Skjálfti sem beðið var eftir

SudurlandssprungaÞað fór ekkert á mála að þetta var Suðurlandsskjálfti sem reið yfir Ölfuss og Hveragerði í dag og að hann er eiginlegt framhald af skjálftunum tveimur sem urðu árið 2000. Ef skoðuð er saga Suðurlandsskjálfta aftur í tímann er líka nokkuð ljóst að tveir jarðskjálftar uppá 6,5 á righter voru ekki nægilegir til að losa um alla þá spennu sem hafði hlaðist upp á meira en einni öld þarna á Suðurlandsundirlendinu, þannig að það hlaut að koma að þessu framhaldi og ef til vill ekki allt um garð gengið. Skjálftarnir raða sér eftir hliðrunarsprungu þeirri sem tengir gliðnunarsvæði vestara-gosbeltisins á Reykjanesi við gliðnunarsvæði austara-gosbeltisins. Það er einmitt á svona hliðrunarsprungum sem jarðskjálftar verða harðastir en vegna þess hve jarðskorpan er þunn á Íslandi þurfum við ekki að óttast ofurskjálfta uppá 8 stig líkt og varð í Kína fyrir skömmu.

Það er þekkt að hrinur Suðurlandsskjálfta hefjast frekar austarlega á Suðurlandi og færast svo vestar eftir því sem á líður. Seinni skjálftinn árið 2000 var líka vestar en sá fyrri sem kom þann 17. júní og í framhaldi af því var það í rauninni tímaspursmál hvenær Ölfuskjálftinn kæmi - eða Ölfuskjálftarnir, hafi þeir verið tveir eins og verið er að tala um. Suðurlandsskjálftahrinur eins og þessi sem hófst árið 2000 koma með ca. 80-110 ára millibili og geta staðið í nokkur ár. Hrinan sem var á undan þessari, gekk hins vegar yfir á aðeins tveimur vikum um haustið 1893 og ollu gífurlegu tjóni á mestöllu Suðurlandsundirlendinu enda um að ræða sex skjálfta sem taldir eru hafa náð 6 á righter. Röðun skjálftanna 1893 og áætluð stærð var þannig:

  1. 26. ágúst. Stærð: 6,9 stig. Upptök við Landssveit
  2. 27. ágúst. Stærð: 6,7 stig. Upptök skammt norðan Landsveitar
  3. 5. september. Tveir skjálftar 6,0 og 6,5. Annar skammt frá Selfossi og hinn á austanverðum Flóa og Skeiðum.
  4. 6. september. Stærð 6,0. Upptök í Ölfusi.
  5. 10. september. Stærð óviss. Upptök við Hraungerðisprestakall.

Síðasti skjálftinn í Suðurlandsskjálftahrinunni sem nefnd er hér að ofan var svo nokkurs konar eftirlegukind en hann kom ekki fyrir en árið 1912 og er áætlaður heilir 7,0 á righter sem er væntanlega nálægt því mesta sem getur orðið hér á landi. Skjálftinn kom upp fyrir austan skjálftana 1893, eða skammt frá Bjólfsfelli nálægt Heklu og olli mjög miklu tjóni á sveitabæjum á Rangárvöllum, en þó ekki miklu manntjóni frekar en í Suðurlandsskjálftunum árið 1893, þar sem 3 eða 4 manneskjur fórust.

Nú er bara spurningin hvort þessi Suðurlandsskjálftahrina sé gengin yfir eða ekki. Það er ljóst að þeir skjálftar sem komið hafa frá árinu 2000 eru ekki eins miklir samanlagt og varð árið 1893. Svo er líka spurning hvort við fáum einn alvöru uppá 7 stig eins og þennan austasta sem kom vestur af Heklu árið 1912, svona sem lokahnykk.

(Heimildir um skjálftana 1893 er fengnar úr grein Páls Halldórssonar í bókinn Veður á Íslandi í 100 ár, eftir Trausta Jónsson)


mbl.is Rúmlega tíu eftirskjálftar yfir þrem stigum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Fróðleg lesning.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 30.5.2008 kl. 11:51

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skemmtilegur fróðleikur, takk.

Spurning hvort lokahnykkurinn komi þá enn vestar og nær Reykjavík - eða hvað?

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.6.2008 kl. 00:08

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Bláfjöll????

Hólmdís Hjartardóttir, 3.6.2008 kl. 02:00

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nú er bara að sjá til. En skjálftar sem verða á Hellisheiðinni og þar vestar, verða ekki eins stórir og á Suðurlandi vegna þess að jarðskorpan þar er þynnri vegna eldvirkninar á Reykjanesskaga og minni spenna hleðst því upp. Það geta þó orðið talsvert góðir skjálftar þarna en þeir hrista kannski meira uppí fólki heldur en að valda skemmdum.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.6.2008 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband