Hvar verður næsta gos á Íslandi?

Þótt við höfum fengið góðan eldgosaskammt fyrr á þessu ári er ekki þar með sagt að eftirspurn eftir eldgosum hér á landi hafi alveg fjarað út. Frá náttúrunnar hendi virðist líka vera nægt framboð af vænlegum eldstöðvum sem geta kveðið sér hljóðs með litlum fyrirvara. Nú ætla ég að rýna í stöðuna og reyna að meta hvar líklegast er að næsta eldgos gæti orðið hér á landi eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð. Sem fyrr eru þetta algerlega ábyrgðarlausir spádómar enda er ég hvorki jarðfræðingur né sjáandi hverskonar og til marks um litla spádómsgáfu mína þá spáði ég í fyrrahaust að litlar líkur væru á því að næsta eldgos yrði í Eyjafjallajökli. Að vísu hef ég mér það til afsökunar að skjálftavirkni hafði þá legið þar niðri um nokkurt skeið en hófst á ný af tvíefldum krafti stuttu á eftir.

Spádómurinn að þessu sinni kemur hér. Prósenturnar vísa í líkindi þess að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð. Annað mál er hinsvegar hvenær næsta eldgos verður – það gæti komið í næstu viku eða ekki fyrr en eftir 10 ár.

34% Grímsvötn eru alltaf ofarlega á blaði sem næsta líklega eldstöð enda gýs hvergi eins oft á Íslandi. Á dögunum var talað um að eldgos væri þar nánast yfirvofandi sem framhald af Grímsvatnahlaupi en með slíkum atburðum léttir mjög fargi af eldstöðinni. Ekkert hefur orðið af gosi þannig að líkurnar fara minnkandi. Samt mun Grímsvatnaeldstöðin vera nokkurn vegin tilbúin í gos og er talin líkleg hvenær sem er, burt séð frá því hvort vötnin hlaupist á brott eða ekki. Kannski þurfum við samt bíða um sinn, jafnvel til næsta hlaups sem ætti þá að verða eftir nokkur ár. Skaftáreldar flokkast varla sem Grímsvatnagos þótt kvikan hafi verið ættuð þaðan, það er samt ágætt að hafa þennan möguleika í huga en sennilega ekki kominn tíma á slíka atburði.

22% Hekla. Samkvæmt 10 ára reglunni sem Hekla hefur komið sér upp síðan í gosinu 1970 ætti eldstöðin að gjósa á þessu ári. Það hefur ekki gerst enn þannig að nú fara að verða síðustu forvöð. Það má þó gefa Heklu smá frest fram yfir áramót með það í huga að 1990-gosið kom ekki upp fyrr en þann 17. janúar 1991 – sama dag og Persaflóastríð hófst eins og margir muna. Annars má segja sama um Heklu og Grímsvötn, að þrýstingur undir fjallinu mun vera orðinn jafnmikill eða meiri en var fyrir síðasta gos. Varla held ég þó að hægt sé að bóka Heklugos alveg strax og kannski leitar fjallið bara aftur í það far að gjósa sirka tvisvar á öld eins og í gamla daga.

15% Katla minnir á sig öðru hvoru með stöku skjálftum en þó ekki alveg af þeim krafti sem vænta má ef eitthvað mikið er í aðsigi. Katla er stór eldstöð og gýs ekki bara svona allt í einu eins og Hekla gerir. Nú eru liðin 92 ár frá gosinu 1918 en til samanburðar hefur meðalhvíldartími milli Kötlugosa verið nálægt 60 árum. Mjög órætt samband virðist vera á milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, en þótt fyrri reynsla sýni að Katla hafi farið af stað eftir gos í Eyjafjallajökli er alls ekki hægt að stóla á að slíkt gerist núna. Allavega eru ekki miklar vísbendingar í gangi um breytingar í Kötlu svo ég viti. Eins og með Kötlu þá má minna á að eitt mesta eldgos á sögulegum tíma á Íslandi, Eldgjárgosið skömmu eftir landnám, var sprungugos út frá Kötlu og fékk þaðan sitt hráefni. Er kannski kominn tími á nýtt svoleiðis?

12% Eyjafjallajökull er kannski ekki alveg búinn að syngja sitt síðasta að þessu sinni. Menn virðast allavega ekki treysta sér til að lýsa yfir goslokum ennþá, hafandi í huga að gosið á 19. öld var sífellt að taka sig upp á ný. Sjálfum finnst mér þó líklegra að þetta sé alveg búið en geri mér þó grein fyrir að allt getur gerst. Ekki vil ég vanmeta þessa eldstöð aftur.

7% Bárðarbunga getur alveg stolið stelunni og verið á undan þessum heimsfrægu eldstöðvum okkar sem hér hafa verið nefndar. Bárðarbunga er mikil megineldstöð og útfrá henni hafa orðið stórgos á Suðurhálendinu en einnig hafa gos tengd þessu kerfi komið upp norðaustan Vatnajökuls. Undir Bárðarbungu er askja og þar hefur í mörg ár verið allnokkur skjálftavirkni af og til sem gæti verið vísbending um að eitthvað sé í undirbúningi. Það er ekki vitað til að gosið hafi í öskjunni sjálfri eftir landnám en síðasta goshrina tengd Bárðarbungu varð vestur af Vatnajökli á árunum 1822-24. Gjálpargosið gæti þó talist til Bárðarbungukerfisins en Grímsvötn gera einnig tilkall til þess.

5% Askja og nágrenni verður einnig að fá að vera með hér. Upptyppingaóróinn fyrir 2-3 árum hefur fjarað mikið út en gæti tekið sig upp aftur og þá kannski ekki alveg á sama stað. Þar er að vísu um að ræða svæði sem einnig tengist Kverkfjallaeldstöðinni. Askja og Dyngjufjöll eru mjög eldvirkt svæði með miklum sprungukerfum í norður og þar gaus mikið á 19. öld. Skjálftavirkni er alltaf einhver á þessum slóðum.

5% Ýmsir aðrir staðir koma svo til greina en eru varla mjög líklegir. Reykjanesgosbeltið er áfram í sínum dvala en gæti alveg farið að rumska á okkar tíð. Eftir landnám hefur ekkert gosið á vestara gosbeltinu á svæðinu frá Hengli og upp í Langjökul. Það hafa annars verið merkilegir skjálftar undanfarið norðan Langjökuls, en ég trúi varla að þar sé eitthvað á ferðinni sem boðar eldgos enda erum við þar eiginlega komin út fyrir eldvirka beltið. Snæfellsneskerfið er síðan í enn fastari Þyrnirósarsvefni. Svo eru staðir eins Torfajökull, Öræfajökull, Vestmannaeyjar og fleiri sem hægt væri að nefna. Hvaða skjálftar voru þetta t.d. í Esjufjöllum norðan Breiðamerkurjökuls?

- - - - -

Myndina af Eyjafjalljökli hér að neðan tók ég laugardaginn 17. apríl á Hvolsvelli á fjórða degi gossins. Margar þeirra mynda sem hafa birst af gosinu voru teknar einmitt þennan dag enda bjart í veðri og gosmökkurinn upp á sitt besta.

Eyjafjallajökull 17. apríl


Stjórnlagaþing og Beringssund

Stjórnlagaþingskosningarnar um næstu helgi eru sennilega óvenjulegustu kosningar sem þjóðin hefur tekið þátt í. Þarna eru 525 manns í framboði um 25 sæti á stjórnlagaþingi sem ætlað er að semja handa okkur nýja stjórnarskrá. Frambjóðendur er fólkið á götunni en fátt er um stjórnmálaspekinga, lögfræðinga og engir eru þarna þingmenn. Þetta er dálítið sérstakt í ljósi þess að orðið Stjórnlagaþing er samsett úr orðunum: stjórn, lög og þing. Þetta er ekki ólíkt því að láta fólkið á götunni sjá um að spila landsleiki í knattspyrnu í stað knattspyrnumanna.
En samt verður þetta sjálfsagt heilmikið þarfaþing enda margt óljóst sem stendur í stjórnarskránni sem hefðir hafa í sumum atriðum ráðið því hvernig eru túlkuð.

Persónukjör
Margir frambjóðendanna vilja gera nokkuð róttækar breytingar á sumum atriðum eins og því að taka upp persónukjör í auknu mæli. Sjálfsagt tengist þetta minnkandi vinsældum stjórnmálaflokka nú um stundir enda telur fólk stjórnmálaflokkana hvern annan verri. Stjórnlagaþingskosningarnar eru einmitt eitt allsherjar persónukjör og þar mun fólk kjósa þá frambjóðendur sem það þekkir persónulega og svo á fræga fólkið auðvitað meiri möguleika á að komast að - nema kannski þeir sem frægir eru af endemum.
Hætt er við að málefnin verði í aukaatriði í svona persónuvinsældarkeppni. Kannski betra ef frambjóðendur með svipaðar skoðanir hefðu hópað sig saman til að berjast fyrir sjónarmiðum sínum í sameiningu. Með öðrum orðum - að koma á einhverskonar flokkakerfi. Áherslan á persónur minnir nefnilega dálítið á það sem sagt er í Eurovision - það á að velja gott lag en ekki vinsælan flytjanda, en þetta er einmitt atriði sem við höfum stundum klikkað á.

Atkvæðavægi
Annað stórt tískumál er jöfnun atkvæða til Alþingkosninga. Mörgum finnst óeðlilegt að kosningakerfið hampi sveitamönnum og þorpurum utan að landi umfram okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ýmislegt til í þessari gagnrýni en þó finnst mér ekkert óeðlilegt að fulltrúar fámennra svæða hafi aðeins meiri möguleika á að komast að, því annars er hætt við að borgríkið Reykjavík verði allsráðandi.
Í Evrópusambandinu hafa fámennari svæði einmitt aukið vægi, allavega miðað vægið sem Ísland gæti haft með hugsanlegri inngöngu. Þeir sem berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða ættu því að beita sér fyrir því að í aðildarviðræðum yrði farið fram á að hver Íslendingur hefði sama vægi og hver annar Þjóðverji eða Spánverji. Svo má líka aftur minnast á Eurovision, en þar hafa 300 þúsund Íslendingar sama vægi og 140 milljónir Rússar.

Beringssund
Svo virðist sem Beringssundið hafi átt stóran þátt í hversu óstöðugt loftslag var á síðustu ísöld. Jafnvel má tala um að í 100 þúsund ár, hafi ógnarjafnvægi ríkt hér við Norður-Atlantshaf sem er allt annað ástand en á hlýskeiði því ríkt hefur síðustu 10 þúsund ár. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta atriði en vísa í staðinn á pistill sem ég skrifaði um þetta mál á Loftslag.is. Kannski ætti ég bara áfram að halda mig við svoleiðis skrif.

 


Hinn horfni Múlakampur

Múlakampur 1971 a 

Múlakampur 1971 a

Þegar ég man fyrst eftir mér var talsvert öðruvísi um að litast á svæðinu þar sem Síðumúli og Ármúli eru í dag. Árið 1971 þegar þessar myndir voru teknar mátti ennþá finna þar heillegt en óskipulagt samansafn misgóðra íbúðarhúsa er nefndist Múlakampur. Upphaflega mun þarna hafa verið braggabyggð frá stríðsárunum en þau merku mannvirki hurfu síðar fyrir þessum húsum sem mörg voru byggð af vanefnum í húsnæðiseklu eftirstríðsáranna.

Sjálfur ólst ég upp í Háaleitishverfinu sem þá var nýtt hverfi og fjögurra hæða blokkirnar sem þar standa í röðum eða hornrétt hver á aðra, voru alger andstæða við hinn óskipulagða heim í norðri. Í blokkinni minni á fjórðu hæð var gott útsýni yfir Múlakamp og reyndar mestallt höfuðborgarsvæðið ásamt fjöllunum í kring. Þetta útsýni var og er enn, tilvalið myndefni þó ekki væri nema til þess að klára filmuna í myndavélinni.

Íbúar Múlakamps voru í ófínna tali oftast kallaðir „kamparar“ en sem krakki datt manni ekki í hug að líta niður til þeirra nema þá í eiginlegri merkingu þar sem blokkin mín gnæfði hátt yfir kampinum. Þarna eignaðist maður líka nokkra vini og skólafélaga sem maður heimsótti stöku sinnum.

Eftir að þessar myndir voru teknar fór húsunum smám saman fækkandi og 10 árum síðar voru þau langflest horfinn og íbúarnir gjarnan búnir að hefja nýtt líf í stórblokkum Breiðholtshverfis. Múlahverfinu var þó ekki rutt í burtu í einu átaki heldur hurfu húsin bara smám saman. Það var forvitnilegt að fylgjast með þegar eitthvert húsið var rifið en dálítið sorglegt líka. Þó var gaman þegar ekki náðist að klára niðurrifið fyrir kvöldið því þá var hægt að leika sér og gramsa í rústinni. Eftir því sem kampshúsunum fækkaði risu nýbyggingar Síðumúla og Ármúla inni á milli eldri húsanna en þær byggingarframkvæmdir voru líka góður leikvöllur þar sem mátt æfa sig í klifri allskonar. Þjóðviljabyggingin að Síðumúla 6 var sérstaklega hentug og skemmtileg. Síðumúlinn var reyndar stundum kallaður „blaðsíðumúli“ enda höfðu ófá dagblöð og prentsmiðjur aðsetur þar lengi vel.

Árið 2010 sjást ekki nein ummerki eftir Múlakamp nema þá kannski stöku tré sem áður stóðu við húsgafla horfinna húsa. Þarna býr enginn nú en fjölmargir mæta þangað daglega til vinnu og þarna verslar fólk sjónvörp, baðkör, stofulampa og gæludýr svo eitthvað sé nefnt. Útsýnið af uppeldisstöðvunum er líka fínt sem fyrr þótt nærumhverfið hafi breyst.

Múlahverfi 2010


Mick Jagger og Peter Tosh

Þá er komið að tónlistaratriði eða léttu lagi á laugardegi. Hér er mættur reggae-tónlistarmaðurinn Peter Tosh ásamt hljómsveit en sér tilfulltingis hafa þeir fengið sveitaballasöngvaran Mick Jagger, sem þarna er í góðum gír, kannski eftir nokkra romm í kók eða eitthvað annað að hætti innfæddra. Peter Tosh, sem lést árið 1987 af völdum byssukúlu, var góðvinur Bob Marleys og var framan af meðlimur í hljómsveit hans the Vailers áður en hann hóf sólóferil. Þetta lag kom út á plötu Peters Tosh, Bush Doctor, árið 1978 þegar reggae-bylgjan reis sem hæst og vakti lagið þó nokkra athygli, ekki síst vegna hins fræga gestasöngvara. Lagið heitir (You got to walk and) Dont't look back, en upprunalag útgáfa þess var flutt af söngflokknum The Temptations árið 1965, en þessa dagana hljómar lagið í íslenskri útgáfu Hjálmaflokksins. 


Spáð í árshitann í Reykjavík

Nú þegar októberhitinn liggur fyrir ætla ég aðeins að spá í hvert stefnir varðandi meðalhita ársins í Reykjavík. Opinber ársmeðalhiti í Reykjavík er ekki nema 4,3°C, en þá er miðað við árin 1961-1990 sem var frekar kalt tímabil. Síðustu 9 ár eða öll ár þessarar aldar hefur meðalhitinn hinsvegar alltaf verið yfir 5 gráðum – að meðaltali 5,5°C. Hlýjast var árið 2003 þegar meðalhitinn náði 6,1°C. Nokkur spenna er nú í gangi því fyrstu 10 mánuðir ársins 2010 eru nánast jafn hlýir og sömu mánuðir ársins 2003 þannig að ýmislegt getur gerst en það veltur á frammistöðu síðustu tveggja mánaðanna. Hér mun ég velta mér nánar upp úr því:

Ef nóvember og desember verða mjög kaldir, eða í stíl við það sem gerðist nokkrum sinnum á kalda tímabilinu 1965-1995 og segjum að meðalhitinn það sem eftir er árs verði -2°C, þá verður meðalhiti ársins 5,5°C. Það er samt sem áður prýðilegur ársmeðalhiti og í meðallagi miðað við síðustu 10 ár.

Raunhæfara er að segja að meðalhiti nóvember og desember verði 0,45°C, eða í meðallagi miðað við viðmiðunartímabilið 1961-1990. Reyndar eru meira en 10 ár síðan þessir mánuðir hafa verið svo svalir, en ef það verður raunin þá endar ármeðalhitinn í 5,9°C og árið samt með allra hlýjustu árum sem mælst hafa.

Raunhæfast af öllu hlýtur þó að miða við reynslu síðustu 10 ára þar sem meðalhiti nóvember og desember hefur verið 1,95°C.  Ef svo er þá mun árið 2010 enda í 6,1°C og jafna þar með árshitametið frá 2003.

Útfrá því er ljóst að til að ná nýju árshitameti þá þarf meðalhiti það sem eftir er ársins að vera yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ævintýralegast væri svo ef hin miklu hlýindi nóvember og desembermánaða ársins 2002 skyldu endurtaka sig, en þá tvo mánuði var meðalhitinn 4,6°C. Með slíkum hlýindum endaði árið 2010 í 6,5°C sem væri meira en tveimur gráðum yfir opinberum ársmeðalhita.

- - - - -

Útfrá þessu má segja að árshitinn 2010 verði varla lægri en 5,5 stig og varla meiri en 6,5 stig. Miðað við svipaðan hita og síðustu 10 ár þá stefnir árið 2010 hraðbyri í mettöluna 6,1°C. Lítið þarf hinsvegar til að slá metið og því óhætt að segja ógnarspenna verði í loftinu næstu tvo mánuði nema nóvember taki upp á því að detta í kuldaköst.

Til frekari glöggvunar kemur hér svo línurit yfir meðalhitann í Reykjavík frá 1931. Græna línan sýnir hver meðalhitinn hefur verið á tímabilinu 1931-2009 (4,7°). Bleika sporaskjan lengst til hægri á svo að tákna hvar meðalhitinn 2010 mun líklegast enda.

Hitalínurit 2010


mbl.is Hiti yfir meðaltali í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband