Veðurskráning maí 2011

Eins og um síðustu mánaðarmót kemur hér dálítið veðuryfirlit fyrir nýliðinn mánuð og smá samanburður við fyrri ár. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurdagbókarskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn og eins og ég hef oft nefnt áður er aukaafurð þessara skráninga, einkunnakerfi, sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum. Þetta útskýrði ég örlítð betur síðast. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru bara ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans, en nú er ég að hugsa um að deila skráningum með þjóðinni næstu mánuði, eða bara í sumar.
Skráning maí 2011
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn maí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort dagurinn teljist í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). Meðallagið hef ég nokkuð vítt og er breytilegt eftir árstíðum. Fyrri hluta maímánaðar miða ég við 4-9 stig en seinni hlutann 7-12 enda er maí að öllu jöfnu ört hlýnandi mánuðir.

Maí 2011
Nýliðinn maímánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem telst nokkuð góð einkunn. Kannski finnst sumum þetta hafa verið kaldur mánuður en það er væntanlega vegna þess að hitafarið var öfugsnúið í mánuðinum með sannkölluðum sumarhitum fyrri partinn en frekar svölu veðri seinni partinn. Slíkt háttarlag er ekki vænlegt til vinsælda á vormánuðum en veðurbókin hefur engar tilfinningar fyrir slíku. Öfgarnar fyrstu tvo dagana er merkilegar því mánuðurinn byrjaði á bólakafi í snjó en 14 stiga hita daginn eftir. Eins og gjarnan er í maí var yfirleitt nokkuð bjart í veðri og úrkomudagar fáir. Ég vek athygli á næstsíðasta dálkinum sem er að mestu auður. Þar sést hvort blautt sé yfir um miðnætti eða jörð hvít eins og tilfellið var eftir fyrsta daginn. Yfirleitt er þessi dálkur miklu skrautlegri, sérstaklega yfir veturinn.

Merkisatburður mánaðarins var auðvitað Grímsvatnagosið sem hófst að kvöldi þess 21. Sá sólskinsdagur fékk 6 stig í einkunnakerfinu en til að fá bestu einkunn hefði vindur þurft að vera hægari og hitinn hærri. Enginn dagur náði sparieinkunninni 8 að þessu sinni. Sumir dagar fyrri hlutann voru þó mjög nálægt því og hefðu í raun alveg átt það skilið. Enginn dagur fékk heldur hina alslæmu 0-einkunn (enda mjög fátítt) og enginn fékk bara 1 stig, sem á sinn þátt í ágætri einkunn mánaðarins.

Nokkrir góðir maímánuðir til samanburðar:

Maí 2010 - Einkunn 5,5. Þetta er mjög góð einkunn og með því allra besta sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér í einkunn. Þetta var sannkallaður sumarauki að vori enda hlýr mánuður og alveg laus við kuldaköst eins og oft hefur einkennt maímánuði hér á landi. Þar að auki var sólríkt, hægviðrasamt og þurrt hér í Reykjavík og varla hægt að fara fram á meira, nema hvað að stöku sinnum gerði hér dálítið öskumistur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Maí 1995 - Einkunn 5,4. Þessi mánuður er kannski nokkuð óvænt og afgerandi í öðru sæti. Hitinn var þó ekkert sérstakur en allt annað í góðu lagi. Það sem vegur hátt í góðri einkunn er hvað vindurinn var hægur en frá upphafi minna skráninga er þetta allra hægviðrasamasti mánuðurinn í Reykjavík. Opinberar athuganir eru þó ekki alveg sammála enda mælist nú hvað eftir annað mun hægari meðalvindur á Veðurstofutúni í ört vaxandi gróðri og byggð þar umhverfis.
Maí 2002, 2003, 2005 og 2006 - Einkunn 5,1. Þessir mánuðir eru allir sólríkir og þurrir og því nokkuð dæmigerðir fyrir veðurlag sem algengt er hér á vorin. Gallinn við þá (fyrir utan 2003) eru hinsvegar nokkrir kaldir norðanáttardagar sem þó skora ágætlega í einkunnakerfinu vegna sólskins. Það sem bjargar málunum er að hér í Reykjavík fer saman skjól fyrir köldum vindum úr norðri og varmi sólarinnar úr suðri. Kuldakastið seinni hlutann í maí 2006 var þó ansi hastarlegt, en eins og nú í ár var fyrri hluti mánaðarins mjög hlýr og komst t.d. hitinn í 18 stig þann 7. maí.
Maí 2008 - Einkunn 4,8. Þetta telst að vísu bara góð meðaleinkunn en ég nefni mánuðinn því hann þetta er hlýjasti maí í Reykjavík síðan 1960. Vindar voru nokkuð suðlægir og ekki alltaf hægir. Hitinn var nokkuð jafn allan mánuðinn, yfirleitt svona 9-12 stig yfir daginn.

Og þeir verstu:

Maí 1989 - Einkunn 4,0. Þessi mánuður á alveg skilið að vera neðstur á blaði. Meðalhitinn var ekki nema 4,8 stig og úrkoman var sú mesta sem mælst hefur í maí hér í Reykjavík. Að þessu sinni kom kuldinn ekki bara úr norðri heldur líka úr suðvestri og því gerði nokkrum sinnum slydduél og jafnvel stundum snjóél með hvítri jörð. Sumarið sem á eftir kom náði sér aldrei á strik og var nokkuð kalt og leiðinlegt.
Maí 1991 - Einkunn 4,2. Þetta telst ekki alveg vera falleinkunn en mánuðurinn skorar ekki hærra vegna þrálátra rigninga og sólarleysis. Stöku slydduél úr suðvestri hrjáðu einnig höfuðborgarbúa framan af mánuði. Að þessu sinni fylgdi óvenjugott sumar og sögulegt miðað við það sem fólk átti að venjast þarna fyrir 20 árum.

- - - -
Almennt að lokum. Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Einkunnarkerfið er auðvitað ekki gallalaust en er samt ágætis viðmiðun og útgangspunktur fyrir veðursamantektir eins og þessa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Gott hjá þér frændi og fróðlegt.

Björn Emilsson, 3.6.2011 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband