Vitringarnir þrír í sögu Marco Polos

Vitringarnir þrír

Fræg er sagan í Mattheusarguðspjalli um vitringana þrjá sem komu frá Austurlöndum til Betlehem til að veita Jesúbarninu lotningu og færi því gjafir. Lítið annað fáum við að vita um þá, svo sem hvaðan þeir komu nákvæmlega, hverjir þeir voru og hvað á daga þeirra dreif í framhaldinu. Ýmsar sagnir eru þó til um þessa þremenninga og þar á meðal er frásögn í ferðabók Marco Polos er segir frá því er hann var á ferð í Persíu, þar sem núna er Íran, en þar hitti hann fólk sem kunni góð skil á vitringunum þremur og átrúnaði þeim tengdum og er meira að segja sagt frá því að líkamar þeirra séu vel varðveittir í grafhvelfingum. Nú veit maður ekki hversu mikið er til í þessu en það má taka fram að Marco Polo var þarna á ferð seint á 13. öld þegar hinir skelfilegu Mongólar höfðu lagt undir sig stóran hluta af Evrasíu en Marco Polo einmitt á leið austur á bóginn, ásamt föður sínum og frænda, til fundar við sjálfan Mongólaleiðtogann Kublai Khan.

Bókin um ferðir Marco Polos kom upphaflega út skömmu eftir heimkomu hans frá Austurlöndum og var reyndar skráð af samfanga Morco Polos er sá síðarnefndi sat tímabundið bak við lás og slá vegna þátttöku í sjóorrustu. Sú bók af ferðum Marco Polos sem ég hef undir höndum kom út árið 1940 í íslenskri þýðingu Haraldar Sigurðssonar, stytt og endursögð af Aage Krarup Nielsens, sem ég kann ekki deili á. Kaflinn í bókinni um vitringana þrjá kemur hér, eftir að ég hef stytt, endurraðað og endursagt að hluta. Skáletranir eru orðréttar:

Persía er stórt ríki, sem forðum var frægt og voldugt, en er nú herjað og eitt af Törtötum. Í Persíu er borgin Saba, en þaðan fóru vitringarnir þrír til þess að sýna Jesú Kristi lotningu. Þeir hvíla nú hlið við hlið í Saba í þremur stórum grafhvelfingum, en yfir hvelfingunum stendur ferhyrnt hús, og er því vandlega viðhaldið. Líkamar vitringanna hafa geymst órotnaðir með hári og skeggi. Einn vitringanna hét Caspar, annar Melchior og þriðji Baltasar.

Borgin sem þarna er nefnd Saba í bókinni heitir með réttu Saveh og mun vera nálægt Teheran. Mongólar eru þarna nefndir Tartarar. Sagt er frá því að íbúar Saba (Saveh) hafi haft litla þekkingu á þremenningunum sem þarna lágu. Þrjár dagleiðir frá Saba, kom Marco Polo hinsvegar að sveitaþorpi er nefnist Cala Ataperistan sem þýðir borg eldsdýrkendanna. Eins og nafnið ber með sér þá tilbáðu íbúarnir eldinn og kunnu sögu vitringanna þriggja öllu betur en íbúar Saba. Samkvæmt Marco Polo er frásögn íbúanna af vitringunum á þessa leið:

Í fyrndinni lögðu þrír konungar af stað í ferðalag frá landinu til þess að tilbiðja spámann, sem var í heiminn borinn. Þeir höfðu með sér þrjár tegundir fórnargjafa: gull, reykelsi og myrru, til þess að ganga úr skugga um, hvort spámaður þessi væri guð, jarðneskur konungur eða læknir. Konungarnir sögðu með sér: Veiti spámaðurinn gullinu viðtöku, þá er hann jarðneskur konungur, vilji hann reykelsi fremur, er hann guð, en taki hann myrruna, er hann læknir.

Samkvæmt frásögninni gengu vitringarnir, sem þarna eru nefndir konungar, fyrst fyrir Jesúbarnið einn í einu en þeim til furðu var alls ekki um neitt barn að ræða heldur virtist það vera jafnaldri hvers þeirra. Síðan segir: Konungunum kom ásamt um að ganga allir samtímis fyrir barnið og er þeir gerðu það, leit barnið út eins og náttúrulegast var en það var um það bil þrettán daga. Og konungarnir veittu barninu tilbeiðslu og báru fram gjafir sínar, gull, reykelsi og myrru. /Barnið tók við öllum gjöfunum/ og þegar konungarnir sáu það, sögðu þeir með sjálfum sér: Barnið er sannur guð, sannur konungur og sannur læknir. /Barnið/ rétti konungunum að launum litlar, lokaðar öskjur. Að því búnu héldu þeir heimleiðis til ríkja sinna. /Er þeir/ höfðu farið margar dagleiðir, fýsti þá að sjá gjöf barnsins. Þeir opnuðu öskjurnar og fundu þar lítinn stein /sem var/ tákn þess að sú trú sem nú var gróðursett í sál þeirra, skyldi dafna í sál þeirra og verða óbrotgjörn eins og steinn, því barnið vissi vel hvað konungunum var í huga.

En því miður þá misskildu konungarnir táknmál steinsins og köstuðu honum niður í næsta brunn. Í sama bili laust eldingu af himni niður í brunninn. Þegar konungarnir sá þetta jarteikn, urðu þeir forviða og hörmuðu sáran að hafa kastað steininum. Nú skildu þeir glöggt, að steinninn hafði mikilvæga, helga tjáningu. Konungarnir tóku nokkurn hluta logans og fóru með hann heim í lönd sín og komu honum fyrir í fagurri og skrautlegri kirkju. Síðan hefur eldur þessi brunnið stöðugt, og fólkið veitir honum tilbeiðslu eins og guði, og við eld þennan eru allar brennifórnir færðar. Slokkni eldurinn, er brugðið við og farið til annarra þorpa, þar sem sama trú ríkir, og eldurinn sóttur að nýju. Slíkar eru orsakir þess að fólk hér um slóðir tilbiður eldinn. Oft ber það við að sækja þurfi eldinn tíu dagleiðir. Þannig er saga sú, sem íbúarnir Cala Ataperistan sögðu herra Marco Polo. Þeir fullvissuðu hann um, að svona væri saga konunganna þriggja og einn þeirra hefði verið frá Saba, annar frá Ava og sá þriðji frá borg þeirri, sem enn í dag tilbiður eldinn eins og gert er um allar nærliggjandi slóðir.

Þannig hljóðar frásögnin um vitringanna frá Austurlöndum í bókinni um Marco Polo sem kom út hér á landi árið 1940. Ýmsar meiningar eru um hvaða menn þetta voru. Oftast tölum við um vitringa og þannig eru þeir nefndir í Biblíunni og í bókinni um Marco Polo, nema þar sem vitnað er í frásögn bæjarbúa Cala Ataperistan þar sem þeir eru nefndir konungar. Ef til vill voru þetta Zaraþústraprestar en Zaraþústratrúin er ein af elstu trúarbrögðum sögunnar og þar er eldurinn einmitt í hávegum hafður. Ferðalag vitringanna þriggja var mikil ferð en þó frekar stutt í samanburði við þær miklu vegalengdir sem Marco Polo átti eftir leggja undir fót en hann átti þarna langa ferð fyrir höndum til Mongólaleiðtogans Kublai Kahn sem þá sat í borginni Xanadu nálægt þar sem nú er Peking. Þaðan átti hann síðan eftir að ferðast um víða lendur Mongólaveldisins í þágu stórkahnsins áður en hann snéri til baka til Feneyja ásamt föður sínum og frænda árið 1269, eftir 24 ára ferðalag. Allt saman mikil saga og merkileg.

Frekari lesningu um vitringanna má finna hér: http://www.farsinet.com/wisemen/magi.html
Einnig héðan, þaðan sem myndin er fengin: https://en.wikipedia.org/wiki/Biblical_Magi


Bloggfærslur 26. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband