Gengið um Granda

Grando ÖrfiriseyÁ síðustu árum hafa menn lagt í mikla landvinninga á grandanum sem upphaflega af náttúrunnar hendi tengdi Örfirisey við meginlandið með mjóu sandrifi. Við gerð hafnarinnar fyrir um 100 árum var útbúinn hafnargarður út í eyjuna og með frekari uppbyggingu var Grandinn orðinn vettvangur mikilla umsvifa í sjávarútvegi í skjóli gömlu verbúðarlengjunnar sem setti sinn svip á svæðið. En nú er öldin önnur og með uppfyllingum er komið heilmikið nýtt landssvæði á vestanverðum Grandanum með gatnakerfi og stórhýsum allskonar. Uppbyggingin var mikil og útlit fyrir að svo yrði áfram - allt þar til kom að árinu 2008 þegar forsendur breyttust eins og það er stundum orðað. Ég fór á vettvang á björtum degi þann 15. febrúar og tók nokkrar myndir sem hér koma á eftir. Þetta er því einskonar myndablogg undir kjörorðinu: Meiri myndir - minna mas.

Grandi verslanir

Ferðin hefst við hringtorgið við Ánanaust og framundan blasir meðal annars við mikið úrval matvöruverslana, jafnvel offramboð. Versli maður í NETTÓ, fæst KRÓNAN í BÓNUS. Vesturbæingar þurfa því ekki að óttast matarskort en auk þess er stutt í Nóatún, Víði og Hagkaup á gamla fastalandinu og svo er auðvitað Melabúðin á sínum stað.

Grandi Lýsi

Stálslegnir lýsistankar gnæfa yfir bílastæðin við Krónuna með hjálp aðdráttarlinsu. Þarna er Lýsið framleitt nú á dögum og fer reyndar ekki á milli mála þegar komið er þarna að og hægur andvarinn er í fangið.

Grandi stígur

Hér er komið að þráðbeinum göngustíg þar sem Faxaflóinn er á vinstri hönd en til hægri blasa nýjustu landvinningar við. Þarna er mikið af engu og nægt lóðaframboð hafi einhver áhuga. Bókaforlagið Forlagið er þarna í stóra húsinu.

Grandi grunnur

Hér hefur verið lagður grunnur að byggingu og síðan ekki söguna meir.

Grandi Shell

Geymslusvæði Shell breiðir úr sér og blasir þar við ýmislegt misgamalt tengt olíusölu og dreifingu. Þessi afgreiðsluskúr er í módernískum stíl en hefur sennilega gengt sínu hlutverki. 

Grandi geymsla

Fleira er geymt á Grandanum. Hér er annað geymslusvæði þar sem má finna þennan gamla bátsskrokk sem enginn tímir að henda og enginn tímir að gera upp. Sama má sjálfsagt segja um gamla Lödu-Sport bílinn og gamla timburhúsið sem einnig er geymt þarna til síðari endurbóta.

Grandi Hleragerð

Hleragerðin hlýtur að framleiða toghlera en þar fyrir utan er líka mikið af netum til skrauts eða til handagagns.

Grandi tómt hús

Hafi einhver áhuga á að hefja stórverslunarrekstur má benda á þessa byggingu sem staðið hefur nánast auð frá því hún var reist á sínum tíma. Gamla húsið sem þarna er innpakkað við hliðina mun vera hús Benedikts gamla Gröndal og stóð það áður við Vesturgötuna í Reykjavík.

Grandi ísbúð

Verbúðirnar á gamla Grandagarði eru nýttar undir ýmislegt í dag. Hér er vinsælt að fá sér ís.

Héðinshús

Héðinshúsið tilheyrir að vísu ekki Grandanum en á heimleið var ekki hægt að láta þetta myndefni fram hjá sér fara.

 


Hvaða ís er landið okkar kennt við?

Ísland 2.feb.2009

Nafnið Ísland er auðvitað langsvalasta landsheitið af öllum landaheitum, það er engin spurning og ekki virðist nafnið fæla útlendinga frá því að heimsækja „klakann“ eins og við köllum landið stundum. Hvað nafnið Ísland þýðir í raun og veru er hinsvegar sígilt álitamál enda hefur orðið ís æði margar skírskotanir til ýmissa átta. Ég veit svo sem ekki sjálfur sannleikann um tilurð heitisins Ísland en velti hér upp nokkrum möguleikum. Aðallega þó þremur sem hljóta að vera líklegastir.

1. Ísaland. Að landið sé kennt við vatn í frosnu formi er alltaf nærtækasta skólabókaskýringin enda er það beinlínis sagt í Landnámu að Hrafna-Flóki hafi gefið landinu nafnið Ísland þegar hann gekk á fjall og sá fullan fjörð af ís. Landnám Hrafna-Flóka mislukkaðist sem kunnugt er og hefur hann sjálfsagt talið þetta kuldalega nafn vera vel við hæfi. Hrafni-Flóki hafði komið sér fyrir við norðanverðan Breiðafjörð og af hæsta fjallinu þar fyrir ofan á hann að hafa séð þennan meinta ís. Reyndar þarf nú að ganga töluverðan spotta frá Breiðafirði til að mögulegt sé að sjá ís. Hann gæti þó hafa séð niður til Ísafjarðar ofan einhverri heiðinni eða kannski horft yfir Húnaflóa. Breiðafjörðurinn fyllist hins vegar ekki af ís nema í einstakri kuldatíð að hann hreinlega frjósi. En hvernig er það, átti ekki að vera svo hlýtt hér á landi á landnámsöld? Jöklarnir voru einnig ekki nema svipur hjá sjón og varla sjáanlegir á vestaverðu landinu þar sem Hrafna-Flóki hélt til. En hvað um það? Ísland er opinberlega kennt við ísinn og vissulega er hér snjór og klaki á veturna og stórir jöklar á fjöllum. Stöku sinnum fáum við líka hafísinn - sem kallaður hefur verið landsins forni fjandi. Og þá að næstu skýringu.

2. Ásaland. Hér er það hin guðdómlega skýring að landið sé kennt við hina fornu Ása sem Ásatrúin er kennd við. Ásarnir eða Æsirnir munu vera upprunnir lengst í austri samanber það sem Snorri skrifar í Heimskringlu:

Fyrir austan Tanakvísl í Ásíá var kallað Ásaland eða Ásaheimur, en höfuðborgin, er var í landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaðr. Þar var blótstaðr mikill.

Tanakvísl eða Vanakvísl þessi, segir Snorri að renni í Svartahaf, svo menn átti sig á staðsetningunni en í dag nefnist fljótið Don. Sjálf heimsálfan Asía er samkvæmt þessu einnig kennd við Ásana og jafnvel einnig gjörvöll höfuðáttin "austur". Vestrið hét hinsvegar Európá sem Snorri segir að sumir kalli Eneá. Þessi útúrdúr gæti skipt máli því Herúlakenningin svokallaða gerir ráð fyrir því að við Íslendingar séum einhverskonar afkomendur norrænns þjóðflokks sem átti ríki eða þvældist um í austri allt frá fyrstu öldum og voru miklir og grimmir bardagamenn. Að lokum skiluðu þeir sér heim á fornar norrænar slóðir en voru þá svo óforskammaðir að vilja ekki lúta konungi að þeir höfðu sig á brott og stofnuðu goðaveldið Ásaland hér á enda veraldar.
Annars er ýmislegt tengt trúarbrögðum sem kennt við Ís-eitthvað. Ís-rael er auðvitað hið Guðs útvalda ríki á meðan erkióvinurinn játar ís-lam. Lengra aftur í sögunni var Ísis einn af guðum Egypta og kannski forfaðir allra Ís-ara heimsins. Guðsonurinn Jesú, bróðir okkar besti, er kannski einn af afkomendunum en það má sjálfsagt finna einhverja leið í tungumálafræðunum til að láta  orðið is- umbreytast í jes-. Ísland gæti því alveg staðið undir nafni sem land vors guðs og allra hinna líka.

3. Eyland. Við búum vissulega á eyju sem lengst af á fyrri tíð var afskaplega fjarri öllu gamni. Á ensku er eyja rituð sem island og samkvæmt því gæti Ísland verið eyja allra eyjanna og Íslendingar hinir einu sönnu eyjamenn. Ef við höldum áfram með enskuna þá má líka nefna orðið isolation eða einangrun en is-ið þar er væntanlega það sama og í is-land þannig að þetta is hlýtur að vera eitthvað sem er stakt, eitt og sér. Stakland gæti því verið sama merking og Ísland eða bara Landið eina.

Við getum líka brugðið fyrir okkur þýskunni í þessu samhengi og talað um Ausland sem merkir útland. Hvort það tengist meira lið 2 eða 3 veit ég ekki alveg en gæti tengst báðum. Samkvæmt eyja- og einangrunarkenningunni værum við hinir einu sönnu útlendingar eða útlagar. Í dönsku Andrésblöðunum heitir hið óræða fjarlæga land Langtibortistan sem er kannski sú mynd sem menn höfðu af Íslandi. Nafnið Langtibortistan vísar þó frekar í Asíulöndin sem áður tilheyrðu Sovétinu. Þá erum við reyndar ekki fjarri fornum ásaslóðum norður af Svartahafi þar sem íþróttamenn skauta nú á ísnum af miklu listfengi í sönnum Ólympíuanda.

- - - -

Meðfylgjandi gervitunglamynd er frá 2. febrúar 2009.


Fyrstu kafbátaferðirnar á Norðurpólinn

Skate 1959

Einn liður í vopnakapphlaupi stórveldanna í kalda stríðinu var þróun kjarnorkuknúinna kafbáta sem gátu siglt mánuðum saman um heimsins höf án þess að koma upp að yfirborði. Með þessu opnuðust ýmsir möguleikar á hernaðarsviðinu, ekki síst á hinu svellkalda Norður-Íshafi því með því að leynast undir ísnum gátu kafbátar hlaðnir árásareldflaugum komist óséðir nær óvininum en áður. Siglingar kjarnorkuknúinna kafbáta á norðurslóðum sem hófust árið 1958 skiptu þó ekki síður máli í sambandi við þekkingu á heimskautaísnum. Ýmsar upplýsingar og myndir má finna um þessar fyrstu kafbátasiglingar á netinu. Þær upplýsingar geta þó verið villandi ekki síst þegar metingur um ástand hafíssins fyrr og nú kemur við sögu. Þar má t.d. nefna grein á vefnum Watts Up With That: Ice at the North Pole in 1958 and 1959 - not so thick og önnur á The Naval Hystory Blog. Hér á eftir er ætlunin að gera dálitla grein fyrir þessum fyrstu ferðum.

Fyrsta sögulega ferð kjarnorkukafbáts á Norðurslóðum var þegar USS Nautilius, fyrsti kjarnorkukafbáturinn sem smíðaður var, sigldi þvert yfir Norður-Íshafið undir ísinn, inn af hinu grunna og varasama Beringssundi og áfram til Atlantshafsins í águst 1958. Þetta var ekki bara fyrsta sigling yfirleitt yfir eða undir Norður-Íshafið heldur var þetta líka fyrsta sigling sem nokkurn tíma var farin að sjálfum Norðurpólnum á 90° norður. USS Nautilius hélt sig undir heimskautaísnum allan tímann en kom úr kafi norðaustur af Grænlandi eftir 2.940 kílómetra og 4 daga siglingu undir ísnum. Á heimleið var sigld að Íslandi og flaug skipstjórinn héðan til Bandaríkjanna (væntanlega frá herstöðinni í Keflavík). Meðfylgjandi er staðsetningarnóta USS Nautilius frá 3. ágúst 1958 þegar sjálfum Norðurpólnum var náð. Við heimkomuna til New York var skipverjum vel fagnað og heilmikið gert úr þessu ævintýri sem jók sjálfstraust Bandaríkjamanna í áróðursstríðinu við Rússa sem árið áður höfðu sent Sputnik 1. á braut um jörðu.

Nautilius New York

Strax á eftir USS Nautilius í sama mánuði árið 1958 fór annar Bandarískur kjarnorkukafbátur USS Skate sögulega ferð undir heimskautaísinn. Hann sigldi þó ekki þvert yfir Norður-Íshafið en fór þess í stað frá Atlantshafinu að Norðurpólnum fram og til baka um sundið milli Svalbarða og Grænlands. USS Skate sigldi undir norðurpólinn þann 11. ágúst 1958, eða aðeins viku eftir að USS Nautilius var þar á ferð. Alls kom USS Skate 9 sinnum upp að yfirborði Íshafsins í gegnum vakir sem opnast höfðu hér og þar á ísnum. Slíkar vakir má víða finna að sumarlagi á bráðnandi ísbreiðunni þegar hitastigið er ofan frostmarks og ísinn brotnar upp. Opnar vakir geta reyndar einnig myndast að vetrarlagi vegna hreyfinga íssins en sökum kulda frjósa þær mjög fljótlega saman aftur. Enga vök var þó að finna á sjálfum Norðurpólnum þegar Skate kom þar að og því varð ekki úr að hann kæmi upp á á yfirborði á sjálfum Norðurpólnum sumarið 1958.

USS Skate 1958 NGÝmsar myndir eru til af þessum leiðangri sem sýna kafbátinn ofansjávar á milli ísfláka, engin þeirra er þó frá sjálfum Norðurpólnum enda kom hann ekki upp þar. Meðfylgjandi mynd úr þessari ferð birtist í National Geography og var hún tekin þegar USS Skate kom upp að yfirborði á íslausri vök hjá rannsóknarstöðinni Alfa um 300 kílómetra frá pólnum.

USS Skate 1959 blaðagrein

 

Önnur ferð USS Skate undir heimskautaísinn var einnig söguleg því hún var farin um hávetur í mars árið 1959 þegar Norður-Íshafið er nánast ein samfelld íshella. Búið var að styrkja kafbátinn töluvert svo hann gæti brotist upp í gegnum allt að þriggja feta þykkan ís. Þann 17. mars 1959 var Norðurpólnum náð og þá vildi svo vel til að sprunga hafði myndast þar skömmu áður þannig að einungis tiltölulega þunnur nýfrosinn ís var á staðnum þrátt fyrir mikið frost. Með því að brjóta sér leið gegnum ísinn tókst USS Skate þarna fyrstum kafbáta að komast upp að yfirborði norðurpólsins og það um hávetur, sem er mikilvægt atriði því þar með var ljóst að hægt væri að beita kafbátum til árása frá Norður-Íshafinu á hvaða árstíma sem er.

Til eru ljósmyndir af þessum atburði sem sýna meðal annars áhöfn kafbátsins dreifa ösku heimkautafarans Sir George Wilkins sem lést haustið áður en árið 1931 hafði hann gert misheppnaða tilraun til að komast á Norðurpólinn með öllu frumstæðari kafbát sem nefndist Nautilius eins og fyrsti kjarnorkukafbáturinn enda vinsælt kafbátanafn og vísar í fræga sögu Jules Verne.

Frímerki KomsolovRússar létu að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þróuðu einnig sína kjarnorkukafbáta og var sá fyrsti þeirra sjósettur árið 1958. Fjórum árum síðar, á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní 1962, náði hann að sigla undir ísinn að Norðurpólnum og koma þar upp að yfirborði. Eftir þá frægðarför var áhöfnin að sjálfsögðu heiðruð í bak og fyrir og báturinn skýrður Leninsky Komsomol.


Fjölmargar ferðir kafbáta hafa verið farnar að Norður-Íshafinu og Norðurpólnum síðan þessar fyrstu ferðir voru farnar en sem betur fer hefur enn ekki komið til eldflaugaáraása milli stórveldanna. Áhugi manna á Norðurslóðum snýst nú að verulegu leyti um bráðnun íssins og möguleika til sjóflutninga. Allur gangur er þó á því hvernig ástand íssins á Norðurpólnum er hverju sinni. Vakir geta myndast hér og þar óháð ástandi ísbreiðunnar í heild sinni. Þessi loftmynd hér að neðan hefur oft birst í netheimum og eins og skýrt kemur fram er hún tekin á Norðurpólnum 18. maí 1987 þegar einn Breskur og tveir Bandarískir kafbátar áttu þar stefnumót. Greinilega er ísinn nokkuð gisinn þarna og virðist einn báturinn fljóta á opinni vök eða allavega mjög þunnum ís - og sumarið rétt að byrja. Þetta er þó ekki það sem kalla mætti íslaus Norðurpóll enda er ísinn umlykjandi þarna allt um kring. Ómögulegt er að segja hvenær hægt verður að birta loftmynd af sjálfum Norðurpólnum að sumarlagi þar sem ekkert sést nema opið haf. Kannski verður það á næstunni og kannski ekki. 

Norðurpólinn 1987

- - - -

Nokkrar heimildir og ítarefni:

http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Nautilus_(SSN-571)
http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Skate_(SSN-578)
http://en.wikipedia.org/wiki/Soviet_submarine_K-3_Leninsky_Komsomol
http://www.john-daly.com/polar/arctic.htm
Submarine Trough the North Pole. Tímaritið NATIONAL GEOGRAPHY. Janúar 1959.

Efsta myndin í pistlinum er af USS Skate í vetrarferðinni árið 1959. Hún er sennilega þó ekki tekin á Norðurpólnum enda bendir birtan ekki til þess.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband