Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Einn alfastasti liðurinn af öllum föstum liðum á þessari síðu eru Esjumyndirnar sem teknar hafa verið fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar sjö talsins.

Það hefur ekki sést mikið til Esjunnar síðustu daga en sem betur fer gufuðu skýin upp þann 2. apríl og var sá dagur því sjálfkjörinn til myndatöku þetta árið. Tilgangur myndanna er aðallega sá að bera saman snjóalög í Esju undir lok vetrar og læt ég fylgja með hverri mynd hvenær ég tel að síðasti skaflinn hafi horfið.
Í ár er Esjan nokkuð stórflekkótt eftir allnokkur hlýindi undanfarið en vegna mikilla snjóalaga fyrr í vetur sitja nú eftir töluverðir skaflar sem gætu enst langt fram á sumar og alls ekki víst að síðustu skaflar nái að hverfa fyrir haustið.
Í fyrra gerðist það í fyrsta skipti á þessari öld að Esjan náði ekki að hreinsa af sér síðasta smáskaflinn í Gunnlaugssakarði. Þar með varð endi bundinn á lengsta tímabil sem þekkt er þar sem Esjan nær að verða snjólaus. Það er reyndar mögulegt að síðasti skaflinn hafi bráðnað undir skýjaþykkni seinni hlutann í október en er samt ólíklegt, allavega sást sást snjólaus Esja aldrei frá Reykjavík. Vorið í fyrra var líka frekar kalsasamt og það snjóaði í Esjuna lengi fram eftir vori og varð hún meira að segja alhvít að morgni 10. júní. Annars hefur verið mjög misjafnt hvenær síðasti skaflinn hefur horfið, á því hlýja ári 2010 gerðist það t.d. óvenju snemma, eða um miðjan júlí, eins og má sjá hér að neðan.

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

- - -
Sem bónus þá læt ég hér fylgja uppstækkaðan hluta myndar úr hinni óviðjafnanlegu myndaseríu 365 Reykjavík (www.365reykjavik.is) sem ég tók í fyrra. Þarna sést glitta í skaflinn sem þraukaði yfir sumarið, en myndin er frá 24. september 2011. Einnig er á Veðurstofuvefnum grein (sjá hér) um þennan síðasta skafl en þar kemur fram að skaflinn hafi enn verið til staðar þann 15. október undir snjóföl.

Skafl sept. 2011


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband