Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Smáræði um forsetamálin

Það má slá því föstu að eftir nokkrar vikur verðum við komin með nýjan forseta að Bessastöðum. Hver það verður mun koma í ljós en vissulega verður einn frambjóðendanna að teljast sigurstranglegri en hinir. Framboðsmálin hafa verið nokkuð sérstök, allavega miðað við það sem áður tíðkaðist. Talað hefur verið um offramboð af frambjóðendum enda virðist ekkert tiltökumál fyrir suma að bjóða sig fram til forseta, jafnvel þótt fáir eða engir hafi skorað á þá. Auðvitað má fólk bjóða sig fram ef því sýnist en fæstir þeirra virðast þó gera sér grein fyrir því að vænlegustu forsetaefnin eru kölluð fram af almenningi en ekki frambjóðendunum sjálfum. „Fólkið velur forsetann“ eins og Ólafur Ragnar sagði að Ásgeir Ásgeirsson hafi sagt, en þá er auðvitað ekki verið að tala um gjörvallan almenning, heldur bara nógu stóran hluta hans.

Það var nokkuð ljóst í vetur að þrátt fyrir fjölda frambjóðenda þá vantaði alltaf raunverulegan valkost fyrir þennan almenning. Stungið var upp á ýmsum og alltaf einhverjir að stinga upp á sjálfum sér. Það vantaði samt eitthvað. „Ég get þá svo sem verið eitt tímabil í viðbót úr því að enginn almennilegur kemur fram“ gæti Ólafur hafa hugsað þegar hann lét til leiðast að vera áfram, þó hann hafi örugglega hugsað eitthvað annað líka. Merkilegt annars með hann Ólaf hvernig fylgjendahópur hans breyttist frá því hann var kosinn fyrst. Við þekkjum nokkuð vel hvernig það gerðist, en alltaf hefur hann verið umdeildur. Mig rámar í að einhverjir hafi talað um að flytja úr landi á sínum tíma ef svo færi að hann yrði forseti. Fæstir þeirra hafa látið verða af því og eru sjálfsagt hinir ánægðustu með forsetatíð hans þegar upp er staðið. Margir aðrir eru á allt öðru máli.

Svo maður nefni loksins núverandi frambjóðendur þá hefur maður heyrt álíka tal um búferlaflutninga ef svo færi að annaðhvort Andri Snær eða Davíð setjast á Bessastaði. Það er þó auðvitað sitthvort fólkið sem talar svona en báðir þessir frambjóðendur eiga sér einlæga stuðningsmenn og líka einlæga andstæðinga. Þeir eru andstæðir pólar og eiga nokkuð í land með að njóta stuðning fjöldans. Aldrei þó að vita hvernig mál þróast. Af þeim tveimur á Davíð sennilega meiri möguleika. Hann er sjóaður í pólitíkinni og vill sjálfsagt ljúka störfum fyrir hið opinbera með öðrum hætti en að hafa verið hrakinn úr Seðlabankanum af einhverjum óþekkum krökkum sem fljótlega gætu einmitt tekið völdin til að umbreyta öllu, eins og að skipta um stjórnarskrá, skipta um gjaldmiðil, svo ekki sé nú talað um kippa fótunum undan kvótakóngum. Nei, þá munu menn komast að því hvar Davíð keypti ölið. Reyndar verð ég að segja að þegar kemur að stjórnarskránni þá er ég nú dálítið á íhaldslínunni sjálfur. Að skipta um stjórnarskrá finnst mér ekki óskylt því að skipta um þjóðfána og þjóðsöng. Þjóðir gera ekki svoleiðis af gamni sínu en kosturinn við stjórnarskrár er að þó sá að alltaf má breyta þeim og bæta, séu menn sammála um það.

En svo er það Guðni Th.  – maðurinn sem kom, sá … en hefur ekki alveg sigrað enn. Hann er eiginlega þessi góði gæi sem gat eiginlega ekki annað en boðið sig fram eftir áskoranir hins stóra almennings, eða allavega nógu stórs hluta hans, eftir góða leiksigra í Sjónvörpum landsmanna. Kannski var það gott plott sem virkaði, en hafa verður í huga að ýmsir aðrir hafa birst á skjánum án þess að slá í gegn sem efni í forseta. Það þarf enginn að efast um að Guðni veit svona nokkurnveginn í hverju starfið er fólgið og væntanlega eru fáir sem hóta sjálfskipaðri útlegð fari svo að hann setjist á forsetastólinn. En annars mun þetta fara eins og þetta fer og auðvitað eru allir frambjóðendurnir hver öðrum hæfari á einhvern hátt.

 


Ákvörðun forsetans gæti styrkt stöðu Andra Snæs

Sú ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram enn á ný er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt og breytir auðvitað landslaginu framboðsmálunum. Svo maður bollaleggi aðeins um þetta þá var staðan sú, áður en forsetinn tilkynnti ákvörðun sína, að Andri Snær Magnason var eini frambjóðandinn sem naut fylgis að einhverju ráði. Hann er að vísu umdeildur, reyndar eins og Ólafur hefur alltaf verið sjálfur. En Andri Snær var þrátt fyrir allt ekki líklegur til að vinna kosningarnar. Hann var ekki á leiðinni á Bessastaði, vegna þess að annar vænlegur frambjóðandi, Guðni Th, var í startholunum. Það annálaða prúðmenni lá ekki bara ylvolgt undir feldi, heldur var orðinn alveg sjóðheitur og bara tímaspursmál hvenær hann tilkynnti um sitt framboð. Já, það átti bara að gerast í vikunni. Guðni hefði unnið kosningarnar. Hann hefði fengið megnið af fylgi Ólafs Ragnars og gott betur, því Andri Snær höfðar ekki til allra og alls ekki heldur til allra þeirra sem hugnast ekki að kjósa herra Ólaf.

En úr því að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram enn á ný, þvert á fyrri yfirlýsingar, gerist það að í stað þess að baráttan standi á milli Andra Snæs og Guðna Th, þá stendur baráttan allt í einu á milli Andra Snæs og Ólafs Ragnars. Sú staða er að mínu mati betri fyrir Andra Snæ því hann á meiri möguleika í þeim slag heldur en í slagnum gegn Guðna Th. sem væntanlega hættir við af sinni áðurnefndri prúðmennsku enda kann hann ekki við að heyja kosningabaráttu gegn sitjandi forseta.

Það er þó ekki þar með sagt að Andri Snær hefði það gegn Ólafi, sjálfum forsetanum, en það gæti orðið mjög tvísýnt. Þótt Ólafur njóti góðs fylgis eru einnig afskaplega margir sem vilja alls ekki sjá hann sitja áfram og sjá þann kost vænstan að velja Andra Snæ, hvort sem þeir eru einlægir aðdáendur hans eða ekki, enda alveg ljóst að hann er sá eini sem á einhvern möguleika í sitjandi forseta.

Þó er kannski ekki alveg útséð með Guðna Th. og ef hann færi fram þá gæti þetta orðið enn tvísýnna. Eiginlega myndi ég giska á að hver um sig, þeir Ólafur, Andri og Guðni Th. gætu allir náð eitthvað um 30% atkvæða og ómögulegt að segja hver þeirra hefði það. Restin fengi þá um 10% samanlagt, svo framarlega að ekki komi fram enn eitt þungavigtarframboðið, sem er svo sem ekkert mjög líklegt.

En svona er kosningakerfið okkar. Sá sem fær mest, hann vinnur og verður forseti. Jafnvel þótt hið mesta sé ekki svo mikið. Sumir vilja hræra í þessum einfalda kerfi. Gallalaust kosningakerfi er reyndar ekki til. Tvær umferðir til að tryggja meirihluta er svolítið rausnarlegt fyrir embætti sem er í raun aðallega heiðursembætti. Það mætti þó kannski íhuga slíka reglu ef sigurvegarinn nær ekki 30% greiddra atkvæða, en það getur aðeins gerst ef frambjóðendur eru fjórir eða fleiri (eða er það ekki annars?).

Steinn

Mynd: Steinhissa steinn á vestfirskri heiði. (EHV)


Stóra markmiðið var Stade du France

Í sambandi við hryðjuverkin í París þá hafa menn velt fyrir sér hvers vegna þessi staður og þessi stund var valin, föstudagskvöld í París. Hryðjuverkamönnunum tókst vissulega að framkvæma hræðilega verknaði og þar ber hæst fjöldamorðin á tónleikastaðnum Bataclan. Ekki ætla ég að gera lítið úr því né öðru sem gerðist í París þetta kvöld. Miðpunktur og útgangspunktur þessara árása hlýtur samt hafa átt að vera landsleikur Frakka og Þjóðverja á þjóðarleikvanginum sjálfum þar sem forsetinn var mættur, ásamt tugum þúsunda áhorfenda að ógleymdum þeim milljónum sem fylgdust með leiknum í beinni útsendingu. Þetta var stóra skotmarkið og ljóst að ef sprengjumenn hefðu komist inn á leikvanginn meðal áhorfenda þá hefði athygli heimsins aldeilis beinst þangað og það í beinni. Það má ímynda sér þá sem raunverulega stóðu bak við árásirnar þar sem þeir sitja við skjáinn heima í stofu bíðandi eftir sprengingunum. Jú það heyrðust vissulega sprengingar en svo ekkert meir, leikurinn hélt áfram og lauk með sigri Frakka við fögnuð grunlausra áhorfenda þótt ýmsir hafi verið farnir að átta sig á að ekki væru allt með felldu. Utan við sjálfan leikvanginn höfðu þrír sprengjumenn sprengt sig, með þeim afleiðingum að fjórir létust, þar af þrír sprengjumenn. Að minnsta kosti einn þeirra átti miða á völlinn en var stoppaður við vopnaeftirlit við innganginn.

Landsleikur

Hert öryggisgæsla við leikvanginn hefur þarna greinilega komið í veg fyrir enn meira manntjón og enn stærri atburð. Það má hins vegar spyrja sig hvernig staðið hefði verið að málum ef forseti Frakklands hefði frekar kosið að verja föstudagskvöldinu á rokktónleikum hljómsveitarinn Eagles of Death Metal í Bataclan-tónleikahöllinni. Væntanlega hefði öryggisgæsla á þeim stað verið öllu meiri þetta kvöld og kannski þeim mun minni á landsleiknum. En hvernig sem það er þá heppnuðust hryðjuverkin ekki nema að hluta, því stóra markmiðið gekk ekki eftir. Nógu slæmt var þetta þó samt og veruleikinn er annar á eftir.


Að blanda sér í Úkraínudeilu

Úkraína þjóðir

Úkraína er stórt land og íbúar þess eru ýmist af úkraínskum eða rússneskum uppruna. Úkraínufólkið er í meirihluta og byggir vestur- og miðhluta landsins á meðan rússneska fólkið býr í suðausturhlutanum. Þessir tveir hópar hafa gjörólíka sýn á það hvert landið á að stefna og í hvaða átt það á að halla sér í heimspólitíkinni. Úkraínufólkið horfir til Vestur-Evrópu og á þann draum ganga í Evrópusambandið og Nató til að verjast Rússum á meðan Rússneskumælandi hlutinn vill halda góðum tengslum við Rússa eins og verið hefur um aldir, enda er það fólk í raun Rússar.

Þegar svo er komið að stjórnvöld sem studd eru af úkraínsku-mælandi meirihlutanum ákveður að auka samstarf við vesturlönd á kostnað Rússlands, er augljóst að togstreita myndast og ekki hjálpaði til að úkraínskan skyldi vera eina opinbera tungumál landsins. Rússnesku-mælandi fólkið upplifði sig þar með sem illa séðan minnihlutahóp meðal þjóðernissinnaðra Úkraínumanna.

Það er í sjálfu sér ekki hægt að áfellast úkraínska meirihlutann í landinu fyrir að vilja halla sér til vesturs eins og flest önnur Evrópulönd austan járntjaldsins gamla gerðu eftir hrun Sovétríkjanna. Engir vilja lengur vera vinir Rússlands - nema þeir séu Rússar. Hins vegar er skiljanlegt að Rússum finnst vera talsverður missir af Úkraínu af sínu áhrifasvæði. Úkraína hefur frá fornu fari verið samofin sögu Rússlands og rússneskrar menningar, allt frá dögum Garðaríkis og Kænugarðs sem síðar var Kiev, höfuðborg Úkraínu. Þannig er Úkraína fyrir Rússlands svo miklu meira en bara einhver spónn úr aski. Tilfærsla Úkraínu í einu lagi yfir á áhrifasvæði Vestur-Evrópu er meiriháttar áfall fyrir Rússland og ekki síst vegna þess að stór hluti Úkraínu er raunar byggður fólki af rússneskum uppruna sem talar rússnesku, elskar Pútín og yfirleitt allt sem rússneskt er.

Hér er því komin tilvalin uppskrift að klassískum ófriði sem leiðir auðveldlega til borgarastríðs eins og þegar hefur orðið og almennt mjög hættulegt ástand með afskiptum stórvelda í vestri og austri. Ísland hefur ákveðið að blanda sér í þessa deilu með að vera á bandi vesturlanda í stuðningi sínum við úkraínska meirihlutann og gegn Rússlandi í stað þess að vera hlutlaus aðili sem reynir að setja sig inn í hvað er í raun að gerast og jafnvel að miðla málum eins og góðum friðsömum þjóðum sæmir.

Í raun eru aðeins tvær leiðir að friði í Úkraínu. Að landið verði algerlega hlutlaust svæði án þátttöku í efnahags- og hernaðarbandalögum eða að landinu verði skipt í tvennt með einhverjum hætti. Heil og óskipt Úkraína getur hinsvegar ekki verið annaðhvort innan áhrifasvæðis Vestur-Evrópu eða Rússlands. Slíkt leiðir aðeins til áframhaldandi ófriðar.

 


Það var árið 1986

Sum ár eru af ýmsum ástæðum eftirminnilegri en önnur í hugum okkar. Það er þó persónubundið hvaða ár þetta eru og skiptir aldur manna þá auðvitað heilmiklu. Fyrir mér er árið 1986 eitt þessara ára en þá var ég rétt skriðinn yfir tvítugt, farinn að stúdera grafíska hönnun og auðvitað ákaflega meðvitaður um allt sem í kringum mig var eins og gengur á þeim aldri. Árið 1986 var reyndar ekkert merkilegra fyrir mig persónulega en önnur ár. Stemningin hér á landi svona almennt var hinsvegar eftirminnileg, enda gerðist það hvað eftir annað að fólk sameinaðist eða sundraðist yfir stóratburðum, sem voru kannski ekki miklir stóratburðir í raun en höfðu mikil áhrif á sjálfsmynd okkar. Spennustigið var hátt. Ég ætla ekki að fjalla um pólitíkina en það má rifja upp að Steingrímur Hermannson var forsætisráðherra, Davíð Oddson sat sem fastast sem borgarstjóri og Vigdís var forseti. GreifarnirÞað má segja að þetta hafi verið góðæris- og bjartsýnistímar hjá þjóðinni sem þarna var farin að hafa trú á að Íslendingar væru eftir allt saman hin merkilegasta þjóð sem heimurinn ætti bara eftir að uppgötva. Og ef við vorum ekki best í heimi í einhverju þá vorum við það alla vega út frá höfðatölu. Þetta var líka ár „uppana“ sem voru síefnilegir, ætluðu sér stóra hluti í framtíðinni. Þeir sprækustu voru ennþá með sítt að aftan og fóru í Hollýwood um helgar með mynd af bílnum í vasanum. Greifarnir sigruðu í Músíktilraunum þetta ár. 

Sumum þótti smekkleysan og efnishyggjan vera farin að verða full fyrirferðamikil og í samræmi við það var stofnaður andófshópurinn Smekkleysa sem samanstóð af ýmsum ungskáldum og fyrrum pönkurum og veittu smekkleysuverðlaun við litlar undirtektir viðtakenda að undanskyldum Hemma Gunn sem var alltaf jafn hress. Afkvæmi þessa hóps voru svo Sykurmolarnir sem voru ekki fjarri því síðar að sigra heiminn og gerðu þar betur en Strax-hópur Stuðmanna. En sumir sigruðu heiminn svo sannarlega. Haustið 1985 sigraði Hófí, Miss World keppnina og árið 1986 sigraði Jón Páll í annað sinn í keppninni World Strongest Man og því var ljóst að við Íslendingar áttum fallegasta kvenfólkið og sterkustu mennina. Það var keppt í fleiru. Gríðarleg eftirvænting var fyrir Heimsmeistaramótið í handbolta snemma árs þar sem strákarnir okkar ætluðu sér stóra hluti. Heimsmeistaramótin voru einungis á fjögurra ára fresti í þá daga og ekki búið að finna upp Evrópumótið og nú var líka hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Skellurinn kom hins vegar strax í fyrsta leiknum gegn Suður-Kóreu sem fyrir okkar menn og átti bara að vera léttur upphitunarleikur fyrir alvöru átök síðar. Um þennan eftirminnilega leik skrifaði ég reyndar sérstaka bloggfærslu er nefnist: Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið Það rættist þó úr málum gegn hefðbundnari andstæðingum og þjóðin gat fagnað frábærum árangri og 6. sæti á mótinu.

GleðibankinnÞjóðin fór síðan alveg á límingunum um vorið þegar Eurovisionkeppnin hófst og við með í fyrsta skipti. Sú Gleðibanka-för var eiginlega fyrsta bankaútrás Íslendinga og augljóst að við vorum að fara að keppa til sigurs. Á einhvern óskiljanlegan hátt gekk það ekki eftir og þjóðin lagðist í tímabundna depurð og þunglyndi yfir illum örlögum. Þjóðarstoltið hafði beðið þunga hnekki.

Menn gátu sem betur fer tekið gleðina á ný þegar Heimsmeistaramótið í fótbolta hófst í júní og að sjálfsögðu líka í beinni. Allir fylgdust með nema hörðustu fótboltaandstæðingar eins og gengur. Danir voru þarna ennþá í náðinni hjá Íslendingum og stálu algerlega senunni hjá okkur er þeir gjörsigruðu hvern andstæðinginn af öðrum. Vinsælasta lagið á íslandi sumarið 1986 var einmitt Danska fótboltalagið: „Við er røde, vi er Hvide“. Danska dínamítið sprakk hinsvegar með stórum hvelli í 16 liða úrslitum er þeir mættu Spánverjum. Misheppnuð sending Jesper Olsens til eigin markavarðar í stöðunni 1-0 gerði útslagið og 1-5 tap Dana varð niðurstaðan. Reykvíkingar gátu fagnað síðar um sumarið þegar öllum borgarbúum var boðið upp á köku sem var langlengsta kaka sem nokkru sinni hefur verið bökuð hér á landi, ef ekki bara í öllum heiminum, 200 metra löng. Tilefnið var 200 ára afmæli Reykjavíkur sem haldið var upp á með pomp og prakt. Að sjálfsögðu fékk ég mér sneið.

LeiðtogafundurÞað var svo í byrjun október sem tíðindin miklu bárust. Íslendingar áttu bara eftir nokkra daga að taka á móti tveimur valdamestu mönnum heimsins sem ætluðu að semja sín á milli hvernig best væri að fækka kjarnorkuvopnum það mikið að hægt væri að gjöreyða mannkyninu bara nokkrum sinnum í stað mjög mörgum sinnum. Þetta tókst okkur og Ísland svo sannarlega komið í sviðsljósið. Þótt niðurstaða fundarins hafi valdið vonbrigðum þá eru menn nú að komast á þá skoðun að leiðtogafundurinn hafi í raun markað upphafið að endalokum kalda stríðsins og er það sjálfsagt bakkelsinu í Höfða að þakka. Einn skellurinn var þó eftir, því um haustið vöknuðu borgarbúar við þau ótíðindi að búið var að sökkva tveimur hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn sem í áratugi höfðu verið eitt af föstum kennileitunum Reykjavíkurhafnar. Ódæðismennirnir komust úr landi með áætlunarflugi og hin alræmdu samtök Sea Sheapart lýstu ábyrgð á hendur sér. Þarna vorum við landsmenn svo sannarlega teknir í bólinu.

Það má í lokin nefna ein tímamót á þessu ári sem varða mig sjálfan en í upphafi sumars fékk ég þá flugu í höfuðið að punkta hjá mér veðrið í lok hvers dags. Ekki datt mér í hug þarna árið 1986 að ég yrði enn að árið 2014 en það er þó reyndin. Ekki hafði maður heldur hugmyndaflug í að ímynda sér að maður ætti eftir að skrifa bloggfærslur á einhverjum veraldarvef á tölvu, en í slík tæki var maður lítið að spá á þessum árum. Hinsvegar var heilmikið teiknað.

Hvalveiðibátar teikning

Sokknir hvalveiðibátar í Reykjavíkurhöfn, 9. nóvember 1986. Teikning eftir sjálfan mig.


Örlagafrúin Thatcher

Margaret Thatcher var mjög ákveðin kona. Á síðustu mánuðum valdatíma hennar árið 1990, þegar Írakar réðust inn í Kúwait, vissi þáverandi Bandaríkjaforseti, Georg Bush eldri, ekki alveg hvernig ætti að bregðast við, fyrr en hann hitti járnfrúna Margaret Thatcher. Eftir það voru miklar hernaðaraðgerðir skipulagðar og Írakar hraktir á brott í Persaflóastríðinu sem hófst í janúar 1991. Í framhaldinu voru Írakar lagðar í einelti af Alþjóðasamfélaginu, sett á þá alþjóðlegt viðskiptabann auk ýmissa annarra þvingana. Umsátrinu lauk með innrásinni í Írak árið 2003 undir forystu Bandaríkjaforseta Georg Bush yngri.
En Thatcher var líka mikill örlagavaldur í íslenskri pólitík því eftir að hún lét af embætti, heimsótti hana nýráðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddson, sem meðtók frá henni þann boðskap að Íslendingar ættu ekkert erindi í Evrópusambandið. Síðan hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að Íslandi gangi ekki í Evrópusambandið og ekki vel séð að imprað sé á slíku.

Þannig man ég þetta allavega.


Stjórnarskrár(vanda)málið

Fyrsta setningin í bloggfærslum finnst mér alltaf erfiðust og ekki síst núna þegar ég ætla að reyna að skrifa um þetta mikilvæga mál – eða ómikilvæga eftir því hvernig á það er litið. En til að lesendur fái smjörþefinn af afstöðu minni til stjórnarskrármálsins þá vil ég rifja upp dálítið sem ég var spurður um fyrir mörgum árum þegar einn kunningi minn var kominn í framboð og spurði hvort ég vildi meiri völd. Ég skildi spurninguna ekki alveg í fyrstu en eftir frekari útskýringar kom í ljós að spurningin snérist um það hvort ég sem almennur borgari ætti að hafa meiri áhrif um stjórn landsins og þannig fá meiri völd. Eftir smá þögn og umhugsun kom svar mitt sem var einfalt: Nei.
Neitunin hefur sennilega valdið þessum kunningja mínum dálitlum vonbrigðum og líklega komið honum eitthvað á óvart. Kannski kom svarið mér sjálfum líka á óvart en það var allavega einlægt því að í rauninni langaði mig ekkert sérstaklega í meiri völd. En það var líka annað sem ég hafði í huga sem var að ef ég fengi meiri völd, þá fengju allir hinir líka meiri völd og ef allir hinir fá líka meiri völd þá hefur í rauninni enginn fengið meiri völd, nema kannski bara meirihlutinn. Eða hvað? Best væri auðvitað fyrir mig ef ég fengi að ráða öllu einn, en slíkt einræði er varla í boði.

Þannig er um margar spurningar að það er ekki auðvelt að svara þeim neitandi. Barn sem spurt er hvort það vilji nammi eða fisk, hlýtur yfirleitt að velja nammið, jafnvel þó það viti að fiskurinn sé hollari. Og þegar þúsund manns koma saman á þjóðfundi til að gera óskalista fyrir þjóðina verður útkoman alltaf einhver útgáfa af að boðorðunum þremur: Frelsi, jafnrétti og bræðralag - reyndar allt gott um það að segja. En svo þegar þetta er sett í stjórnarskrá verður útkoman einhvern veginn þannig: „Allir eiga að fá að ráða meiru og allir jafn miklu“. Semsagt allir eiga að fá að ráða, nema reyndar þeir sem eru svo óheppnir að hafa aðrar skoðanir en meirihlutinn. Sem þýðir að minnihlutinn fær engu ráðið þegar upp er staðið og fellur þá um sjálft sig að allir fái að ráða. Málamiðlanir eru ekki í boði í svona Já- og Nei-ræði.

Þetta er kannski orðið dálítið snúið hjá mér og á mörkunum að ég skilji þetta sjálfur. En allavega þá voru það pælingar í þessum dúr sem urðu til þess að ég varð fljótlega mjög efins þegar talað var um að kjósa stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni, svo ekki sé talað um að skrifa algerlega nýja. Mikilvægt plagg eins og Stjórnarskrá er ekki sett saman nema mjög rík ástæða er til. Þetta er sáttmáli sem almenn sátt á að ríkja um og engar deilur. Þetta er sáttmáli sem allir eiga að bera virðingu fyrir hvar sem þeir standa í pólitík. Þess vegna er í raun ógjörningur að koma slíku plaggi saman nema þegar nýtt ríki er stofnað eða þegar meiriháttar stjórnarfarsbreytingar eiga sér stað.

Fjármálahrunið var örlagaríkt en þó varla nægilega þungvægt til að koma fram með nýja stjórnarskrá. Hugmyndin að nýrri stjórnarskrá varð í rauninni til í nokkurskonar panikástandi eftir hrun þar sem öllu átti helst að breyta og það hið snarasta. Þetta féll mér ekkert sérstaklega vel þannig að þegar kosið var til stjórnlagaþings, kaus ég þá frambjóðendur sem vildu fara sér hægt og halda vörð um ríkjandi stjórnarskrá en þó kannski með smá lagfæringum. Enginn þeirra sem ég kaus náði kjöri enda voru þetta lítt þekktir einstaklingar sem varla höfðu sést í sjónvarpi og alls ekki í Silfri Egils. Þeir sem völdust í ráðið voru því ekki þar samkvæmt mínum óskum enda tilheyrði ég þarna minnihlutanum sem fékk engu ráðið. Ekki var ég heldur á Þjóðfundinum og get því ekki sagt að þarna sé verið að fara eftir mínum þjóðarvilja.

Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en það er nú kyrfilega komið í skotgrafir stjórnmálanna eins og við mátti búast frá upphafi. Það er svo sem eðlilegt í mörgum málum en mjög óheppilegt þegar um stjórnarskrá Lýðveldisins er að ræða. Þess vegna hefði kannski verið betra að fara hægar í sakirnar, breyta nokkur atriðum núna og öðrum seinna. Í fyllingu tímans verður þá búið að endurskrifa stjórnarskrána og þá verður kannski hægt að tala um stjórnarskrána eins og gamla hamarinn hans afa sem fyrst fékk nýtt skaft og seinna nýjan haus en varð samt alltaf sami gamli hamarinn hans afa.

14Esja18nov.jpg

Frá Esjuhlíðum.


Óli Grís

Ég vil byrja á að biðjast margfaldlega afsökunar á þessari fyrirsögn. Það er ekki gott að uppnefna fólk og allra síst forsetann. Þetta uppnefni var samt talsvert notað hér áður í forsetatíð Ólafs, en þeir sem það gerðu er nú margir meðal æstustu aðdáenda hans og jafnvel teknir til við að uppnefna aðra. Engin uppnefnir hinsvegar forsetann í dag, sem er ágætt. Núverandi andstæðingar kunna sig því kannski eitthvað betur. Allavega svona yfirleitt.

Eins og mörgum öðrum þá finnst mér eitt það versta í kosningabaráttunni þegar menn tala á þeim nótum að það sé spurning um fullveldi Íslands að Ólafur nái endurkjöri. Þannig er reynt að snúa umræðunni að ef Þóra nái kjöri þá muni hún með hjálp Samfylkingar véla okkur inni í hið ógurlega Evrópusamband án þess að þjóðin fái rönd við reist. Þóra hefur jafnvel verið kölluð anti-þjóðfrelsisinni eins og ekkert sé sjálfsagðara, öfugt við hinn göfuga og þjóðholla forseta vorn Herra Ólaf Ragnar Grímsson eins og ég hef séð orðað.

Sjálfur er ég ekki fylgjandi inngöngu Íslands í Evrópusambandið svo lengi sem við höfum möguleika á að standa utan þess. Ég hef hinsvegar engar áhyggjur að því að Ísland muni gerast aðili gegn vilja þjóðarinnar og get því meðal annars þess vegna sleppt því að kjósa Ólaf til forseta eina ferðina enn. En þjóðin mun auðvitað kjósa sinn forseta eins og hún hefur alltaf gert og þjóðin mun ákveða hvort Ísland standi utan eða innan Evrópusambandsins. Hvað sem því líður þá finnst mér alveg kominn tími á að á Bessastöðum sitji manneskja sem getur talað með rödd skynseminnar en ekki í kjánalegum þjóðrembustíl eins og tíðkast hefur hér síðustu árin og auðvelt er að finna dæmi um. Það er vafasamur hugsunarháttur að líta svo á að Íslendingar séu eitthvað klárari en aðrir vegna arfleifðar okkar eða að erlend stórveldi sitji um okkur og vilji okkur allt hið versta. Þegar slík hugsun er ofaná er stutt í að fólk kalli eftir hinum eina sanna sterka leiðtoga sem það er reiðubúið leggja allt sitt traust á í gagnrýnislausri persónudýrkun.
- - - -

En nú borgar sig ekki að segja mikið meira. Að sjálfsögðu mega allir tjá sig hér í athugasemdum hafi þeir eitthvað við þennan málflutning að athuga og eins og með fyrirsögnina þá biðst ég margfaldrar afsökunar á þessum myndabrandara hér að neðan sem ég útbjó á sínum tíma, enda á hann ekkert erindi í umræðuna.

Dear Santa Claus

 


Það kemur ýmislegt til greina varðandi forsetann

Eins og alltaf þegar kemur að því að túlka skoðannakannanir þá verður að passa orðalag. Samkvæmt fréttinni virðast þátttakendur í könnunnninni hafa verið spurðir um hvort það komi til greina að kjósa Ólaf áfram til forseta. Ekkert óeðlilegt við það. En það að rétt rúmur helmingur segi, að það komi til greina að kjósa hann áfram, finnst mér  ekki vera það sama og að meirihlutinn vilji Ólaf Ragnar áfram eins og slegið er upp í fyrirsögn fréttarinnar. Svo ég tali fyrir sjálfan þá kemur alveg til greina að ég kjósi Ólaf en mér finnst það samt frekar ólíklegt.

Miðað við matreiðslu fréttarinnar giska ég á að Morgunblaðið vilji Ólaf Ragnar áfram sem forseta. Sama má segja um hluta þeirra sem telja að það komi til greina að kjósa hann.

- - - -

Svo má minna á að aðeins er mánuður til jóla.

Dear Snata Claus


mbl.is Meirihlutinn vill Ólaf Ragnar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugufrétt og Stjórnleysisráð

Folafluga

Fyrst er það flugufréttinn. Á dögunum sá ég þetta óvenjulega skordýr sem sat á svörtum plastpoka í garðinum hjá mér í Vesturbænum og er örugglega það stærsta sem ég hef séð hér á landi. Með fótum og öllu gæti það hafa slagað hátt í 5 sentímetra. Ég tók mynd af þessu kvikindi og sendi fyrirspurn til Náttúrufræðistofu Kópavogs. Mér var svarað á þá leið að þetta væri skylt hrossaflugu og kallaðist Folafluga (Tipula paludosa). Þessara tegundar mun fyrst hafa orðið vart í Hveragerði árið 2001 en hefur síðan breiðst út og er farin að sjást á höfuðborgarsvæðinu. Folafluga mun vera skaðvaldur fyrir skógrækt erlendis þar sem hún leggst á nýgræðinga. Ýmsar óvenjulegar flugu- og fuglategundir hafa sést hér á landi síðustu ár. Hlýnandi tíðarfar á þar sjálfsagt einhvern þátt.

Þegar fyrst var rætt um stjórnlagaþing á sínum tíma hélt ég að tilgangurinn með því væri sá að laga ýmis atriði í núverandi stjórnarskrá sem voru óljós og almennt orðuð. En í stað þess að laga stjórnarfarið þá virðist nefndin hafa haft það að markmiði að leysa upp stjórnarfarið og koma á einhverskonar stjórnleysi eða allavega að auka það. Samkvæmt tillögunum hefur vald Alþingis verið skert og hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef 10% kjósenda dettur það í hug. Mjög auðvelt er að ná því hlutfalli nú á tímum feisbókar og bloggsins. Alþingi netsins gæti það kallast. Kosningakerfinu verður stokkað upp, ýtt verður undir persónukosningar og hægt að kjósa einstaklinga á alla kanta og þvert á þá flokka sem maður kýs sjálfur. Tímar stjörnupóíltíkusa munu renna upp og skiptir þá máli hverjir eru duglegastir að láta á sér bera og koma fram í spjallþáttum. Útkoman verður sennilega enn óskiljanlegra kerfi en það er í dag. Sjálfur er ég nokkuð íhaldssamur en þó ekki íhaldsmaður. Þessi íhaldsemi réð ríkjum þegar ég kaus til stjórnlagþings á sínum tíma en enginn þeirra sem ég kaus komst að og hafa örugglega fæstir átt nokkurn möguleika, enda ekki nógu þekktir og sjálfsagt of íhaldsamir. Það hefur verið vinsælt að kenna hinum svokallaða fjórflokki um allar landsins hörmungar enda liggur sá flokkur vel við höggi. Það þykir rómantískara að færa ákvarðanatökuna til fólksins - til meirihlutans sem á alltaf að hafa rétt fyrir sér. Einhvern veginn grunnar mig að ég muni oftar en ekki standa utan við þann meirihluta.

Ég hef verið nokkuð kerfislægur í bloggfærslum undanfarna mánuði og boðið upp á framhaldsbloggfærslur, mánaðaryfirlit og fasta árlega liði. Það liggur nokkurn vegin fyrir hvað ég mun blogga um næsta mánuðinn. Ekki vil ég segja frá öllu fyrirfram en get sagt að mánaðarlegt sumarhafísyfirlit verður næst og síðar í mánuðinum er stefnt að dálítilli nýjung sem gæti kallast persónuleg framhaldslygasaga í þremur hlutum. Þessi tvíeggjaða bloggfærsla var hinsvegar bara aukanúmer inn á milli.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband