18.9.2009 | 00:47
Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu
Eins og venjulega á þessum árstíma beina hafísáhugamenn athygli sinni að heimskautaísnum á norðurslóðum enda nær hann sínu árlegu lágmarki um þetta leyti. Niðurstaðan að þessu sinni er sú að lágmarksútbreiðslan 2009 er sú þriðja lægsta frá því nákvæmar mælingar hófust árið 1979, sem þýðir aftur á móti að þetta er heldur meiri hafís en á sama tíma í fyrra og nokkuð meiri hafís en haustið 2007 þegar hafísbráðnunin hafði slegið fyrri met svo um munaði.
Eftir metárið 2007 fóru ýmsir að gera að því skóna að allur hafísinn gæti horfið á norðurslóðum að sumarlagi jafnvel á allra næstu árum en ekki bara einhvern tíma á þessari öld eins og varfærnari spádómar höfðu gert ráð fyrir. Nú þegar hafísútbreiðslan hefur aukist aftur síðustu tvö árin gera menn sér væntanlega grein fyrir því að hafíslágmarkið 2007 var sérstakt tilfelli úr takti við langtímaþróun eða kannski bara á undan sinni samtíð. Það þýðir að það ætti ekki að koma mjög á óvart að einhver bati eigi sér stað.
Myndina hér að ofan vann ég upp úr kortum af hafíssíðunni Cryosphere Today sem sýnir útbreiðsluna þann 15. september 2009. Til samanburðar hef ég teiknað inn hafíslágmark áranna 2007 og 2008.
- - - -
Þróun hafíssins 30 ár aftur í tímann sést á línuriti hér að neðan en það er einnig fengið af síðunni Cryosphere Today og sýnir frávik hafíssins frá meðaltali. Þarna sést vel hvað lágmarkið árið 2007 var óvenjulegt. Síðustu tvo vetur náði svo hafísinn sér nokkuð vel á strik auk þess sem vindar síðustu tvö sumur voru hagstæðari hafísnum að því leyti að minna af honum hraktist suður á bóginn meðfram Grænlandsströndum. Samt sem áður er allt of snemmt að segja að orðið hafi einhver alvöru viðsnúningur því að útbreiðslan núna er minni en hún var fyrir árið 2007 auk þess sem hafísinn er þynnri en á árum áður og því viðkvæmari í samræmi við það.
Og eitt að lokum. Það getur verið vandasamt að fjalla um heimskautaísinn á hlutlausan hátt enda eru meint örlög hans eitt af táknmyndum hnattrænnar hlýnunar. Fyrirsögnin á þessum pistli vafðist líka dálítið fyrir mér en ég kaus þó að lokum að segja: Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu. Akkúrat þessa fyrirsögn kaus Mogginn sjálfur að nota haustið 2007 þegar fréttist að hafíslágmarkinu það árið hafði verið náð. Fyrirsögnin reyndist vera nokkuð villandi enda tóku sumir bloggarar því þannig að allt tal um minnkandi hafís á norðurslóðum væri þar með úr sögunni. Við þennan misskilning fannst mér ekki vera hægt að búa, sem varð til þess að ég skrifaði mína allra fyrstu bloggfærslu þann 22. september 2007 og hef veri meira og minna að síðan. Sjá mbl-fréttina hér: Ís byrjaður að myndast á ný á norðurheimskautinu
Nánari fréttir af hafíslágmarki þessa árs má finna á vefsíðu Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðvarinnar: http://nsidc.org/arcticseaicenews/
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:50 | Facebook
Athugasemdir
Góð færsla og lýsandi mynd sem þú teiknar. Það sem mér þykir merkilegast við þessa mynd er að hún sýnir að þó að hafísinn árið 2007 hafi verið nokkuð minni en nú, þá hafi Norðausturleiðin verið lokuð öfugt við það sem var um daginn (þegar flutningaskip fóru sína fyrstu ferð þar í gegn).
Í vor þá sveifluðust spánar mínar um lágmarkið mikið, en oftast nær spáði ég að lágmarkið yrði á milli lágmarkanna 2007 og 2008.
Nú þarf maður bara að bíða í eitt ár eftir næsta lágmarki - það verður örugglega jafn spennandi og í ár
Höskuldur Búi Jónsson, 18.9.2009 kl. 08:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.