Myndir af Esjunni alla daga ársins

Þeir sem hafa fylgst með bloggskrifum mínum ættu að vita að ég er haldinn dálítilli skrásetningaráráttu og þá sérstaklaga þegar kemur að ýmsum þáttum veðurs. Ég hef líka stundað árlegar samanburðarmyndatökur af Esjunni síðustu árin að vorlagi og fylgst grannt með afdrifum snjóskaflanna þegar líður á sumarið. Nú skal það hinsvegar tilkynnt að frá 1. janúar á þessu ári hef ég gengið skrefið til fulls og mætt á hverjum degi upp í Öskjuhlíð um kl. 12 á hádegi og tekið mynd í átt að Esjunni frá nákvæmlega sama punkti. Þetta hefur tekist með þeim árangri að nú á ég myndir frá sama sjónarhorni alla daga ársins með öllum þeim fjölbreytileika sem felst í misjöfnum veðrum og mismunandi árstíðum. Auk Esjunnar spilar gróðurinn stórt hlutverk í myndunum og nánast hægt að segja að þarna fari allt á kaf í grósku á miðju sumri öfugt við það sem er núna þegar allt er komið á kaf í snjó.

Eins og við er að búast hef ég stöku sinnum ekki verið staddur í bænum í hádeginu eða hreinlega ekki komist til að ljósmynda. Í þeim tilfellum hef ég kallað til sérlega staðgengla sem hafa hlaupið í skarðið því auðvitað má ekki vanta dag. Smá myndrænar lagfæringar hefur þurft að gera í undantekningatilfellum en við tölum bara ekkert um það. Þegar þetta er skrifað eru fimm dagar eftir af árinu og ekkert sem bendir til annars en árið verði klárað með stæl.

Hvað ég mun svo gera við allar þessar myndir verður bara að koma í ljós. Ég stefni allavega á að gera þær aðgengilegar á netinu og hef verið að vinna að því upp á síðkastið. Þangað til birti ég hér smá sýnishorn þar sem sjá má eina mynd fyrir hvern mánuð.

8jan201110feb201110mars2011

11april201115mai201119jun201118jul201115agust201122sept19okt20115nov201111des2011 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þetta er algjör snilld - og hefur þetta ekki klikkað?

Höskuldur Búi Jónsson, 26.12.2011 kl. 17:13

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þú sýnir mikla elju Emil og takk fyrir að deila þessu með öðrum. Ég hlakka til að sjá seríuna í heild.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.12.2011 kl. 17:55

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Frábært!

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.12.2011 kl. 18:27

4 identicon

Frábært ,en hvaðan skyldi nafnið á Esjunni hafa komið,veit einhver.? Hver gaf fjallinu nafnið Esja.?

Númi (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 00:21

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Höskuldur. Í heild sinni er þetta örugglega allt frekar klikkað en stendur vonandi undir því að vera frábært.

Esjunafnið er stundum talið vera keltneskt en gæti vel verið Norrænt og nefnt eftir grjóti. Fjallið í heild sinni gæti líka upphafllega hafa heitið Kjölur sbr. Kjalarnes. Það vill svo skemmtilega til að ég hef velt þessu fyrir mér í bloggfærslu, sjá hér:

http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/945790/

Emil Hannes Valgeirsson, 27.12.2011 kl. 01:06

6 identicon

Mig minnir að fyrir langalöngu las ég í einhverri bók eftir Árna  Óla um það að ein af ambáttum er víkingarnir höfðu með sér til Íslands frá Írlandi hafi heitið Esja.!

Númi (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 01:59

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Skólafélagi minn Eiríkur Þ. Einarsson bókasafnsfræðingur tók um nokkurra ára skeið myndir af Esjunni á virkum dögum (ekki þó alla). Sjónarhornið er frá Skúlagötu 4. Tengill á myndir Eiríks er: http://eirikur.is/esjan.htm

Trausti Jónsson, 28.12.2011 kl. 21:15

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir þetta Trausti. Það vill reyndar svo til ég rambaði á þessa ágætu myndaseríu núna í haust eftir eftir heilmiklar vangaveltur um það hvenær síðasti skafl Esjunnar hefði horfið árið 2005, samanber bloggfærslu frá 2. október sl. Myndaséría Eiríks varð til þess að ég sannfærðist að lokum um að síðasti skaflinn hefði horfið 18. ágúst það ár, en ekki 18. október.

Annars er aldrei að vita nema einhverjir fleiri hafi tekið svona daglegar myndir af Esjunni. Ég hef heyrt um nokkra sem allavega hafa fengið þá hugmynd. Sjálfur fór ég fyrst að spá í þetta fyrir um 16 árum og stefndi upphaflega á árið 2000 og þá frá sama stað ég tek myndirnar núna. Það sem varð til þess að ég dreif að lokum í þessu var að ég tók eftir að trén voru að vaxa uppúr öllu valdi og ekki langt að bíða þar til öllu hús væru horfinn bakvið myrkviði Öskjuhlíðar.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.12.2011 kl. 23:31

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo ætlaði ég líka að nefna að ég hef á árinu safnað upplýsingum um hita og vind kl 12.00 í Reykjavík samkvæmt athugunum frá Veðurstofu til að hengja við myndirnar ef mér leyfist.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.12.2011 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband