Mánaðarhitinn 2024 í súluriti

Eins og komið hefur fram var nýliðið ár það kaldasta hér á landi það sem af er öldinni. Svipuð ár hitafarslega komu upp undir lok síðustu aldar en til að finna umtalsvert kaldara ár þarf að fara aftur til ársins 1995. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út meðalhitann fyrir Reykjavík, en þar sem ég fylgist ágætlega með hitafarinu, þá fæ ég út að meðalhitinn hafi verið 4,3 stig hér á bæ sem einmitt er það lægsta frá 1995 þegar meðalhitinn var 3,8 stig. Nú vill svo til að þessi tala 4,3 er sú sama og meðalhitinn var í Reykjavík á 30 ára tímabilinu 1961-1990 sem var nokkuð kalt tímabil, en var þó notað til viðmiðunar þar til núverandi og öllu hlýrra viðmiðunartímabil (1991-2020) tók við með meðalhitann 5,1 stig.

Meðalhiti 2024

Á súluritinu hér að ofan má sjá meðalhita mánaðanna í Reykjavík árið 2024 (rauðar súlur) og til samanburðar meðalhita mánaðanna á 30 ára viðmiðunartímabilinu 1991-2020. Lengst til hægri er hitasamanburður ársins 2024 og 30 ára meðalhitans. Eins og sést voru 10 mánuðir ársins undir meðalhitanum en tveir mánuðir, mars og maí, voru yfir meðallagi. Ekki munar þó miklu í maí. Þannig er því síðustu sjö mánuðir undir meðalhitanum sem nú er miðað við. Spurning hvað gerist með nýjum mánuði og á nýju ári. Akkúrat núna er útlitið næstu daga ekki gæfulegt, hvað sem síðar verður.

Og hvað veldur? Ekki getur við kennt um hnattrænni kólnun því þetta mun hafa verið hlýjasta árið á jörðinni frá upphafi mælinga. Ekki var Norður-Atlantshafssjórinn kaldur. Yfirborðssjórinn hefur reyndar verið með allra hlýjasta móti, enginn kaldur blettur suður-undan landinu og golfstraumurinn í fullu fjöri. Nærtækasta og eðlilegasta skýringin hlýtur því bara vera sú að við höfum verið óheppin með uppruna loftsins sem hingað hefur leitað. Hlýja loftið hefur einfaldlega ekki hitt nógu oft á landið á meðan kalda loftið hefur átt óvenju greiðan aðgang að okkur. Allavega þá skiptir öllu varðandi hitafar t.d. að vetralagi hvort loftið sem hingað leitar sé komið frá norður-heimskautinu eða norður-Afríku. Við upplifðum muninn t.d. í nóvember þegar fyrri hluti mánaðarins einkenndist af mjög svo suðlægu hlýju lofti, sem við þurftum að greiða til baka seinni hlutann með frostköldu heimskatalofti. Þessu stjórna jú hæðarsvæðin, skotvindarnir og þar með lægðarbrautirnar. Ekki fengum við heldur hlýja Evrópuloftið til okkar í sumar eins og stundum áður, en sátum frekar uppi með lægðarganginn og útsynninginn frá kaldari svæðum í vestri og norðankalsann inn á milli.

Það má svo velta fyrir sér hvort kalda loftið sé bara svona almennt að ná yfirhöndinni yfir landinu og verði svo næstu árin, eða nógu lengi til að valda kælingu í hafinu sem aftur hefði áhrif til lengri tíma kælingar. Er maður þá farinn að nálgast tal um 30 ára kuldaskeið eins og maður ólst reyndar upp við sjálfur.

En svo er það bara með blessað veðrið og hitafarið. Við vitum ekkert hvað bíður okkar.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband