Gengið um Tún og Holt

Nú ætla ég að bjóða upp á nokkurs konar myndaspjall, sem reyndar er ein tegund af mínum bloggfærslum, þar sem gengið er um götur borgarinnar í máli og myndum. Sífellt er verið að byggja og þétta, ekki síst á gömlu athafnasvæðunum sem lágu upp frá norðurströndinni og upp að Skipholtinu. Um það svæði liggur göngutúrinn að þessu sinni.

Sæbraut

Hefjum ferðina við Sæbraut þar sem stórhýsi Höfðatorgsins gnæfa yfir lágreistari húsum gamla tímans. Væntanlega verður þess ekki langt að bíða uns gömlu Vegagerðarhúsin og smurstöðin víki fyrir einhverju fíneríinu.

- - - -

Stórholt

Hér liggur leiðin upp Stórholtið þar sem ný götumynd blasir við. Til hægri er gamla DV-húsið sem nú er orðið að Listaháskóla. Hampiðjuhúsið sem var þarna í einhver ár er löngu horfið og búið að byggja þetta mikla íbúðarhús vinstra megin. Hæðum hússins fjölgar eftir því sem neðar er farið í brekkuna. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við útlitið en mér finnst þó frekar skrítið að hafa íbúðir með svölum og öllu alveg niður að gangstétt í stað t.d. verslunarrýmis á neðstu hæðum eins og venjan er með svona hús við miðbæi.

- - - -

Brautarholt

Brautarholtinu mætti gera skil alveg sérstaklega en þessar byggingar hafa mátt muna fífill sinn fegurri. Húsið nær er gamla Þórscafé og síðar Baðhús. Þar dansar enginn lengur og enginn frúin fer í bað. Húsið þarna fjær er þó eiginlega öllu hrörlegra en það hefur hýst einhvern málmiðnað og vinnustofur listamanna. Þetta er þó ekki dæmigert fyrir alla götumyndina. Meðal annars er ágætis hvítt hús þarna í götunni þar sem ég hef unnið lengi.

- - - -

Nóatún

Þetta hús á horni Nóatúns og Laugavegar hefur verið í smíðum svo lengi sem ég man eftir mér. Allavega standa járnabindingar enn upp úr húsinu og hafa gert frá upphafi.

- - - -

Borgartún

Uppbygging í öllu sínu veldi á horni Nóatúns og Borgartúns. Maður veltir fyrir sér hvort þessi húsaskipan sé eins og menn sáu fyrir sér í upphafi. Eða sáu menn annars eitthvað fyrir sér í upphafi? Sundið á milli þessara tveggja húsa getur varla talist til manneskjulegs umhverfis og til að bæta fyrir skort á útsýni úr íbúðarhúsinu sem er í byggingu er sett ofan á það annað hús. Kom einhver arkitekt nálægt þessu eða var þetta ákveðið á staðnum?

- - - -

Borgatún gata

Borgatúnið sjálft lýtur bara ágætlega út þótt einhverjir hafi kvartað yfir skrítnum gangstéttarhellum og rauðum ljósastaurum. Mér finnst þetta bara nokkuð líflegt og gott og hjólreiðastígarnir virka greinilega.

- - - -

Rútuhótel

Þetta farartæki varð á vegi mínum í portinu hjá Guðmundi Jónasyni. Rúllandi hótel virðist þetta vera kallað og býður upp á hótelgistingu á þremur hæðum í afturhluta vagnsins. Í ljósi umræðunnar veltir maður fyrir sér hvar salernisaðstaðan sé niður komin.

- - - -

Höfði

Best að enda túrinn hjá Höfða en þar er greinilega verið að koma fyrir sjálfum Einari Ben sem bjó þarna einhvern tíma. Einar er auðvitað ein af styttum bæjarins og var áður á Klambratúni. Eftir er að setja upp víravirkið fyrir aftan hann sem minnir á hörpustrengi. Reyndar minntu ókomnu strengirnir mig á rimla í gamladaga og því fannst mér hann alltaf vera í fangelsi. Ef Einar Ben væri uppi í dag væri hann ekki ólíklega í fangelsi eins og svo margir aðrir sem ætluðu sér mikið upp úr síðustu aldamótum. Annars er viðkvæmt mál að vera að færa styttur og það svo sem vantaði ekkert sérstaklega styttu þarna að mínu mati. Þetta hús er annars miklu heimsfrægara í dag fyrir að hafa komið í veg fyrir atómstríð og það er ekki lítið afrek út af fyrir sig.

 


Frá Sólinni í Reykjavík til Plútó á Suðurlandi

Stærðir og fjarlægðir í himingeiminum er með þeim hætti að gott getur verið að setja þær í eitthvað jarðneskt samhengi sem við þekkjum, en það er einmitt það sem ég ætla að reyna hér. Í fréttum undanfarið varðandi dvergstjörnuna og fyrrum reikistjörnuna Plútó, hefur komið fram að hlutfallsleg stærð hennar gagnvart Jörðu sé álíka og golfkúla gagnvart fótbolta. Út frá þeim upplýsingum datt mér í hug að taka samanburðinn lengra og reikna út restina af sólkerfinu ásamt fjarlægðum í sama skala.

Sól, Jörð og Plútó

Ef Jörðin er fótbolti og Plútó golfkúla þá reiknast mér til að þvermál sólarinnar sé um 24 metrar og mætti því líkja henni við myndarlegan loftbelg, kannski af stærri gerðinni. Sé þessi guli loftbelgur settur niður á miðjan Austurvöll, er í framhaldinu hægt að reikna hvar reikistjörnurnar eru niðurkomnar í sama hlutfallslega skala og raða þeim upp austur eftir borginni og lengra austur í sveitir þar til við komum að litlu golfkúlunni einhverstaðar lengst á miðju Suðurlandi, eins og ég geri nánar grein fyrir neðan myndar.

Sólkerfi Suðurland

Guli Sólar-loftbelgurinn myndi sóma sér vel beint fyrir ofan Jón Sigurðsson á miðjum Austurvelli. Þaðan höldum við á vit reikistjarnanna og gefum okkur að þær raði sér í beinni línu frá sólinni. Byrjum á að ganga upp Skólavörðustíginn og upp á Skólavörðuholtið. Þar rétt handan Hallgrímskirkju, hittum við fyrst fyrir Merkúr, á stærð við appelsínu í brennandi sólarhitanum. Áfram er haldið í sömu átt þar til komið er að Venusi á miðju Klambratúni. Hann er ögn smærri en Jörðin sem einmitt er að finna í fótboltastærð við Kringlumýrarbraut. Við höldum áfram og komum að Mars sem er eins og brennó-bolti að stærð, nálægt Hagkaupum í Skeifunni.

Nú fara fjarlægðir að aukast og við erum komin út fyrir borgina nálægt bænum Gunnarshólma eða Silungapolli, þegar við komum að Júpíter sem stærðarinnar bolta, um 2,4 metrar í þvermál. Satúrnus með sína fögru hringi er síðan skammt frá Litlu kaffistofunni, heldur minni en Júpíter eða um 2 metrar á stærð. Enn aukast fjarlægðir er við förum að nálgast ystu reikistjörnurnar. Úranus er þarna stuttu áður en komið er að Ölfusárbrú tæpir 90 cm að breidd og loks Neptúnus, litlu minni, stutt frá Hellu. Þá er bara eftir að finna Plútó-litla í golfkúlustærð sem getur verið dálítil snúið því fjarlægðin frá sólu er breytileg vegna sporöskjulaga brautargöngu. Hann getur verið rétt innan við sporbaug Neptúnusar en þegar Plútó er fjærst sólu, gætum við þurft að leita hans langleiðina að Skógarfossi. Meðalfjarlægðin í þessum hlutfallsskala er hinsvegar um 102 kílómetrar og getum því sagt að að meðaltali gætum við fundið litlu Plútó-golfkúluna svona rétt við afleggjarann að Austur-Landeyjum. Við erum þarna komin nokkuð langt frá loftbelgnum niðrí Reykjavík en þó ekki nema eitt örlítið hænuskref í gjörvöllum víðáttum alheimsins enda dugar þá litla Íslandið okkar skammt sem viðmiðun.

- - -

Útreikningar er gerðir út frá tölulegum heimildum af Stjörnufræðivefnum og birti ég þetta með þeim fyrirvara að reiknikúnstir hafi ekki brugðist mér.

 


Hvernig gengur að bræða hafísinn?

Nú er bræðsluvertíð sumarsins í fullum gangi á Norðurslóðum. En hvernig gengur? Verður þetta sögulegt sumar? Mun ísbreiðan gjalda enn eitt afhroðið eða er ísbreiðan kannski eitthvað að jafna sig þriðja sumarið í röð eftir metbræðsluárið mikla 2012? Svörin munu liggja endanlega fyrir í september í lok vertíðar þegar hinn árlegi viðsnúningur hefst með lækkandi sól og kaldari dögum.

Ef staðan nú er metin er hægt að fá mismunandi niðurstöður eftir því hvernig á málin er litið. Þegar upp verður staðið í lok sumars er venjulega litið til útbreiðslu hafíssins í ferkílómetrum. Línuritið hér að neðan sýnir stöðuna þann 10. júlí miðað við fjögur síðustu ár.

Hafíslinurit júlí 2015

Eins og sjá má þá hefur hafísútbreiðslan 2015 nú heldur dregist afturúr árunum sem eru til viðmiðunar. Litlu skiptir að útbreiðsluhámarkið í vetur hafi verið með minnsta móti í vetur enda er lítið samband þar á milli. Það er þó ekki nema á síðustu vikum sem árið 2015 tapar forystunni. Samkvæmt þessu þarf bræðslan heilmikið að taka sig á ef halda á í við keppinautana og hver veit nema hún sé akkúrat að gera það. En þetta á bara við um útbreiðslu hafíssins sem segir ekki alla söguna.

Hér að neðan hef ég tekið saman fjögur kort til samanburðar sem sýna legu og þéttleika hafíssins um svipað leyti árin 2012-2015. Þar kemur ýmislegt í ljós sem skýra málin betur.

Isþykkt juli 2012-2015

Árið 2012 endaði sem metár í lítilli útbreiðslu þegar upp var staðið þá í sumarlok. 2013 og 2014 reyndust hinsvegar lakari bræðslusumur, talað um þau sem bataár og þar með ljóst að minnkandi líkur væru á að ísbreiðan yrði að engu á allra næstu árum eins og óttast var eftir óðabræðslusumarið 2012. Það má sjá á kortinu fyrir 2015 að útbreiðslan er vissulega mikil nú um stundir. Mestu munar um að lítið hefur hreinsast norður af Síberíu, allavega vantar þar stóra gatið sem sjá má á hinum árunum. Einnig er ennþá dálítið eftir af hafís í Hudsonflóa og vestur af Grænlandi eftir veturinn kalda þar. Segja má að bræðsluvertíðin 2015 eigi þau svæði inni því vissulega mun ísinn þar bráðna áður en sumarið er úti. En svo er þarna allmyndarlegt gisið svæði á Kyrrahafshlið ísbreiðunnar sem mikið er farið að láta á sjá ef marka má gulgræna litinn. Þar er ísinn líklegur til að eyðast mjög á næstu dögum með tilheyrandi samdrætti í útbreiðslu og mega þá árin 2013 og 2014 aldeilis fara að vara sig.

En svo er það auðvitað líka heildarrúmál ísbreiðunnar sem telur, en þá er þykkt íssins talin með. Hér að neðan eru tvö kort frá hafísdeild Dönsku veðurstofunnar sem sýnir þykkt hafísbreiðunnar árin 2014 og 2015 samkvæmt tölvulíkönum. Ef eitthvað er að marka þau er varla um nokkurn áframhaldandi bata að ræða þetta árið, nema síður sé því mjög lítið er eftir af þykkasta ísnum sem einkenndur er þarna með rauðum lit norður af heimskautaeyjum Kanada og Alaska þar sem elsti ísinn hafði safnast fyrir. 

Isþykkt juli 2012 - 2015

Vorið 2015 byrjaði reyndar á því að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur þegar óvenjuhlýir vindar blésu í norður frá Alaska og tóku að herja á þykka ísinn á þeim slóðum og brutu hann í klessu. Þynnsti ísinn norður af Síberíu fékk hins vegar meira að vera í friði framan af vori þar til nú upp á síðkastið og er því von á talsvert minnkandi útbreiðslu þar.

Norðurpóllin sjálfur mun þó væntanlega sleppa við allsherjar bráðnun eins og hingað til en líklega mun ísinn eitthvað brotna þarna upp áður sumri líkur. Það er þó aldrei að vita. Sólin hefur skinið glatt þarna síðustu daga sökum mikillar hæðar yfir Norður-Íshafinu sem stækkar bræðslupollana. Vegna eðlilegs ísreks hefur athugunarstöðin reyndar borist eilítið suður og er nú stödd 86° norður með stefnu á Austur-Grænland. Spor eru í snjónum og áhöld uppi hvort um sé að ræða jólasveininn eða forvitinn hvítan bangsa.

Nordurpoll vefmyndavel

- - - -
Heimildir og uppruni mynda:
http://nsidc.org/arcticseaicenews/
https://sites.google.com/site/arcticseaicegraphs/concentration-maps/sic0713
http://ocean.dmi.dk/arctic/icethickness/thk.uk.php
http://psc.apl.washington.edu/northpole/

 


Flóðbylgjan mikla í Atlantshafinu 1014

Þær eru ýmsar hamfarirnar sem herjað geta á mannkyn. Þar á meðal eru hamfaraflóðbylgjur á borð við þær sem áttu sér á Indlandshafi og við Japan í kjölfar tveggja risajarðskjálfta með nokkurra ára millibili. Hér í Atlantshafinu eru jarðfræðilegar aðstæður aðrar þar sem úthafsflekar að reka hver frá öðrum en það gerist með mun hófsamari hætti heldur en t.d. í Kyrrahafinu þar sem úthafslekar þrengja sér með látum undir meginlandafleka.

Ekki er þar með sagt að íbúar við strendur Atlantshafsins þurfi ekkert að óttast um aldur og ævi. Það hefur til dæmis verið nefnt að risaflóðbylgja geti orsakast vegna eldfjalls á Kanaríeyjum sem getur hrunið í sjó fram í ótilgreindri framtíð. Svo eru það sendingar af himnum ofan. Það má vel ímynda sér þær skelfilegu afleiðingar fyrir Vesturlönd ef sæmilegur loftsteinn félli í Norður-Atlantshafið með tilheyrandi flóðbylgju sem ná myndi til stranda Norður-Ameríku og vestur-Evrópu sem og auðvitað Íslands.

Dropi í hafið
Svo vill reyndar til að eitthvað slíkt mun að öllum líkindum hafa gerst fyrir réttum 1000 árum en rannsóknir landfræðingsins Dallas Abbott hjá Columbíuháskóla benda sterklega til þess að árið 1014 hafi loftsteinn, eða halastjörnubrot, fallið á mitt Atlantshafið með víðtækum afleiðingum. Ummerki í formi framandi brota og korna hafa fundist í New York-fylki í Bandaríkjunum á 3800 km löngu svæði en einnig á Antíleyjum í Karíbahafínu. Ýmislegt er óljóst um afleiðingar meðal frumbyggja Ameríku en tilvísanir í hamfaraflóð eru taldar felast í ýmsum steinristum frá 11. öld í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku. Svokallaður "dauði hinnar fjórðu sólar" hjá Aztekum er einnig meitlaður í steindagatal þeirra en þau tímamót passa ágætlega við þetta ártal.

Afleiðingar fljóðbylgjunnar við strendur Evrópu hafa sjálfsagt verið talsverðar en allur gangur getur verið á því hversu vel atburðirnir út við strendurnar hafa ratað í annála. Þó eru til heimildir, t.d. ein engilsaxnesk er segir frá stórhamförum við suðvesturströnd Englands og Írlands. Upprunalegur texti kemur hér ásamt enskri þýðingu.

Anno Domini 1014 – On þissum geare on Sancte Michaeles mæsseæften com þæt mycle sæflod gynd wide þysne eard arn swa feor up swa næfre ær ne dyde adrencte feala tuna mancy tonnes un arimedlic ov getel.
1014 AD – This year, on the eve of St. Michael’s day (September 28), came the great sea-flood, which spread wide over this land, and ran so far up as it never did before, overwhelming many towns, and an innumerable multitude of people.

Í The History of the English Kings segir einnig: “A tidal wave, of the sort which the Greeks call euripus, grew to an astonishing size such as the memory of man cannot parallel, so as to submerge villages many miles inland and overwhelm and drown their inhabitants.” Einnig munu vera til heimildir um mikla mannskaða á Niðurlöndum, þ.e. Hollandi og Belgíu sem raktir eru til sjávarflóðs árið 1014.

Ýmislegt má finna á netinu um þessa atburði en mest af því sem ég hef skrifað hér kemur héðan: People of One Fire CATASTROPHIC NATUREL DISASTER STRUCK THE AMERICAS AROUND 1000 YEARS AGO.

Ummerki á landi eftir flóðbylgju, austan hafs og vestan, eru til staðar þótt ekki séu menn endilega vissir um hvaða atburðum megi kenna um. Vísa hér í eina rannsókn á ummerkjum í Norður-Wales en þar eru umræddir atburðir 1014 meðal þeirra sem liggja undir grun. Evidence for historic coastal high energy wave impact (tsunami?) in North Wales, Inited Kingdom.
Þar segir meðal annars: "Baillie (2006, 2007) cites ice core data that show an anomalous peak in ammonium at AD 1014 that he considers indicates a comet impact. This is supported in that the only other ammonium peak of similar size within the last 2000 years occurs in 1908 coincident with the Tunguska bollide impact over Siberia."

Þarna er vísað í atburðina í Síberíu 1908 þegar loftsteinn eða halastjörnubrot féll á strjálbýlt svæði en olli ekki miklum skaða utan þess. Allt annað mál er ef árekstur verður yfir opnu hafi vegna flóðbylgjunnar sem þá myndast. Austurströnd Bandaríkjanna er sérstaklega viðkvæm fyrir slíku vegna flatlendis og fjölmennis og því mögulegt að milljónir mannslífa gætu verið í hættu auk annars tjóns. Spurning hvort stórveldið stæði undir nafni eftir slíkt.

Hvað Ísland varðar þá erum við ekki í síðri hættu en aðrir. Ég fann að vísu ekkert við snögga leit í annálum en Sigurður Þór, bloggfélagi vor, tók saman á sínum tíma það sem íslenskir annálar segja um tíðarfar og allskonar náttúruóáran. Ekkert er þar minnst á árið 1014. Hinsvegar fann ég að ártalið 1014 kemur fyrir í Heiðarvíga sögu sem talin er vera ein elsta Íslendingasagan og segir frá afkomendum Egils Skallagrímssonar, vinum þeirra og óvinum þar sem hefndarvíg eru framin á víxl. Hárekssynir koma þar við sögu í 13. kafla:

Hárekssynir þykjast nú nokkru hafa á veg komið um hefndirnar, fara sem fljótast suður með Noreg og allt til Danmerkur. Og að áliðnu sumri brjóta þeir skip sitt í spón við Jótlandssíðu so enginn komst af.

AðalríkurHvort þessi skipsskaði Hárekssona að áliðnu sumri við Jótlandssíðu tengist halastjörnuhrapi eða atburðunum við Bretlandseyjar 28. september sama ár, vitum við ekki en það má alveg íhuga möguleikan.

Árekstur halastjörnubrota eða loftsteina er vissulega einn af mörgum þeim þáttum sem geta orðið okkur að fjörtjóni. Sendingar af himnum ofan eru af öllum stærðum og gerðum. Flestar þeirra brenna upp til agna á meðan þær stærstu geta valdið fjöldaútdauða og kaflaskilum í jarðsögunni. Við þurfum þó varla að hafa áhyggjur af slíku svona dags daglega þótt sjálfur Aðalríkur allsgáði leggi iðulega ríka áherslu á málið í sínum málflutningi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband