður en hann féll til jarðar eða hvort hér sé um að ræða tvíburaloftstein (binari asteroid), en þá eru það tveir álíka stórir loftsteinar sem snúast um hvorn annan í geimnum.

Manicouagan

Að lokum er það Manicouagan gígurinn sem er einn af frægustu loftsteinagígum á jörðinni. Hann er stundum kallaður „Quebec augað“ og er mjög sýnilegur utan úr geimnum vegna hringlaga stöðuvatnsins á jöðrum gígsins. Þetta er einn af stærstu loftsteinagígum á jörðinni, hefur upphaflega verið um 100 km í þvermál en hefur minnkað vegna veðrunar niður í 70 km sé miðað við hringlaga vatnið. Til að fá stærðarsamanburð þá er eyjan svipuð Hofsjökli að stærð. Aldur gígsins er áætlaður um 215 milljón ár og því mun eldri en gígurinn sem myndaðist eftir loftsteininn sem grandað risaeðlunum fyrir 65 milljón árum og allavega helmingi minni. Loftsteinninn gæti hafa verið um 5 km að stærð en hugmyndir eru uppi um að önnur brot hafi einnig fallið í Frakklandi, Úkraínu og víðar. Ljóst er að þessu hafi fylgt náttúruhamfarir af stærstu gerð sem reynt hefur verið að tengja við fjöldaútrýmingu dýrategunda fyrir 205 milljón árum á mörkum trías- og júratímans. 10 milljón ára gatið, ef aldurákvarðanir eru réttar, er þó erfitt að brúa.

- - - - 

Heimildir eru héðan og þaðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þakka þér fyrir athyglisverðan og góðan pistil

Óskar Þorkelsson, 25.2.2011 kl. 23:22

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hrikalega skemmtilegt að lesa svona pistla - kærar þakkir :)

Höskuldur Búi Jónsson, 26.2.2011 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband