Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Kanínustrákurinn Simbi

Simbi3Nú er komið að fyrstu gæludýrabloggfærslunni á þessari síðu og kannski kominn tími til. Við erum samt ekki að tala um neina hunda eða ketti, heldur kanínu sem hoppar um á heimili bloggarans og ber nafnið Simbi.
Simbi er liðlega eins árs kanínustrákur, frekar smávaxinn, og hefur hárvöxt og lit sem minnir dálítið á hárvöxt ljóna enda er þetta eðalkanína af svokölluðu Lionhead-kyni. Það er hún Stefanía dóttir mín sem er löggildur eigandi Simba en hún var fljót að nefna hann þessu nafni í höfuðið ljónsungann úr Lion-King teiknimyndunum.

Við á heimilinu höfðum enga reynslu af kanínuhaldi þegar við tókum Simba að okkur í fyrrahaust og Simbi var heldur ekki mjög lífsreynd kanína þá, enda bara nokkurra vikna. Hann hefur alltaf búið innandyra en líkar ekkert vel við að vera lokaður inní búri svo hann fær bara að stjórna sínum ferðum sjálfur en á samt sitt búr sem hann hoppar úr og í þegar hann vill. Simbi2

Stundum fær hann þó að fara út í garð en þar er ýmislegt að róta í, skoða og smakka. Svo er líka ýmislegt innandyra sem Simba þykir gott að narta í. Bækur og blöð eru t.d. í miklu uppáhaldi en verra er með allar rafmagnssnúrurnar sem fyrir honum eru sem hinn besti lakkrís. Það hefur því þurft að gera ýmsar ráðstafanir svo við getum notið dásemda raftækninnar í friði.

Annars þarf yfirleitt lítið að hafa fyrir Simba, hann gengur hljóðlega um, felur sig gjarnan tímunum saman í innstu skúmaskotum eða situr hinn rólegasti á gólfinu með eyrun sperrt en það er sjálfsagt eðli kanína að vera varar um sig enda aldrei að vita hvar hætturnar leynast í þessum viðsjárverða heimi.

Simbi1


Staflinn á náttborðinu

náttborð

Skipulögð óreiða á vissum þáttum er sjálfsagður hluti góðs skipulags. Það hefur náttborðið mitt mátt reyna undanfarna mánuði því í vetur og fram á þennan dag hefur smám saman hlaðist um dágóður stafli af ýmsum bókum og pappírsgögnum sem ég hef verið að sýsla með. En öllu má nú ofgera og því tók ég mig nú loksins til og réðst á staflann, henti sumu, setti annað í skúffur eða möppur og kom svo bókum fyrir í nýrri bókahillu heimilisins. Til að heiðra minningu náttborðsstaflans er innihaldi hans hér gerð skil í eftirfarandi lista og er byrjað á því efsta og svo áfram niður:

  1. Gluggaumslög með nýjustu gjalddögunum (verða greiddir á næstunni)
  2. Boðskort á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris (ekki búinn að fara)
  3. Tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar (fórum á 5. sinfóníu Gustafs Mahlers)
  4. Fréttabréf vináttufélags Íslands og Kúbu (hef verið félagi síðan í vinnuferðinni 1989)
  5. FÍB-blaðið (er semsagt líka félagsmaður í félagi íslenskra bifreiðaeigenda)
  6. Prófarkir (vegna bókar sem ég er að brjóta um)
  7. Meiri gluggapóstur (verða einnig greiddir á næstunni)
  8. Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind (á sirka 90 eftir)
  9. Límmiði frá FÍB (held ég lími hann ekki á bílinn)
  10. Enn meiri gluggapóstur (gott að það fannst)
  11. Bókin Bréf til Láru, eftir Þórberg Þórðarson (búinn að lesa hana)
  12. Útprent af vinnutengdum tölvupósti (trúnaðarmál)
  13. Árbók Ferðafélags Ísland 1993 (um rætur Vatnajökuls eftir Hjörleif Gutt.)
  14. Jöklaveröld - náttúra og mannlíf (aðallega um Austur-Skaftafellsýslu)
  15. Útprent af nýlegum fjölskylduljósmyndum (þrír ættliðir í sparifötum)
  16. Yfirlit yfir Verðbréfasjóði SPRON (framúrskarandi ávöxtun síðustu ára tíunduð)
  17. Yfirlit frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (safnast þegar saman kemur)
  18. Prentarinn - blað félags bókagerðarmanna (er ennþá í plastinu)
  19. Útreikningar vegna rekstraryfirlits 2007 (vegna prívat-vinnu)
  20. Bréf frá SPRON til gjaldkera húsfélagsins (sem er ég)
  21. Ársskýrsla EXISTA (skoðuð, en ólesin)
  22. Boðskort á 25 ára afmælissýningu Gerðubergs (fór ekki)
  23. Reikningaeyðublaðahefti (vegna prívat-vinnu)
  24. Skáldsagan Plötusnúður Rauða hersins (byrjaði á henni á sínum tíma)
  25. Skagfirðingabók (er ekki Skagfirðingur en kom að vinnslu ritsins)
  26. Ársrit Útivistar nr. 10 frá 1984 (vegna ferðar sem ég fór síðasta haust)
  27. Hvers vegna er ég félagi í Félagi bókagerðarmanna? (bæklingur sem svarar því)
  28. Skáldsagan Mæling heimsins eftir Daniel Kehlman (búinn að lesa hana)
  29. Frímerkjafréttir o.fl. frá Póstinum (er áskrifandi að nýjum frímerkjum)
  30. Árbók Ferðafélags Íslands 1997 (þar er m.a. fjallað um Esjuna)
  31. Kvittanir tengdar bílnum (smurnings- og dekkjaþjónusta)
  32. FÍT 2008 - Grafísk hönnun á Íslandi (Það besta frá liðnu ári úr mínu fagi)
  33. Veðuryfirlit í tölum fyrir alla mánuði frá 1961 (útprentað af vef Veðurstofunnar)
  34. Útivist - Ferðaáætlun 2008 (fer einstaka sinnum með þeim)
  35. IÐAN - símenntun í iðnaði. (vilji maður símennta sig)
  36. Gamli Stykkishólmur (bæklingur um gömlu húsin í Stykkishólmi)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband