Reykjavíkurhiti og heimshiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línuriti á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa með splunkunýjustu tölum. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Það byggir reyndar ekki á neinum útreikningum en virðist þó vera nokkuð sanngjarnt, plús það að viðmiðunarlínurnar samnýtast. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Hiti í Reykjavík og á jörðinni 1901-2013

Bollaleggingar:
Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs, t.d. því hvort kaldar eða hlýjar vindáttir hafa haft yfirhöndina á viðkomandi ári. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.

Talsverðar áratugasveiflur eru líka áberandi hér hjá okkur. Hlýja tímabilið á síðustu öld einkennist af mörgum mjög hlýjum árum sem eru langt fyrir ofan heimsmeðaltal þess tíma. Hitinn hér var þó mjög óstöðugur á þessu hlýja tímabili og á kaldari árunum sem komu inn á milli féll hitinn niður í það að vera nálægt heimsmeðaltalinu sem nær ákveðnum toppi árið 1944. Heimshitinn stendur síðan í stað eða lækkar ef eitthvað er þar til á seinni hluta 8. áratugarins á sama tíma og Reykjavíkurhitinn tekur dýfu niður á við og vel undir hækkandi heimshitann. Það er svo um aldamótin 2000 sem Reykjavíkurhitinn æðir upp fyrir heimshitann á ný og helst vel þar fyrir ofan þar til á síðasta ári, 2013, þegar ferlarnir krossast aftur. Ekki munar þó miklu þarna í lokin og má því segja að hitinn í Reykjavík á síðasta ári hafi verið nálægt því sem búast má við með hliðsjón af hlýnun jarðar, eins og þessu er stillt upp hér.

Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist hitinn hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn getur þó greinilega sveiflast mjög staðbundið hér hjá okkur án þess að það hafi teljandi áhrif á heimshitann. Hlýju tímabilin hér eru líka staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á köldu sem undirskot miðað við heimshitann.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál og best að segja sem minnst. Eitt er þó víst að hitasveiflur jarðar verða ekki eins afgerandi og hér í Reykjavíkinni.

- - - - - -
Smáa letrið. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í tilraunaskini að birta athugasemdir eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Væntanlega er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.


Úrkomumósaík fyrir Reykjavík 1971-2013

Sem framhald af síðustu bloggfærslu verður nú boðið upp á heilmikla grafíska útfærslu á úrkomunni í Reykjavík alla mánuði frá árinu 1971. Myndin er gerð á sama hátt og hitamósaíkin sem birtist hér í síðustu bloggfærslu en þá brá svo við að fram komu pantanir frá lesendum um að ég setti upp sambærilega úrkomumynd, sem ég hef nú gert. Á myndinni fær hver mánuður sinn litatón sem hleypur á 30 millimetra úrkomu eins og litaskalinn ofan við myndina vísar í. Eins og við mátti búast er útkoman dálítið óreiðukennd enda úrkomumagnið ekki alveg háð árstímum. Þurrkamánuðir geta komið um hávetur og svo getur auðvitað rignt duglega á sumrin. Að meðaltali er úrkoma þó nálega helmingi minni fyrri part sumars en að vetrarlagi eins og sést á tölunum neðst.

úrkoma 1971-2013

Hér má velta ýmsu fyrir sér. Þarna sjást til dæmis hinir þurru júnímánuðir áranna 2007-2012 og almennt þurr sumur undanfarið þar til á síðasta ári, 2013. Svo vill reyndar til að samskonar litasamsetning var uppi 10 árum fyrr, sumarið 2003, nema hvað það sumar var talsvert hlýrra - enda hlýjasta árið í Reykjavík. Þarna sést líka rigningasumarið mikla 1984 með stigvaxandi úrkomu fram í ágúst en það sumar kom í framhaldi af vosbúðarsumrinu mikla 1983.

Allur gangur er á því hvernig hitafar og úrkoma fara saman. Þurrkar og kuldar fara þó gjarnan saman að vetrarlagi. Árið 1979 var mjög þurrt frá mars til maí sem fór saman við kuldana miklu það ár. Mörg árin þar í kring voru einnig með þurrara móti. Einhverjir muna kannski eftir óvenjuþurrum vetri 1976-77 eins og sést á gulum lit þrjá mánuði í röð frá desember til febrúar. Afskaplega snjóþungt var fjóra fyrstu mánuðina árið 1989 og ekki bætti úr skák að þá um vorið mældist úrkoman yfir 120 mm bæði í apríl og í maí. Sólin lét síðan eiginlega ekkert sjá sig í júlí þannig að yfir nógu var kvarta árið 1989.

Úrkomumesta árið er 2007, aðallega þó vegna mjög mikilla rigninga síðustu mánuðina. Þurrasta árið var svo árið 2010 en um leið var það mjög hlýtt ár, raunar það næsthlýjasta á tímabilinu og afbragðsgott veðurfarslega séð. Úrkomumesta mánuðinn hef ég merkt inn en það er nóvember 1993 með 260 millimetra úrkomu sem er það mesta sem mælst hefur í borginni í nokkrum mánuði frá upphafi. Minnsta úrkoman er í sólríkum júnímánuði árið 1971 en hann er raunar þurrasti júní í borginni frá upphafi.

Þar hafið þið það. Veðrið er með ýmsu móti og er oftast óvenjulegt á einhvern hátt. Annað væri bara óvenjulegt. Það er tilbreyting að skrifa um úrkomu en ekki hita sem alltaf er sama hitamálið. Það má þó ekki reikna með því að ég taki við fleiri pöntunum í bili. 

- - - -

Myndin er unnin upp úr gögnum Veðurstofunnar


Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2013

Í þessari fyrstu bloggfærslu ársins kemur uppfærð litaflatamynd sem byggir á hitafari allra mánaða í Reykjavík frá árinu 1971. Hráefnið er fengið af vef Veðurstofunnar og matreitt að hætti hússins. Hver mánuður fær sinn lit eftir hitaskalanum sem fylgir en til einföldunar eru einungis fjórir litir notaðir og táknar hver þeirra hitabil upp á fimm stig.
Mánadarhiti Rvik 1971-2013

Ýmsu má velta fyrir sér þegar rýnt er í myndina en hún nær yfir tímabil sem einkennist af nokkuð köldum árum þar til fer að hlýna undir aldamótin 2000, síðan hlýjum árum sem öll eru yfir 5 stig í meðalhita þar til kom að síðasta ári sem rétt missti af 5 stigunum.

Það má sjá að fyrir aldamót voru það yfirleitt einn eða tveir sumarmánuðir sem náðu rauðum 10 stiga meðalhita í Reykjavík. Í tvö skipti, árin 1983 og 1992, náði enginn sumarmánuður 10 stigum. Eftir aldamót eru rauðu sumarmánuðirnir oftast þrír, árið 2010 urðu þeir fjórir en á síðast ári voru þeir bara tveir rétt eins og árin 2011 og 2001. Helst munar þarna um hvort júní komist í 10 stiga flokkinn eins og alloft er farið að gerast.
Bláum frostköldum mánuðum hefur fækkað mjög á síðustu árum. Tveir desembermánuðir á síðustu þremur árum eru þó bláir en nokkuð er liðið síðan fyrstu mánuðir ársins hafa verið bláir. Það gerðist síðast með herkjum í janúar og febrúar árið 2008. Apríl 1983 var mjög kaldur og er sá eini af vormánuðum sem ekki nær frostmarkinu í meðalhita.
Annars er misjafn hversu öruggir mánuðirnir eru um sinn lit. Maí vill til dæmis helst af öllu vera gulur en getur dottið niður í græna 0-5 stiga litinn. Það hefur þó ekki gerst síðan 1989. September vill einnig vera gulur en hefur þrisvar hoppað upp í þann rauða, það gerðist fyrst árið 1996 á því tímabili sem myndin nær yfir.

Látum þetta nægja og sjáum til hvernig nýtt ár spjarar sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband