Hversu slæmt var sumarið í Reykjavík?

Já það er víst engum blöðum um það að fletta að sumarið, sem hér telst til mánaðanna júní til ágúst, var ekkert gæðasumar hér í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu. En til að fá samanburð við fyrri sumur þá kemur hér sumareinkunn mín, sem er unnin upp úr mínum eigin veðurskráningum sem staðið hafa frá árinu 1986. Einkunnin að þessu sinni er ekki nema 4,10 stig sem hreinlega er lægsta sumareinkunn frá upphafi skráninga - ásamt sumrinu 1989. Litlu munar þó á nýliðnu sumri og nokkrum öðrum misheppnuðum sumrum, svo sem árin 1988, 1992, 1995, 2013 og 2018. Samanburðinn má annars sjá á súluritinu hér að neðan. 

Sumareinkunn86-24

Ég er vissulega ekki einn um að gera svona gæðasamanburð því Trausti Jónsson hefur einnig birt sína sumareinkunnin á síðunni sinni, Hungurdiskum, þar sem sumarið fékk einnig falleinkunn en var þó eitthvað skárra í samanburði við fyrri sumur.  Aðferðirnar eru annars ólíkar. Hjá mér er einkunnin fengin með daglegum skráningum á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi, þar sem hver dagur fær sína einkunn. Út frá henni síðan er hægt að reikna mánaðareinkunn og sjálfa sumareinkunnina, sem er meðaleinkunn allra daga sumarsins.

Til viðmiðunar má nefna að meðaleinkunn allra skráðra sumarmánaða er um 4,75 stig. Allt þar fyrir ofan er því nokkuð gott og mjög gott ef sumareinkunn nær 5 stigum eins og gerðist flest sumur á gæðatímabilinu 2007 til 2012. Sumarið 2012 státar af bestu einkunninni en svo kom bakslagið mikla 2013. Eftir það hafa sumrin verið góð og slæm, og allt þar á milli. 

Það sem helst fór með þetta sumar í Reykjavík var kannski ekki endilega sólarleysi því hún lét nú alveg sjá sig inn á milli. Hinsvegar var alger skortur á hlýjum dögum og sumarið kalt og óstöðugt. Í samræmi við það var loftþrýstingur óvenju lágur enda sveimuðu þrálátar lægðir kringum landið nánast allt sumarið og beindu hingað lofti af köldum uppruna. Við fórum allavega alveg á mis við það hlýja loft sem nægt framboð er annars af í kringum okkur.  Af mánuðunum þremur fékk júní lægstu einkunnina 3,9 en þar kemur reyndar við sögu norðanhretið mikla í upphafi mánaðarins sem gaf kaldan, leiðindastrekking hér borginni í annars þurru veðri. Júlí fékk síðan 4,0 en sá mikli sumarleyfismánuður var bara ansi dapur að öllu leyti. Skásti mánuðurinn var ágúst, sem fékk 4,4. Hann státaði af sæmilegum hlýindum fyrstu dagana áður en kólnaði á ný, en átti samt nokkra sæmilega sólardaga. 

Svo má jú alveg deila um hvað sé gott veður og hvað ekki. Fólk má alveg hafa mismundandi skoðanir á því. Það má líka hafa alla fyrirvara á aðferðarfræði og svo er alveg áskorun að halda matinu óbreyttu því aðgangur veðurupplýsinga hefur ekki verið alltaf verið sá sami. Má líka koma því að, að allan júlímánuð 1989 var ég staddur víðsfjarri í Kúbanskri hitasvækju og fékk staðgengil til að skrá veðrið heima á meðan. Sá mánuður fékk algera botneinkunn, 3,5, sem vó þyngst í falleinkunn þess sumars, auk þess að vera versta einkunn sumarmánaða í mínum veðurbókum, ásamt reyndar júní 1988. Hvort tveggja mánuður frá því snemma í veðurskráningum mínum. Ég var hinsvegar ekki farinn að skrá veðrið hrakviðrasumarið 1983 en prófaði á sínum tíma að meta það út frá gögnum Veðurstofunnar og fékk einkunnina 3,5 en neðar verður varla komist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Frábær vinna hjá þér og áhugaverð einkunnagjöf eða gæðagjöf.

Sigurpáll Ingibergsson, 8.9.2024 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband