Loftvogin

Loftvogin

Eitt af grundvallar heimilistækjum á mínu heimili er loftvogin sem hangir uppi á vegg á góðum stað í íbúðinni. Þetta er loftvog af tegundinni Barigo sem mun vera gott og þekkt merki í þessum bransa. Loftvogin hefur reynst vel, allavega virðist henni bera vel saman við opinberar tölur bæði í háum og lágum þrýstingi. Loftvogina nýtti ég að vísu betur fyrir daga internetsins en þá las ég á hana í lok hvers dags til að skrá niður loftþrýstingin ásamt öðrum veðurþáttum en núna hef ég veðurstofuvefinn aðallega til hliðsjónar við þær skráningar.

Myndin af loftvoginni er tekin seint á fimmtudagskvöldi 24. mars og sýndi þá vogin 1026 millibör sem telst í hærra lagi en er samt nokkuð algengt á vorin. Dagana 23.-24. febrúar stóð loftvogin hinsvegar hálfhring neðar og þá hef ég merkt með handsnúna vísinum við 959 mb sem er mjög lágur þrýstingur

Einhverju sinni þegar djúp lægð var hér á sveimi, sá ég ástæðu til að framlengja kvarðann með pennastrikum þannig að hann næði allan hringinn. Eini gallinn á þessari loftvog finnst mér nefnilega vera kvarðinn sem nær bara niður í 954 millíbör, en það er eiginlega fulllítið í ljósi þess hversu djúp Íslandslægðin okkar getur orðið. Í hina áttina nær kvarðinn alveg uppí 1073 millíbör sem er alveg yfirdrifið enda háþrýstimetið fyrir landið „ekki nema“ um 1058 millíbör og fer mjög sjaldan yfir 1045 mb. Þessi aukakvörðun er nú horfin að mestu en það má samt enn greina nokkra punkta.

Allralægstu loftþrýstingsgildin standa oftast stutt yfir enda bundin við lægðarmiðjuna sjálfa sem getur verið á hraðri ferð framhjá ef miðjan nær þá á annað borð að vera í næsta nágrenni. Það er því þannig að þótt ýmsar djúpar lægðir hafi verið hér á sveimi þá hef ég samt ekki, eftir að loftvogin kom í hús sumarið 1992, skráð lægri loftþrýsting á miðnætti en 951 millibar. Það var á miðnætti hins 10. janúar 1993 þegar ein af allradýpstu lægðum sem hér hafa komið var á sveimi suðaustur af landinu. Sú mældist 915 millibör samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Líklega var það þá sem ég bætti við kvarðann.

LoftvægistaflaÁ mynd sem ég fann á heimasíðu loftvogaveldisins Barigo, er ágætis útskýring á sambandi loftþrýstings, hæðar, hita og sennilega þéttleika loftsins. Minna af andrúmslofti er fyrir ofan mann eftir því sem maður er ofar sjálfur og því lækkar þrýstingur með hæð. Miðað við 1013 millíbör við sjávarmál má gera ráð fyrir 899 millibörum í 1000 metra hæð en slíkan lágþrýsting er hugsanlega hægt að finna í miðju fellibylja við sjávarmál. Á Everesttindi í 8848 metra hæð er loftvægið ekki nema um 300 millíbör og frostið yfir 40 stigum.


Þetta var um sem sagt um loftvog og loftþrýsting. Kannski þykir gamaldags að tala um millíbör en ekki hektópasköl. Gildin munu samt vera þau sömu en millíbör finnst mér þægilegra orð


Ofurmáni og sólarlag á Norðurpólnum

Sólarlag á Norðurpólnum

Í dag fékk ég senda þessa fínu mynd sem sýnir risastórt tungl fyrir ofan sólina þar sem hún er að setjast yfir norðurpólnum. Eftirfarandi texti fylgir með myndinni:

„This is the sunset at the North Pole with the moon at its closest point last week.
a scene you will probably never get to see in person, so take a moment and enjoy God at work at the North Pole. And, you also see the sun below the moon, an amazing photo and not one easily duplicated. You may want to pass it on to others so they can enjoy it. The Chinese have a saying that goes something like this: 'When someone shares with you something of value, you have an obligation to share it with others!' I just did.. Your turn.

 

Í framhaldi af þessu eru nokkur smáatriði sem hafa skal í huga:

  1. Sólin sest ekki á norðurpólnum nema einu sinni á ári og það er á haustin. Hún er hæst á lofti á sumrin en ferðast lárétt eftir sjóndeildarhringnum, lækkar smám saman á lofti uns hún hverfur undir sjóndeildarhringinn við haustjafndægur. Um þessar mundir, stuttu eftir vorjafndægur, er sólin nýfarin að sjást á ný á norðurpólnum.
  2. Tunglið getur ekki verið svona miklu stærra en sólin, jafnvel þótt það sé óvenju nálægt jörðu. Myndin er greinilega ekki tekin með aðdráttarlinsu, en þótt svo væri ætti sólin að stækka á myndinni í sömu hlutföllum og tunglið.
  3. Á norðurpólnum ætti tunglið ekki að vera svona hátt yfir sólinni. Við miðbaug gæti þessi staða frekar komið upp því þar er gangur sólar og tunglsins þvert á sjóndeildarhringin en ekki samsíða eins og á norðurpólnum.
  4. Þegar tunglið var stærst nú á dögunum var það fullt, enda í gagnstöðu við sól. Myndin getur því ekki hafa verið tekin þá.
  5. Mjög ólíklegt er að norðurpóllinn sé ófrosinn um þessar mundir enda frostið gjarnan um 20-40 stig á þessum árstíma. Sprungur geta myndast í ísnum en sjórinn frís þá aftur á skömmum tíma. Vakir geta hinsvegar opnast að sumarlagi og haldist ófrosnar.
Sannleikurinn er sá …
… að myndin er samsett og unnin af konu að nafni Inga Nielsen. Myndin er frá árinu 2005 og hefur þvælst margsinnis um netheima og iðulega sögð vera tekin í síðustu viku. Myndina verður að skoða sem listaverk enda gerð í þeim tilgangi af hálfu listakonunnar og er ágæt sem slík.

Ég vildi bara deila þessu með ykkur eins og hvatt er til í myndatextanum.

Hinn skrýtni útsynningur

Snjórinn sem féll hér í borginni í nótt (19. mars) minnir á að veturinn er ennþá allsráðandi. Vorið mun væntanlega koma samkvæmt venju einhverntíma í apríl þegar sólin er komin það hátt á loft að snjórinn á sér ekki viðreisnar von yfir daginn. Veðrið sem olli snjókomunni í nótt telst að vísu ekki til útsynnings eins og sú eindregna snjóatíð hefur einkennst af hér suðvesturlands undanfarið. Útsynnings-éljaveður hefur lengi verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Það er eitthvað skemmtilegt við þessi snjóél sem skella á úr suðvestri eins og hendi sé veifað og fyrr en varir skín sólin á ný þangað til næsta éljagusa hellist yfir. Ég veit að það eru ekki allir sem dásama þetta veðurlag, oft veit fólk ekki hvaðan á það stendur veðrið þegar svona stendur á og ekki hafa allir hugmynd um að svona suðvestanátt er kölluð útsynningur. Gjarnan er þetta einfaldlega kallað skrýtið veður, jafnvel þó þetta sé frekar algengt veðurlag hér að vetralagi. 

Éljagangurinn hefur auðvitað ekki verið samfelldur því inn á milli hafa verið blautir dagar eða heiðríkir. Útsynningurinn hefur samt alltaf náð sér á strik á ný og í meira mæli en verið hefur marga undanfarna vetur. Þetta minnir helst á köldu árin hér í kringum 1980. Ég veit ekki hversu lengi þetta veðurlag mun haldast en svo virðist sem hvíti liturinn ætli að verða áberandi eitthvað áfram.

Þann 7. mars var ég staddur með myndavélina í Öskjuhlíð og fékk þá gott sýnishorn eins og sést á þessum þremur myndum sem teknar voru með u.þ.b. tveggja mínútna millibili kringum klukkan 12 á hádegi.

7. mars 11:57

7. mars 11:59

7. mars 12:01


Valdataka húmorista

Þetta verður þá svona:

  1. Íslendingar fella ICESAVE í þjóðaratkvæðagreiðslu
  2. Ríkisstjórnin fellur
  3. Boðað til Alþingiskosninga
  4. Formaður Sjálfstæðisflokksins fellur
  5. Davíð Oddsson verður nýr formaður Sjálfstæðisflokksins
  6. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur sigur og leiðir nýja ríkisstjórn

Þrír húmoristar gegna þá mikilvægustu embættum landsins: Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr (sem flytur ekki til Grænhöfðaeyja).

… D J Ó K !


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil hætta á flóðbylgjum á Íslandi

Þó að Ísland sé alþekkt fyrir sína eldvirkni og jarðhræringar getum við samt verið róleg yfir því að sambærilegir atburðir eigi sér stað hér á landi og í Japan. Ísland er vissulega á flekaskilum Norður-Atlantshafsflekans og Evrasíuflekans sem færast í sundur þannig að Atlantshafið stækkar um örfáa sentímetra á ári. Skjálftarnir eru flestir smáir en stóru skjálftarnir hér á landi tengjast þversprungukerfunum á Suðurlandi og útaf Norðurlandi. Þessi átök er þó mun vægari og allt annars eðlis en þau sem á eiga stað í Kyrrahafinu. Kyrrahafið er nánast einn stór úthafsskorpufleki sem hreyfist í heildina í norðvestur og treðst undir aðra fleka allt frá Alaska og langleiðina suður að Antarktíku. Við Japan þar skjálftinn var, kemur líka annar fleki við sögu kenndur við Filippseyjar sem eykur væntanlega á átökin og óreiðuna þarna í jarðskorpunni.

Flekaskil jarðar

Svona fyrirbæri þegar úthafsskorpa treðst undir meginlandsfleka mun vera kallað „renna“ og skapa miklu meiri átök en eiga sér stað hér. Stærstu skjálftar á Íslandi eru um eða yfir 7 á righter og orkan sem losnar úr læðingi ekki nema brot af því sem á sér stað í skjálftum nálægt 9 á righter. Minniháttar fljóðbylgjur geta hugsanlega borist að Norðurlandi ef skjálftar verða í þverbrotabeltinu fyrir norðan land, ég veit þó ekki til þess að orðið hafi tjón af þeirra völdum. Suðurlandskjálftarnir eiga upptök sín inni á landi og valda því ekki flóðbylgjum. Við þurfum engar áhyggjur af hafa af skjálftum á Faxaflóa sem gætu ógnað höfuðborginni. Hinsvegar er fjarlægur möguleiki á því að stór skriða falli úr Snæfellsjökli í næsta eldgosi sem gæti gert góða skvettu í Faxaflóanum og svo er alltaf möguleiki á að loftsteinn falli í hafið og geri góðan usla.

Hér að neðan er nánari skýringarmynd af flekaskilum tekin af síðunni: http://geographyworld.edu.tr.tc/earth_lithosphere.html Hafa má í huga að Ísland er bæði úthafshryggur á gliðnunarsprungu (oceanic spreading ridge) og einnig heitur reitur (Hot spot)

flekaskil

 


mbl.is 300 hús skoluðust burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um eldvirkni á Reykjanesskaga

Hraun á Reykjanesskaga eftir landnám

Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur, það eru einföld sannindi. Reykjanesskaginn er nánast allur eitt eldbrunið svæði með hraunum sem hafa runnið í sjó fram bæði í Faxaflóa og á suðurströnd skagans. Þarna gengur Atlantshafshryggurinn á land og eldstöðvakerfi tengd gliðnun landsins taka svo við hvert af öðru: Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteins- og Bláfjallakerfið og svo loks Hengilskerfið.

Ef goshrina hefst á Reykjanesskaga væru það mjög athyglisverðir og sögulegir atburðir þótt það sé óvíst hvort þau muni valda meiriháttar tjóni. Það er talið að eðlileg hvíld milli goshrina á Reykjanesskaga sé um 700-1000 ár. Síðasta goshrinan hófst á 10. öld og jafnvel fyrr og stóð yfir með hléum næstu þrjár aldir og nú eru því komin yfir 700 ár síðan gaus þarna síðast svo vitað sé (óstaðfest gos á 14. öld). Þær hreyfingar sem hafa verið í jörðinni undanfarið við Krísuvík vekja eðlilega upp spurningar hvort gos sé þarna í undirbúningi. Sennilega er þetta bara hefðbundin skjálftavirkni tengd gliðnun landsins, en hver veit? Til að átta sig á hvað gæti gerst er forvitnilegt að skoða eldvirknina á Reykjanesskaganum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, sem var í stórum dráttum þannig:

Bláfjallaeldar hófust skömmu fyrir árið 1000 og stóðu yfir í nokkra áratugi. Þá runnu talsverð hraun til suðvesturs og náðu að sjó við Herdísarvík, einnig í norðvestur og jafnvel til sjávar við Straumsvík. Hraun runnu að auki frá Bláfjöllum í átt að Reykjavík þar sem Hólmshraun er ofan Heiðmerkur. Kristnitökuhraunið tengist þessu eldstöðvarkerfi, en talið er að þar sé átt við Svínahraun sem þjóðvegur 1 liggur um nálægt Þrengslagatnamótunum.

Krísuvíkureldar sem tilheyra Trölladyngjukerfinu, stóðu yfir á árunum 1151-1180. Þá rann meðal annars Ögmundarhraun í sjó til suðurs en til norðurs náðu tveir mjóir hraunstraumar í sjó við Straumsvík og sunnan Hafnarfjarðar. Þetta er það eldstöðvakerfi sem liggur næst Höfuðborgarsvæðinu en sprungukerfi þess nær í áttina að Helgafelli og svo áfram að Rauðavatni. Apalhraunin í Hafnarfirði, Garðabæ og Heiðmörk koma frá þessu kerfi en þau eru frá því fyrir landnám og yfirleitt mjög gömul.

Í Reykjaneskerfinu voru talsverð gos árin 1211-1240. Þá runnu hraunin á svæðinu þar sem nú er Bláa Lónið og einnig í sjó fram austur af Reykjanesi. Einnig gaus að hluta til á ströndinni og í hafinu og olli það miklu öskufalli SV-lands og fékk meira að segja sjálfur Snorri Sturluson að kenna á því þegar hann þurfti að fella fjölda nautgripa af þess völdum.

Hengilssvæðið sem sprungukerfi Þingvalla tilheyrir, slapp við eldsumbrot í síðustu goshrinu en þarna gaus síðast fyrir um 2.000 árum. Árin 1994-99 voru þarna tíðir jarðskjálftar sem taldir eru tengjast kvikuinnstreymi á svæðinu sunnan Hengils en þar virðist land hafa jafnað sig aftur.

Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu væntanlega ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað í nokkur ár eða áratugi í senn. Hætta á öskufalli getur verið ef gýs í grunnum sjó skammt undan landi en einnig ef gos kæmi upp í Þingvallavatni, minniháttar sprengivirkni eru líka möguleg. Það eru mjög litlar líkur á því að gossprunga opnist í byggð en nokkrir þéttbýlisstaðir og sumir staðir höfuðborgarsvæðisins gætu vissulega verið í veginum ef hraunrennsli leitaði til sjávar. Helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera þar sem hraun eru í dag. Vallahverfið syðst í Hafnarfirði og álverið gæti verið í mestri hættu ef hraun rennur í norðvestur frá miðjum skaganum. Ef hraun nálgaðist Reykjavík eru allar líkur á það leitaði í farveg Elliðaánna og næði jafnvel í sjó við Elliðavog eins og gerðist með Leitarhraun fyrir 4.700 árum. Sama hraun myndaði gervigígana við Rauðhóla en sjálft hraunið er upprunið ofan af Bláfjallasvæði.
Ýmis meiriháttar óþægindi hljóta að verða ef mikilvægar samgönguæðar, rafmagnslínur eða veituæðar rofna sem þarna liggja þvers og kruss. Ekki má svo gleyma gufuaflsvirkjununum, en kannski verða næstu gos einmitt þegar búið verður að raða þeim eftir endilöngum skaganum. En hvað um það, það eru ekki líkur á að við þurfum að þola hamfaragos sem gæfi tilefni til allsherjar rýmingar fólks af höfuðborgarsvæðinu.

- - - -
Þessi bloggfærsla er að grunni til frá því í desember 2007 en hefur verið uppfærð vegna jarðskjálftahrinunnar við Krísuvík á dögunum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband