9.4.2021 | 22:37
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar allnokkrar og koma hér í öfugri tímaröð.
Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séð frá borginni vera nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Ekki er þó mikill munur á hitastigi tveggja fyrstu áratuganna en auk hitans þá hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur sín áhrif.
Að þessu sinni var veturinn óvenju snjóléttur í borginni og ber Esjan þess greinileg merki. Vorið lætur hins vegar bíða eftir sér. Talsverðir kuldar hafa verið síðustu daga með tilheyrandi snjókomu sem aprílsólin hefur átt fullt í fangi með að bræða. Henni hafði þó orðið nokkuð vel ágengt daginn sem aprílmynd ársins var tekin og ekki annað að sjá en að í grunninn séu Esjuskaflar með minna móti miðað við flest önnur ár. Það skal þó tekið fram að snjóað hefur í Esju eftir að myndin var tekin og á sjálfsagt eftir að gera það nokkrum sinnum aftur, áður en sumarið gengur endanlega í garð. Það breytir þó ekki því að Esjan er snjólétt og ætti í venjulegu sumri að eiga ágætis möguleika á að hreinsa af sér allan snjó fyrir haustið.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt s.d. kl. 22:39 | Facebook
Athugasemdir
Esjuröðin þín Emil segir mikla sögu. Varla verið snjór sem heitið getur síðla vetrar frá því að þú hófst handa.
Einar Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 11.4.2021 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.