Hversu gott var sumarið í Reykjavík?

Ég er auðvitað ekkert fyrstur með fréttirnar að veðrið í sumar hafi verið með allra besta móti suðvestanlands. Mínar prívat veðurskráningar, sem miðast við Reykjavík og hafa staðið yfir frá 1986, staðfesta það auðvitað, en þær veðurskráningar innihalda einkunnakerfi sem byggja á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi og fær þar hver dagur einkunn á skalanum 0-8, eins og ég hef oft nefnt á þessum vettvangi. Einkunnir yfir lengri tímabil eru síðan meðaltal þeirra daga sem taldir eru með. Súluritið hér að neðan er ein afurðin úr þessum skráningum en þar má sjá gæðasamanburð allra sumra frá árinu 1986 og er þá miðað við mánuðina þrjá: júní, júlí og ágúst. Útkoman er ekki fjarri því sem kom fram á Hungurdiskunum hans Trausta hér á dögunum þar sem allt annarri aðferð er beitt en sumareinkunn mín fyrir þetta sumar er þó lítið eitt hærri.

Sumareinkunn 1986-2019

Eins og sést á súlunni lengst til hægri var sumarið 2019 meðal hinna þriggja bestu á tímabilinu með einkunnina 5,30 sem er það sama og sumarið 2009 fékk, en vinninginn hefur sumarið 2012 með ögn hærri einkunn, 5,33. Þetta er auðvitað mikil umskipti frá sumrinu í fyrra sem var það næst lakasta á eftir leiðindasumrinu 1989. Landsmenn eru gjarnan misheppnir eða óheppnir með sumarveðrið eftir landshlutum en síðustu tvö sumur hafa öfgarnar í þeim efnum verið með mesta móti og þarf ekki að orðlengja það.

Næsta mynd er einnig unnin upp úr veðurdagbókarfærslum en þar er búið brjóta til mergjar sumarveður alla daga frá árinu 2000 með litaskiptingum sem útskýrð eru undir myndinni. Fjöldi skráðra sólardaga er einnig tekin saman lengst til hægri.

Sumarveður í Reykjavík 2000-2019

Síðustu tvö sumur eru á sitthvorum endunum þegar kemur að fjölda sólardaga. Sumarið 2019 státar af flestum sólskinsdögum á þessar öld, þegar teknir eru saman heilir og hálfir sólardagar, eða 48 talsins. Það kemur heim og saman við að ekki hafa mæst fleiri sólskinsstundir í Reykjavík þessa mánuði síðan 1929. Þarna ræður mestu mikill sólskinskafli langt fram eftir júní með tilheyrandi þurrkum og svo einnig fyrri partinn í ágúst. Júlí var ekki alveg eins sólríkur en státar þó af því að vera heitasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst í borginni, en það segir einnig sitt í sumareinkunninni.

 


Bloggfærslur 4. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband