Hitainnrás á sunnudegi

Á þessu sérstaka sumri þar sem hitinn hefur varla farið yfir 15 stigin í Reykjavík telst það til mikilla tíðinda að von sé á skammvinnri innrás af því mjög svo hlýja meginlandslofti sem legið hefur yfir Norður-Evrópu meira og minna í allt sumar. Reyndar eru svona hlýindagusur úr austri alltaf áhugaverðar enda gefa þær mestu líkurnar á því að hitinn fari yfir 20 stig hér í höfuðborginni. En þetta verða skammvinn hlýindi því kaldara og kunnuglegra sjávarloft fylgir strax í kjölfarið. Myndina hér að neðan hef ég sett saman út frá veðurkortum bresku veðurstofunnar MetOffice, sem sýna þróunina á einum sólarhring með aðstoð hefðbundinna rauðra hitaskila og blárra kuldaskila.

Hitabylgja_29jul2018

Á fyrsta kortinu kl. 01.00 á sunnudag má sjá hvernig lægð við Skotland beinir hlýjum massanum hingað til okkar. Rauðu hitaskilin eru þarna komin yfir landið en þó rignir sennilega enn úr þeim allra suðvestast. 

Á miðjukortinu sem gildir upp úr hádegi, sunnudaginn 29. júlí, eru hlýindin í algleymingi. Mest þó í landáttinni vestanlands þar sem hægt er að gera sér vonir um meira en 20 stiga hita. Sjálfvirkar spá nefna allt að 25 stiga hita í Reykjavík sem væri talsverður viðburður. Minna má á að hið opinbera hitamet í Reykjavík er 25,7 stig frá 30. júlí 2008 sem er nánast alveg fyrir 10 árum. Munar bara einum degi. Maður gerir auðvitað ekki ráð fyrir að 25 stiga spáin rætist en möguleikinn virðist vera til staðar.

Á þriðja kortinu kl. 01.00 á mánudag er gamanið búið og loft af hefðbundnari uppruna fyrir okkur hefur náð yfirhöndinni að nýju á öllu landinu. Hlýi geirinn hefur verið hrakinn til vesturs,  væntanlega með góðum dembum þegar kuldaskilin fara yfir, kannski með skammvinnu hagléli og ef til vill eldingum á einhverjum stöðum. Og svo mun auðvitað líka blása sumstaðar, án þess að ég fari út í það.

Allt ákaflega forvitnilegt. Ekki síst fyrir sjálfmenntaða heimilisveðurfræðinga eins og mig.

Veðurkort Bresku Veðurstofunnar má finna hér: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure/#?tab=surfacePressureColour&fcTime=1530666000

- - - -

Viðbót að loknum degi: Sunnudagurinn 29. júlí, var hlýr eins og gert hafði verið ráð fyrir. Hámarkshitinn í Reykjavík mældist 23,5 stig þrátt fyrir að sólin hafi lítið látið sjá sig. Á hitalínuriti sést hvernig hitinn þróaðist í Reykjavík (rauð lína) á sjálfvirkum mæli Veðurstofunnar. Hitinn tók stökk upp á við snemma morguns og kominn yfir 20 stig fyrir kl. 9.00. Eftir klukkan 16.00 féll hitinn hratt þegar kuldaskilin fóru yfir. Það gerðist þó ekki með miklum úrkomuákafa og því síður með hagli eða eldingum í borginni.

hitaskot 29jul2018


Bloggfærslur 28. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband