Færsluflokkur: Umhverfismál

Fína svifrykið og fínu dísilbílarnir

Á sama tíma og hratt hefur dregið úr sölu dísilbíla í Evrópu vegna skaðlegs útblástur þeirra virðist lítið vera að draga úr framboði nýrra dísilbíla hjá íslensku bílaumboðunum. Þetta á sérstaklega við svokallaða um sportjeppa og aðrar stærri gerðir bíla. Í sumum tegundum er einungis boðið upp á dísilvélar og almennt eru fleiri útfærslur í boði af dísilbílum af hverri tegund, heldur en af bensínbílum. Vilji maður til dæmis fá sér heiðarlegan, fjórhjóladrifinn, beinskiptan, bensínbíl, er víða afskaplega fátt í boði samanber þessi dæmi af verðlistum ónefndra bíltegunda.

Disilverdlistar

Eitthvað er þetta þó líklega að breytast. Suzuki-umboðið bíður t.d. einungis upp á bensínbíla í stað dísils og svo er stóraukin sala í þeim bílum sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni. Vandamálið með dísilvélar er að í útblæstri þeirra er að finna mun meira magn af fínlegustu gerðum svifryks (PM2,5) sem einmitt er skaðlegasta gerð svifryks fyrir heilsu fólks. Sjá til dæmis hér: What is PM2,5 and why should you care?

PM2,5 eru það agnarsmátt ryk að líkaminn nær ekki að losa sig við það og því safnast það einfaldlega fyrir í líkömum fólks. Með bættri tækni hefur útblástur þessa fínryks frá dísilvélum að vísu lækkað á síðustu árum  en samt er hlutfall þess í nýlegri vélum að minnsta kosti tífallt það sem kemur úr bensínvélum. Auk þess gefa dísilvélar frá sér mun meira magn köfnunarefnisdíoxíðs NO2 sem getur valdið lungnaskjúkdómum auk þess að hafa skaðleg áhrif á gróður. Myndin hér að neðan er sýnishorn af mengunarmælingu frá Grensásvegi og kemur þar vel fram mikill mengunartoppur í síðdegisumferðinni við Grensásveg, föstudaginn 9. mars. sl. Sjá mengunarmælingar um allan heim hér: Real-time World Air Quality.

Svifryksmælingar
Sjálfsagt vissu menn ekki betur fyrir nokkrum árum en að dísilvélar væru umhverfisvænni en bensínvélar vegna lítillega minni útblástur koltvísýrings, CO2, sem auðvitað er hin fræga gróðuhúsalofttegund. Þannig gat allsherjar dísilbílavæðing með stuðningi stjórnvalda verið liður í baráttunni gegn hlýnun jarðar, eða að minnsta kosti fegrað tölur í kolefnisbókhöldum. CO2 er hinvegar ekki mengun á sama hátt fína svifrykið og NO2. Plöntur þrífast á CO2 og við öndum því frá okkur. Það er því kannski ekki mikið unnið með því að draga agnarögn úr hlýnun jarðar en fjölga um leið hjartveikum, heilabiluðum og lungnaveikum góðborgurum með skaðlegum agnarögnum í útblæstri. Og nú sitjum við uppi með stóran hluta bílaflotans knúinn þessum mengandi vélum og góð ráð dýr. Ekki vilja menn verðfella nýju fínu bílana sína með því að tala þá niður og það væri spælandi að þurfa að greiða sérstök refsigjöld fyrir bíla sem keyptir höfði verið í góðri trú með sérstökum ívilnunum stjórnvalda.

Talandi um mig sjálfan þá er ég keyrandi um á mínum fjórhjóladrifna bíl, beinskiptum og bensínknúðum. Sá bíll er kominn á fermingaraldurinn sem í bílaævi telst til efri ára og því ætti að vera komin tími á endurnýjun miðað við standardkröfur og svo eyðir hann heldur meira en nýrri týpur. Hann stendur þó fyrir sínu þótt hann skorti ýmislegt af þeim fítusum og átómötum sem sjálfsögð þykja í dag. Hann er þó búinn þeim eiginleika að geta lokað fyrir innstreymi utanaðkomandi lofts í farþegarýmið, sem er ákaflega gagnlegt þegar ekið er í  svifryksmóðu morgun- og síðdegisumferðarinnar.

Morgunsól

Miklabraut að morgni. Að þessu sinni var það reyndar sólin sem stal senunni.


Allt í plasti

Plastströnd

Fyrir stuttu rak á fjörur mínar frétt erlendis frá sem greinir frá niðurstöðum þýskrar rannsóknar um uppruna plastmengunar í úthöfunum. Rannsóknin var birt í tímaritinu Environmental Science and Technology síðastliðið haust og kom þar fram að um 90% af plastinu kemur frá 10 stórfljótum í heiminum. Nánar tiltekið er um að ræða Níl og Nígerfljót í Afríku, Ganges og Indus á Indlandi, Gulafljót, Yangste, Haihe og Perlufljót í Kína, Mekong í Suðaustur-Asíu og Amur sem rennur um landamæri Rússlands og Kína. Árnar liðast um löndin eins og æðakerfi líkamans og þannig safnast í stórfljótin allt það plastrusl sem einu sinni hefur fundið sér farveg í lækjum og vötnum inn til landsins. Stórtækastar eru þó milljónaborgir í Suðaustur-Asíu og Afríku sem liggja gjarnan meðfram fljótunum eða við ósasvæði þeirra. Fleiri smærri ár víðsvegar um heiminn, aðrar en þær áðurnefndu, koma auðvitað líka við sögu enda eru fyrirkomulag sorpmála víða í algerum ólestri í þriðja heiminum. Í nóvember sl. var til dæmis frétt um fljótandi plasteyju í Karíbahafinu sem rakin er til fljóts sem rennur til sjávar í Hondúras eftir að hafa safnað í sig miklu plastrusli inn til landsins í Guatemala. Þannig geta sprottið upp milliríkjadeilur um ábyrgð og lausn á staðbundnum vandamálum.

En plastvandinn er ekki staðbundinn heldur hnattrænn vandi sem fer sífellt versnandi eins og svo margt annað sem tengist lifnaðarháttum mannsins. Heilmikil vitundarvakning hefur átt sér stað meðal almennings hér á landi þótt lítið virðist hafa verið vitað um uppruna plastsins svona almennt. Áherslur til úrbóta hafa ef til vill verið nokkuð handahófskenndar. Aðaláherslan hefur verið lögð á að takmarka notkun plastpoka við matarinnkaup sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert en langflestir plastpokar enda reyndar ekki í sjónum heldur sem ruslapokar sem síðan fara út í tunnu ásamt öðru heimilisplasti, annað hvort til urðunar eða endurvinnslu. Ekkert hef ég þó séð um það hvort urðað plast valdi plastmengun í höfunum enda efast ég um að svo sé. Bent hefur verið á að heilmiklu af rusli er losað í sjóinn frá skipum og veiðarfæri eiga það til að losna upp og valda miklum skaða í lífríkinu. Þá hefur komið fram að þvottur á fatnaði úr gerviefnum (t.d. flísfatnaðar) sé stór uppspretta smárra plastagna í sjónum auk þess sem ýmis snyrtiefni innihalda plastagnir.

Margt þyrfti að gera á mörgum sviðum hvar sem er í heiminum. En eins og gjarnan þar sem um hnattrænan vanda er að ræða þá hlýtur að vera árangursríkast að leysa vandann þar sem hann er mestur og einbeita sér að stóru uppsprettunum. Þess vegna hlýtur að vera gagnlegt að vita að megnið af plastinu í sjónum kemur frá nokkrum stórfljótum sem renna um lönd þar sem umhverfismál eru styttra á veg komin en hjá okkur fyrirmyndarfólkinu.

Sjá einnig hér: Rivers carry plastic debris into the sea


Um stokka og steina ofan Bústaðavegar

Eins og stundum gerist hér á síðunni skal nú boðið upp á myndaspjall þar sem gengið er um eitthvert svæði borgarinnar og því lýst í máli og myndum sem fyrir auga ber. Að þessu sinni er það svæðið ofan Bústaðavegar sem stundum er kallað Litlahlíð og er einskonar litla systir Öskjuhlíðar. Á þessari litlu hlíð er víðsýni mikið, margt að skoða og líka margt sem hægt er að hafa skoðanir á. Þannig að þótt gönguferðin sé stutt er bloggfærslan frekar löng. Dagurinn er 7. júlí 2017.


Stígur Perla
Upphaf leiðangursins er þessi stígur sem liggur upp hlíðina og þegar litið er um öxl í vesturátt blasir Öskjuhlíðin við. Bústaðavegurinn aðskilur þessar tvær hæðir en Litluhlíð má þó kannski skilgreina sem hæðardrag. Stígurinn er lagður ofaná gamla hitaveitustokkinum sem veitir heita vatninu austan úr sveitum og upp í tankana undir Perlunni. Allt er í mikilli sumargrósku og eins og sést þá hefur lúpínan breitt úr sér sitt hvoru megin stígsins.


Hvalbök
Ekki þarf að ganga langt eftir stígnum þar til þessar sérstöku klappir blasa við. Þetta eru svonefnd hvalbök - menjar ísaldarjökulsins sem hér lá yfir þar til fyrir um 10 þúsund árum. Samkvæmt upplýsingaskilti er þetta um leið einskonar umhverfislistaverk er nefnist Streymi tímans, eignað listakonunni Sólveigu Aðalsteinsdóttur sem ákvað að svipta gróður- og jarðvegshulunni frá klöppunum svo þær fái notið sín. Hér áður stóð myndastytta Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn, sem var fluttur niðrí bæ sem þótti meira við hæfi enda voru víst ekki margir slíkir hér á ferð á gullöld hinna eiginlegu vatnsbera.


Vatnstankur framhlið
Vatn kemur þó aldeilis hér við sögu því auk heitavatnsleiðslunnar er þarna einnig heilmikill geymir fyrir kalda vatnið - eða kaldavatnstankurinn - sem skartar þessu tilkomumikla súlnaverki á framhlið og gefur byggingunni fallegan klassískan svip.


Vatnstankur þak
Auðvelt er að komast upp á tankinn og þar er víðsýni til allra átta. Sérstakt er að standa ofan á hinu stóra og slétta þaki tanksins sem þakið er grjóti. Hér er horft í austur og sér til Hengils og Vífilsfells. Loftið er óstöðugt. Bólstraskýjað með köflum og úrkoma í fjarska, kannski of langt i burtu til að flokkast sem úrkoma í grennd. Þeir vita það sjálfsagt hjá Veðurstofunni sem þarna er einnig í mynd.


Lúpína Hallgrímskirkja
Stundum er sagt að Reykjavík sé byggð á sjö hæðum eins og Rómaborg og hér er horft af einni hæð til annarrar þar sem helgidómurinn blasir við á Skólavörðuholti. Í forgrunni er lúpínan allsráðandi og af sem áður var. Í hugum margra er lúpínan nánast heilög jurt sem ekki má skerða þrátt fyrir að hún leggi undir sig stór svæði víða um land, gróin sem ógróin, af sívaxandi hraða. Á þéttbýlissvæði eins og þessu er að vísu nægt framboð af öflugum plöntum sem geta blandað sér í baráttuna en því er ekki að heilsa víðast hvar. Sumir vilja meina að með lúpínuvæðingunni séum við að greiða til baka eitthvað sem við skuldum náttúru landsins en sú endurgreiðsla er ekki greidd í sömu mynt því lúpínan er innflutt framandi planta og flokkast sem ágeng jurt í viðkvæmri flóru landsins. Lúpínan er óskajurt hinna óþolinmóðu sem vilja græða landið allt, helst strax í dag með vaxtavöxtum og grilla svo um kvöldið.


Stokkur austur
Spölkorn austar breytir umhverfið um svip með borgaralegri gróðri. Stígurinn er hér raun gamli hitaveitustokkurinn sem upphaflega var lagður alla leið ofan úr Mosfellssveit á árunum kringum 1940. Lengi vel var yfirborð stokksins bogadregið en slétt yfirborðið hentar betur mannaferðum. Íbúðablokkin tilheyrir næsta hverfi og liggur Kringlumýrarbrautin í hvarfi þar á milli.


Hitamælingaskýli
Þá erum við komin að Veðurstofutúni sem er eitt af merkustu túnum landsins. Þann 30. júlí 2008 mældist hér 25,7 stiga hiti á klassískan kvikasilfurmæli í hitamælingaskýli og er það um leið hitamet í Reykjavík við slíkar staðalaðstæður. Samanburður í framtíðinni við hina ýmsu veðurþætti gæti orðið erfiður og þá erum við komin að öðru hitamáli því svo lítur út fyrir að búið sé að ákveða að þetta tún skuli brátt heyra sögunni til vegna stórfelldra byggingaráforma en í þeim felst meðal annars að Veðurstofan þarf að finna sér nýjan stað. Væntanlega þá einhversstaðar í fjarska frekar en í grennd enda ekki mikið eftir af opnum svæðum innan borgarinnar. Eiginlegar veðurathuganir myndu þá í raun leggjast af í Reykjavík sem væri mikill skaði en samfella í veðurathugunum á sama stað er mikils virði. Ekki síst nú á tímum þegar umræður um loftslagsbreytingar eru allsráðandi.


Gíraffi
Hvað sem loftslagsbreytingum líður þá hafa þær ekkert að gera með þennan gíraffa sem teygir sig upp úr einum garðinum í nærliggjandi einbýlishúsi. Hér hafa sjálfsagt verið gerð kostakaup á kjarapöllum.


Veðurstofa gróður
Enn breytir um svip og nú erum við komin að suðaustanverðri hlíðinni sem snýr að Bústaðavegi og horfum í átt að hinu virðulega húsi Veðurstofunnar. Hér er gróðurfarið allt annað en handan hæðarinnar. Upprunalegur gróðurinn í sinni fjölbreyttustu mynd fær hér að njóta sín á milli steina og birkiplantna sem virðast dafna vel í þessum sælureit. Þessi staður gæti einnig verið í bráðri útrýmingarhættu vegna fyrrnefndrar uppbyggingar sem á að slá á húsnæðisvandann. Ekki vil ég gera lítið úr honum. En kannski finnst yfirvöldum lítil eftirsjá í svona villigróðri í miðju borgarlandinu.


Holtasóley
Og auðvitað er svo þarna að finna þjóðarblómið sjálft, Holtasóley, sem stingur upp hvítum kollinum í umferðarniðnum og lætur sér fátt um finnast enda þekkir það ekki örlög sín frekar en aðrir. Fyrir þessu eilífðar smáblómi er hver dagur í það minnsta þúsund ár og þúsund ár varla nema einn dagur.


Um daginn og veginn - aðallega þó veður og umhverfi

Svo við snúum okkur fyrst að veðrinu þá gætum við verið að upplifa hér í Reykjavík, fyrsta almennilega rigningarsumarið síðan árið 1984. Kannski er ég full svartsýn á þessum rigningardegi en fram að þessu hefur allavega verið frekar sólarlítið og blautt í borginni og spáin ekki góð svo langt sem séð verður. Þeim mun betra gæti þá orðið fyrir norðan og austan. Talandi um það, þá datt mér í hug í tilraunaskyni að skrá niður veðrið á Akureyri þennan mánuð með sama hætti og ég hef gert fyrir Reykjavík árum saman. Vefur Veðurstofunnar dugar vel til þess að fylgjast með veðrinu fyrir norðan þó ég sé ekki á staðnum. Samanburðinn má svo birta í bloggpistli eftir næstu mánaðarmót. Fram að landsynningsslagviðrinu í dag, 5. júní, hefur Reykjavík reyndar tekið góða forystu í veðurgæðum hvað svo sem verður.

Ég veit ekki hvort ég muni skrifa lúpínupistil þetta sumar eins og ég hef stundum gert. Ég skrifaði þó í athugasemd um daginn hjá útivistarbloggaranum SigSig að ég væri bæði á móti lúpínu og skógrækt. Ég vissi að búast mætti við neikvæðum viðbrögðum við svona viðhorfum enda kallaði einhver mig blómafasista og taldi mig ekki vilja sjá neitt nema eyðisanda. Almennt er ég á því að það sé ekki okkar hlutverk að reyna að fegra náttúruna auk þess sem náttúruleg fagurfræði er æði afstæð. Íslensk náttúra eins og hún er, án lúpínu og tilbúinna skóga, þykir afar sérstök og er óneytanlega eftirsóknarverð meðal erlendra ferðamanna.

Auðvitað verður þó ekki lifað í þessu landi öðruvísi en að raska náttúrunni hér og þar. Það þarf jú að byggja hús og leggja vegi. Við framleiðum rafmagn með því að virkja náttúruöflunin og því rafmagni þarf að koma til skila. Þrjú stór álver hafa verið reist og þau gera sitt fyrir þjóðarbúið en spurning er hvenær nóg er komið. Ekki síst ef hagnaðurinn verður að miklu leyti til utan okkar hagkerfis. Sjálfum finnst mér þrjú álver alveg rúmlega nóg en til þess að bæta því fjórða við þarf feiknamikið rask á náttúrunni og næstum gjörnýtingu á þeirri virkjanlegu orku sem hægt er að afla, með sæmilegu móti. Nokkuð sérstakt er hvernig Hengilssvæðið var virkjað og stórlega raskað án umræðu á sínum tíma og sér ekki fyrir endann á neinu þar.

Hugmyndir hafa verið kynntar sem snúast um það að skapa "wá-móment" með tilheyrandi raski á náttúrunni. Annarsvegar er það göng ofaní Þríhnjúkagíg sem hingað til hefur verið dulmagnað og nánast ófært ginningargap og magnað sem slíkt. Ef þetta á að verða 100 þúsund-manna ferðamannastaður er um allt annað að ræða. Fólk kæmi þarna í mörgum bílum og rútum, því er holað ofan í jörðina svo það geti sagt wá í smástund og svo aftur upp í rútu. Svipað og eiginlega öllu verra gæti átt sér stað í Esjunni ef þar á koma kláfur alla leið upp sem er auðvitað heilmikið mannvirki. Þangað upp er meiningin að lyfta upp öðrum 100 þúsundum árlega ef ekki fleirum. Sjálfsagt langar mörgum að komast upp á Esju en geta það alls ekki. Með útsýnismannvirki og jafnvel veitingastað ofaná Esju væri verið að skerða mjög upplifun þeirra sem ganga á fjallið á eigin fótum. Aðalmálið er þó að þarna er verið að bæta við einhverju aðskotadóti í náttúruna bara svo að fólk geti sagt wá! - og farið svo niður aftur. Reyndar ekki víst að allir segi wá! í þokunni sem gjarnan er upp á Esju. Spurning hinsvegar hversu margir ákveði að fara á flakk á Esjutoppi bara til að láta bjarga sér rammvilltum eða í sjálfheldu eins og gerist nógu oft nú þegar.

Erfitt getur verið að verða sér úti um gott brauð í stórmörkuðum. Flest álitlegu brauðin eru svo fínlega niðurskorin að maður verður af þeirri ánægju að geta skorið sjálfur og smurt sér væna þykka sneið með góðri ostsneið ofaná. Þau sem hinsvegar eru óskorin eru gjarnan mjög svo aflöng og gefa bara af sér einhverjar smásneiðar eða að þau eru nánast hnöttótt og gefa af sér risavaxnar sneiðar um miðbikið. Já það getur stundum verið vandlifað.

Hraun - álver

Einn góðan veðurdag sunnan Hafnarfjarðar.


Hart sótt að Reykjanesskaga

Stundum er sagt að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu séum á móti öllum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum nema þeim sem eru í okkar allra næsta nágrenni. Kannski á þetta við í einhverjum tilfellum en ef ég á tala fyrir mig sjálfan þá er það einmitt næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem ég hef mestar áhyggjur af. Ef fer sem horfir þá mun Reykjanesskaginn verða stórlega raskaður vegna jarðhitavirkjanna og ýmissa umsvifa allt frá Þingvallavatni og út á Reykjanes.

Hengill gufubólstrar

Nú þegar hafa virkjanir lagt Hengilssvæðið undir sig með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Að vísu er ekki búið að reisa virkjun á sjálfri Hellisheiðinni en það er auðvitað í bígerð með Hverahlíðarvirkjun sem verður mjög áberandi mannvirki á sjálfri háheiðinni. Öllum þessum virkjunum fylgir og mun fylgja gífurlegt rask á hraunum, jarðhitasvæðum, smágígum og öðru því sem fylgir Atlantshafshryggnum þar sem hann gengur hér á land og er einstakt fyrirbæri í heiminum. Fjöldi misvelheppnaðra borhola fylgja hverri virkjun. Gufublástur með óhljóðum er viðvarandi þegar borholur eru látnar blása og getur slíkur hávaði verið á við Júmbóþotu í stöðugu flugtaki eins og mér var minnisstætt við Leirhnjúk er ég var þar síðast. Svo eru það öll rörin sem sikksakkast útum allar grundir á virkjanasvæðunum og auðvitað stöðvarhúsið sjálft, kæliverkið, vegaslóðarnir, afrennslisvatn, spennulínur, rafmagnsmöstur að ógleymdu öllum vinnuvélunum og dótaríi sem fylgir svona starfsemi.

Það er þó varla hægt að amast við öllu raski á Reykjanesskaganum. Til dæmis liggur Þjóðvegur 1 þarna í gegn ásamt háspennumöstrum. Einhvern veginn þarf fólk og rafmagn að komast á milli landssvæða. En þetta eru bara smámunir miðað við annað. Einhver fjöll er búið að grafa í sundur og sum jafnvel horfin. Á skíðasvæðum í Bláfjöllum er búið að skafa og slétta heilu fjallshlíðarnar og leggja lyftur. Lengra í vestur stendur svo til að virkja við Krísuvík suður af Kleifarvatni og þar með er það svæði ónýtt. Síðan er talað um Trölladyngjusvæðið milli Keilis og Kleifarvatns sem í dag er nokkuð stórt ósnert svæði á miðjum Reykjanesskaga og býr yfir mikilli náttúrufegurð sem fáir njóta eða vita af. Hætt við að það svæði verði eyðilagt í kyrrþey. Suðvestur af Trölladyngusvæðinu stendur einnig til að bora og virkja ósnertar auðnir við Sandfell.

Fleiri vita af hinu heimsfræga Bláa Lóni við Svartsengi sem er ágætt út af fyrir sig og er reyndar mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og því varla hægt að amast við því, en það er þó ekki þar með sagt að það sé til fyrirmyndar fyrir önnur svæði. Eitt slíkt er ágætt. Í undirbúningi er líka virkjun við Eldvörp vestan Grindavíkurvegar og við Sandvík vestast á Skaganum. Reykjanesið sjálft allra yst á nesinu er stórkostlegt svæði af náttúrannar hendi. Það er nú þegar undirlagt af borholum og leiðslum Reykjanesvirkjunar sem til stendur að stækka. Myndin hér að neðan er þaðan og sýnir hún dæmigert rask af einni virkjun. Vegurinn að Reykjanesvita liggur þarna innan um borholur og fleira utan myndar. (skjáskot af kortavef ja.is)

Reykjanesvirkjun

Auðvitað þurfum við rafmagn og við búum vel hvað orkuöflun varðar. Við framleiðum nú þegar gífurlega orku með fallvötnum og jarðvarðma en spurningin er hversu langt á að ganga. Í uppkasti af svokallaðri rammaáætlun er Reykjanesskaginn hærra metin sem orkuöflunarsvæði en verndurnarsvæði, enda er orðið fátt vænlegra kosta á lausu sem ekki hafa í för með sér óásættanlegt rask á náttúrunni. Samt láta sumir sig dreyma um mikla uppbyggingu stóriðju og jafnvel útflutning á rafmagni í stórum stíl. Þar er lofað hreinni raforku frá hinu dásamlega landi í norðri sem boðið getur upp á næstum endalausa hreina orku eins og kemur fram í þessari erlendu frétt frá the Guardian, Iceland´s energy comes naturally en þar er vitnað í einn af okkar mönnum:

„Albert Albertsson, the deputy chief executive officer at Iceland's Resource Park, which includes the Blue Lagoon hot springs and one of the country's largest geothermal power stations, says that while no one knows how much energy could be eventually harnessed, it could be possible that all the energy needs of the northern hemisphere could be met by Iceland.“


Það er bara ekkert annað. Ég spyr þá bara. Hvernig verður Ísland og þá ekki síst Reykjanesskaginn útlítandi þegar búið verður að sjá öllu norðurhveli fyrir orku frá Íslandi?
 


Hin lúpínulausa fegurð

Eyðisandur

Ég hef komist að því að undanförnu að mörgum Íslendingum virðist finnast landið okkar ekkert sérlega fallegt. Jafnvel er ég farinn halda að sumum finnist landið svo ljótt að róttækra lítaaðgerða sé þörf hið snarasta. Lítaaðgerðin felst þá í því samkvæmt umræðunni að dreifa lúpínu um alla sanda hóla og hæðir og jafnvel yfir hraunin og fjöllin. Þannig gætu heilu blómabeðin þakið sveitirnar og landið fengið á sig bláan blómaljóma. Ég sá til dæmis í Fréttablaðinu um daginn grein eftir konu Lúpínufár sem vildi sjá lúpínunbreiður á öllum auðnum á Íslandi og fjöllunum einnig, þannig að með sanni mætti syngja: „eitt sumar á landinu bláa“.

Ég veit vel að lúpínan getur verið öflug landgræðslujurt og nýtist vel til að stöðva sandfok. Ágúst H. Bjarnason hefur verið duglegur að skrifa bloggfærslur um lúpínu sem ræktuð hefur verið í landgræðsluskini á Haukadalsheiði. Það eru sjálfsagt rök fyrir því að nýta megi lúpínuna á vissum svæðum þar sem mikill upplástur er í gangi og notadrjúg er hún vissulega til að koma í veg fyrir sandfok t.d. á Mýrdalssandi og auðvitað eykur hún frjósemi landsins með því að framleiða sjálf það köfnunarefni sem hún þarf.

Ég hef semsagt ekkert út á notagildið að setja, þekki það alveg. Það er hinsvegar þetta viðhorf að landið verði endilega fallegra þótt blómabreiður dreifi úr sér um landið. Lúpínan er falleg planta sem slík og sómir sér vel í görðum og í smáum stíl innan um annan gróskumikinn gróður. En landið okkar eins og það er, finnst mér vera fallegt, hreinir gróðursnauðir eyðisandar hálendisins hafa sína eigin fegurð rétt eins og hraunin og jöklarnir. Þetta er vissulega annað viðhorf en bændur höfðu hér áður fyrr sem sögðu að land væri ekki fallegt nema það sé nýtilegt. Listmálarinn Kjarval var reyndar einn sá fyrsti sem sá fegurðina í auðninni. Auðnin og hið opna landslag er eitt af sérkennum Íslenskrar náttúru og þannig er hún seld ferðamönnum sem koma hingað til að njóta hennar.

Það er dálítið merkilegt að viðhorf fólks til lúpínunnar virðast tengjast stjórnmálaskoðunum. Ég sá að Loftur Altice vill að lúpínan verði gerð að þjóðarblómi og tákn fyrir Hægri-Græna stjórnmálahreyfingu, hvað sem það nú er. Ég vildi frekar kalla þetta Hægri-Fjólubláa hreyfingu. Jón Magnússon nefndi í umræðum hjá Ágústi H. að hann hefði dreift lúpínufræjum í gönguferðum á Esjuna og Skarðsheiði, til að auka gróður og fegurð fjallanna. Einn benti líka á í umræðum að lúpínan geti vaxið upp á nýju hrauni (væntanlega þá storknuðu). Menn mega því varla sjá nýtt og fersk hraun öðruvísi en að vilja drita á það skrautblómum – ja hérna segi ég nú bara, þvílík náttúruvernd. Eins gott að rósarunnar þrífist ekki á Íslandi, hvað sem síðar verður.

Hin sanna náttúruvernd, góðir hálsar, snýst um það að láta náttúruna eiga sig, í staðin fyrir að vera sífellt að fikta í henni. Marga dreymir auðvitað um að landið endurheimti þau landgæði sem voru hér áður en búseta hófst á landnámsöld þegar landið var vaxið birki milli fjalls og fjöru. Ef þau landgæði eiga að endurheimtast þá verður bara að sýna þolimæði og nota aðrar aðferðir þannig að landið grói upp í rólegheitum á eigin forsendum með náttúrulegum gróðri landsins en ekki endilega með inngripi mannsins með því að dreifa um landið þessari öflugu jurt sem komin er úr allt öðru og gróskumeira vistkerfi.

En umfram allt, lærum að meta fegurð auðnarinnar og hins fíngerða fjallagróðurs.

- - - -

Á myndinni sem fylgir er horft til Heklu af suðurhálendinu.


Landbúnaðarmynstur

Hvað er betra en að svífa um loftin blá og virða fyrir sér jörðina frá því himneska sjónahorni? Eftir dálitla heimsreisu í boði Google Maps eins og ég fór um daginn ætla ég að bjóða upp á nokkrar myndir frá sveitum jarðar, en óhætt er að segja að maðurinn setji sinn svip á jörðina á frjósömustu svæðunum og oft með mjög myndríkum hætti.

Danmörk

1. Á Jótlandi í Danmörku þar sem til forna hafa sjálfsagt verið miklir laufskógar eru í dag ekkert nema akrar og engi sem raðast nokkuð óskipulega útfrá ótal smáþorpum og sveitabæjum. Þetta er gamla frjálslega skipulagið sem lagar sig að misflötu landslaginu eins og algengt er í Evrópu. 

 

Minnesota

2. Í Minnesota eins og víða annarstaðar Bandaríkjunum eru miklar víðáttur og landið gjarnan marflatt. Hér eru það beinar línur og reglufestan sem einkenna landið rétt eins og í borgunum þar vestra.

 

Vietnam

3. Í Víetnam rækta menn hrísgrjón af miklum móð á eins og annarstaðar í Asíu þar sem votlendi er að finna. Í þeirri ræktun þarf að vera hægt að loka vatnið inni í reitum ýmist með stallaræktun til fjalla eða í hólfum við árósa eins og hér er gert.
 

Egyptaland

4. Í Egyptalandi má finna þessa fínu hringakra sem eru vökvaðir með hjálp hringáveitukerfis með vatni úr ánni Níl. Risastórir vökvunararmar snúast þá kringum miðjuna og vökva eftir þörfum.
 

Amazon

5. Í gegnum þennan regnskóg í Brasilíu liðast ein af þverám Amazónfljóts og veit greinilega ekki alltaf hvert skal stefna frekar en aðrar ár sem renna um sléttlendi. Þarna er ekki að sjá mikinn landbúnað þótt grilla megi í opin svæði en regnskógurinn er annars lífinu á jörðinni afar mikilvægur enda á sér þarna stað afkastamikil framleiðsla á súrefni sem er nauðsynlegt líkama okkar til brenna þeim landbúnaðarafurðum sem við látum í okkur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband