Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Nú er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá árinu 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli flest ár en hurfu þó með öllu sumarið 2019 og svo einnig í fyrra, sumarið 2023. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um.

Myndin í ár var tekin á köldum og björtum norðanáttardegi 1. apríl sem bar upp á annan í páskum. Staðan á snjóalögum að þessu sinni er með nokkuð eðlilegu móti sem þýðir að sumarið þarf að vera frekar hlýtt og sólríkt til að sjórinn hverfi, öfugt við öllu óvinsælli þungbúna, kalda og þurra daga sem hægja á snjóbráðnun. Það þurfti minna til í fyrra þegar skaflar voru mun minni eftir þurran vetur en líka kaldan, sem sýnir að það er ekki bara kuldar sem ráða snjóalögum – hér sunnan heiða allavega.

Fyrst og fremst er það langi skaflinn í Gunnlaugsskarði sem er þrálátur og lifir af sumrin, en svo er skaflinn í skálinni vestan við Kerhólakamb (vinstra megin á myndinni) sem er alltaf furðu þrautseigur miðað við stærð.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu þriggja ára og einnig annað hvert ár aftur til ársins 2006. Alla seríuna má síðan sjá í Esju-myndalbúmi hér til hliðar eða á slóðinni: https://emilhannes.blog.is/album/esjusnjor_i_april/

ATH. Sé bloggfærslan skoðuð í síma er betra að snúa honum á hlið svo myndirnar birtist heilar.

Esja 1. april 2024

Esja 6. april 2023

Esja 6. apríl 2022

Esja 9. apríl 2020

Esja 6. apríl 2018

Esja 4. apríl 2016

Esja 3. apríl 2014

Esja 2. apríl 2012

Esja 1. april 2010

Esja 6. apríl 2008


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband