Brennisteinsdíoxíðský yfir norðurhveli

kasatochi eyjaDagana 7.-8. ágúst varð mikið sprengigos á Kasatochi-eyju sem er í Aleutian eyjaklasanum sem liggur suðvestur af Alaska. Eldgos þetta vakti  enga heimsathygli á sínum tíma enda varð ekkert tjón af þess völdum þar sem eyjan er óbyggð. Það sem hinsvegar er merkilegt við þetta gos er að þarna þeyttust meira en milljón tonn af brennisteinsdíoxíði (Sulfur/SO2) út í andrúmsloftið og dreifðist í framhaldi af því í heiðhvolfinu um langa vegu uns það hafði hringað sig á nokkrum vikum um allt norðurhvelið. Það er þekkt að svona mikill skammtur af SO2 í heiðhvolfinu getur haft áhrif til kælingar á stórum svæðum og jafnvel um alla jörð eins og átti sér greinilega stað þegar eldfjallið Pinatubo gaus á Filippseyjum árið 1991, sem var að vísu mun stærra gos en talað er um hér.

Ef svona mikið magn af brennisteinsdíoxíði nær upp í heiðhvolfið (fyrir ofan veðrahvolfið) getur það haft áhrif til kælingar á yfirborði jarðar þar sem það dregur úr sólgeislun en sú kæling getur varað mánuðum saman og allt að nokkrum árum í öflugustu tilfellunum á meðan skýið er að þynnast út. Það er kannski ómögulegt að segja hvort og hversu mikil kælingin hefur orðið að völdum þessa sprengigoss en þessi himnasending af brennisteinsdíoxíði er sú mesta sem hefur orðið síðan í gosinu á Pinatubo. Þótt það hafi verið kalt á Íslandi núna október eru ástæður þess væntanlega að mestu það norðlæga loft sem yfir okkur hefur verið, en kannski hjálpar þetta eitthvað til.

SO2–sólarlagÖnnur afleiðing af þessu sprengigosi er af öðrum toga, en á ýmsum stöðum hafa sumir orðið varir við óvenjulegan kvöldroða sem er meira út í fjólublátt en gengur og gerist en ástæðan er þetta óvenju mikla magn brennisteinsdíoxíðs. Af þessu hafa birst myndir sem sumar hafa ratað á vefinn http://spaceweather.com/. Myndin hér til hliðar er ein þeirra, en hún var tekin á Bretlandseyjum þann 26. október. Þetta virkar afar fallegt og minnir jafnvel á fjólublátt ljós við barinn. Ef marka má myndina eru áhrif af völdum gossins enn í gangi hér á norðurhveli. En svona í lokin kemur hér smá bíómynd sem sýnir hvernig brennisteinsdíoxíð-dreifingin átti sér á norðurhvelinu í ágústmánuði eftir að gosið hófst þann 7. þess mánaðar. Myndin er upprunin frá Háskólanum í Bremen, Institute of Environmental Physics (IUP).

gome2_so2_kasatochi_large


Meðal heimilda: earthobservatory.nasa.gov / wattsupwiththat.com

Að ógleymdum: Jón Fríman blogg, sem skrifaði um þetta 18. ágúst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er gott og blessað. En þú gleymir koldíoxíðinu. Hvað mikið kom upp af því? Koldíoxíð hefur, eins og menn ættu að vita, streymt úr iðrum jarðar í milljarða ára, síðan hún var glóandi eldhnöttur og gerir enn, ekki síst í eldgosum, en jarðhitasvæði veita líka gífurlegu magni út í andrúmsloftið allan sólarhringinn, alla daga ársins. Af hverju er aldrei talað um það? Hvar eru "umhverfisverndarsinnar"?

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.11.2008 kl. 12:52

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það hefur örugglega komið upp talsvert magn af gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði (CO2), í þessu gosi enda hafa eldgos, eins og þú segir Vilhjálmur, verið stór uppspretta þess í gegnum tíðina. Ég hef þó ekkert séð fjallað um það sérstaklega í sambandi við þetta gos. Magn CO2 í lofti hefur samt óumdeilanlega aukist mjög undanfarin 100 ár enda hafa mennirnir verið duglegir að spúa því með vaxandi mæli út í andrúmsloftið til viðbótar því sem gerist í svona náttúrulegum atburðum. En það er annað mál, þessi færsla fjallar um brennisteinsdíoxíð.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.11.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband