Færsluflokkur: Menntun og skóli

Um staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg

listahaskólinn frá HverfisgötuÉg endaði síðasta pistil á því að minnast á fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskólans við Laugaveg en þennan pistil ætla ég að helga þeim áætlunum því eins og margir sem hafa tjáð sig um þetta mál er ég hreint ekki alveg sáttur með í hvað stefnir. Ég hafði reyndar efasemdir strax þegar tilkynnt var að Listaháskólinn hafði fengið þessa lóð í fyrr eftir makaskiptasamning sem gerður var milli borgarinnar og Samson Properties sem fékk í staðinn lóðina við Laugarnes, þar sem Listháskólinn er nú til húsa að hluta til.

Það var alltaf vitað að þessi skólabygging krefst mikilla húsakynna enda þarf þarna sali til að hýsa tónlistar- myndlistar, leiklistarkennslu o.fl. Vandamálið er því það að þessi bygging hvernig sem hún mun líta út verður alltaf stórhýsi sem mun þrengja sér inn á byggingarreit að takmarkaðri stærð og útkoman verður alltaf byggingarbákn sem er í engu samræmi við það umhverfi sem fyrir er á Laugaveginum. Það hefur verið vaxandi vilji að varðveita þetta umhverfi og götumynd, enda hafa verið uppi ýmis önnur áform um að koma upp stórhýsum við Laugaveginn í nafni svokallaðrar uppbyggingar á kostnað þess sem fyrir er og þá kennt um lóðabraski fjárfesta og verktaka sem hafa ekki annað en eigin gróða að markmiði. Það er því dálítið sérstakt að svona stórkarlaleg áform skuli nú vera fyrirhuguð í nafni listarinnar, því það er ekki síst fólk með listmenntun og listnemar sem hafa staðið fyrir verndun þess sem fengur er í og á undir högg að sækja. Sjálfsagt er það þó svo að listamenn vilja halda til sem næst miðbænum í hringiðu mannlífsins en ég get þó ekki ímyndað mér annað en að það veki upp blendnar tilfinningar meðal þeirra þegar nærvera þeirra skuli eiga sinn þátt í að skekkja þá götumynd og stemmningu sem Listaháskólin vill sækja í og vera hluti af.

Laugavegur_Skipholt

Mynd til vinstri: Húsin sem eiga að víkja við Laugaveginn. Mynd til hægri: Listaháskólinn við Skipholt.

Ég var sjálfur nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1986-89 en þá var skólinn ekki orðinn sameinaður öðrum skólum sem allsherjar Listaháskóli. Húsnæðið var og er að hluta til við Skipholt og var stundum uppnefndur „Stiga- og handriðaskólinn“ enda húsnæðið svona upp og ofan, frekar hrátt á köflum sem reyndar hentar ágætlega þeim óhefluðu vinnubrögðum sem fylgir gjarnan myndlistariðkun. Hvernig það allt virkar í nýrri glæsibyggingu veit ég ekki. 

hampidjulodÉg get alveg séð fyrir mér að uppbygging Listaháskólans hefði getað verið áfram á sömu slóðum þarna rétt fyrir ofan Hlemmtorg. Nú er t.d. búið að rífa gömlu Hampiðjuhúsin þarna sem síðast hýstu listgjörningaapparatið Kling og Bank en sú lóð var einmitt í eigu Samsons, félags Björgúlfs Guðmundssonar. Hefði skólinn ekki getað verið á því svæði? Umhverfið þar í kring er allavega með þeim hætt að það getur ekki annað en batnað jafnvel þótt byggð verði stór fúnktíónalísk kassahús eins og fyrirhugað er að reisa við Laugaveg, í þeim tilgangi að bera gömlu húsin þar ofurliði nema þau eigi kannski öll að fara á endanum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband