Heimshiti og Reykjavíkurhiti 1901-2017

Mér finnst alltaf forvitnilegt að bera saman hitaþróun í Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2017 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum. Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita en heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Ég stilli ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita en út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Reykjavíkurhiti og heimshiti 1901-2017

Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróunin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju og köldu tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfir- og undirskot miðað við heimshitann.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn enda alveg á sömu slóðum á línuritinu. Í Reykjavík var hitinn á liðnu ári mjög nálægt meðalhitanum frá aldamótum. Hitinn í Reykjavík hefur reyndast sveiflast heilmikið á allra síðustu árum. Árin 2014 og 2016 voru nálægt árshitametinu frá 2003 en á milli þeirra féll meðalhitinn niður í 4,5 stig sem er kaldasta ár aldarinnar í borginni, þótt það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega kalt. Á heimsvísu er árið 2017 yfirleitt talið í 2.-3. sæti yfir hlýjustu árin. Auðvitað er alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Enginn vafi er þó á því að síðustu þrjú ár hafa verið mjög hlý á jörðinni sem einkum má rekja til öflugs El Nino ástands veturinn 2015-16.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan almennt er talið að það haldi bara áfram að hlýna. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár þá er ómögulegt að segja til um hvort það verði hlýrra en 2017 í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Á jörðinni í heild gæti árið 2018 orðið eitthvað kaldara en síðasta ár vegna kalds La Nina ástands í Kyrrahafinu og svo hjálpar ekki að sólvirkni er í lágmarki um þessar mundir. Varla er þó neitt hrun í heimshitanum framundan en næsti kippur upp á við verður svo þegar hinn hlýi El Nino bregður sér á leik á ný á Kyrrahafinu.

Benda má á hér í lokin að þessi mynd fer í geymslu í myndaalbúminu Veðurgrafík hér á síðunni en þar má finna ýmsar misnýlegar myndir sem ég hef sett upp.

 


Bloggfærslur 27. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband