Hinn fullkomni veðurdagur

Nú að kvöldi dags hins 8. maí, hef ég lokið veðurskráningu dagsins eins og ég geri venjulega í dagslok og gefið veðrinu einkunn. Að þessu sinni sé ég enga ástæðu til annars en að gefa veðri dagsins hér í Reykjavík hæstu einkunn eða 8 stig. Sú einkunn fæst aðeins ef allir veðurþættirnir fjórir eru hagstæðir, þ.e. sólríkt, þurrt, hægur vindur og hlýtt miðað við árstíma. Það gerist annars frekar sjaldan að dagur fái einkunnina 8 a.m.k. hér í Reykjavík, þótt veðrið geti samt verið mjög gott oft á tíðum. Á veturna er það t.d. mjög sjaldgæft að hlýindi fylgja svona góðviðrisdögum og á sumrin er það oft hafgolan sem dregur einkunnina niður á sólríkum og hlýjum dögum. Allt árið í fyrra fengu þó alls 6 dagar einkunnina 8, síðast gerðast það þann 11. ágúst á þriggja ára afmælisdegi hitametsins í Reykjavík sem er 24,8 stig. Sá dagur, 11. ágúst 2004, var hinsvegar svo eindæma góður veðurfarslega að hann sprengdi einkunnaskalann í fyrsta og eina sinn hjá mér og fékk heil 9 stig. En það er einungis mögulegt ef hitinn er yfir 20°C yfir daginn, samkvæmt mínum ströngu skráningarreglum.

Þar hafið þið það og þá er bara að vona að ekki þurfi að líða langur tími uns næsti 8 stiga dagur líti dagsins ljós hér í borginni eða jafnvel 9.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bíð eftir næsta 8 stiga degi. Það var yndislegt að ganga úti í dag og finna ilminn af vorinu... bruminu á trjánum og sjávarilminn.

11. ágúst er greinilega sérstakur og ég tek undir það. Þá fæddist einmitt einkasonur minn fyrir bráðum 18 árum... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.5.2008 kl. 00:03

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú ert þá væntanlega að tala um 11. ágúst 1990 sem var sólríkur 7 stiga dagur. Það var svo einmitt dagurinn sem ég gekk á Heklu eftir því sem ég hef skráð.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.5.2008 kl. 00:22

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, hvert þó í logandi... ég kleip af drengnum 10 ár! Hann er fæddur 1980. Hvernig var veðrið þá? Ég fór víst lítið út þann daginn og man ekkert eftir veðrinu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.5.2008 kl. 00:23

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hvað munar um 10 ár til og frá? Jú reyndar því að árið 1980 var ég ekki farinn að skrá neitt veður, þannig að þetta þarf að finna út eftir öðrum leiðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.5.2008 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband