Gengið yfir Fimmvörðuháls

Hraun og stikaÞað má segja að Fimmvörðuhálsinn hafi slegið rækilega í gegn með eldgosinu sem þar kom upp í mars 2010. Það var líka sannkallað túristagos og í góðu samræmi við það voru nokkrar göngustikur einu mannvikin sem lentu undir hrauni. Sjálfur fylgdist ég með vel gosinu eftir bestu getu, spáði í hraunstraumana, lá yfir vefmyndavélum og fannst þetta allt nokkuð stórkostlegt því þótt gosið hafi verið smærra móti var staðsetningin afar athyglisverð og aldrei var að vita hvert framhaldið yrði. Mesta upplifunin var svo auðvitað þegar ég gekk, eins og sumir aðrir, alla leiðina frá Skógum að gosstöðvunum og sömu leið til baka í björtu veðri og töluverðu vetrarfrosti. Það var þó ekki fyrsta ferð mín upp á Fimmvörðuháls því árið 1994 gekk ég hina klassísku leið frá Skógum yfir í Þórsmörk.

Sunnudaginn 26. ágúst s.l. var svo komið að þriðju ferð minni á hálsinn sem ég fór ásamt góðum hópi vinnufélaga þannig að nú hef ég farið þetta fyrir og eftir gos – og líka í gosinu sjálfu. Þessi síðasta ferð var ákveðin fyrir nokkrum mánuðum en þegar nær dró fóru veðurspár að gerast tvísýnar og full ástæða að taka mið af þeim vegna þess veðravítis sem Fimmvörðuhálsinn getur verið. En þrátt fyrir óuppörvandi veðurspár var mætt að Skógum kvöldið áður og vonað það besta. Það borgaði sig því þennan sunnudag var veðrið með besta móti, úrvals skyggni alla leiðina og passlegur vindur, svona rétt til að koma í veg fyrir ofhitnun göngumanna.

Svo ég segi fyrir mig þá er þessi staður þar sem gosið kom upp einn af stórbrotnustu stöðum landsins og ekki versnaði það með viðbótinni sem kom upp með eldsumbrotunum. Gosið í Eyjafjallajökli hafði líka sitt að segja því aska liggur víða í sköflum og eykst eftir því sem ofar dregur frá láglendi. Merkilegt var að sjá hvernig snjóskaflar bregðast við öskunni ofan á sér því þegar snjórinn undir bráðnar, myndast heilmiklar þúfur og eins gott að passa upp á að falla ekki niður í göt sem bræðsluvatn hefur myndað að neðanverðu.

Best að skella inn nokkrum myndum. En fyrst má geta þess að gengið var meðfram fossunum alla leið upp en þeirri leið er einmitt lýst í bókinni GÖNGULEIÐIN YFIR FIMMVÖRÐUHÁLS sem hann Sigurður stórbloggari Sigurðarson var að gefa út og segir betur frá á sinni síðu. Þegar sú leið er farin er komið upp heldur vestar en oftast hefur verið farið.

Fimmvörðuháls1

Einn af fjölmörgum fossum á leiðinni upp.

Fimmvörðuháls2

Hér er hópurinn kominn á Fimmvörðuháls og allt er öskugrátt. Þarna var dálítill farartálmi vegna vatnsins sem streymdi undan stórum snjóskafli. Nýju fellin er þarna lengst til vinstri.

Fimmvörðuháls3

Sandhjúpaður snjóskafl með þúfum og ginnungargöpum.

Fimmvörðuháls3

Eldfellið Magni í öllu sínu veldi.

Fimmvörðuháls5

Hér er horft niður Bröttufönn (sem er engin fönn lengur) í átt að Mýrdalsjökli. Lengst niðrí Hrunagili má sjá glitta í nýja hraunið. Ofan á því rennur vatn sem kemur af fossinum þarna hægra megin.

Fimmvörðuháls6

Hér sést Hrunagilið og storknað hraunið sem féll þar niður í háum fossi uns það hafði hlaðist nógu vel upp í botninum til að mynda rennibraut. Þegar sú braut var almennilega tilbúin tók hraunið hinsvegar að streyma niður Hvannárgilið sem er vestar, byrjaði svo að renna þarna niður aftur, svo fór að gjósa á hinni sprungunni sem aftur dró úr hraunrennsli þarna.

Fimmvörðuháls8

Svo er það bara leiðin niður Þórsmerkurmegin.

- - - - -

Í bloggfærslunni MYNDIR AF VETTVANGI er greint frá gosferð minni að eldstöðvunum þann 27. mars 2010.


Skaflaleiðangur á Esjuna

Sunnudaginn 19. ágúst var Esjan klifin upp í hæstu skaflahæðir í Gunnlaugsskarð í þeim aðaltilgangi að meta og mæla stærsta skaflinn sem þar er enn að finna. Leiðangursmenn ásamt mér voru bloggfélagarnir og loftslagsbræðurnir góðkunnu, Höskuldur Búi og Sveinn Atli. Ferðin þangað uppeftir er frekar löng og brött á kafla þegar brölta þarf upp meðfram gilinu neðan við skálina sem hefur verið kennt við Gunnlaugsskarð. Eins og kunnugt er, er afkoma Esjuskafla ágætis loftslagsmælikvarði enda eiga þeir til að hverfa alveg, frá Reykjavík séð þegar hlýindi eru ríkjandi, en á kuldaskeiðum geta allnokkrir skaflar lifað af yfir sumarið. Hér í síðustu færslu birti ég einmitt mynd úr ferð sem ég fór á sömu slóðir 27. ágúst árið 1995, en þar mátti sjá talsvert mikla skafla í áðurnefndum giljum neðan við Gunnlaugsskarð. Segja má reyndar að árið 1995 hafi verið síðasta kalda árið sem komið hefur í Reykjavík og að það marki lok kuldaskeiðsins á seinni hluta síðust aldar.

Skafleiðangur 1

Mynd: Höskuldur Búi ásamt undirrituðum komnir upp í Gunnlaugsskarð.

EIns og í góðum könnunarleiðangrum var málband með för og mældist skaflinn um 32 metrar á lengd. Breiddin var ekki mæld en gæti hafa verið allt að 10 metrar - meiri óvissa er um þykktina. Fleiri skaflar voru sjáanlegir en við fórum ekki að þeim. Sá næststærti var heldur minni en sá sem við mældum og svo var einn örsmár sem ekki átti mikið eftir. Okkur félögunum þótti nokkuð ljóst að allir skaflarnir myndu hverfa fyrir haustið og vel það. Þeir loftslagsfélagar voru síðan auðvitað á því að þarna væri komin enn ein skotheld sönnun fyrir hlýnun jarðar af mannavöldum. Eða svona „more or less“.

Skafleiðangur 2

 Mynd: Höskuldur Búi og Sveinn Atli með málbandið.

Skaflasaga Esjunnar er annars í stuttu máli sú að ekki er vitað til þess að þeir hafi horfið alveg séð frá Reykjavík fyrir árið 1930. Á hlýja tímabilinu 1930-1964 hvarf snjórinn alloft en lengsta snjólausa tímabilið var á árunum 1932-1936. Þega kólna tók á ný hvarf snjórinn ekki frá árinu 1965 til ársins 1997. Það gerðist hinsvegar á ný árið 1998. Lengsta snjólausa tímabilið sem vitað er um eru svo árin 2001 til 2010, en í fyrra vantaði herslumuninn eins og áður sagði og að öllum líkindum verður Esjan snjólaus í ár. Þetta passar ágætlega við það að öll ár þessar aldar hafa verið hlý og síðustu 10 ár hlýrri að meðaltali en nokkurt annað 10 ára skeið í Reykjavík og ekkert lát á því miðað við það sem af er þessu ári. Svo ég nefni tölur þá hefur meðalhitinn síðustu 10 ár verið 5,52 stig hér í Reykjavík en á hlýjasta tímabil síðustu aldar (1932-1941) var meðalhitinn 5,14 stig. Á köldu árunum á seinni hluta 20. aldar fór 10 ára meðalhitinn niður í 4,0 stig, árin 1979-1988.

Á Esjumyndinni sem ég tók fyrir nokkrum dögum sést glitta í skafla. Gunnlaugsskarðið er þarna austast en einnig má vekja athygli á Kerhólakambs-skaflinum sem enn er til staðar. Venjulega hverfur hann á undan hinum en að þessu sinni er hann nokkuð seigur og gæti allt eins orðið sá síðast til að hverfa í ár.

Esja 14. ágúst 2012

- - - -

Miklu nánar er hægt að lesa um Esjuskafla í fróðleikspistli eftir Pál Bergþórsson á vef Veðurstofunnar: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2068

 


Gömul mynd úr Esjugöngu - hvenær var hún tekin?

Þegar hallar fer sumri líta Reykvíkingar til Esjunnar og spá í hvort síðustu skaflarnir nái að bráðna fyrir haustið. Mjög misjafnt er eftir sumrum hvenær síðustu skaflarnir hverfa en á þessari öld hafa þeir alltaf horfið, nema reyndar í fyrra þegar smáskafl upp í Gunnlaugsskarði rétt tórði, eftir því sem best er vitað.

Þá að gömlu myndinni sem ég tók í Esjugöngu með Ferðafélaginu fyrir allnokkrum árum. Þarna eru menn að nálgast gilin fyrir neðan Gunnlaugsskarð og er ferðinni heitið upp á Hábungu Esjunnar. Eins og sést þá eru allmiklir skaflar þarna í giljunum og eiga greinilega nóg eftir. Undanfarin ár hafa þessir gil-skaflar horfið um mitt sumar og jafnvel fyrr, en það ræðst ekki síst af því hversu mikið hefur snjóað um veturinn.

Esjuganga FI
Þegar kemur að ljósmyndum af Esjunni er alltaf gott að vita nákvæmlega hvenær þær eru teknar. Í tilfelli þessarar myndar kemur sér vel að muna að ég hafði með mér vasaútvarp í göngunni og hlustaði á lýsingu á því þegar KR-ingar þurftu endilega að vinna Framara í úrslitaleik bikarkeppninnar. Með smá eftirgrennslan komst ég að því að leikurinn fór fram þann 27. ágúst 1995 sem þýðir að myndin var einmitt tekin þá. En nú er öldin önnur og í dag þætti það frásögum færandi að hafa svona miklar fannir á þessum stað svona seint að sumri. Ekki voru menn þó mikið að spá í það seint síðustu öld þegar alvanalegt var að fjölmargir skaflar í Esjunni lifðu af sumarið hverju sinni. Reyndar má taka fram að árið 1995 var kalt ár og veturinn á undan hafði víða verið snjóþungur. Eiginlega var þetta síðasta árið sem hægt er að segja að hafi verið kalt í Reykjavík sem og annarstaðar á landinu.

Ástand Esjuskafla núna árið 2012 ber hlýindunum vitni, ekki síst hinir allra síðustu dagar. Þrátt fyrir snjóþyngsli í desember og janúar ásamt mjög þurru sumri lengst af er lítið eftir að Esjusköflum eins og sést á myndinni hér að neðan sem var tekin þann 14. ágúst og skaflarnir í giljunum neðan við Gunnlaugsskarð auðvitað löngu horfnir (svæði merkt með ramma). Nokkrir smáskaflar tóra þarna efst en eru ekki efnilegir til að endast fram á haustið. Smáskaflinn til vinstri á myndinni vestan við Kerhólakamb hefur þó verið nokkuð seigur þetta sumar og jafnvel möguleiki á að leifar hans lifi skaflana í Gunnlaugsskarði sem venjulega hverfa síðastir.

Esja 14. ágúst 2012

Tíðindi af Norðurvígstöðvunum

Nú skal hugað að einhverri mestu umhverfisbreytingu sem á sér stað þessi misserin á jörðinni, nefnilega hinum ört minnkandi hafís á norðurhveli. Þetta auðvitað hið stærsta mál enda bíða sumir í ofvæni eftir því að hægt sé að sigla þvers og kruss um Norður-Íshafið að sumarlagi á meðan aðrir keppast við að græja sig upp til að dæla þarna upp allskonar olíum og gösum svo hægt sé að brenna enn meira eldsneyti og viðhalda hlýnun jarðar. Ómögulegt er samt að segja hvernig þróunin verður með ísinn því alltaf er hugsanlegt að hin hraða bráðnun undanfarin ár sé að einhverju leyti náttúrleg niðursveifla sem gangi eitthvað til baka á komandi árum.

En allavega, þá bráðnar ísinn hratt eins og venjulega yfir sumarmánuðina uns hinu árlega útbreiðslulágmarki verður náð í september. Lágmark ársins 2007 var það langlægsta sem sést hafði fram að þeim tíma og markaði ákveðin þáttaskil. Þótt útbreiðslulágmörkin hafi síðan þá ekki alveg náð sömu dýfu, hefur heildarísmagnið samt haldið áfram að minnka enda er ísbreiðan sífellt að þynnast sem aftur skilar sér í gisnari ís yfir sumartímann. En vegna þess hve stór hluti ísbreiðunnar er gisinn seinni part sumars er varla lengur hægt að nota útbreiðsluna eina og sér sem mælikvarða. Það er þó alltaf ágætt að bera saman kort eins og þessi hér að neðan. Myndin til vinstri sýnir útbreiðslu hafíssins þann 9. ágúst, örlagaárið 2007 en sú til hægri sama dag núna árið 2012.

Ískort NSIDC 2007 2012

Á þessum samanburði sést að þótt ísbreiðan sé svipuð að flatarmáli þá er talsverður munur á sjálfri útbreiðslunni. Sumarið 2007 hjálpuðu óvenjulegar aðstæður til við að pakka ísnum vel saman en stóra opna hafssvæðið norður af austur-Síberíu og Beringssundi átti eftir að stækka enn meir fram í september. Núna er hinsvegar stór hluti íssins frekar gisinn og litlu má muna að opið haf sé allan hringinn. Þróunin næstu vikurnar gæti orðið athyglisverð því stóru íssvæðin sem farin eru að blána verulega á 2012-kortinu eiga sennilega ekki mikinn séns það sem eftir er bræðsluvertíðar.

Óvenju skörp dýfa á Danska línuritinu

Ýmsar viðmiðanir eru notaðar til að meta og bera saman umfang ísbreiðunnar. Athyglisverðast er að sjá hvað er að gerast þegar línurit frá hafísdeild Dönsku Veðurstofunnar er skoðað en þeir miða við að hafssvæði teljist íslaust þegar þéttleikinn er kominn undir 30%. Þegar þróun síðustu daga er skoðuð kemur athyglisverð þróun í ljós. Það er þykka svarta línan sem sýnir útbreiðsluna árið 2012 eins og greinilegt er - árið 2007 er blátt að lit, en árið í fyrra er mjög ógreinilegt í gulum lit (þeir mættu gera aðeins betur í grafíkinni). 

Hafíslínurit DMI 11 ágúst 2012

Það sem veldur þessari skörpu dýfu í útbreiðslu íssins er ekki síst hin óvenjudjúpa lægð sem myndaðist nú á dögunum yfir Norður-Íshafinu og veldur miklum vindum og sjávargangi sem rótar í öllu þarna norðurfrá, sérstaklega þar sem ísinn er gisinn og viðkvæmastur fyrir. Dýfan hefur þó eitthvað að gengið til baka sem bendir til þess að gervitunglið hafi ekki náð að skynja allan ísinn þegar mest gekk á. Annað atriði sem hef ég séð skrifað um vegna lægðarinnar er að lagskipting sjávarins hafi stokkast upp nógu mikið til að saltríkari sjór nái upp á yfirborð sem flýtir enn meir fyrir bráðnun auk þess að tefja fyrir nýmyndun íssins í haust. Hvað sem því líður þá má búast við miklum skakkaföllum á ísbreiðunni næstu daga og vikur og því ekki ólíklegt að útbreiðslan muni ná nýjum botni í ár. Væntanlega verða fluttar einhverjar fréttir af því þegar þar að kemur.


Ólympíuhetjur og fulltrúi alþýðunnar

OL London2012Nú þegar frjálsu íþróttirnar eru hafnar á Ólympíuleikunum er hægt að segja að keppnin sé hafin fyrir alvöru. Fram að þessu hefur sjónvarpsáhorfendum nánast verið drekkt með endalausum sundkeppnum þar sem íslensku þátttakendurnir eru jafn langt frá sínu skásta og endranær á svona stórmótum. Annars hefur árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Stöku sinnum hafa góðmálmar reyndar lent í höndum Íslendinga, ekki síst þarna í Peking þegar handboltamenn komu heim með heilan silfursjóð.

moskva1980Framfarir í sambandi við Ólympíuleika hafa sennilega verið mestar á fjölmiðlasviðinu og af sem áður var þegar treysta þurfti á æsilegar útvarpslýsingar af framgangi okkar helstu íþróttakappa. Ein slík lýsing er mér minnisstæð frá Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 þar sem meðal annars keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari, Jón Diðriksson. Lítt kunnur fréttamaður, Stefán Jón Hafstein, hafði verið sendur á vettvang og lýsti hann 1500 metra hlaupinu. Allan tímann jós Stefán miklu lofi á Jón Diðriksson sem snemma tók forystu í hlaupinu en inn á milli í öllum hamaganginum mátti heyra eitthvað á leið: „hann er fyrstur … hann er annar … hann er orðinn þriðji … hann dregst aðeins afturúr … hann kemur í mark og er sjöundi – í riðlinum … frábært hlaup hjá Jóni“.

Þótt menn komi síðastir í mark er ekki þar með sagt að þeir séu einhverjir aukvisar eða meðalmenni enda hafa íþróttamenn á Ólympíuleikum lagt á sig ómælt erfiði árum saman. Það má til dæmis minna á að Jón Diðriksson er ennþá handhafi Íslandsmetsins í 1500 metra hlaupi samkvæmt metaskrá FRÍ.

Til að sýna fram á raunverulega getu keppenda á Ólympíuleikunum, ekki síst hinna lakari, langar mig að varpa fram þeirri tillögu að í hverri einstaklingsgrein keppi alltaf einn óbreyttur borgari sem gæti kallast Fulltrúi alþýðunnar. Hann væri valin af handahófi en eina skilyrði fyrir þátttöku hans er að hann hafi burði til að ljúka keppni. Smá sýnishorn af 110 metra hindrunarhlaupi á einhverju móti í Kína fer hér á eftir en miðað við framgöngu eins keppandans verður ekki betur séð en þarna sé einmitt kominn fulltrúi alþýðunnar sem lætur ekki takmarkaða getu hindra sig.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband