Færsluflokkur: Bloggar

Heimsóknafjöldi úr böndunum

Þetta er dálítið sjálfhverfur pistill að þessu sinni. En nú eftir 462 bloggfærslur frá því í september 2007 hef ég loksins náð þeim áfanga að gestafjöldinn er kominn yfir 100 þúsund. Þetta eru nú svo sem engin ósköp því margir hafa náð þessari tölu á mun skemmri tíma og sumir löngu komnir yfir milljónina. Reyndar átti ég ekki von á að ná hundraðasta þúsundinu fyrr en eftir næstu mánaðarmót og var ætlunin að skrifa einhvern háfleygan pistil þegar að því kæmi.

Síðasta miðvikudag, þann 21. mars gerðust hinsvegar þau ósköp að heimsóknafjöldinn á bloggsíðu mína fór algerlega úr böndunum af óútskýrðum ástæðum eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti og heimsóknatölfræði. Þennan dag var þó ekkert nýtt og krassandi efni á síðunni og átti ég því engan veginn von á yfir 750 gestum svona upp úr þurru. Þetta er líka það langmesta sem ég hef séð á einu degi. Annað merkilegt við þennan gestagang var að heimsóknir virtust nánast allar hafa komið frá sömu IP-tölunni, sem gæti reyndar þýtt að þetta hafi bara verið kerfisvilla. Eða þá að bloggsíðan hafi fengið einhverja heilmikla fjöldadreifingu á miðlægu tölvukerfi sem notar eina IP-tölu. Ég þekki þetta þó ekki vel. Heimsóknum fór svo að linna um kvöldið og voru komnar í eðlilegt horf fyrir miðnætti.

En nú er ég orðinn 100 þúsund kall og það heldur fyrr en ég átti von á. Bloggskrifin hafa undanfarið verið í þeim fasa að ég skrifa einn pistil á viku en ekki tvo eins og löngum áður. Pistlarnir eru iðulega óháðir málefnum líðandi stundar og ekki tengdir fréttum. En þetta er bara aukapistill – vikulegi pistillinn er langt kominn og mun fjalla um . . .

 

Heimsóknasúlur


Áramótaávarp

Ágætu lesendur til sjávar og sveita, innlendis sem erlendis um borg og bí. Við lok hvers árs er við hæfi að gerast hátíðlegur, líta yfir farinn veg og hugleiða framhaldið, rétt eins og í fjallgöngum er maður staldrar við og tekur stöðuna. Miðar manni afturábak ellegar nokkuð á leið og hefur maður gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Mun þetta bloggstarf mitt halda lengi áfram? Munu bloggskrifin fjara smám saman út eða einfaldlega taka snöggan enda einn góðan veðurdag? Ég veit það ekki. Fyrir tveimur árum fannst mér ég vera búinn að skrifa um allt sem mig langaði að skrifa um og eiginlega líka um allt sem ég vissi, innan þess ramma sem þessi bloggsíða er ætluð. Í dag er ég eiginlega enn sömu skoðunar en mesta furða finnst mér þó hvað hægt er að týna til án þess að endurtaka sig um of. Í haust boðaði ég rólegri tíma á þessum vettvangi og til marks um það hef ég skorið niður bloggskrif um helming frá því sem áður var og ekki ólíklegt að um frekari niðurskurð verði að ræða á komandi ári.

Það er alveg tilvalið í upphafi næsta árs að koma með veðurtengd uppgjör fyrir liðið ár og verð ég sennilega ekki einn um það. Nýliðið ár hefur verið athyglisvert veðurár og þá aðallaga á jákvæðan hátt, að minnsta kosti hér í Reykjavíkinni eins og komið hefur fram. Meðalhiti ársins er hár og átti lengi vel góðan möguleika á að vera sá hæsti sem mælst hefur, ekki ósvipað hitanum á jörðinni í heild. Kannski má segja að meðalhitinn í Reykjavík endurspegli hitann á jörðinni ágætlega.

Það má líka á þessum tímamótum gera upp fyrsta áratug aldarinnar. Sumir eru að hóta því að senn verði þessi hlýindi á enda á meðan aðrir segja að þetta sé bara byrjunin á því sem koma skal. Best held ég sé að vera við öllu búinn og þá ekki bara í sambandi við veðrið heldur bara svona almennt. Allskonar óvæntir útúrdúrar geta alltaf orðið á leiðinni hvert sem hún liggur.

Annars voru uppákomurnar í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi merkilegustu atburðir ársins frá náttúrunnar hendi á liðnu ári og sýndu vel hvað tvö eldgos geta verið gerólík þótt stutt hafi verið á milli. Ýmsar aðrar eldstöðvar hugsa sér gott til glóðarinnar og bíða í ofvæni eftir að röðin koma að sér.

Hvað hagsæld varðar verðum við að vona að gengi okkar landsmanna þróist uppávið. Leiðin má þó ekki vera of mikið á fótinn, hæfilegur stígandi er skárri. Ekki viljum við heldur að halli of mikið undan fæti. Að lokum skal hvatt til varkárni í meðferð flugelda og annarra eldfæra svo sem stjörnuljósa sem hugsa sér gott til glóðarinnar að marka enn ein þáttaskil í tímans rúmi – tímans sem vissulega flýgur áfram.

Ég þakka þeim sem lásu og óska öllum gleðilegs árs.

 

Ægissíða brenna


Bloggmósaík

„Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að kóngulær væru grimmlyndar skepnur og þakka því Guði fyrir að þær sem við höfum eru ekki stærri en raun ber vitni. Vonandi þarf þá Sérstakur Saksóknari ekki að endurnýja heimboðið seinna. Og nú birtir hann vefsíðu og vill koma sinni hlið að í umræðunni. Gaman væri að heyra frá einhverjum sem veit allt um hana. Að auki reikna ég með að bankarnir muni geta boðið hagstæðari lán til viðskiptalífsins og einstaklinga, en þeir gera í dag. Þá fyrst yrði líft fyrir mengun á heitum og stilltum dögum á þessum slóðum. En þrátt fyrir það eigum við að vera þakklát fyrir það mikla góðviðrissumar sem þegar er að baki. Nú verður feigum ekki forðað og kreppan er að skella á af fullum þunga þetta er ekki ágiskun heldur bláköld staðreynd sem ekki verður umflúin í þetta sinn! En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls. Vona launamenn almættisins taki nú höndum saman og höggvi af fúakvistina. Það er ákveðin rökleysa! Allir vita að þetta fólk var undir verndarvæng hinna vinstri grænu kommúnista, sem beinlínis hvöttu fólk áfram í ofbeldi sínu og yfirgangi. Eðlilega barst talið að núverandi ríkisstjórn og öðru sem viðkemur pólitíksu landslagi. Tökum okkur örstutta stund til að skoða hvað þarf að gera á Íslandi. Kannski verður útflutningur á heilbrigðisþjónustu okkar næsta auðlind á við fiskinn og orkuna? En þá kemur að spurningunni, hvaðan hefur trúleysinginn sitt siðferði? Hvaða réttlæting felst í því að notast við lögguvitleysinga til að lemja á saklausu fólki? Í tilefni þess verð ég með tilboð á merkingum á skólapeysum í næstu viku. Verð bara að segja það.“

- - - -

Já, margt er nú skrafað í bloggheimum.


Bloggfærslur bókfærðar

Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.

Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda – sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.

Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.

Bloggbók


Ritstjórnarstefna mín

Það er dálítil eyða í bloggskrifum hjá mér núna en mér datt þó í hug að festa niður á blað ritsjórnarstefnu mína sem fram að þessu hefur einungis verið í kollinum á mér. Ég geri ráð fyrir að flestir bloggarar fylgi einhverri ritstjórnarstefnu, misvel mótaðri þó. Þótt mín ritstjórnarstefna sé eins og hún er, þá er ég ekki að meina að hún ætti að vera öllum til fyrirmyndar því það er einmitt fjölbreytileikinn sem gerir bloggheiminn að því merkilega fyrirbæri sem hann er. Ýmislegt ætti þó að vera þarna sem aðrir gætu tekið undir.

Þannig er ritstjórnarstefna mín:
  1. Ég skrifa fyrst og fremst um það sem ég hef áhuga á að skrifa um. Ekki það sem ég held að aðrir hafa áhuga á að lesa.
  2. Markmiðið með skrifunum er að skilgreina frekar en að gagnrýna.
  3. Viðfangsefni bloggsíðunnar er fyrst og fremst náttúran, umhverfið vítt og breitt með sérstakri áherslu á veður, sjónmenntir koma einnig stundum við sögu.
  4. Ég skrifa ekki um stjórnmál og nefni aldrei stjórnmálamenn á nafn.
  5. Ég nefni sjaldan nokkurn á nafn nema þá sem tengjast vísindum, listum eða dægurmenningu.
  6. Ég kalla aldrei neinn illum nöfnum. (3 dæmi: enginn er kallaður glæpamaður nema sá hafi verið dæmdur sem slíkur. Enginn er kallaður vitleysingur nema hafa verið úrskurðaður sem slíkur af heilbrigðisyfirvöldum. Enginn er kallaður asni nema um sé að ræða viðkomandi dýrategund. Aldrei hef ég þó notað þessi orð)
  7. Í lok hvers mánaðar er menningarleg upprifjun með aðstoð youtube. Á þessu ári tengist það sjónvarpi.
  8. Ég linka ekki á fréttir nema einstaka sinnum.
  9. Ég skrifa ekki oftar en þrisvar í viku, yfirleitt tvisvar.
  10. Allar bloggfærslur eiga að vera snyrtilegar í útliti og gjarnan myndskreyttar.
  11. Ég reyni að vanda skrifin sem eiga að vera auðskilin og upplýsandi.
  12. Ég reyni að svara öllum athugasemdum sem eru í spurningarformi.
  13. Ég geri helst ekkert til að auka vinsældir bloggsíðu minnar.
  14. Undantekningar má gera á ritstjórnarstefnunni.
  15. Allri alvöru fylgir líka gaman.

Ritsjórnarstefna þessi hefur verið samþykkt án nokkurra fyrirvara.

Eins og við má búast hefur þessi stranga ritstjórnarstefna skilað sér frekar illa í vinsældum án þess að ég sé að kvarta yfir því. Hæst hef ég komist í 97. sæti á vinsældarlista Mbl-bloggsins en yfirleitt er ég í 200-400. sæti. Stundum kemst ég ekki inná top-400 listann og það þrátt fyrir að vera svokallaður forsíðubloggari og ég er ekki enn orðinn svo frægur að ókunnugt fólk víki sér að mér og spyrji hvort ég sé þessi Emil á moggablogginu. Stundum velti ég því fyrir mér hversu lengi ég mun halda áfram þessari iðju en ég get þó sagt að bloggskrifin munu halda áfram svo lengi sem ég nenni að skrifa eða hef eitthvað að skrifa um. Allt getur gerst í þeim efnum enda lifum við á hinum mestu óvissutímum.


Að vera bloggari í vogarmerkinu

voginNú er runnin upp tími Vogarinnar samkvæmt stjörnuspekivísindum, það er svo sem ekki frásögum færandi nema vegna þess að þetta er mitt stjörnumerki enda á ég afmæli á næstunni. Ekkert stórafmæli þannig séð en samt persónulegt met í aldri. Við vogarfólk erum auðvitað afar merkilegt fólk sem vegur hlutina og metur áður en við fellum okkar dóm. Það er af því að við skiljum að á hverju máli eru tvær hliðar og á hvorri hlið geta verið ýmsir fletir og það þarf að taka með í reikninginn. Þetta getur samt orðið til þess að við eigum stundum erfitt með að taka afstöðu til mála eða þá að við höllumst að þeim málstað sem hallað er á. Við viljum nefnilega leita jafnvægis í öllu bæði hvað varðar ýmis sjónarmið og í lífinu almennt. Hitt er svo annað mál og önnur hlið á þessu að auðvitað er spurning hvort eitthvað sé að marka svona stjörnuspeki yfirleitt. Hvernig getur t.d. persónuleiki minn ráðist af afstöðu stjarnanna á þeirri stundu er ég kom í heiminn? Þarna er ég bara ekki alveg viss, þetta er eitthvað sem þarf að vega og meta.

Önnur tímamót hjá mér eru þau að nú er ég búinn að blogga hér í eitt ár. Á þessu bloggári hef ég fyrst og fremst fjallað um hluti sem ég hef gaman að skrifa um sjálfur og þá gjarnan um himinn og jörð en stundum sitthvað þess á milli eins og segir í ritstjórnarstefnunni. Ég hef hinsvegar látið lönd og leið allskonar dægurþras og pólitík og aldrei vogað mér að vega að einstaklingum. Kannski er það einmitt vogareðlið í mér sem veldur því að mér fellur það betur að skrifa um staðreyndir heldur en að fella sleggjudóma enda svo óskaplega meðvitaður um hliðarnar tvær á hverju máli.

En á svona tímamótum veltir maður því fyrir sér hvað gera skal á þessum bloggvettvangi ekki síst vegna þess að mér finnst stundum ég vera búinn að segja allt sem ég veit, nema að ég taki upp á því að gerast deilumálabloggari og þjóðfélagsumbreytir eins og margir eru svo uppteknir af og góðir í líka. Ég ætla samt að halda eitthvað áfram, það má t.d. alltaf skrifa meira um náttúruna og veðrið sem er síbreytilegt og svo er líka spurning hvort ég geti ekki bara endurtekið gamla pistla þegar þeir hafa náð því að vera ársgamlir. Það getur vel verið að ég geri það svona í bland við annað enda lagði ég stundum mikla vinnu í pælingar sem mjög fáir tóku eftir á sínum tíma. En þetta er auðvitað allt eitthvað sem ég þarf að vega og meta.


Ég er snjór

Fæstir eru eins og fólk er flest og þar er ég ekki undanskilinn. Ég fann um daginn dálítið próf á CNN fréttavefnum þar sem hægt er að fá persónuleikaeinkenni sín skilgreind út frá veðurástandi, sem er auðvitað mjög áhugavert fyrir svona veðuráhugamann eins og mig, en annars er ég ekki mikið fyrir að taka svona próf. Eftir að hafa svarað þarna nokkrum spurningum af mikilli samviskusemi komst ég að því að veðurpersónuleiki minn er snjór. Ég get alveg fallist á þessa skilgreiningu og líkar hún bara ágætlega. Þetta þýðir samt ekki endilega að ég sé kuldalegur og vonandi ekki kaldlyndur. Kannski er ég bara dálítið svalur hið ytra, sjálfsagt svona frekar af rólegra taginu, en allavega ekki mikill æsingamaður. 

Já, ég er ís-maður, hef líka áhuga á ís, búinn að skrifa heilmikið um ís og snjó af öllu tagi, en síðast en ekki síst, þá er ég góður ís-lendingur og klár í slaginn fyrir næsta vetur.

Hér er svo prófið: http://edition.cnn.com/2008/TECH/science/07/18/nature.quiz/index.html 

Snow 

 


Heim frá Barcelóna

Þá er tveggja vikna Barcelónaför lokið og ekki laust við að maður hafi tekið á sig smá lit í allri þeirri brakandi blíðu sem viðgengst á þarna á Spáni. Barcelónabúar vilja að vísu ekki kalla sig Spánverja, því þeir eru stoltir Katalóníumenn en þetta hérað á Spáni hét áður Gotalónía eftir Vest-Gotum sem þangað fluttu á tímum þjóðflutningana miklu í eldgamladaga. Það er lítið mál að hafa ofan af fyrir sér í þessari borg í tvær vikur enda afskaplega mikið að skoða og upplifa en sumstaðar er þó helst mikið túristum. Hitinn þarna yfir daginn var yfirleitt á bilinu 24-28 gráður sem er víst bara alveg eðlilegt þótt auðvitað geti orðið miklu heitara. Ekkert rigndi nema eitt kvöld en þá skilst mér að hafi fallið heilir 57 mm í tveimur úrhellisskúrum sem þá gerði.

Barcelona_internet

Þegar maður fer svona út í heim, sérstaklega á staði þar sem tungumálið er manni framandi er maður hálfpartinn út úr heiminum. Engin tölva var með í för, þannig að þetta var því í leiðinni ágætis bloggfrí og internetfrí sem er talsverð viðbrigði fyrir mig verð ég að segja. Samt ekki algert internetfrí því það kom fyrir að ég kíkti inn á internetsjoppuna í götunni til að taka stöðuna og þá ekki síst á veðrinu hér heima því ekki má koma eyða í veðurskráningar mínar.

Nú þegar heim er komið hef ég á tilfinningunni að ég hafi ekki misst af neinu merkilegu hér heima. Veðrið hefur þó staðið sig að mestu með prýði þótt engin hafi verið hitabylgjan í Reykjavík. Annars er bara sami barlómurinn og krepputalið hér ríkjandi í öllu sólskininu og ekki bætir úr skák að Fram, liðið mitt í fótboltanum, virðist vera framliðið eftir gott gengi fyrr í sumar. En mestu skipir þó að hafa ekki misst af stórskemmtilegum náttúruhamförum enda virðist hafa verið séð til þess. Að lokum er hér svo ein mynd sem ég tók síðustu nóttina í Barcelóna. Þarna er það bjarminn af tunglinu sem lýsir upp himininn bakvið húsið og ein stjarna að auki sem gæti verið sjálfur Júpíter miðað við birtu og stöðu. Kýs að kalla myndina: Nótt í Katalóníu.

Barcelona_nott


Ég er orðinn tíuþúsundkall

Núna á þessum hátíðardegi þegar við ætlum eina ferðinni enn að vinna Eurovision skal það upplýst að ég hef náð þeim merkisáfanga að vera kominn með heilar 10.000 flettingar á bloggsíðu mína eftir átta mánaða bloggstrit. Ég geri mér að vísu alveg grein fyrir því að þetta er ekki nema kannski vikuskammtur hjá þeim alsprækustu, en 10.000 er nú samt fín tala, þætti t.d. nokkuð góður áhorfendafjöldi á landsleik í fótbolta. Þegar ég kom inn á þennan bloggheim á sínum tíma var svo sem aldrei meiningin að gerast einhver stórbloggari eða allsherjar þjóðfélagsrýnir. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið einhverskonar tómstundagaman þar sem ég fæ útrás fyrir áhuga minn á náttúruvísindum allskonar, en óhætt er að segja að þar komi veðurpælingar helst við sögu. Svo eru auðvitað ýmis hliðarskref sem snúast um samfélagið og umhverfi okkar bæði nær og fjær og sambúð okkar við það. Ég læt hins vegar dægurmálin og pólitíkina nánast alveg eiga sig því það mega aðrir sjá um það. Svo er ég lítið að blanda fjölskyldunni í þetta, enda er þetta heldur ekki svoleiðis. Ég skrifa ekki daglega, finnst alveg nóg að skrifa svona 2-3 í viku en eyði kannski þeim mun meiri tími í hverja færslu og hef allt ríkulega myndskreytt. Svona bloggskrif eru líka ágætis æfing í textaskrifum en það hef ég satt að segja ekki stundað áður, varla skrifað samhangandi setningar síðan ég lauk menntaskóla einhverntíma á síðustu öld. Ég er hinsvegar framhaldsmenntaður og starfandi sem grafískur hönnuður en í því starfi þarf ég ekkert að skrifa nema kannski eina og eina fyrirsögn eða slagorð.

Í fyrstu ætlaði ég ekki að segja neinum frá skrifum mínum og velti því fyrir mér að sleppa alveg bloggvinum en sá að það gekk ekki til lengdar þegar ég var stundum að fá jafnvel engar heimsóknir eftir ákaflega metnaðarfullar færslur sem ég hafði verið að útbúa í nokkra daga. Ég er alveg sáttur við þá hóflegu traffík sem er hér á síðunni í dag og ætla ekki að breyta ritstjórnarstefnunni en auðvitað þróast allt einhvernvegin til lengdar, hversu langur tími sem það er, en ég get þó sagt að ég hef haft það markmið að klára eitt bloggár og sjá svo til.

Eitt af hliðarskrefum á þessari síðu er tónlistin og frá áramótum ári hef ég verið með það sem ég kalla tónlistarmyndband mánaðarins. Frönsku Eurovisionlögin sem voru um daginn voru eiginlega aukanúmer, en hér kemur hið formlega tónlistamyndband mánaðarins, það er með hljómsveitinni 10.000 maniacs og heitir Like the weather. Gott lag og viðeigandi á þessum merku tímamótum.


Bloggannáll 2007

Ég ætla að nota þessa síðustu færslu ársins til þess að taka saman það sem ég sjálfur hef skrifað á þessum vettvangi. Eins og sést er hér mikið bloggað um veðrið og loftslagsmálin og ýmislegt tengt náttúrufarinu, en hinsvegar hef ég lítið blandað mér í ýmislegt dægurþras sem einkennt hefur umræðuna oft á tíðum. Ég byrjaði reyndar að blogga frekar seint á árinu þannig að þetta er ekkert óskaplega langt yfirlit en þegar ég skoða þetta sjálfur finnst mér samt mesta furða hvað ég hef komist yfir að skrifa. En svona lítur þetta annars út:

21. sept. Bloggarar misskilja frétt. Fyrsta bloggfærslan. Hér sá ég mig knúinn til að byrja að blogga þegar ég sá hvernig þessi frétt um að vetrarhafísinn væri farinn að myndast á ný olli misskilningi bloggara og þá sérstaklega þeirra sem finna Al Gore allt til foráttu.

23. sept. Meira af hafísslóðum. Hér spekúleraði ég aðeins meira í stöðu hafíssins á norðurslóðum og hafísslágmarkið í haust og birti mynd af hafísbreiðunni.

26. sept. Hvað ætli íslendingum finnist um loftslagsbreytingar? Fjallað um könnun sem BBC World Service lét gera um hvað fólki víðs vegar um heim finnist um loftslagsbreytingar. Þar voru Íslendingar því miður ekki með.

27. sept. Bush vildi umfram allt fara í gott stríð. Stutt skrif út frá frétt Mbl um Saddam Hussein og spáð í einlægan stríðsvilja George Bush.

2. okt. Álftanesflugvöllur. Mitt innlegg í umræðuna um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, en á Álftanesi er stórt óbyggt svæði þar sem vel má koma fyrir flugvelli. Mynd fylgir.

6. okt. Snjókomulægð á gervitunglamynd. Hér sýni ég og fjalla um Modis-gervitunglamynd sem sýnir lægðarmiðju fyrir norðaustan land og hvernig hún veldur fyrsta alvöru vetrarveðrinu norðanlands.

7. okt. Klofajökull og loftslagsmálin. Vangaveltur um hinn dularfulla Klofajökul sem nú heitir Vatnajökull og einnig ýmsar vangaveltur um loftslag og jökla á Íslandi. Síðan kem ég að minni sýn á loftslagsmálin almennt.

10. okt. Um ljós og óljós. Skrifað í tilefni þess að kveikt var á friðarsúlunni og fer svo út í ljós, ljósleysi og síðan hugmynd um manngert rafmagnsleysi, borgarbúum til skemmtunar.

15. okt. Stærsta eyjan í vatni á eyju í vatni á eyju er fundin. Já hvar skildi hún nú vera?

16. okt. Mont Blanc hækkar. Stutt skrif vegna fréttar mbl um hvernig Mont Blanc hækkar vegna aukinna hlýinda.

24. okt. Hvar verður næsta eldgos á Íslandi? Er gos á næsta leiti við Upptyppinga eða verður næsta gos annarstaðar og þá hvar helst? Mitt mat á stöðunni.

24. okt. Má kenna hlýnandi loftslagi um skógareldana? Varpaði þessari spurningu fram vegna skógareldana í Kaliforníu. Vissi þó að margir vilja ekki heyra á svona lagað minnst.

28. okt. Hitafar á vetrum. Hér birti ég mynd sem sýnir hitafar síðustu 20 vetra samkvæmt mínum eigin athugunum og upplýsi þar með alþjóð um veðurskráningar mínar.

29. okt. Ekki bara elstu kerlingarnar ...  Örstutt innlegg vegna fréttar Mbl að fundist hafi 400 ára kúskel við Ísland.

29. okt. Fellur úrkomumetið? Þarna leit út fyrir að úrkomumet októbermánaðar í Reykjavík gæti fallið.

31. okt. Spár um bráðnun hafíssins sífellt dramatískari. Vegna fréttar Mbl um bráðnun hafíssins.

5. nóv. Vandræðaþjóðin Kúrdar. Nú gerast Kúrdar ágengir við Tyrki sem vilja stuðning USA í baráttunni gegn þeim. Á George Bush nú að snúa við þeim baki sem hann vildi áður verja?

7. nóv. Bjartari framtíð og hlýnandi loftslag? Enn fjalla ég um loftslagsmál. Hér er skrifað út frá grein á vefnum NASA Earth Observatory um hnattrænar hitamælingar og áhrif agnarmengunar á hitafar jarðar.

8. nóv. Umtalsverð vitleysa. Mitt mat á mati umhverfisstofnunar um að heildaráhrif Bitruvirkjunnar séu ekki umtalsverð.

10. nóv. Spáð í norðurljósin. Um það hvers vegna lítið hafi sést til norðurljósa og bent á vef sem birtir spár um norðurljós.

12. nóv. Hvað með vindorkuna? Hér er velt vöngum yfir vindorku og fjallað um nýja gerð túrbínuvindmylla.

16. nóv. Allt er í heiminum hverfullt. Til heiðurs Jónasi Hallgrímssyni á degi íslenskrar tungu.

17. nóv. Staðreyndir um staðreyndir. Vegna fréttar Mbl um nýja samantekt vísindanefndar sameinuðu þjóðanna. Skrifaði þetta eins og oft áður til að vega upp á móti skrifum efasemdarmanna um hlýnun af mannavöldum.

18. nóv. Horft til Esjunnar. Til heiðurs Esjunni sem endar á gönguferð á Esjuna. Myndaalbúm úr þeirri ferð fylgir.

19. nóv. Snjór síðustu 20 árin. Mikið bloggað þessa daga. En hver vill ekki sjá á einni mynd hvenær snjór hefur þakið jörð höfuðborgarinnar síðustu 20 ár? Hér hef ég útbúið þannig mynd útfrá eigin athugunum. (Föst síða)

22. nóv. Ísinn mættur á svæðið. Þarna var hafísinn orðinn nærgöngull við ísland og því kemur hér enn einn hafíspistillinn.

25. nóv. Þannig gæti Lækjargata 2 litið út. Um það hvernig ég vil sjá húsið að Lækjargötu 2 endurbyggt eftir brunann í vor. Sjón er sögu ríkari á hér vel við.

28. nóv. Landsynningi og útsynningi gerð skil. Hér er mikil lexía um veðurfræði þar sem þessi orð eru útskýrð fyrir landslýð. Einnig er fjallað um skil og fárast yfir að skilum séu gerð lítil skil í veðurfréttum.

1. des. Veðurfréttir. Stutt yfirlit yfir veðrið í nóvember, einkunnagjöf mánaðarins og aðeins um horfurnar til ársloka.

6. des. Um eldvirkni á Reykjanesskaga. Þarna er fjallað um helstu eldstöðvarnar á Reykjanesskaga og fjallað um hvað gerðist þarna á fyrstu öldum eftir landnám. Einnig velti ég vöngum yfir afleiðingum þess ef eldvirkni tekur sig upp á ný, sem gæti alveg gerst á næstunni.

9. des. Göngustígur við Eiðsgranda. Pistill í tilefni af því að eina ferðina enn hefur þurft að gera við göngustíginn þarna vegna sjávargangs.

11. des. Um Hverfisgötuna. Er Hverfisgatan falleg gata eða ekki? Hér er heilmikil ljósmyndasería sem gæti fengið marga til að sjá götuna í nýju ljósi.

13. des. Af desemberóveðrum. Mikið gekk á í veðrinu um þetta leyti en hér er þó aðallega verið að rifja upp hvað gerðist í desember 2006 sem var ekki síður merkilegt.

14. des. Þrumu-útsynningur. Skrifað í tilefni þess að sást til eldinga SV-lands.

18. des. Valdabarátta heita og kalda loftsins. Enn ein veðurfærslan og nú um harða baráttu heitra og kaldra loftmassa hér við land.

22. des. Vetrarsólstöður, sólin og jólin. Er það tilviljun að sólin sest bakvið Keili við vetrarsólstöður séð frá Reykjavík? Í goðadýrkun ásatrúarinnar gegndi sólin miklu hlutverki, og ýmsir viðmiðunarpunktar í landslagi voru notaðir sem sólaralmanak. Á kristin trú sér sömu fornu rætur og önnur trúarbrögð þar sem vetrarsólstöður tákna fæðingu nýs frelsara?

24. des. Jólatunglið yfir Esjunni. Skrifað um jólatunglið sem skartaði sínu fegursta yfir Esjunni og miðbænum á Þorláksmessu.

25. des. Appelsínugul jól á vefmyndavél. Í hríðarveðri á jóladag urðu jólin appelsínugul á vefmyndavél Veðurstofunnar.

28. des. Hlýjasti áratugurinn. Fyrsti áratugur þessarar aldar stefnir í að verða sá hlýjasti í Reykjavík frá upphafi mælinga. Hér er dálítið fjallað um þessi hlýindi og súlurit sýnir samanburðinn við fyrri áratugi.

Þannig lítur þetta út lesendur góðir, síðasta bloggfærslan er svo náttúrulega þessi sjálf. Ég þakka öll innlit og ábendingar. Þótt traffíkinn á síðunni hafi aldrei verið gríðarleg og verður það sjálfsagt ekki þá mun ég halda þessu áfram um sinn, allavega meðan hægt er að gera eitthvað veður útaf hlutunum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband