Kuldi hér en ekki allstaðar

Það hefur óneitanlega verið fremur kalt hér á Fróni undanfarið og verður væntanlega eitthvað áfram. Sjálfsagt finnst sumum svona kuldatíð passa illa við allt hlýnunartalið sem dynur á okkur í sífellu. Kannski er eitthvað til í því en samt er það þannig að þrátt fyrir hlýnun þá heyra kuldar ekki sögunni til og umfram allt þá geta hlýindi ekki verið allsráðandi allstaðar og alltaf. Á kortinu hér að neðan sést hvernig hitafarsstaðan er á stórum hluta Norðurhvels núna á sunnudaginn 10. desember. Þetta er ekki eiginlegur hiti heldur frávik frá meðalhita 1979-2000 (myndin er skjámynd af vefnum Climate Reanalyzer).

CR hitafar 9.des2017

 

Eins og sést þá er landið okkar á einum af köldu blettunum og er frávikið nálægt 10 gráðum undir meðallaginu. Á sama tíma er gjörvallt Grænland og svæði þar norður og vestur af undirlagt af fráviki sem er 10-20 stigum yfir meðallaginu. Aðra stóra hlýindabletti er einnig að finna og vissulega einhverja kuldabletti einnig. En það eru þó ekki margir sem njóta hlýindanna þessa dagana enda eru stóru jákvæðu frávikin á stöðum þar sem fátt er um fólk á meðan fjölmennustu svæði Evrópu og Bandaríkjanna eru úti í kuldanum. Kaliforníubúar njóta að vísu ágætis hlýinda en myndu örugglega sætta sig við annað veðurlag en það sem kyndir undir eldunum þar.

Þótt svona hlýindagusur séu ekkert einsdæmi á Norðurslóðum þá er þetta samt heilmikið frávik frá hinu venjulega. Hlýindi hafa annars verið viðloðandi Norðurslóðir yfir vetramánuðina á þessu ári en þó ekkert samanborið við árið í fyrra 2016 sem var alveg einstakt sökum hlýinda í norðri, þ.e. miðað við það sem venjulegt má kalla.

Hitamósaík Norðurlsóðir 1979-2017

Mósaíkmyndin hér að ofan finnst mér áhugaverð en hún er tekin saman af Zachary Labe og sýnir hvernig einstakir mánuðir, allt frá 1979, norðan við 70°N koma út hitafarslega séð með aðstoð talna og lita. Rauðir mánuðir með lágum tölum eru meira áberandi hin síðari ár og endurspegla hlýnunina sem átt hefur sér stað á tímabilinu. Árið 2016 hefur mikla sérstöðu enda voru 6 mánuðir þess árs þeir hlýjustu sem áður höfðu mælst. Allt voru það haust- og vetrarmánuðir þar sem ástandið hefur verið eittvað í líkingu við það sem uppi er þessa dagana.

Þessi óvenjulegu norðurslóðahlýindi hafa hinsvegar ekki verið eins áberandi að sumarlagi hin allra síðustu ár sem hefur örugglega haft sitt að segja að hafísbreiðan í norðri hefur ekki orðið fyrir eins miklum skakkaföllum að sumarlagi og annars hefði getað gerst. Í þessu sambandi sést á myndinni að sumarið 2017 frá maí til ágúst var alls ekkert hlýtt og júlí ekki í nema 29. sæti af 39 yfir hlýjustu mánuði norðan við 70°N. Ágústmánuðir síðustu þriggja sumra hafa einnig samkvæmt þessu einungis verið í sætum 20, 21 og 23 yfir þá hlýjustu og munar um minna varðandi ísbráðnun á þeim tíma sem meðalhitinn rétt hangir yfir frostmarki.

Þannig geta óvenjulegheit og furður hagað sér þegar kemur að hitafari. Verst er hinsvegar að aldrei er hægt að stóla á óvenjulegheitin eða vita fyrirfram í hvaða átt þær taka upp á að stefna.

 


Bloggfærslur 9. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband