18.1.2013 | 20:17
Jöklabráðnunin mikla sumarið 2010
Fyrr í þessum mánuði var haldin ráðstefna í Háskóla Íslands í tilefni sjötugsafmæli Dr. Helga Björnssonar jöklafræðings. Sjálfur var ég nú ekki viðstaddur þessa ráðstefnu en fylgdist þó með því sem sagt var frá í fjölmiðlum. Þar á meðal var frétt á Mbl íslensku jöklarnir eru næmari þar sem fjallað er meðal annars um meira næmi íslenskra jökla gagnvart hlýnun en til dæmis þeirra kanadísku. (Tengill á fréttina er undir bloggfærslunni)
Ég ætla ekki að þykjast vita betur en hámenntaðir jöklafræðingar og læt þá um að spá fyrir um örlög íslenskra jökla. Það sem hinsvegar vakti athygli mína í fréttum af ráðstefnunni voru niðurstöður rannsókna á áhrifum öskulagsins úr Eyjafjallajökli á bráðnun jökla sumarið 2010 þar sem kom fram að bráðnunin það ár hafi verið 1,5 sinnum meiri en á venjulegu ári. Af þessu og fleiru mátti skilja að hin mjög svo neikvæða afkoma jökla á landinu þetta ár hafi aðallega verið vegna gosöskunnar sem sáldraðist yfir landið.
Hvað um veðurfarslegar ástæður?
Nú eru áhrif sóts og ösku á jökla vel þekkt en miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum virðast menn ekki hafa tekið mikið tillit veðurfarslegra þátta árið 2010 á afkomu jöklana, en sjálfur er ég eiginlega á því að þarna hafi óvenjulegt tíðarfar jafnvel átt stærri þátt en askan í þessari miklu bráðnun sumarið 2010.
Til að skoða það er alveg gráupplagt að vísa í eigin rannsóknir eins og þetta áður birta línurit sem ég teiknaði upp samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar um snjóalög á Setri sem er lengst upp á reginhálendinu sunnan Vatnajökuls. Hver lituð lína stendur fyrir einn vetur og samkvæmt þessu hefur snjódýptin venjulega verið í hámarki um miðjan apríl en komin niður í núll um miðjan júní. Greinilega var árið 2010 mjög óvenjulegt (blá lína) því snjódýptin náði sér aldrei almennilega á strik þennan vetur og var komin niður í núll upp úr miðjum maí. (Núverandi vetur sést ekki þarna því af einhverjum ástæðum hefur snjódýptarmælirinn á Setri ekki verið virkur síðustu mánuði.)
Þetta óvenjulega tíðarfar árið 2010 sást líka vel á snjóalögum Esjunnar sem ég fylgist einmitt líka með og hef ljósmyndað í lok vetrar hin síðustu ár. Mín reynsla er sú að nokkuð gott samband er á milli snjóalaga í Esjunni og á hálendinu við Setur. Fyrri myndin er tekin árið 2010, en hin síðari árið 2012 sem gæti talist venjulegra ár. Í samræmi við lítil snjóalög undir lok vetrar hvarf snjórinn mjög snemma sumarið 2010 eða um miðjan júlí en í fyrra hvarf hann ekki fyrr en í september.
Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að veturinn 2009-2010 hafi verið hlýr um land allt og þar að auki þurr um sunnanvert landið. Í Reykjavík voru alhvítir dagar ekki nema 13 frá desember til mars sem er það næst minnsta frá upphafi samfelldra mælinga árið 1823. Eftir þennan óvenjulega vetur kom svo hlýjasta sumar sem vitað er um síðan mælingar hófust um suðvestan og vestanvert landið. Í Reykjavík var meðalhitinn í júní sá hæsti frá upphafi mælinga og júlí jafnaði mánaðarmeðaltalsmetið frá 1991. Þetta ár 2010 stefndi reyndar í að verða það allra hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík og víðar en hitinn gaf eftir síðustu tvo mánuðina þannig að árið varð að lokum einungis meðal þeirra allra hlýjustu. (Tíðarfarsyfirlit VÍ 2010)
Þó að jöklabúskapur sé alveg sérstakur búskapur þá er augljóst að tíðarfar var óvenjulegt árið 2010, allavega sunnan- og vestanland og líka upp á hálendi upp undir Hofsjökli. Þetta hefur haft sín áhrif á stóru jöklanna og örugglega stuðlað af mjög slakri afkomu þeirra þetta ár. Askan úr Eyjafjallajökli hefur svo hjálpað til og bætt gráu ofan á svart - eða reyndar gráu ofan á hvítt í þessu tilfelli. Jöklafræðingar þekkja sjálfsagt hvernig tíðarfarið var árið 2010 og gera kannski ekki lítið úr því en svona upp á söguskýringar framtíðar að gera, þá má ekki einblína á öskuna sem eina orsakavaldinn að jöklabráðnuninni 2010, tíðarfarið var nefnilega líka mjög ójökulvænt.
![]() |
Íslensku jöklarnir eru næmari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2013 | 01:30
Reykjavíkurhiti í kubbamynd
Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.
Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.
Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2013 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)