Færsluflokkur: Veður
2.1.2023 | 15:21
Reykjavíkurhiti 2022 í súluriti
Hitafar í Reykjavík var nokkuð upp og ofan á árinu 2022 sem er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt en helst eru það síðustu tveir mánuðirnir sem skera sig meira úr en aðrir, eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti sem ég hef föndrað saman og sýnir sýnir hitafar mánaðanna. Bláu súlurnar standa fyrir meðalhita áranna 1991-2020, sem nú telst vera opinbert viðmiðunartímabil, en rauðleitu súlurnar standa fyrir hið nýliðna ár.
Þarna má sjá að árið hófst á sæmilega hlýjum janúar en síðan tók við kaldur og illviðrasamur febrúar sem auk þess einkenndist af erfiðum snjóþyngslum í borginni. Svo kom mars með ágætis hlýindum en þeim fylgdi reyndar metúrkoma fyrir marsmánuð í borginni. Áfram var fremur hlýtt út vorið en um miðjan júní kárnaði gamanið því sumarhitar náðu sér varla á strik fyrr en komið var fram í september, sem endaði frekar hlýr. Októberhitinn var alveg í meðallagi, en þá tók við afskaplega hlýr og þægilegur nóvember sem meira að segja var ögn hlýrri en október. Góðviðri hélt áfram í desember en um þann 10. hófst þessi óvenjulegi kuldakafli sem hélst út árið samhliða háum loftþrýstingi og sólbjartri tíð sem sló út fyrri desembersólarmet í þessum annars dimma mánuði. Það er kannski ekki búið að gefa það út opinberlega en svo virðist sem þetta hafi verið kaldasti desember í Reykjavík síðan 1916, sem var jafn kaldur með meðalhita upp á -3,9 stig. Snjórinn lét hins vegar ekki sjá sig í borginni þetta haustið fyrr en föstudagskvöldið 17. desember og hélst með viðbótum út árið.
Þessi kaldi desember er merkilegur því hann sýnir að enn getur orðið mjög kalt hér á landi þrátt fyrir hlýrra veðurfar á þessari öld. Miðað við aðra almanaksmánuði þá má finna sambærilega eða ögn kaldari mánuði þegar kaldast var á seinni hluta síðustu aldar, eins og janúar og febrúar 1979 og svo janúar 1984. Desember 1973 var fram að þessu kaldasti desember á seinni áratugum en meðalhitinn var þá (-3,7 °C).
Svo er það árshitinn. Hann var, þrátt fyrir þennan kalda desember, í meðallagi miðað við viðmiðunartímabilið 1991-2020 eða 5,1 stig, eftir því sem ég fæ út. Þetta er vissulega eitthvað kaldara miðað við hitann það sem af er öldinni, en sögulega séð bara nokkuð gott og á sömu slóðum og þegar hlýjast var á síðustu öld - sem elstu borgarar ættu að muna ágætlega.
- - -
Höfundur þessarar bloggfærslu er áhugamaður um veðurfar og er sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur (hvað sem það þýðir).
Veður | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2021 | 22:37
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar allnokkrar og koma hér í öfugri tímaröð.
Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séð frá borginni vera nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Ekki er þó mikill munur á hitastigi tveggja fyrstu áratuganna en auk hitans þá hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur sín áhrif.
Að þessu sinni var veturinn óvenju snjóléttur í borginni og ber Esjan þess greinileg merki. Vorið lætur hins vegar bíða eftir sér. Talsverðir kuldar hafa verið síðustu daga með tilheyrandi snjókomu sem aprílsólin hefur átt fullt í fangi með að bræða. Henni hafði þó orðið nokkuð vel ágengt daginn sem aprílmynd ársins var tekin og ekki annað að sjá en að í grunninn séu Esjuskaflar með minna móti miðað við flest önnur ár. Það skal þó tekið fram að snjóað hefur í Esju eftir að myndin var tekin og á sjálfsagt eftir að gera það nokkrum sinnum aftur, áður en sumarið gengur endanlega í garð. Það breytir þó ekki því að Esjan er snjólétt og ætti í venjulegu sumri að eiga ágætis möguleika á að hreinsa af sér allan snjó fyrir haustið.
Veður | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2020 | 21:00
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Samkvæmt venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar 15 talsins og koma hér fyrir neðan í öfugri tímaröð ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum frá borginni séð.
Í fyrrasumar, eftir nokkurra ára bið, náði fjallið loksins að hreinsa af sér allan snjó en það hafði ekki gerst síðan 2012. Snjór hvarf hinsvegar í fjallinu allan fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Þessi annar áratugur aldarinnar hefur reyndar ekki verið neitt kaldari að ráði, en úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur haft sín áhrif. Einnig spilar inn í að ef skafl lifir eitt sumar, leggst hann undir það sem bætist við veturinn eftir og því þarf meira til sumarið eftir.
Esjumynd þessa árs var tekin þann 9. apríl og er heldur dimmara yfir henni en öðrum. Það hefði verið hægt að taka bjartari mynd nokkrum dögum fyrr ef ljósmyndarinn og bloggarinn hefði hreinlega munað eftir því á þessum farsóttartímum. Vel sést þó að Esjan er fínflekkótt af snjó niður á láglendi enda stutt síðan snjóaði í byggð. Best er að spá sem minnstu hvort sumarið dugi til að bræða lífseigustu skaflana. Það veltur á sumrinu sem enginn veit hvernig verður.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2020 | 00:55
Reykjavíkurhiti í kubbamynd
Árið 2019 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,8 stig sem er tæpum 0,3 stigum ofan við meðalhita þessarar aldar og 1,5 gráðum yfir 30 ára "kalda" meðaltalinu frá 1961-1990 og um 0,8 stigum yfir "hlýja" 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var því eitt af þessum hlýju árum sem hafa verið allnokkur á þessari öld samkvæmt veðurstofugögnum sem unnið er útfrá. Einnig er þetta eina árið með meðalhitann 5,8 stig og má því segja að kominn sé árshiti sem vantaði í safnið, eða í kubbamyndina hér að neðan.
Nýliðið ár er annars álíka hlýtt og þau hlýjustu frá tímum gömlu hlýindanna á síðustu öld, en þó er ekki alveg hægt að negla slíkt alveg niður vegna breyttra staðsetninga á athugunarstöðum. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Flestöll ár þessarar hafa haldið sér yfir 5 stigunum en árið 2015 er afgerandi kaldasta árið með meðalhitann 4,5 stig sem einhvertíma hefði þótt í lagi. Efst trónir árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er hinsvegar síðasta afgerandi kalda árið (3,8°C) og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.
Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Að loknum fyrsta áratug þessarar aldar fannst mér það sjálfum frekar ólíklegt. Þessi annar áratugur aldarinnar hefur þó haldið vel í þann fyrsta, meðalhitinn er þó örlítið lægri, en aðallega þó vegna ársins 2015 sem minnir á að ekkert er alveg komið til að vera.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2019 | 22:50
Hversu gott var sumarið í Reykjavík?
Ég er auðvitað ekkert fyrstur með fréttirnar að veðrið í sumar hafi verið með allra besta móti suðvestanlands. Mínar prívat veðurskráningar, sem miðast við Reykjavík og hafa staðið yfir frá 1986, staðfesta það auðvitað, en þær veðurskráningar innihalda einkunnakerfi sem byggja á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi og fær þar hver dagur einkunn á skalanum 0-8, eins og ég hef oft nefnt á þessum vettvangi. Einkunnir yfir lengri tímabil eru síðan meðaltal þeirra daga sem taldir eru með. Súluritið hér að neðan er ein afurðin úr þessum skráningum en þar má sjá gæðasamanburð allra sumra frá árinu 1986 og er þá miðað við mánuðina þrjá: júní, júlí og ágúst. Útkoman er ekki fjarri því sem kom fram á Hungurdiskunum hans Trausta hér á dögunum þar sem allt annarri aðferð er beitt en sumareinkunn mín fyrir þetta sumar er þó lítið eitt hærri.
Eins og sést á súlunni lengst til hægri var sumarið 2019 meðal hinna þriggja bestu á tímabilinu með einkunnina 5,30 sem er það sama og sumarið 2009 fékk, en vinninginn hefur sumarið 2012 með ögn hærri einkunn, 5,33. Þetta er auðvitað mikil umskipti frá sumrinu í fyrra sem var það næst lakasta á eftir leiðindasumrinu 1989. Landsmenn eru gjarnan misheppnir eða óheppnir með sumarveðrið eftir landshlutum en síðustu tvö sumur hafa öfgarnar í þeim efnum verið með mesta móti og þarf ekki að orðlengja það.
Næsta mynd er einnig unnin upp úr veðurdagbókarfærslum en þar er búið brjóta til mergjar sumarveður alla daga frá árinu 2000 með litaskiptingum sem útskýrð eru undir myndinni. Fjöldi skráðra sólardaga er einnig tekin saman lengst til hægri.
Síðustu tvö sumur eru á sitthvorum endunum þegar kemur að fjölda sólardaga. Sumarið 2019 státar af flestum sólskinsdögum á þessar öld, þegar teknir eru saman heilir og hálfir sólardagar, eða 48 talsins. Það kemur heim og saman við að ekki hafa mæst fleiri sólskinsstundir í Reykjavík þessa mánuði síðan 1929. Þarna ræður mestu mikill sólskinskafli langt fram eftir júní með tilheyrandi þurrkum og svo einnig fyrri partinn í ágúst. Júlí var ekki alveg eins sólríkur en státar þó af því að vera heitasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst í borginni, en það segir einnig sitt í sumareinkunninni.
Veður | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2019 | 21:56
Mánaðarmetin í Reykjavík
Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í apríl er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þó að meðalhiti þessarar aldar sé hærri en þegar best gerðist á síðustu öld eru metin samt sem áður frá ýmsum tímum og þá ekki síst frá hlýindaskeiði síðustu aldar sem stóð yfir í um 40 ár. Til grundvallar þeim samanburði sem hér fer á eftir eru tölur frá Veðurstofunni eins og þær eru birtar á Veðurstofuvefnum og ná allt aftur til ársins 1866. Eitthvað mun vera búið að aðlaga eldri tölur til að gera þær samanburðarhæfar við nútímann enda hafa staðsetningar og aðstæður breyst með tímanum.
Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2009-2018 eins og ég hef reiknað þau. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé alveg villulaus en þó er aldrei að vita nema svo sé.
Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík:
Janúar 1964: 3,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,2°C)
Hér er það janúar 1964 sem er handhafi mánaðarmetsins en þarna var farið að styttast mjög í lok hlýindaskeiðs síðustu aldar sem hófst um 1926. Það gerist annars ekki oft að meðalhitinn í janúar fari yfir 3 stig. Næsthlýjastur er janúar 1947 með 3,3 stig og svo náði janúar 1987, 3,1 stigi. Hlýjastur á þessari öld er janúar 2013 með 2,7 stig.
Febrúar 1932: 5,0°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,4°C)
Mjög afgerandi hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við í mælingasögunni. Sá mánuður sem kemst næst því er febrúar árið 1965 þegar meðalhitinn var 4,0 stig á lokaári gamla hlýindaskeiðsins og svo árið 2013 þegar meðalhitinn var 3,9 stig.
Mars 1929: 5,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,8°C)
Fyrstu þrír mánuðir ársins 1929 voru allir mjög hlýir og enn hefur enginn mánuður slegið út metmánuðinn mars það ár. Sá eini sem hefur komist nálægt því er mars 1964 þegar meðalhitinn var 5,7 stig. Þrátt fyrir að nokkra hlýja marsmánuði á þessari öld hefur þó engin náð 4 stigum en hæstur var meðalhitinn 3,9 stig árið 2004.
Apríl 2019: 6,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 3,8°C)
Þetta splunkunýja mánaðarmet slær út fyrra mánaðarmet, 6,3 stig frá þjóðhátíðarárinu 1974. Í þriðja sæti er apríl á hinu mjög svo hlýja ári 2003, 6,2 stig og í fjórða sæti er apríl 1926 með 6,0 stig.
Maí 1935: 8,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 6,9°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur komist næst því, með 8,7 stig. Tveir mánuðir á þessar öld eru á svipuðum slóðum í 3.-4. sæti með 8,6 stig, en það eru maí 2008 og 2017.
Júní 2010: 11,4°C (Meðalhiti 2009-2018: 10,1°C)
Nokkrir mjög hlýir júnímánuðir hafa komið á þessari öld og ber þar hæst metmánuðinn árið 2010 sem náði 11,4 stigum og sló út fyrra met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Júnímánuður 2003 er reyndar ekki einn um þá tölu því sé farið aftur um aldir þá var meðalhitinn einnig 11,3 stig árið 1871 sem hefur verið mjög sérstakt á þeim tímum. Á hlýindaskeiði síðustu aldar náði júníhitinn einu sinni 11 stigum en það var árið 1941 þegar meðalhitinn var 11,1 stig.
Júlí 1991 og 2010: 13,0°C (Meðalhiti 2009-2018: 11,9°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og var mánuðurinn sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík þar til metið var jafnað á methitasumrinu 2010. Einnig var mjög hlýtt í júlí 2007 og 2009 þegar meðalhitinn náði 12,8 stigum sem og árið 1936 á hlýjasta áratug síðustu aldar. Hér má líka nefna mjög hlýjan júlí árið 1917 sem náði 12,7 stigum, aðeins hálfu ári áður en frostaveturinn mikli var í hámarki.
Ágúst 2003: 12,8°C (Meðalhiti 2009-2018: 11,2°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða í ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði bara öðru sæti með 12,6 stig. Merkilegt er að með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig. Þannig gátu sumrin einnig verið hlý í gamla daga þrátt fyrir kaldara veðurfar.
September 1939 og 1958: 11,4°C (Meðalhiti 2009-2018: 8,6°C)
Hér eru tveir ofurhlýir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiði síðustu aldar. Á eftir þeim kemur svo september 1941 með 11,1 stig. Á síðari árum hefur meðalhitinn í september ekki náð að ógna þessum metmánuðum en það sem af er öldinni hefur meðalhitinn komist hæst í 10,5 stig árið 2006.
Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 5,3°C)
Október á þessu herrans ári bauð upp á óvenjumikil hlýindi sem enn hafa ekki verið slegin út sé allri óvissu sleppt, og er október því handhafi elsta mánaðarmetsins í Reykjavík. Stutt er þó síðan að hörð atlaga var gerð að metinu því árið 2016 náði meðalhitinn í október 7,8 stigum. Einnig var mjög hlýtt í október 1946 og 1959 sem báðir náðu 7,7 stigum.
Nóvember 1945: 6,1°C (Meðalhiti 2009-2018: 2,7°C)
Enginn vafi er hér á ferð enda er nóvember 1945 afgerandi hlýjastur hingað til. Næstur honum kemur nóvember árið 2014 með 5,5 stig en þar fyrir utan er það bara nóvember árið 1956 sem hefur náð 5 stiga meðalhita, en ekki meira en það þó.
Desember 2002: 4,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 0,5°C)
Hlýjasti desember kom snemma á þessari öld en annars eru vetrarhitametin öll frá fyrri tíð. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig sem er varla marktækur munur. Til marks um hversu hlýtt hefur verið þessa mánuði er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn í desember ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar hann vippaði sér óvænt upp í 4,2 stig.
- - - -
Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Sumarmánuðirnir á þessari öld hafa verið duglegri en vetrarmánuðirnir að slá út fyrri met, hvernig sem á því stendur. Sum metin virðast ansi erfið við að eiga, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður þá hlýtur annað eins að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum. Uppskriftin að hlýjum mánuðum í Reykjavík er yfirleitt bara nógu miklar suðaustanáttir eða hlýtt loft af þeim uppruna, eins og raunin var núna í apríl. Öfgar í þessum efnum geta síðan skilað sér í metmánuðum á hvaða tímum sem er.
Hér að neðan hef ég raðað metmánuðunum niður á köld og hlý tímabil frá 1866. Hlýindaskeið síðustu aldar sem stóð í um 40 ár hefur enn vinninginn í fjölda metmánaða hér, en hafa má í huga að núverandi hlýindaskeið hefur aðeins staðið í um 23 ár og sér svo sem ekki fyrir endann á því.
1866-1925 (kalt): október.
1926-1965 (hlýtt): janúar, febrúar, mars, maí, september og nóvember.
1966-1995 (kalt): júlí.
1996-2019 (hlýtt): apríl, júní, júlí, ágúst og desember.
- - - -
Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:
Mánaðargildi fyrir valdar stöðvar og hér: Lengri meðalhitaraðir fyrir valdar stöðvar
Veður | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2019 | 21:06
Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa
Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu vikuna í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar 14 talsins og koma hér fyrir neðan í öfugri tímaröð ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum frá borginni séð.
Nú er nokkuð um liðið síðan Esjan varð alveg snjólaus en það gerðist síðast árið 2012. Aftur á móti þá hvarf snjór í fjallinu allan fyrsta áratug þessarar aldar (2001-2010) og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Sumarið 2011 var reyndar alveg á mörkunum og því næstum hægt að tala um 12 ára tímabil sem Esjan varð snjólaus. Þessi áratugur hefur reyndar ekki verið neitt kaldari að ráði en sá síðasti, en hinsvegar hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur haft sín áhrif. Einnig spilar inn í að ef skafl lifir eitt sumar þá leggst hann undir það sem bætist við veturinn eftir og þarf því meira til sumarið eftir.
Að þessu sinni eru Esjan vel hvít í efri hlíðum og smáskaflar ná langleiðina að fjallsrótum enda gerði duglega snjókomu í upphafi mánaðar en síðan þá hefur sólin talsvert náð að vinna á snjónum. Útsynningséljagangur einkenndi veðráttuna seinni hluta marsmánaðar en Esjan var reyndar orðin nokkuð snjólétt áður en til þess kom, þannig að mest áberandi snjórinn er tiltölulega nýr og þá væntanlega með minna mótstöðuafl en hinir eldri harðkjarnaskaflar sem undir lúra. Með hagstæðu tíðarfari ætti að vera mögulegt fyrir fjallið að hreinsa af sér allan snjó fyrir haustið. En það mun bara koma í ljós.
Veður | Breytt 7.4.2019 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2019 | 22:29
Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum
Þá er komið að síðasta hlutanum að sinni í þessari samantekt um veður og annað markvert á liðnum árum en nú eru það fjögur síðustu ár sem tekin verða fyrir. Fyrir utan allskonar pólitískar uppákomur er það hin mikla fjölgun ferðamanna og erlends vinnuafls sem helst er frásögum færandi á þessu uppgangstímabili sem mælist vel í fjölda byggingakrana. Vinsælir ferðamannastaðir og ekki síst miðbæjarlíf Reykjavíkur tók miklum stakkaskiptum þar sem ægði saman fólki frá öllum heimshornum og dugði íslenskan skammt vildu menn panta sér kaffi og meððí á rótgrónum kaffihúsum. Þessir ferðamenn virtust nokkur sælir með tilveruna þótt þeir hafi kveinkað sér sífellt meir undan verðlaginu. Misgóða veðráttuna á þessum fjórum árum létu þeir þó minna á sig fá. Eftir mjög hlýtt ár 2014 hófst þetta tímabil með kaldasta ári aldarinnar og óttuðust þá margir að hlýindaskeiðinu væri endanlega lokið enda hafði kólnað í Reykjavík um 1,5 stig á milli ára. En svo var þó ekki alveg því enn eitt óvenjuhlýja árið fylgdi strax í kjölfarið áður en það kólnaði á ný. Þannig vill þetta ganga fyrir sig. Nánar um það hér á eftir.
Miðbær Reykjavíkur á köldum nóvemberdegi árið 2017.
Árið 2015 var meðalhitinn í Reykjavík 4,5°C stig og eins og fyrr segir kaldasta árið það sem af er öldinni og veðurgæði heldur lakari en árin á undan. Fyrstu þrjá mánuðina og fram yfir miðjan apríl var veður mjög umhleypinga- og illviðrasamt á köflum auk þess sem hiti var í lægri kantinum. Um sumardaginn fyrsta snérist til kaldra norðlægra átta með bjartari tíð fyrir sunnan, en fyrir norðan lét vorið bíða eftir sér. Maímánuður var með allra kaldasta móti og í Reykjavík reyndist hann sá kaldasti allt frá hinum ofursvala maí 1979. Júní var lengst af frekar slakur sumarmánuður þar til hlýnaði nokkuð síðustu vikuna. Fyrri hluti ársins í Reykjavík var undir meðalhita áranna 1961-90 og þótti sérstakt. Sumarið varð þó heldur skárra í borginni en sumrin tvö árin á undan en júlí var nokkuð sólríkur í ríkjandi norðanáttum. Öllu síðra var norðan- og austanlands í júlí og ágúst. Veðrið í september slapp vel fyrir horn víðast hvar en síðustu þrír mánuðirnir voru úrkomusamir og reyndist árið í heild það úrkomusamasta frá 2007 í Reykjavík. Mikið fannfergi gerði í borginni í lok nóvember og dagana 2. til 4. desember mældist þar meiri snjódýpt en áður í þeim mánuði, 42-44 cm. Hélst sá snjór á jörðu út árið. Af fjölmörgum lægðum ársins mældist sú dýpsta milli jóla og nýárs, 930 mb, en svo lágur loftþrýstingur hefur ekki mælst á landinu síðan 1989.
Árið 2016 náði hitinn sér vel á strik á ný. Meðalhitinn í Reykjavík var 6,0 stig og árið með þeim allra hlýjustu sem mælst hafa þar, en á Vestfjörðum og víðar var árið jafnvel hlýjasta árið frá upphafi. Hlýnunin frá árinu á undan í Reykjavík var 1,5 stig sem er mesta hlýnun á milli tveggja ára í mælingasögunni. Jafnmikið hafði reyndar kólnað milli áranna tveggja á undan enda voru árin 2014 og 2016 jafn hlý. Árið 2016 byrjaði reyndar ekki með neinum sérstökum hlýindum. Meðalhitinn í janúar var í slöku meðallagi og einkenndist af eindregnum austanáttum en febrúar var kaldur og nánast alhvítur í Reykjavík. Í mars tók við hlýrri tíð sem hélst meira og minna út árið. Nokkuð þurrt var víðast hvar um vorið og einnig fram eftir júnímánuði. Júlí var mjög góður sumarmánuður sunnan- og vestanlands en heldur daprari fyrir norðan og austan. Veðurgæðum var síðan nokkuð vel útdeilt um landið í ágúst en í september rigndi heldur meira norðanlands en sunnan. Eftir frekar tíðindalausa tíð kom óvenjulegur októbermánuður með hlýjum og blautum suðaustanáttum. Víða á landinu var þetta hlýjasti október sem komið hefur og í Reykjavík hafði aldrei mælst önnur eins úrkoma í október. Áfram héldu hlýindi í nóvember og færðust jafnvel í aukana í desember. Síðustu daga ársins var veðrið rysjóttara og náði snjór að festast á jörðu til hátíðabrigða.
Árið 2017 var meðalhitinn í Reykjavík 5,5 stig sem er nálægt meðalhita aldarinnar það sem af er. Raunar var hiti ársins mjög svipaður og á árinu á undan þar til kom að síðustu tveimur mánuðunum sem voru allt annað en hlýir. Árið hófst með nokkuð mildum janúar með fjölbreytilegum veðrum en febrúar var mjög hlýr og snjóléttur á landinu. Í Reykjavík breyttist það á einni nóttu undir lok mánaðarins sem skilaði meiri snjódýpt en áður hafði mælst þar í febrúar, 51 cm. Ekki varð framhald á fannferginu en mars var mjög þægilegur víðast hvar og apríl einnig þótt blautur væri. Maí var að þessu sinni óvenju hlýr en að sama skapi úrkomusamur. Sumarið var frekar tíðindalítið í heildina. Sólarlítið var reyndar norðanlands framan af en það jafnaðist í júlí. Suðvesturlandið hafði síðan sólarvinninginn í ágúst. Hlýtt var í september og október. Eftir óvenjuleg hlýindi norðaustanlands í september tók mjög að rigna í suðausturfjórðungi sem gat af sér flóð og skriðuföll. Eftir ágætis hlýindi kólnaði mjög í nóvember, sérstaklega í nokkurra daga norðanskoti seinni hluta mánaðarins. Áfram var kalt í desember sem reyndist kaldasti mánuður ársins. Í Reykjavík endaði árið með algeru logni á gamlárskvöld með umtalaðri flugeldamengun.
Árið 2018 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum eftir að hlýna tók upp úr aldamótum. Þó vel fyrir ofan opinberan meðalhita sem er 4,3 stig og miðast við 1961-1990 sem var mun kaldara tímabil. Veðurfar ársins 2018 í Reykjavík þótti reyndar stundum minna á fyrri kulda- og vosbúðarár þegar verst lét og ekki fær árið háa einkunn samkvæmt einkunnakerfi mínu. Fyrstu tvo mánuðina var hitafar þó á eðlilegu róli í annars umhleypingasamri tíð. Fyrri partinn í mars var mjög sólríkt sunnanlands samhliða vetrarríki norðanlands en seinni hlutann snérist í hlýjar sunnanáttir sem lyfti meðalhita mánaðarins vel yfir meðallag. Hlýindi héldu áfram í apríl í ríkjandi austan- og suðaustanáttum. Í maí gekk hinsvegar á með stífum sunnan- og suðvestanáttum sem skiluðu mestu úrkomu sem mælst hafði í Reykjavík í maímánuði á meðan mun hlýrra og sólríkara var norðan- og austanlands. Svipuð tíð hélt áfram í júní sem reyndist sólarminnsti júní í Reykjavík síðan 1914 og sá kaldasti það sem af er öldinni. Þótti þarna mörgum borgarbúanum alveg nóg um. Um miðjan júlí snérist til heldur skárri tíðar og undir lok mánaðar rauk hitinn upp og náði 23,5 stigum í Reykjavík sem er mesti hiti sem mælst hefur í borginni frá hitametsdeginum sumarið 2008. Fremur svalt var á landinu frá ágúst til október miðað við mörg síðustu ár en þó ágætis veður suðvestanlands nema kannski í október. Síðustu tveir mánuðir ársins voru hinsvegar hlýir á landinu og lyftu meðalhita ársins í skikkanlegt horf. Dágóðar rigningar fylgdu sumum hitagusunum eins og úrhellið óvenjulega upp úr miðjum nóvember. Snjór var að sama skapi lítill sunnanlands á láglendi og til fjalla fram að áramótum. Hér má þó nefna að skaflar lifðu í Esjunni öll ár þessa tímabils og vantaði reyndar nokkuð upp á að þeir hyrfu á árunum 2015 og 2018.
Sjaldséðir skýstrókar og ranaský, mynduðust á Suðurlandi 2. og 24. ágúst og feyktu hinir síðari heilu þökunum af útihúsum. Annálaritari náði ljósmyndum einum sem myndaðist yfir Selvogi. Sjá umfjöllun í Fréttablaðinu.
Af öðrum þáttum náttúrunnar ber fyrst að nefna gosið í Holuhrauni sem enn var í gangi í ársbyrjun 2015. Það mikla hraungos fjaraði út í lok febrúar eftir 6 mánaða virkni. Ekki urðu fleiri gos á tímabilinu og enn gaus ekki í Kötlu sem um haustið 2018 náði 100 árum í hvíldarstöðu. Öræfajökull fékk hins vegar óvænta athygli með aukinni skjálftavirkni árin 2017 og 2018 og sér ekki fyrir endann á því.
Af hnattrænum vettvangi verður ekki hjá því komist að nefna að hitafar jarðar náði nýjum hæðum, fyrst árið 2015 sem var heitasta árið á jörðinni sem mælst hafði en árið 2016 bætti um betur og varð enn hlýrra. Hitaaukninguna má rekja til mjög öflugs El-Nino ástands í Kyrrahafinu veturinn 2015-16 sem lagðist ofan á hina almennu hnattrænu hlýnun sem sumir gera sér enn vonir um að séu ekki af mannavöldum, þeirra á meðal umdeildur forseti Bandaríkjanna. Þessi annáll tekur ekki afstöðu til þess en vísar í síðari tíma óskrifaða annála. Óvíst er hversu mikið hægt er tengja hnattræna hlýnun við þurrkana miklu í Kaliforníu og mannskæða skógarelda samfara þeim, eða myndum allnokkurra fellibylja sem ollu tjóni á Karíbahafi og Bandaríkjunum að ógleymdum þeim sem herjað hafa á Filippseyjar og Japan. Sífellt bætast við nýjar áskoranir þegar kemur að lifnaðarháttum mannsins hér á jörðu. Hið nýjasta í þeim efnum er plastúrgangurinn í höfunum en sá vandi kom svo sannarlega upp á yfirborðið árið 2018.
Látum þetta duga þótt ýmislegt fleira mætti nefna. Næsti fjögurra ára annáll verður auðvitað ekki tilbúinn fyrr en að fjórum árum liðnum en stefnt er að birtingu hans á þessum vettvangi þann 4. janúar 2023, kl. 20:23, hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.
Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi
Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð
Veður | Breytt 6.1.2019 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2018 | 23:59
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi
Árin fjögur sem nú verður fjallað um er ekki bara tímabil stórra atburða í sögu landsins heldur er það einnig merkilegt veðurfarslega séð og því verður þessi pistill af lengra taginu. Fram eftir árinu 2007 var ennþá allt á uppleið og Íslendingar á góðri leið með að sigra heiminn. Vendipunkturinn varð hinsvegar á miðju sumri sama ár þegar kólnun varð á erlendum fjármálamörkuðum og tímar lánsfjármagns á tombóluprís þar með liðnir. Og þar sem útrásin mikla hafði meira og minna verið fjármögnuð með lánum snérist þetta allt smám saman upp í eitt allsherjar ólán. Bólan sprakk svo um haustið 2008 þegar bankarnir féllu og í framhaldinu féll allt hvað um annað og þjóðin nánast á vonarvöl. Sjálf ríkisstjórnin sprakk (þó ekki bókstaflega) eftir búsáhaldabyltinguna í upphafi árs 2009. Erfiðir tímar tóku við þar sem mikið var þrasað og býsnast og sýndist sitt hverjum, ekki síst á hinum nýju samfélagsmiðlum, fyrst í bloggheimum og síðan á hinni nýtilkomnu fésbók. Og eins og stundum gerist í góðum ævintýrasögum þá fór auðvitað að gjósa ofan á allt annað, en það var reyndar gott og mikið gos sem spúði ösku yfir hafið - ekki síst til Breta sem áttu það svo sannarlega skilið eftir þá ósvífni að hafa sett á okkur hryðjuverkalög og krafið okkur um að standa skil á fjármagni sem útrásarmenn okkar véluðu útúr saklausu fólki þar í landi. En svo er það veðrið. Hvað það varðar er skemmst frá því að segja að á þessum árum héldu hlýindi áfram eins og ekkert hafði í skorist. Oftar en ekki lék veðrið við landsmenn, ekki síst Reykvíkinga sem þarna upplifðu hvert gæðasumarið á fætur öðru. Nánar um það hér á eftir þar sem farið er yfir tíðarfarið í stuttu máli.
Árið 2007 var hlýtt eins og undanfarin ár og mældist meðalhitinn í Reykjavík 5,5°C og er það sjöunda árið í röð sem meðalhitinn nær 5 gráðum. Árið byrjaði að vísu með frekar köldum og snjóþungum janúar en síðan tóku hlýindi við. Í febrúar var nærri stöðug austanátt og var mánuðurinn sá sólríkasti í borginni síðan 1947. Mars og apríl voru breytilegir en óvenjuleg hlýindi gerði í tvígang norðan- og austanlands í apríl með yfir 20 stiga hita þar sem mest var. Maí var síðan dæmigerður norðanáttamánuður með bakslagi í hita. Sumarið 2007 var hinsvegar mjög gott á landinu. Í júní færðist sólskin í aukanna eftir því sem á leið og var ríkjandi bjartviðri meira og minna suðvestalands fram í ágúst. Óvenju þurrt var ekki síður fyrir norðan í júní þegar einungis mældust 0,4 mm á Akureyri. Júlí var mjög hlýr og sá næst hlýjasti í Reykjavík frá upphafi (12,8°). Eftir allt þurrviðrið þá stal úrkoman algerlega senunni síðustu mánuðina en árið endaði sem úrkomumesta árið í Reykjavík frá 1921. September, október og desember voru umhleypingasamir og einstaklega úrkomusamir. Desember setti reyndar úrkomumet auk þess að vera óveðrasamur og sveiflukenndur í hita. Þrátt fyrir stormasöm áramót voru öflugar góðærisbombur sprengdar til að fagna nýju ári enda vissu fæstir hvað næsta ár myndi bera í skauti sér.
Árið 2008 var meðalhitinn 5,3°C í Reykjavík. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur en ólíkt mörgum nýliðnum árum var lítið um langvarandi vetrarhlýindi. Nokkuð harkalega vetrartíð gerði upp úr miðjum janúar og framan af febrúar. Mars og apríl voru hinsvegar betri. Nú bar svo við maímánuður var hlýr, en í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan 1960. Áfram héldu hlýindi yfir sumarmánuðina en júní var einstaklega þurr og sólríkur suðvestanlands og sá næst sólríkasti í Reykjavík frá upphafi. Sólin skein þó víðar og var sumarið t.d. það fjórða sólríkasta á Akureyri. Undir lok júlí gerði hitabylgju og var þá nýtt hitamet sett í Reykjavík þegar hámarkshitinn mældist 25,7 stig en eldra metið hafði verið sett í ágústhitabylgjunni 2004. Stuttu eftir að landsmenn höfðu fagnað Ólympíusilfri í handbolta tók gamannið að kárna með rysjóttri tíð í september. Svo kom október, sjálfur hrunmánuðurinn, með kaldri tíð frá fyrsta degi og snjóaði þá strax í fyrstu viku mánaðarins í Reykjavík. Þjóðin hafði um annað að hugsa en veðrið síðustu mánuðina en annars voru nóvember og desember ekki svo slæmir nema svona inn á milli eins og gengur.
Árið 2009 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6°C og því ekkert lát hlýindum og góðri tíð þótt annað væri uppi á teningnum í landsmálum. Á tímum búsáhaldabyltingarinnar í janúar var hitinn ofan frostmarks. Dálítið kuldakast gerði fyrri hluta febrúar en annars var veturinn í mildari kantinum. Maí var sólríkur og mjög hlýr um miðbikið. Eftir sæmilegan júní kom alveg einstaklega góður júlímánuður sem í Reykjavík var með þeim allra sólríkustu og hlýjustu sem komið hafði og var auk þess sá þurrasti í borginni frá 1889. Víða um sveitir þótti þurrkurinn þó fullmikill. Eitt norðanskot gerði reyndar seint í mánuðinum en annars var hlýtt og náði hitinn tvisvar 21 stigi Í Reykjavík. Góð sumartíð helst þar til seint í september þegar kólnaði talsvert og eins og árið áður var kalt fyrri hlutann í október. Síðan var frekar milt um haustið þar til kuldinn náði völdum þegar líða fór að jólum. Fyrir norðan var óvenju úrkomusamt og reyndar hafði ekki mælst meiri úrkoma í desember á Akureyri.
Um árið 2010 er það helst að segja að lengi getur gott batnað en þetta var óvenju hagstætt ár veðursfarslega séð með stöku undantekningum eins eðlilegt er. Þetta á þó frekar við um landið sunnan- og vestanvert, en norðan- og austanlands var tíðarfarið nær því sem eðlilegt er. Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,9°C sem gerir árið eitt af þeim allra hlýjustu en auk þess var árið með þeim allra sólríkustu og þurrustu í borginni. Í takt við það var meðalloftþrýstingur sá hæsti sem mælst hefur. Janúar byrjaði frekar kaldur en svo tóku hlýindi völdin þar til kólnaði seinni hlutann í febrúar. Mars var lengst af hlýr þar til lokin en annars var mjög snjólétt víðast hvar þessa vetrarmánuði. Apríl var að þessu sinni kaldari í borginni en mars og auk þess þurr. Maí var almennt góður og hlýr. Svo kom sumarið og það reyndist vera eitt það allra hlýjasta sunnan- og vestanlands en helst eru það hin margrómuðu ár 1939 og 1941 sem veita þessu sumri samkeppni og reyndar árinu í heild. Austfirðingar voru að vísu ekki sérlega kátir með sumarið en þeir áttu það til að voru nokkuð áveðurs að sumarlagi þessi ár. Þurrkar voru enn og aftur ríkjandi víða, að þessu sinni aðallega í júní sem einnig var mjög hlýr, jafnvel methlýr sumstaðar vestanlands, þar á meðal í Reykjavík. Og það sem meira er, þá var meðalhitinn í borginni heil 13,0 stig í júlí en aðeins hitabylgjumánuðurinn júlí 1991 hefur náð þeirri tölu í höfuðborginni. Áfram var hlýtt í ágúst og fram í október. Að vísu var ekkert óvenju sólríkt um sumarmánuðina en ágætt þó. Til marks um tíðarfarið þá var lítill snjór í fjöllum eftir sumarið sunnan- og vestanlands og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Esjan varð alveg snjólaus um miðjan júlí sem er óvenju snemmt en annars var þetta 10 árið í röð sem skaflar hverfa úr Esjunni. Þegar aðeins tveir mánuðir voru eftir af árinu 2010 var það alveg í dauðafæri með að verða allra hlýjasta árið suðvestanlands en kaldur nóvember kom í veg fyrir það. Þá var mjög þurrt sunnanland en snjóþungt fyrir norðan. Svipað var í desember sem átti annars sína köldu og hlýju daga.
Af náttúrufarslegum atburðum skal fyrst nefna öflugan jarðskjálfta uppá 6,3 stig í lok maí árið 2008 með upptök í Ölfusi sem olli nokkru tjóni þar um kring. Þetta var einskonar framhald skjálftanna árið 2000. Eldgosið sem getið er um í inngangi er auðvitað gosið í Eyjafjallajökli en forsmekkurinn að því var lítið hraungos á Fimmvörðuhálsi sem hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og var mörgum til skemmtunar. Aðfaranótt 14. apríl hófst síðan gosið í Eyjafjallajökli sem vakti heimsathygli. Sú athygli reyndist vera afar jákvæð landkynning þrátt fyrir hafa teppt flugsamgöngur í Evrópu. Hin furðulega eyja í norðri var þarna allt í einu orðin áhugavert land til að heimsækja og ekki síst ódýrt. Upp úr rústum hrunsins fóru hótelbyggingar brátt að rísa og á næstu árum fóru hjól atvinnulífsins smám saman að snúast á ný og brúnin að lyftast á landsmönnum. Ljúkum þessu að venju með veðurgrafík:
Um myndirnar er það að segja að meðalhitatölur er fengnar af vef Veðurstofunnar og ekki meira um það að segja. Veðureinkunnirnar koma úr mínum eigin veðurskráningum og fundnar út með því að skipta veðrinu á hverjum degi í fjóra þætti, sól, úrkomu, vind og hita. Hver veðurþáttur getur fengið 0, 1 eða 2 stig eftir því hvort sá þáttur er neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Hver dagur getur þannig fengið 0-8 stig í einkunn en mánaðareinkunn er síðan meðaltal allra einkunna mánaðarins. Það þykir slæmt ef mánaðareinkunn er undir 4 en gott ef hún er yfir 5 stigum. Á þessu tímabili 2007-2010 er aðeins einn mánuðir undir 4 stigum (september 2007). Hinsvegar er 5 stiga einkunnir óvenju margar og þarna birtist í fyrsta skipti dökkrauð einkunn yfir 5,5 stigum (júlí 2009).
- - -
Fyrri annálar í sama dúr:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veður | Breytt 24.11.2018 kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2018 | 21:59
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Árin fjögur sem nú verða tekin fyrir er mikið merkistímabil til sjávar og sveita sem og í kauphöllum. Tímabilið hófst með meiri hlýindum en verið hafa hér landi á síðari tímum, og þrátt fyrir dálítil bakslög inn á milli þá voru öll árin hlý. Óhjákvæmilegt var að tengja þessi hlýindi við hina almennu hnattrænu hlýnun af mannavöldum þótt vissulega gátu duttlungar náttúrunnar einnig hafa komið þar nærri. En allavega, þá voru þarna fjölmörg ný hitamet sett á landinu og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Og ekki nóg með það. Þetta voru miklir uppgangstímar í fjármálalífinu þar sem okkar snjöllu og útsjónarsömu útrásarvíkingar lögðu land undir fót og voru á góðri leið með að gera Ísland að viðskiptastórveldi - miðað við höfðatölu. Allar skuldsetningar voru af hinu góða og allt kom út í plús enda var þetta góðæri ólíkt öllum hinum fyrri sem endað höfðu með skakkaföllum.
Árið 2003 var meðalhitinn í Reykjavík 6,1 stig og árið þar með það hlýjasta í borginni í mælingasögunni. Tvö ár á hlýskeiði síðustu aldar, 1939 og 1941, voru áður þau hlýjust (5,9°C) en þá voru mælingar gerðar í miðbæ Reykjavíkur þannig að samanburður við fortíðina er aldrei alveg nákvæmur. Hinsvegar ef árinu 2003 er hnikað aftur um tvo mánuði þá fæst 12 mánaða tímabil með meðalhitann 6,6 stig sem er alveg einstakt, enda voru síðustu tveir mánuðir ársins 2002 afar hlýir. Misjafn er síðan eftir landshlutum hvort 2003 hafi verið allra hlýjasta árið eða ekki. Á Akureyri var til dæmis hlýrra árið 1933. Annars voru allir mánuðir ársins 2003 yfir meðallagi í hita í Reykjavík, minnstur var munurinn í maímánuði sem var bara örlítið ofan við meðallag. Apríl var mjög hlýr, aðeins 0,1 gráðu frá meti 1974, en bæði júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík, enda fór svo að sumarið var það hlýjasta sem mælst hafði í borginni. Þrátt fyrir hlýindin þá var sumarið fremur úrkomusamt á landinu. Í Reykjavík var júní t.d. með þeim úrkomusamari frá upphafi. Annars var veður almennt gott á árinu nema þá helst í febrúar sem var frekar leiðinlegur og mjög úrkomusamur. Snjólétt var yfir vetrarmánuðina en árið endaði þó í kulda og snjóþyngslum dagana fyrir áramót.
Árið 2004 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6 °C. Þótt það sé hálfri gráðu kaldara en árið áður er það samt með hlýjustu árum. Fyrstu tvo mánuðina voru talsverðar sveiflur í hitafari en mars og apríl voru hinsvegar hlýir. Snjólétt var um veturinn, ekki síst til fjalla, skíðafólki til lítillar gleði. Það voraði snemma og sumarið var bæði hlýtt og frekar sólríkt. Hitinn í borginni náði 20° í júní sem telst ávallt til tíðinda. Mestu tíðindin voru hinsvegar hitabylgjan mikla í ágúst sem lifði lengst suðvestanlands. Hitinn fór þá yfir 20° í Reykjavík fjóra daga í röð og jafnvel einnig á nóttunni. Hæstur komst Reykjavíkurhitinn í 24,8° þann 11. ágúst sem var nýtt hitamet. Mestur hiti á landinu mældist þó á Egilsstöðum sama dag, 29,2 stig sem var nýtt landsmet fyrir ágústmánuð. Mjög misgott veður tók svo við um haustið með miklum hitasveiflum. Í október var hitinn undir meðallagi í fyrsta sinn í heila 30 mánuði. Kuldamet var slegið fyrir nóvember þegar næturfrostið í borginni fór niður í 15 gráður í annars frekar mildum mánuði. Í desember var veður hinsvegar mjög óstöðugt, bæði vindasamt og úrkomusamt.
Árið 2005 var meðalhitinn 5,1°C. Aftur kom því ár sem var hálfri gráðu kaldara en árið áður. Fyrstu vikurnar voru kaldar en í febrúar tóku við hlýrri S- og SV-áttir sem ollu því að mikill hafís tók að safnast saman fyrir norðan land, aldrei þessu vant. Hafísinn var mestur í mars en náði þó ekki landi að ráði nema vestur á Ströndum og við Grímsey. Þrátt fyrir hafísinn var mjög hlýtt í mars þriðja árið í röð. Dágóðan hlýindakafla gerði seinni partinn í apríl en seinni partinn í maí kólnaði heldur með þurrum en sólríkum norðanáttum. Ágætis veður var í júní og júlí fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí en ágúst var ekkert sérstakur. Haustið kom snemma að þessu sinni með snörpum norðanáttum og voru september og október samanlagt með allra kaldasta móti. Síðan tóku við umhleypingar sem héldust út árið.
Árið 2006 var hlýtt í Reykjavík, eða 5,4°C. Þetta var sjötta árið í röð sem árshitinn náði 5 stigum í borginni en það hafði ekki gerst áður. Fyrri part janúar var snjóþungt og kalt en síðan tók við milt veður og var febrúar sá hlýjasti síðan 1965. Miklir þurrkar voru SV-lands í mars og apríl sem ollu m.a. gífurlegum sinueldum á Mýrum. Eftir talsverð hlýindi á landinu fyrri partinn í maí, gerði ákaft norðanáhlaup með snjókomu norðanlands. Var það eitt sinn kallað Silvíu-Næturhretið hér á síðunni. Sumarið byrjaði hinsvegar mun betur fyrir norðan en þá var öllu þungbúnara suðvestanlands. Seinni hlutann náði sumarið sér betur á strik fyrir sunnan. Haustið var mjög hlýtt þangað til að gerði norðan leiðindi í nóvember með tilheyrandi frosti. Í desember voru nokkur hressileg illviðri og þegar verst lét vikuna fyrir jól gerði asahláku með miklum flóðum í ám sunnanlands og skriðuföllum fyrir norðan. Strandaði þá einnig flutningaskip við Hvalsnes. Á aðfangadag var 8 stiga hiti í Reykjavík og sjálfsagt veglegar góðærisjólagjafir í pökkum.
Af ýmsum tíðindum hér heima og erlendis á tímabilinu má nefna að í mars 2003 létu Bandaríkjamenn verða að því að ráðast inn í Írak með gríðarlegum hernaðarþunga. Engin fundust þó gjöreyðingarvopnin. Ísland var í hópi nokkurra viljugra þjóða sem studdi innrásina opinberlega. Það kom þó ekki í veg fyrir að Bandaríska varnaliðið yfirgæfi landið í lok september 2006. Miklar hamfarir urðu í Asíu um jólin 2004 eftir risajarðskjálfta vestur af Súmötru í Indlandshafi sem olli mjög mannskæðri flóðbylgju í ýmsum strandríkjum. Mest þó í Indónesíu. Í ágúst 2005 gekk fellibylurinn Katrín á land við New Orleans og olli meðal annars miklum flóðum í borginni. Hér heima voru náttúrufarsþættir smærri í sniðum. Eins og oft áður voru skjálftar við Kleifarvatn. Þeir stærstu urðu í ágúst 2003, 5 stig og síðan annar upp á 4,6 í mars 2006 skv. samtímaheimildum. Í júní 2004 varð skjálftahrina úti fyrir Eyjafirði en ekkert af þessu olli tjóni. Ekki frekar en eina eldgosið á tímabilinu sem kom upp í Grímsvötnum í byrjun nóvember 2004 og greinilegt að aukið líf var að færast í eldstöðvarnar í Vatnajökli. En ekki gaus Katla.
Að lokum kemur veðurgrafík með sama hætti og í fyrri annálum.
- - - -
Fyrri annálar í sama dúr:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)