Reykjavíkurhiti 2022 í súluriti

Hitafar í Reykjavík var nokkuð upp og ofan á árinu 2022 sem er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt en helst eru það síðustu tveir mánuðirnir sem skera sig meira úr en aðrir, eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti sem ég hef föndrað saman og sýnir sýnir hitafar mánaðanna. Bláu súlurnar standa fyrir meðalhita áranna 1991-2020, sem nú telst vera opinbert viðmiðunartímabil, en rauðleitu súlurnar standa fyrir hið nýliðna ár.

Meðalhiti 2022 súlur

Þarna má sjá að árið hófst á sæmilega hlýjum janúar en síðan tók við kaldur og illviðrasamur febrúar sem auk þess einkenndist af erfiðum snjóþyngslum í borginni. Svo kom mars með ágætis hlýindum en þeim fylgdi reyndar metúrkoma fyrir marsmánuð í borginni. Áfram var fremur hlýtt út vorið en um miðjan júní kárnaði gamanið því sumarhitar náðu sér varla á strik fyrr en komið var fram í september, sem endaði frekar hlýr. Októberhitinn var alveg í meðallagi, en þá tók við afskaplega hlýr og þægilegur nóvember sem meira að segja var ögn hlýrri en október. Góðviðri hélt áfram í desember en um þann 10. hófst þessi óvenjulegi kuldakafli sem hélst út árið samhliða háum loftþrýstingi og sólbjartri tíð sem sló út fyrri desembersólarmet í þessum annars dimma mánuði. Það er kannski ekki búið að gefa það út opinberlega en svo virðist sem þetta hafi verið kaldasti desember í Reykjavík síðan 1916, sem var jafn kaldur með meðalhita upp á -3,9 stig. Snjórinn lét hins vegar ekki sjá sig í borginni þetta haustið fyrr en föstudagskvöldið 17. desember og hélst með viðbótum út árið.

Þessi kaldi desember er merkilegur því hann sýnir að enn getur orðið mjög kalt hér á landi þrátt fyrir hlýrra veðurfar á þessari öld. Miðað við aðra almanaksmánuði þá má finna sambærilega eða ögn kaldari mánuði þegar kaldast var á seinni hluta síðustu aldar, eins og janúar og febrúar 1979 og svo janúar 1984. Desember 1973 var fram að þessu kaldasti desember á seinni áratugum en meðalhitinn var þá (-3,7 °C).

Svo er það árshitinn. Hann var, þrátt fyrir þennan kalda desember, í meðallagi miðað við viðmiðunartímabilið 1991-2020 eða 5,1 stig, eftir því sem ég fæ út. Þetta er vissulega eitthvað kaldara miðað við hitann það sem af er öldinni, en sögulega séð bara nokkuð gott og á sömu slóðum og þegar hlýjast var á síðustu öld - sem elstu borgarar ættu að muna ágætlega.

- - -

Höfundur þessarar bloggfærslu er áhugamaður um veðurfar og er sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur (hvað sem það þýðir).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband