Loftslagseitthvað

Já það er þetta með loftslagsmálin og hlýnun jarðar sem sjálfsagt er hið alvarlegasta mál sem bregðast þarf við hið skjótasta ef ekki á illa að fara. Samt er spurning hvort maður eigi persónulega að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af þessu enda lítið sem maður getur í raun sjálfur gert í málunum. Ég gæti svo sem hætt að aka um á bíl og gengið allra minna ferða eða hjólað. En það breytir raunar engu varðandi loftslagsvandann. Bruni jarðefnaeldsneytis á heimsvísu er reyndar svo gríðarlegur að þótt allir Íslendingar tæku upp hjólreiðar þá hefði það sama og ekkert að segja á hnattvísu. Jafnvel ekki heldur þótt allt hér á landi legðist í dvala, álverin myndu loka, flugvélar hætti að fljúga og öll okkar skip hætti að sigla. Vandinn yrði áfram sá sami hnattrænt séð enda munar lítið um litla þjóð eins og okkur. Einstaklingarnir geta þó vissulega lagt sitt af mörkum ef þeir eru samtaka eins og verið er að hvetja til. Aðalmálið hljóta þó að vera stóru ákvarðanirnar sem teknar eru af stórmennum á stórum þingum út í heimi og að þeim sé fylgt eftir.

En varðandi samtakamáttinn þá er einn hluti loftslagsvandans líka sá að það eru ekki allir alveg sammála að um vanda sé að ræða. Sjálfur er ég meira að segja ekki alltaf jafn viss um að vandinn sé eins mikill og af er látið en best er auðvitað að treysta vísindaheiminum sem sagður er nokkuð sammála um að aðgerðir mannsins muni valda ýmissri loftslagsbrenglun í framtíðinni, aðallega vegna hlýnunnar. En til að efla samtakamátt ráðamanna og almennings og til að stuðla að mótvægisaðgerðum, þá þarf auðvitað að flytja fréttir af vandanum og tíunda hann rækilega. Það hinsvegar vekur upp hættuna á að meira sé gert úr vandanum en efni standa til eða þá að ýmsir gerist tortryggnir og fari að trúa því að meira sé gert úr vandanum en efni standa til. Þá verður til togstreyta milli efasemdamann og áhyggjumanna sem endar gjarnan í þrætum sem blandast almennum og pólitískum lífsskoðunum að ógleymdum allskonar hagsmunum.

Hvað mig varðar þá fylgist ég með málum sem fyrr og nýjustu tölum utan úr heimi eftir því sem þær berast. Þar kemur upplýsingabyltingin sterkt inn. Margt er síðan rætt og ritað á netinu. Sjálfsagt er helmingurinn af því sem skrifað er um loftslagsmál á netinu hin mesta vitleysa en gallinn er að ekki er alltaf gott að greina hvað fellur í þann vafasama flokk. Spurning til dæmis með þennan pistill. Hitt er þó víst að það hefur snjóað mikið í Reykjavík og þarf elstu menn til að muna annað eins, ef þeir þá muna það. Þetta er þó staðbundið ástand enda væri mikil vitleysa að halda því fram að fannfergið væri eitthvað merki um að tekið sé að kólna í heiminum.

Snjór 1. desmber 2015

Fannfergi 1. desember 2015.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Passaðu þig! 

Þú verður stimplaður afneitunarsinni og gætir jafnvel verið settur á lista sem slíkur. Slíkur listi er í alvörunni til yell

http://www.desmogblog.com/global-warming-denier-database

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2015 kl. 01:05

2 identicon

Takk fyrir góða grein. Ég hef reyndar spurt mig þeirrar spurnigar hvað það geri til þó hitni úm ca 5°c og veit ekki svarið. Einn angi þessarar umræðu er bráðunum
heimskautajöklana og þar finnst mér umræðan byggjast á hræðsluáróðri. Grænland lítur út eins og skip fullt af ís. þ.e. ísinn er lokaður inni í skál og kemst ekki út nema yfir barmana sem eru 1500 til 2.þús m. hæð. Enginn pælir neitt í því hvar hjarnmörkin liggja en þau eru miklu hærra uppi á suður Grænlandi en norðar í landinu. Geri ráð fyrir að þau liggi ekki fjarri sjávarmáli syðst. Spurningin er hvernig í ósköpunum ís sem er að meðaltali -38°c fari að því að bráðna allt í einu. Fyrir mér er þetta þvættingur. Sömu menn og tala sífellt um bráðnun jökulsins kaupa örugglega eitthvað og setja í frystinn heima hjá sér sem hefur einugis -18°c frost og þar þiðnar ekkert.????????
Hvaða ahrif hefði það á jafnvægið á jöklinum ef úrkoma ykist að meðaltali um 10% frá því sem nú er, hef ekki séð neitt um það, getur þú sagt eitthvað um það? Þó svo að nokkur hundruð Km3 renni í sjó fram frá jöklinum á ári hverju skiptir það bara engu máli í grænlesnku samhengi, þar sem jökullinn er um 3millj Km3. Við sem nú lifum eigum að taka ábyrgð á einhverju sem taka mun þúsundir ára að eiga sér stað, það finnst mér algjörlega óboðlegt.

Vil bæta því við að íslensku jöklarnir er þýðjöklar 0°c og eru samt staðreynd.

Guðmundur Geir (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 20:45

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þó ég gefi hér færi á efasemdum þá er ekki þar með sagt allt verði örugglega í himnalagi þrátt fyrir allt. Það er spurning hversu 5 gráðu hlýnun jarðar er líkleg en ef svo færi þá væri það mikil katastrófa fyrir lífríkið og velferð mannkyns enda er núverandi vistkerfi jarðar ekki gert fyrir slíkt.

Grænland er vissulega eins og skál barmafull af ís en skálin er samt hriplek á allnokkrum stöðum. Jöklarnir bráðna ekki á hábungunum heldur við jaðrana þar sem þeir skríða fram og við nokkurra gráðu hlýnun lækkar jökullinn og þar með á hann erfiðara með að viðhalda sér hæðarinnar vegna. Grænlandsjökull er þó ekkert að fara að bráðna á næstunni og þar hjálpar vissulega til mikil úrkoma á suðurhlutanum. Íslensku jöklarnir eru þó mun viðkvæmari og eiga ekki mikinn séns til framtíðar nema það fari að kólna á ný, sem gæti reyndar alveg gerst tímabundið og kannski þegar byrjað. Íslensku jöklarnir skipta þó svo sem mjög litlu máli á heimsvísu, nema hvað einhverjir kynnu að sakna þeirra.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.12.2015 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband