28.6.2011 | 20:18
Ofurplönturnar taka völdin
Nú er blómatími sumarsins gengin í garð og þrátt fyrir litla úrkomu er borgin víða að kafna í gróðri. Þar á meðal er hinn hávaxni skógarkerfill að verki en hann er orðinn áberandi í borgarlandinu og blómstrar hvítum blómum um þessar mundir. Skógarkerfill er ættingi hvannarinnar og má finna talsverðar breiður af honum í Öskjuhlíðinni, Vatnsmýrinni, Elliðaárdal og víðar og sumstaðar er kerfillinn farinn að sækja inn í lúpínubreiður sem segir sína sögu hversu öflug planta þetta er.
Skógarkerfillinn er innflutt planta eins og lúpínan en er hingað komin sem skrautjurt snemma á síðustu öld og hefur verið notuð sem slík áratugum saman í görðum. Smám saman hefur plantan dreift úr sér og finnst nú víða um land við mismiklar vinsældir. Hún þykir orðin full aðgangshörð í Eyjafirði og Hrísey og þar hafa verið gerðar tilraunir til eyðingar á henni. Skógarkerfillinn er ólíkur lúpínunni að því leyti að hann fer ekki yfir ógróið land enda vinnur hann ekki köfnunarefni úr loftinu eins og belgjurtin lúpínan gerir. Kerfilinn lætur því aðrar jurtir um að skapa jarðveginn sem hann sækir síðan í. Væntanlega munu stóru lúpínubreiðurnar umhverfis borgina smám saman láta undan skógarkerflinum sem muna síðan ráða ríkjum í þéttum breiðum þar til einhver önnur og öflugri ofurplanta nemur land. Í Esjuhlíðum við Mógilsá er þetta mjög greinilegt þar sem grænhvíti-liturinn hefur nánast tekið við af þeim fjólubláa. Lúpínan mun þó halda áfram sínu landnámsstarfi um holt og hæðir, lyng og móa.
Gott eða slæmt?
Skógarkerfillinn og lúpínan eru ekki taldar til náttúrulegrar íslenskar flóru. Þessar plöntur eru ættaðar úr öflugri vistkerfum og stuðla að varanlegri breytingu á gróðurfari. Eins og ýmsir aðrir er ég ekki alltof hrifinn af þessari þróun sem skilar sér í einsleitara gróðurfari þar sem örfáar ofurplöntur gerast allsráðandi. Mér finnst þó ekki sérstök ástæða að amast við þessu innan byggðarinnar eða í næsta umhverfi þar sem hvort sem er ægir saman allskonar gróðri innlendum og innfluttum. Þetta er líka hinar fallegustu plöntur á meðan þær eru í blóma. Hinsvegar finnst mér verra þegar landgræðsla er stunduð með lúpínu og þegar fólk er beinlínis að stuðla að útbreiðslu hennar og fjöll of firnindi. Hefðbundið rótgróið gróðurfar á landinu er í mikilli sókn samkvæmt rannsóknum, ekki síst vegna aukinna hlýinda og minnkandi beitar. Landið er ekki að fjúka á haf út eins og óttast var fyrir nokkrum árum eða áratugum og virðist fullfært um að græða sig sjálft á eigin forsendum með tíð og tíma.
Skrautlegar ofurplöntur í Öskjuhlíð í harðri valdabaráttu.
- - - - -
Nánar um Skógarkerfilinn má finna hér á vef Náttúrfræðistofnunar:
http://www.ni.is/grodur/rannsoknir/agengartegundir/skogarkerfill
22.6.2011 | 18:47
Þökulagning á þurrkatímum
Það hefur ekki rignt mikið í Reykjavík það sem af er sumri og reyndar ekki nokkur síðustu sumur. Eiginlega tilheyrir það fortíðinn að hægt sé að tala um að í Reykjavík sé sífelld rigning eða súld. Ekki virðast allir búnir að átta sig á þessu nýja veðurlagi eins og til dæmis þeir sem í blautu bjartsýniskasti halda að það sé bara hægt að leggja grasþökur í upphafi sumars og þurfa svo ekki að sinna því meir. Grasflatirnar á umferðareyjum við tónlistarhúsið Hörpu eru ágætt dæmi um þetta en þar var fyrir um mánuði síðan tyrft með iðagrænum þökum sem síðan hafa ekki gert annað en að þorna upp og gulna meir og meir. Smá væta af og til hefur ekki mikið að segja og ekkert nema úrhellisrigning í gamla stílnum virðist geta komið til hjálpar.
Snemmsumarið er að öllu jöfnu þurrasti tími ársins hér í Reykjavík. Meðalúrkoma júnímánaðar er sögð vera 50 millimetrar en sú mánaðarúrkoma náðist síðast í júní 2006 og þar áður 2003. Síðustu fjögur árin hefur júní-úrkoman ekki verið yfir 30 millimetrum og fátt sem bendir til þess að 50 millimetrunum verði náð í þessum mánuði. Það er þó aldrei að vita.
Það er annars athyglisvert hvað veðurgæðum getur verið misskipt á landinu. Sumsstaðar norðanlands eiga menn við kal í túnum að stríða og almennilegt sumar lætur bíða eftir sér. Norðlensku Mæjorkahitarnir og gæðasumrin eru að verða sífellt fjarlægari í minningunni sem er eiginlega það sama og hægt er að segja um Reykvísku rigningarsumrin. Tíðarfar á það til að festast í einhverju fari á vissu árabili. Það tekur síðan stundum jafn mörg ár að aðlagast nýjungum praktískt. Í samræmi við það taka kannski við mikil rigningarsumur á sama tíma og menn læra hvernig á að standa að þökulagningum í þurrkatíð. Kannski fer líka að rigna strax eftir að þessi bloggfærsla fer í loftið.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2011 | 21:31
Af snjóalögum sunnan Hofsjökuls
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.
Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og snjódýptin vel á annan metra seinni hluta vetrar samkvæmt mælingum. Snjórinn er venjulega í hámarki í apríl og horfinn um miðjan júní og eins og sjá má á línuritinu á það einnig við í ár þrátt fyrir nokkuð svala tíð undanfarið. Ég fylgist að vísu ekki alltaf með upp á dag hvenær snjórinn hverfur en í ár hitti það alveg á 15 júní.
Framan af vetri var að mjög lítil snjósöfnun á Setri en úr því var bætt eftir áramót af miklum ákafa uns vorsólin fór að hafa betur. Mér sýnist vera þó nokkur samsvörum milli snjódýptar þarna upp undir Hofsjökli og ástandsins almennt á suðurhelmingi landsins, en væntanlega síður norðan jökla. Maður sér þetta til dæmis ágætlega á Esjunni sem var nánast snjólaus um síðustu áramót en bætti síðan heilmiklu á sig.
Þarna sést líka vel hvað veturinn 2009-2010 (ljósblá lína) var snjóléttur þótt hann hafi byrjað nokkuð bratt. Árið í fyrra skilaði enda mjög neikvæðri afkomu helstu jökla landsins en auk þurrka bættust við langvinn sumarhlýindi og öskufall úr Eyjafjallajökli. Skaflar Esjunnar hurfu í samræmi við þetta óvenjusnemma síðasta sumar eða um miðjan júlí. Það eru varla nokkrar líkur á að þeir hverfi svo snemma í ár, þeir ættu þó að hverfa fyrir næstu vetrarkomu sé tekið mið af síðustu árum.
- - - -
Minna má á veðurgrafíska myndalbúmið hér á síðunni þar sem þessu línuriti hefur verið komið fyrir ásamt öðru veðurtengdu sem ég hef dundað mér við að setja saman.
Ljósmyndin af Setri er tekin af Kjartani Pétri Sigurðssyni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2011 | 18:44
Um sumarbráðnun hafíssins á Norður-Íshafinu
Nú skal spáð í hafíssinn. Á meðfylgjandi línuriti ættuðu frá hafísdeild Dönsku Veðurstofunnar má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu ára. Svarta línan er núverandi ár og samkvæmt því er útbreiðslan þessa dagana með lægsta móti en þó svipuð og á sama tíma og í fyrra. Vetrarhámarkið í ár var einnig með lægsta móti ekki ósvipað og árin 2005 til 2007. Ef rýnt er í myndina sést að í raun er lítið samband á milli vetrarhámarks og sumarlágmarks og jafnvel segir staðan nú í sumarbyrjun lítið um árlega lágmarkið sem oftast á sér stað í september.
Árið 2007 sker sig nokkuð úr í sumarlágmarkinu enda fór bráðnun íssins það ár fram úr öllum væntingum og óttuðust margir að dagar hafíssins að sumarlagi yrðu taldir að fáum árum liðnum. Árið 2007 er því mikið viðmiðunarár og varð til þess að ýmsir fóru að fylgjast nánar með hafísnum, þar á meðal ég sjálfur.
Hvað gerist í framtíðinni er erfitt að spá um. Ef allt leggst á eitt gæti ísinn alveg horfið í sumarlok innan 10 ára en einnig er mögulegt að íslaust Norður-Íshaf verði ekki að veruleika fyrr en eftir marga áratugi, ef það gerist þá yfirleitt. Þegar kemur að því að íslaust Norður-Íshaf verður að veruleika, þarf það ekki endilega að vera árviss atburður þar á eftir, því nýtt upphaf á sér stað með hverjum vetri og nýjum ís. Munurinn er þó hinsvegar sá að einsvetrargamall ís er alltaf viðkvæmari fyrir bráðnun heldur en margravetragamall ís.
Næsti stóri atburður þarna norðurfrá verður væntanlega þegar norðurpóllinn sjálfur nær að verða almennilega íslaus. Slíkt hefði þó aðallega táknrænt gildi því norðurpóllin sjálfur er bara hver annar staður á Norður-Íshafinu en nokkuð mikið þarf að gerast ef hafið á að opnast akkúrat þar.
Nú fylgjumst við með hvað gerist í sumar. Byrjunin lofar góðu fyrir þá sem vilja sjá sem mesta bráðnun. Hæðarsvæði, bjartviðri og almenn veðurrólegheit hafa ríkt á Norður-Íshafinu undanfarið en slíkt stuðlar að meiri bráðnun heldur en þrálátir lægðarvindar, að sögn kunnugra. Einnig skiptir máli hversu mikið af mildu meginlandslofti mun berast yfir á Íshafið í sumar, sérstalega frá Síberíu. Vindur og ríkjandi straumar þurfa svo ekki síður að beina ísnum sem mest að Fram-sundi milli Grænlands og Svalbarða en Norður-Íshafið virkar sem risastór trekt með Fram-sund sem aðal undankomuleið. Ísinn safnast þannig saman okkar megin á Norður-Íshafinu á meðan opnu höfin myndast frekar hinu megin, þ.e. Kyrrahafsmegin á Norður-Íshafinu.
Þetta sést ágætlega á mynd sem sýnir ástand hafíssins þann 7. júní en til samanburðar hef ég útlínað hið fræga septemberlágmark ársins 2007. Verður eitthvað slíkt endurtekið í ár?
Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
2.6.2011 | 20:52
Veðurskráning maí 2011
Eins og um síðustu mánaðarmót kemur hér dálítið veðuryfirlit fyrir nýliðinn mánuð og smá samanburður við fyrri ár. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurdagbókarskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn og eins og ég hef oft nefnt áður er aukaafurð þessara skráninga, einkunnakerfi, sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum. Þetta útskýrði ég örlítð betur síðast. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru bara ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans, en nú er ég að hugsa um að deila skráningum með þjóðinni næstu mánuði, eða bara í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn maí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort dagurinn teljist í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). Meðallagið hef ég nokkuð vítt og er breytilegt eftir árstíðum. Fyrri hluta maímánaðar miða ég við 4-9 stig en seinni hlutann 7-12 enda er maí að öllu jöfnu ört hlýnandi mánuðir.
Maí 2011
Nýliðinn maímánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem telst nokkuð góð einkunn. Kannski finnst sumum þetta hafa verið kaldur mánuður en það er væntanlega vegna þess að hitafarið var öfugsnúið í mánuðinum með sannkölluðum sumarhitum fyrri partinn en frekar svölu veðri seinni partinn. Slíkt háttarlag er ekki vænlegt til vinsælda á vormánuðum en veðurbókin hefur engar tilfinningar fyrir slíku. Öfgarnar fyrstu tvo dagana er merkilegar því mánuðurinn byrjaði á bólakafi í snjó en 14 stiga hita daginn eftir. Eins og gjarnan er í maí var yfirleitt nokkuð bjart í veðri og úrkomudagar fáir. Ég vek athygli á næstsíðasta dálkinum sem er að mestu auður. Þar sést hvort blautt sé yfir um miðnætti eða jörð hvít eins og tilfellið var eftir fyrsta daginn. Yfirleitt er þessi dálkur miklu skrautlegri, sérstaklega yfir veturinn.
Merkisatburður mánaðarins var auðvitað Grímsvatnagosið sem hófst að kvöldi þess 21. Sá sólskinsdagur fékk 6 stig í einkunnakerfinu en til að fá bestu einkunn hefði vindur þurft að vera hægari og hitinn hærri. Enginn dagur náði sparieinkunninni 8 að þessu sinni. Sumir dagar fyrri hlutann voru þó mjög nálægt því og hefðu í raun alveg átt það skilið. Enginn dagur fékk heldur hina alslæmu 0-einkunn (enda mjög fátítt) og enginn fékk bara 1 stig, sem á sinn þátt í ágætri einkunn mánaðarins.
Nokkrir góðir maímánuðir til samanburðar:
Maí 2010 - Einkunn 5,5. Þetta er mjög góð einkunn og með því allra besta sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér í einkunn. Þetta var sannkallaður sumarauki að vori enda hlýr mánuður og alveg laus við kuldaköst eins og oft hefur einkennt maímánuði hér á landi. Þar að auki var sólríkt, hægviðrasamt og þurrt hér í Reykjavík og varla hægt að fara fram á meira, nema hvað að stöku sinnum gerði hér dálítið öskumistur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Maí 1995 - Einkunn 5,4. Þessi mánuður er kannski nokkuð óvænt og afgerandi í öðru sæti. Hitinn var þó ekkert sérstakur en allt annað í góðu lagi. Það sem vegur hátt í góðri einkunn er hvað vindurinn var hægur en frá upphafi minna skráninga er þetta allra hægviðrasamasti mánuðurinn í Reykjavík. Opinberar athuganir eru þó ekki alveg sammála enda mælist nú hvað eftir annað mun hægari meðalvindur á Veðurstofutúni í ört vaxandi gróðri og byggð þar umhverfis.
Maí 2002, 2003, 2005 og 2006 - Einkunn 5,1. Þessir mánuðir eru allir sólríkir og þurrir og því nokkuð dæmigerðir fyrir veðurlag sem algengt er hér á vorin. Gallinn við þá (fyrir utan 2003) eru hinsvegar nokkrir kaldir norðanáttardagar sem þó skora ágætlega í einkunnakerfinu vegna sólskins. Það sem bjargar málunum er að hér í Reykjavík fer saman skjól fyrir köldum vindum úr norðri og varmi sólarinnar úr suðri. Kuldakastið seinni hlutann í maí 2006 var þó ansi hastarlegt, en eins og nú í ár var fyrri hluti mánaðarins mjög hlýr og komst t.d. hitinn í 18 stig þann 7. maí.
Maí 2008 - Einkunn 4,8. Þetta telst að vísu bara góð meðaleinkunn en ég nefni mánuðinn því hann þetta er hlýjasti maí í Reykjavík síðan 1960. Vindar voru nokkuð suðlægir og ekki alltaf hægir. Hitinn var nokkuð jafn allan mánuðinn, yfirleitt svona 9-12 stig yfir daginn.
Og þeir verstu:
Maí 1989 - Einkunn 4,0. Þessi mánuður á alveg skilið að vera neðstur á blaði. Meðalhitinn var ekki nema 4,8 stig og úrkoman var sú mesta sem mælst hefur í maí hér í Reykjavík. Að þessu sinni kom kuldinn ekki bara úr norðri heldur líka úr suðvestri og því gerði nokkrum sinnum slydduél og jafnvel stundum snjóél með hvítri jörð. Sumarið sem á eftir kom náði sér aldrei á strik og var nokkuð kalt og leiðinlegt.
Maí 1991 - Einkunn 4,2. Þetta telst ekki alveg vera falleinkunn en mánuðurinn skorar ekki hærra vegna þrálátra rigninga og sólarleysis. Stöku slydduél úr suðvestri hrjáðu einnig höfuðborgarbúa framan af mánuði. Að þessu sinni fylgdi óvenjugott sumar og sögulegt miðað við það sem fólk átti að venjast þarna fyrir 20 árum.
- - - -
Almennt að lokum. Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Einkunnarkerfið er auðvitað ekki gallalaust en er samt ágætis viðmiðun og útgangspunktur fyrir veðursamantektir eins og þessa.
Veður | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)