24.11.2011 | 09:53
Það kemur ýmislegt til greina varðandi forsetann
Eins og alltaf þegar kemur að því að túlka skoðannakannanir þá verður að passa orðalag. Samkvæmt fréttinni virðast þátttakendur í könnunnninni hafa verið spurðir um hvort það komi til greina að kjósa Ólaf áfram til forseta. Ekkert óeðlilegt við það. En það að rétt rúmur helmingur segi, að það komi til greina að kjósa hann áfram, finnst mér ekki vera það sama og að meirihlutinn vilji Ólaf Ragnar áfram eins og slegið er upp í fyrirsögn fréttarinnar. Svo ég tali fyrir sjálfan þá kemur alveg til greina að ég kjósi Ólaf en mér finnst það samt frekar ólíklegt.
Miðað við matreiðslu fréttarinnar giska ég á að Morgunblaðið vilji Ólaf Ragnar áfram sem forseta. Sama má segja um hluta þeirra sem telja að það komi til greina að kjósa hann.
- - - -
Svo má minna á að aðeins er mánuður til jóla.
![]() |
Meirihlutinn vill Ólaf Ragnar áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2011 | 20:12
Um ógnir og háleynileg samsæri
Ef maður trúir öllu sem hægt er að trúa er tilvera okkar nútímamanna á heljarþröm og margskonar ógnir sem að okkur steðja. Ýmislegt baktjaldamakk er í gangi og tilraunir gerðar til að ná stjórn á náttúruöflunum til góðs eða ills. En þótt mannkynið sé sjálfu sér verst, er líka nægt úrval af utanaðkomandi ógnum sem almenningur gerir sér ekki mikla grein fyrir, enda ekki nema von þeim er haldið leyndum fyrir okkur svo ekki skapist ofsahræðsla á þessum hinstu dögum.
Um þetta mætti heilmikið skrifa og heilmikið hefur reyndar verið skrifað. Ég er bara ekki nógu tortrygginn eða trúgjarn (eftir því hvernig á það er litið) til nenna að hafa fyrir því að kynna mér allt sem það er í gangi. Hér á eftir ætla ég þó að reyna að gera smá grein fyrir því helsta.
Fyrst má nefna alþjóðlegu fjármálakrísuna sem var skipulögð og ákveðin í reykfylltum bakherbergjum ákveðinna afla með það að markmiði að koma fjármagninu í réttar hendur með heimsyfirráð í huga. Hvaða öfl þetta ættu að vera veit ég ekki nákvæmlega, en oft kemur upp eitthvað sem kallast New World Order og á að hafa ítök í valdamestu stofnunum heimsins.
Árásirnar kenndar við 11. september voru eins og oft hefur komið fram, skipulagðar af Bandaríkjamönnum sjálfum og Ísraelsmönnum með það að markmiði að réttlæta allsherjaráras á lönd múslíma. Fall tvíburaturnanna var stýrt fyrirfram með því að spreyja á þá einhverju mýkingarefni og flugræningjarnir voru aldrei til. Mikill rökstuðningur er til um þetta fyrir þá sem vilja trúa.Þoturákir í háloftum eru eðlilegar afleiðingar þotuflugs. En ekki alltaf, því af einhverjum ástæðum er líka verið að úða vafasömum efnum út í andrúmsloftið. Kannski eru þetta leynilegar tilraunir til að kæla andrúmsloftið, nema hér sé bara verið að eitra fyrir fólkinu í heiminum. Aldrei að vita nema einhver sjái sér hag í því. Á myndum sem birtast af grunsamlegum þoturákum eru að vísu oft blikur á lofti og klósigar sem benda til þess að rakinn í háloftunum er nálægt því að þéttast hvort eð er.
HAARP tilraunastöðin í Alaska þykir mörgum afar grunsamleg, en aðrar svipaðar stöðvar munu vera til í heimum, jafnvel hér á Íslandi í smærri stíl. Með þessum græjum eru sendar öflugar hátíðnibylgjur út í jónahvolfið að því að talið er til að hafa áhrif á háloftavinda og þar með loftslag vítt og breitt um heiminn. Ekki nóg með það, HAARP getur komið af stað eldgosum, jarðskjálftum og þar með flóðbylgjum og er því öflugt vopn í höndum heimsvaldasinna. Atburðirnir í Japan hafa ef til vill eitthvað með HAARP að gera.
En af utanaðkomandi ógnum sem ekki eru á valdi okkar jarðarbúa má auðvitað nefna allar geimverurnar sem fylgjast með jörðinni og heimsækja okkur reglulega svo lítið beri á. Mörg illskýranleg fyrirbæri eru útskýrð sem geimveruheimsóknir en allt slíkt er að sjálfsögðu þaggað niður af yfirvöldum, hver sem þau eru. Geimverur eru kannski ekki bein ógn en aldrei er þó að vita hvað þær hafa í hyggju. Sumir segja ekki tilviljun að píramídar risu bæði í Egyptalandi og Ameríku án nokkurra tengsla þessara menningarheima. Mannkyninu gæti í raun verið stjórnað af geimverum og hámenningin gæti hæglega verið innflutt í einhverjum tilgangi. Geimverur gætu jafnvel verið á vappi hér og þar og búnar að koma sér fyrir á áhrifastöðum.
Kannski mun eitthvað af þessu skýrast á næsta ári en auðvitað voru Inkarnir til forna búnir að reikna út að endalok okkar tímaskeiðs skellur á í desember 2012. Þá munu miklar ógnir ganga yfir jörðina sem gætu tengst hámarki í sólvirkni samhliða óvenju veiku segulsviði. Pólskipti munu þá eiga sér stað með ólýsanlegum hörmungum.Þessu gæti líka tengst hin dularfulla Pláneta X, sem stundum er kölluð Niburu eða Elenin og á vera á stærð við stóru gasrisana í sólkerfinu okkar. Þessi stjarna hefur verið á sveimi inn og út úr sólkerfinu og verður á óþægilegum stað í árslok 2012. Ýmsar hugmyndir eru til um þetta og sem fyrr vilja flestir vísindamenn gera lítið úr málum. Risastórt geimskip hefur að sjálfsögðu verið nefnt.
- - - -
Fleira mætti nefna og hægt að fara mun dýpra í hvert atriði. Fyrir mig er þetta sem hvert annað skemmtiefni sem litlar áhyggjur þarf að hafa af. Kannski er ég bara svona takmarkaður, nema ég sé á valdi geimvera.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.11.2011 | 21:35
Um harmóníu og Þorláksbúð
Falleg hús gera fallega staði fallegri og að sama skapi gera fallegir staðir, falleg hús fallegri. Eitthvað í þessa veru las ég eitt sinn í bók eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing. Tveir staðir voru nefndir sem dæmi: Þingvellir og Viðey, en á báðum stöðum standa hús sem fara vel hvort með öðru en skapa um leið gagnkvæma heild með landslaginu. Svona harmónía er ekki bara bundin við merkisstaði í sögu þjóðarinnar. Sveitabæir ásamt útihúsum geta farið afskaplega vel í blómlegum dölum og ekkert útilokar að annarskonar mannvirki svo sem virkjanir og brýr geti verið hin mesta staðarprýði ef rétt er að málum staðið.
En þá víkur sögunni að Skálholti, sem getur alveg talist einn af þeim stöðum þar sem húsin gera umhverfið fallegra og öfugt. Þar hafa ýmis mannvirki stór og smá staðið í gegnum tíðina enda lengi einn helsti höfuðstaður landsins. Skálholtskirkja nútímans er falleg bygging og öll húsin sem þar standa taka mið af henni og mynda óvenju vel heppnaða heild. Það er því ekki að ástæðulausu að sumir vilja staldra aðeins við og athuga hvað er að gerast þar núna.
Myndin sem hér fylgir er af fyrirhugaðri Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju. Hún hefur ekki birst víða en á henni held ég að komi fram allt sem segja þarf. Þorláksbúð sem ýmist var notuð sem skrúðhús og geymsla hefur sjálfsagt farið vel þarna á 16. öld og þar mátti líka slá upp messu þegar stóru kirkjurnar brunnu eins og þær áttu til. En að reisa Þorláksbúð í dag alveg við hlið Skálholtskirkju nútímans er ekkert nema sjónrænt og menningarlegt slys. Það verður bara að hafa það þótt vinna og fjármunir fari í súginn ef hætt verður við þetta, og það verður bara að hafa það þótt einhverjir hafi verið seinir að átta sig. Þetta gengur ekki. Það hljóta allir að sjá sem hafa minnsta vott af smekklegheitum.
Myndin hér að ofan er fengin af Sunnlenska fréttavefnum
Byggingar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2011 | 18:28
Þegar loftslagsumræðan fer hamförum
Þó að ég sé almennt á því að við eigum að taka alvarlega því sem sagt er um loftslagsbreytingar, þá verður maður stundum dálítið undrandi hvað fjölmiðlar eiga það til að yfirkeyra hættuna meira en góðu hófi gegnir.
Eitt skýrasta þannig dæmi sem ég hef séð lengi er frétt í DV núna á mánudaginn 7. nóvember. Þar er vitnað í Sigga storm Ragnarson og því slegið upp með stóru letri að: Smáralind færi á kaf. Undirfyrisögnin er: Skýrsla sameinuðu þjóðanna spáir hamförum í veðri - Yfirborð sjávar mun að öllum líkindum hækka um sex metra - Sjávarlóðir gætu orðið einskis virði. Í texta sem tekin er út sérstaklega til áherslu segir síðan: Við erum að tala um næstu tvær eða þrjár kynslóðir sem munu horfa upp á þetta. Þú gætir upplifað þessa breytingu á meðan þú lifir.
Nú er ég reyndar ekki alveg með á hreinu hvað hér er átt við með tveimur til þremur kynslóðum en ef þetta gæti gerst á meðan ég eða þú lifum þá er greinlilega verið að tala um 40-100 ár miðað við barnseignaraldur fólks. Allavega þá er það alveg öruggt að sjávarborð er ekki að fara að hækka um sex metra á næstu áratugum og ekki heldur á næstu 100 árum. Um þessar mundir er talið að sjávarborð hækki um 3 mm ári að meðaltali sem þýðir 30 cm á öld. Sú hækkun hefur verið skrikkjótt og hefur reyndar verið enn minni allra síðustu ár. Hækkunin mun þó eitthvað aukast, en spá um hækkun sjávarborðs samkvæmt hinum óskeikula vef loftslag.is er um 35 cm fyrir árið 2050 ef heldur fram sem horfir. Óvissan er þó talin mikil. En 6 metra hækkun sjávarborðs með þeim hræðilegu afleiðingum að Smáralindin færi á kaf jafngildir bráðnun alls Grænlandsjökuls. Það mun hins vegar ekki gerast fyrr en eftir margar aldir í fyrsta lagi eða jafnvel eftir einhver þúsund ár og þegar það gerist verður hvort sem er löngu búið að afskrifa Smáralindina vegna aldurs og veðrunar nema hún fari í varðveisluflokk sem merk gömul bygging.
Okkar litli Vatnajökull er ekki nálægt því að hverfa á þessari öld en hugsanlega smájöklar eins og Snæfellsjökull, en það er allt önnur saga og hefur vægari afleiðingar. Sigurður Stormur talar líka um jökulinn á Suðurskautslandinu og bendir réttilega á að ef sá jökull hyrfi í hafið yrðu afleiðingarnar mun alvarlegri, en klikkir síðan út með því að segja að sú þróun gæti tekið nokkrar aldir. Nokkrar aldir? spyr ég og svara sjálfur: Jökullinn á Suðurskautslandinu mun ekki hverfa á næstu öldum, heldur í fyrsta lagi eftir 1000 ár ef hann mun þá yfirhöfuð hverfa áður en næsta jökulskeið leggst yfir. En ekki eru allir sammála um allt. Sumir segja að jöklar séu ekkert að hverfa og ekkert að hlýna í heiminum og svo þurfum við kannski ekkert að hafa áhyggjur af bráðnun jökla því sagt er að sjálf endalokin verði í pólskiptunum ógurlegu undir lok árs 2012.
Á Rás2 sama morgun.Ég gæti líka fjallað um dálítið loftslagstal sem ég heyrði á Rás2 í morgun. Þar voru þau Andri Freyr og Gunna Dís að undrast yfir þessu hlýja veðri og snjóleysinu hér ásamt flóðum og öðru veseni út í heimi. Andri vildi meina að aðalorsakavaldurinn þarna væru spreybrúsarnir sem hún notar á hárið sitt. Hún benti hinsvegar á að hann sjálfur ætti meiri þátt í eyðingu ózonlagsins með því aka um á bíl og flokka ekki rusl.
Já, umhverfisógnin getur verið margþætt og snúin. Fólk má auðvitað alveg tala um mengun og loftslagsvandann þótt það sé ekki sérfræðingar í fræðunum. En fólk verður að passa sig á því að fara ekki hamförum og rugla ekki vandamálum saman. Jafnvel þótt það vilji vera sniðugt.
5.11.2011 | 17:36
24 ára hafísþróun á Norður-Íshafinu á einu myndskeiði
Merkilegt hvað tæknin nú á gervihnattaöld gerir okkur kleift að fylgjast vel með. Á myndskeiði sem ættað er frá Bandarísku veðurstofnunni NOAA má sjá á afar skýran hátt hegðun hafísbreiðunnar frá árinu 1987 og þá sérstaklega hnignun fjölæra íssins sem er hvítur á myndinni. Ísinn á Norður-Íshafinu er langt frá því að vera kyrrstæður enda er hann sífellt hrakinn áfram af vindum og straumum, jafnvel árum saman uns hann bráðnar að lokum í mildari sjó eða í heimskautasólinni að sumarlagi.
Gamli ísinn að hverfa
Hin síðari ár og þá sérstaklega hin allra-síðustu hefur mikil breyting orðið á aldursamsetningu íssins því vegna aukinnar bráðnunar að sumarlagi hefur ísinn varla fengið nokkurn frið til að eldast og dafna miðað við það sem áður var. Þar skiptir mestu að á stórum hluta Íshafsins norður af Kanada gat ísinn lifað góðu lífi hvert sumarið af öðru í hringiðunni miklu sem kennd er við Beuforthafið norður af Kanada og Alaska. Á öðrum svæðum hefur leiðin hins vegar legið rakleiðis að sundinu milli Svalbarða og Grænlands þaðan sem ísinn á ekki afturkvæmt.
Smám saman hefur þetta verið að breytast og þá sérstaklega eftir árið 2007 þegar bráðnunin gerir mikla atlögu að ísnum aftanfrá, þ.e. inn af Beringssundi. Gamli þykki ísinn sem hafði komið sér vel fyrir í Beufort-hringiðunni verður þannig hvað eftir annað fyrir miklum skakkaföllum með augljósum afleiðingum fyrir aldursamsetningu íssins. Allt sést þetta ágætlega á myndskeiðinu.
Nánar er fjallað um þetta á heimasíðu NOAA:
http://www.climatewatch.noaa.gov/video/2011/old-ice-becoming-rare-in-arctic
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)