Gömul mynd úr Esjugöngu - hvenær var hún tekin?

Þegar hallar fer sumri líta Reykvíkingar til Esjunnar og spá í hvort síðustu skaflarnir nái að bráðna fyrir haustið. Mjög misjafnt er eftir sumrum hvenær síðustu skaflarnir hverfa en á þessari öld hafa þeir alltaf horfið, nema reyndar í fyrra þegar smáskafl upp í Gunnlaugsskarði rétt tórði, eftir því sem best er vitað.

Þá að gömlu myndinni sem ég tók í Esjugöngu með Ferðafélaginu fyrir allnokkrum árum. Þarna eru menn að nálgast gilin fyrir neðan Gunnlaugsskarð og er ferðinni heitið upp á Hábungu Esjunnar. Eins og sést þá eru allmiklir skaflar þarna í giljunum og eiga greinilega nóg eftir. Undanfarin ár hafa þessir gil-skaflar horfið um mitt sumar og jafnvel fyrr, en það ræðst ekki síst af því hversu mikið hefur snjóað um veturinn.

Esjuganga FI
Þegar kemur að ljósmyndum af Esjunni er alltaf gott að vita nákvæmlega hvenær þær eru teknar. Í tilfelli þessarar myndar kemur sér vel að muna að ég hafði með mér vasaútvarp í göngunni og hlustaði á lýsingu á því þegar KR-ingar þurftu endilega að vinna Framara í úrslitaleik bikarkeppninnar. Með smá eftirgrennslan komst ég að því að leikurinn fór fram þann 27. ágúst 1995 sem þýðir að myndin var einmitt tekin þá. En nú er öldin önnur og í dag þætti það frásögum færandi að hafa svona miklar fannir á þessum stað svona seint að sumri. Ekki voru menn þó mikið að spá í það seint síðustu öld þegar alvanalegt var að fjölmargir skaflar í Esjunni lifðu af sumarið hverju sinni. Reyndar má taka fram að árið 1995 var kalt ár og veturinn á undan hafði víða verið snjóþungur. Eiginlega var þetta síðasta árið sem hægt er að segja að hafi verið kalt í Reykjavík sem og annarstaðar á landinu.

Ástand Esjuskafla núna árið 2012 ber hlýindunum vitni, ekki síst hinir allra síðustu dagar. Þrátt fyrir snjóþyngsli í desember og janúar ásamt mjög þurru sumri lengst af er lítið eftir að Esjusköflum eins og sést á myndinni hér að neðan sem var tekin þann 14. ágúst og skaflarnir í giljunum neðan við Gunnlaugsskarð auðvitað löngu horfnir (svæði merkt með ramma). Nokkrir smáskaflar tóra þarna efst en eru ekki efnilegir til að endast fram á haustið. Smáskaflinn til vinstri á myndinni vestan við Kerhólakamb hefur þó verið nokkuð seigur þetta sumar og jafnvel möguleiki á að leifar hans lifi skaflana í Gunnlaugsskarði sem venjulega hverfa síðastir.

Esja 14. ágúst 2012

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband