Er alvöru kuldakast framundan?

Veðurspá 2. febrúarÞær eru bara nokkuð athyglisverðar veðurspárnar sem gilda fyrir næstu helgi því þá lýtur út fyrir að allir heimsins kuldar ætli að hellast yfir okkur landsmenn. Á fimmtudaginn er gert ráð fyrir því að heilmikið lægðarsvæði muni myndast suðaustur af landinu og væntanlega valda óveðri við Skotland og Skandinavíu. Hér hjá okkur mun lægðin hins vegar valda því að hingað streymir loft án nokkurrar fyrirstöðu frá mjög norðlægum og köldum slóðum. Á vef Veðurstofunnar má sjá þegar þetta er skrifað að veðurspáin hljóðar upp á 9 stiga frost á fimmtudaginn sem er bara byrjunin því frostið verður 12 stig á föstudaginn og heil 15 stig laugardaginn 2. febrúar, þegar norðanvindurinn hefur gengið niður og útgeislun í hámarki.

Það á nú alveg eftir að koma í ljós hvernig þetta muni ganga eftir en það er samt nokkuð víst að það stefnir í mikið frost víða um land en ekki síst hér suðvestanlands. Frostið í Reykjavík á reyndar að öllu jöfnu mjög erfitt með að komast undir 15 stig og gerist yfirleitt ekki nema á þó nokkurra ára fresti. Síðast þann 19. nóvember 2004 þegar það mældist -15,1° en þar áður þarf að fara allt aftur til 1981 þegar það varð -15,7° þann 15. janúar. Árið 1971, þann 30. janúar, komst frostið niður í -19,7°, sem er reyndar það langmesta síðustu áratugi og ef ekki bara það mesta síðan 1918.  Sem sagt, nú er bara að fylgjast með veðurspám. Kannski er ísöldin að koma og ekkert Global Warming í bili að minnsta kosti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég sá þetta á vef Veðurstofunnar í gær - langtímaspána fyrir suðvesturhornið - og fékk hroll.

Áttu í fórum þínum þumalputtareglu um útreikning á áhrifum vindsins á hitastig?

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.1.2008 kl. 10:01

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér er ágætis veðursíða en þar má meðal annars sjá þetta um vindkælingu: http://www.123.is/brim/default.aspx?page=page&id=4973

Emil Hannes Valgeirsson, 28.1.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kíki á þetta, takk! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.1.2008 kl. 13:59

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er alvöru skítakuldi framundan!

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.1.2008 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband