Að þekkja Júpiter

Ég gef mig ekki út fyrir að vera mikill stjörnuþekkjari hvort sem talað er um næturhimininn eða kvikmyndabransann. Eitt má ég þó eiga, ég þekki alltaf Júpíter á lofti þegar ég sé hann - sem reyndar dugar oft vel og fær suma til að halda að ég sé stjörnufróður með afbrigðum.

Málið er eiginlega bara það að ef hvít stjarna, bjartari en aðrar er hátt á lofti á nætur- eða kvöldhimni þá má slá því föstu að um Júpíter er að ræða. Ekki getur verið um Venus að ræða því hann er alltaf frekar nálægt sólinni frá okkur séð eins og hver annar fylgihnöttur hennar. Sporbraut Venusar er nefnilega fyrir innan sporbraut jarðar sem þýðir að Venus rís alltaf eða sest nálægt sólbjarmanum. Ekki getur heldur verið um Mars að ræða því hann er rauðleitur en ekki hvítur. Síríus, sem er ansi björt, kemst aldrei hátt á loft enda tilheyrir hún eiginlega suðurhveli himins og bara svona rétt kíkir yfir húsþökin eða fjallsbrúnir.

Júpiter

Hinn mikli Júpíter er þá bara eftir og hann getur verið allstaðar þar sem reikistjörnur geta á annað borð verið eins og gildir reyndar um þær reikistjörnur sem eru fjær sólinni en jörðin. Sporbrautir þeirra eru utan við sporbraut Jarðar og þær geta því verið andspænis sólinni frá okkur séð en líka í sömu átt og sólin allt eftir því hvar þær eru staddar á sporbraut sinni. Nú háttar svo til að Júpiter er nokkurn vegin í gagnstöðu við sól sem þýðir að Júpíter kemur upp í norðaustri þegar sólin sest í suðvestri. Hann tekur svo völdin hátt á suðurhimni um nóttina þegar sólin er lengst ofaní norðurkjallara en sest svo í norðvestri þegar sólin kemur upp í suðaustri núna í skammdeginu. Júpíter er einmitt líka bjartastur þegar hann í gagnstöðu við sól enda er hann þá næst okkur og snýr um leið allri sólbakaðri hlið sinni að okkur. 

Tungl og JúpiterÞegar tunglið er fullt, eins og þessa dagana, þá er það auðvitað í góðum félagsskap með Júpíter enda bæði í gagnstöðu við sól. En máninn er snar í snúningum og verður kominn víðs fjarri Júpíter eftir nokkra daga um leið og hann fær á sig meiri skugga uns hann hverfur okkur sjónum. Þegar Júpíter er kominn hinumegin við sólu getur hann verið í félagsskap með Venusi í eða við sólarbjarmann en þó ekki alveg eins bjartur enda komin lengra í burtu en áður. Svo er bara spurning hversu mikið við fáum til að njóta stjarnanna í þessu tíðarfari. Það rofar þó alltaf eitthvað til á milli lægða. Myrkrið vantar ekki.

- - - -

Júpiter ofan við tunglið, aðfaranótt 19. desember 2013. Yfir öllu má sjá hluta af rosabaug. Allt að gerast!

 

 


Kaldasti dagur í Reykjavík síðan 1992

Fimmtudagurinn 5. desember 2013 var afskaplega kaldur um allt land og á svoleiðis dögum rýna veðurmenn í veðurgögn og bækur til að fá samanburð við fyrr tíð. Í mínu tilfelli eru það hin heimilislega veðurdagbók sem geymir veðurupplýsingar fyrir Reykjavík allt frá miðju ári 1986. Ýmis veðurmet eru þar skráð eins og vera ber en þó ekki alltaf með sama hætti og hjá hinu opinbera. Þar sem ég legg meigin áherslu á skráningu hins dæmigerða veðurs yfir daginn er ég auðvitað með metaflokk sem heitir: kaldasti dagur í Reykjavík – frá upphafi skráninga. Satt að segja hefur ekki mikið gerst í þeim flokki mjög lengi þar til nú á fimmtudaginn þegar ég skráði 12 stiga frost sem dæmigerðan "hita" dagsins. Svo kaldan dag hef ég ekki skráð síðan 14. mars 1992 en þá var dæmigerður hiti dagsins einnig -12 stig og því get ég sagt að samkvæmt mínum prívatskráningum var þetta kaldasti dagur í Reykjavík síðan 1992.

Línuritið hér að neðan er fengið af Veðurstofuvefnum og sýnir sjálfvirkar hitamælingar í Reykjavík 30. nóv til 6. des 2013. Eins og sést var frostið í hámarki einmitt þarna um miðjan daginn þann 5. desember (rauða línan). Mest fór frostið niður í 12,5 stig sem er afgerandi mest frost ársins.

Hitalínurit des 2013

12 stiga frost að meðaltali yfir hádaginn er ekki algengt í Reykjavík eins og niðurstöður skráninga gefa til kynna. Köldustu dagar hvers vetrar eru gjarnan allt að -10 stig, en sjaldan kaldari og er eins og einhvern þröskuld sé þar um að ræða. Frostið í takmarkaðan tíma getur þó farið nokkuð neðar, ekki síst á nóttunni og hækkað svo yfir daginn. Það gerðist þó ekki þarna á fimmtudaginn þegar eiginlega var um öfuga dægursveiflu að ræða. Aðfaranótt eða kvöldið fyrir 2. febrúar 2008 mældust frostið t.d. 14,4 stig í Reykjavík en frostið linaðist mjög í vetrarsólinni þannig að frostið yfir daginn skráðist einungis sem -5 stig í veðurdagbókina góðu. Aðfaranótt 19. nóvember 2004 komst frostið niður í 15,1 stig í Reykjavík en meðalfrost yfir daginn skráðist hjá mér sem -9 stig.

Annars má sjá meira en bara kulda á línuritinu. Hlýir daga voru sitt hvoru megin við mánaðarmótin en síðan fór kólnandi. Góður toppur er sjáanlegur frá morgni til hádegis þann 1. desember og komst þá hitinn mest í 9 stig í Reykjavík. Þar var um að ræða dæmigert suðlægt og rakaþrungið loft sem stundum nær hingað með hlýjum geira á eftir hitaskilum og á undan kuldaskilum sem fylgir lægðarkerfum. Slíkur hlýr geiri nær ekki alltaf hingað því gjarnan hafa kuldaskilin náð að elta hitaskilin uppi þegar hingað er komið og myndað samskil sem aftengir hlýja loft lægðarinnar við yfirborð jarðar. Það hafði þó ekki gerst þarna og því myndast einskonar hattur á línuritinu með jöfnum háum hita tímabundið þar til kólnar með kuldaskilum.

Og aðeins um hafísinn vegna þess sem ég skrifaði í síðustu færslu. En svo virðist sem hættan á hafískomu sé liðin hjá í bili enda vindar farnir að blása meir úr austri. Desember er raunar ekki mikil hafísmánuður hér við land. Sjáum til eftir áramót. 

Læt þetta duga í bili af veðurrausi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband