Talsvert af hafís á Grænlandssundi

Hafís Grænlandssund 4. júlí

Að gefnu tilefni kem ég hérna með dálitlar hafíspælingar en svo virðist sem hafísinn sé ekki ekki mjög fjarri landi norðvestur af Vestfjörðum miðað við árstíma. Myndina útbjó ég frá MODIS gervitunglamyndum frá 4. júlí og hef strikað með blárri línu þar sem mér sýnist hafísjaðarinn vera. Vestfjarðakjálkinn er þarna vel sjáanlegur og strönd Grænlands alveg efst. Mikið hægviðri hefur verið ríkjandi kringum Ísland vikum saman og því fátt sem heldur aftur af hafísnum og því sem honum fylgir. Í takt við það hefur lítið verið um almennilegar norðaustanáttir á Grænlandssundi sem annars eru þar ríkjandi, en sú vindátt heldur einmitt aftur af hafísreki hingað.

Þessi útbreiðsla hafíssins á Grænlandssundi er þó ekki merki um batnandi ástand hafíss á Norðurslóðum í heild sinni - eiginlega síður en svo. Á myndinni hér að neðan sést hafísútbreiðslan á norðurhveli og er appelsínugul lína látin tákna meðalútbreiðslu hafíssins (m.v. árin 1979-2000). Samkvæmt því er útbreiðslan víða langt undir meðaltali en þá sérstaklega norð-austast í Atlantshafinu þar sem útbreiðslan er minni en vitað er um á sama árstíma. Heildarútbreiðslan á norðurhveli er annars við það minnsta sem áður hefur mælst, en núna um hásumarið bráðnar hafísinn hratt á alla kanta og í september mun koma í ljós hvort nýtt lágmarksmet í útbreiðslu verður sett. Sjálfum finnst mér það ekki ólíklegt enda er ísinn sífellt að þynnast. Athuga það sjálfsagt síðar.

Eina undantekningin á lítilli útbreiðslu hafíssins er einmitt austur af Grænlandi eins og þarna sést. Þar gæti komið við sögu meira ísrek frá Norður-Íshafi en venjulega og líka ríkjandi vindáttir sem beint hafa ísnum í austur frá Grænlandi, í stað þess að hann reki lengra suður með austurströnd Grænlands.

Hafís norðurhveli 4. júlí 2012

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband