Vetrarhiti í súlnaformi

Þótt vetrarkuldar séu kannski ekki alveg að baki þá ætla ég bjóða hér upp á vetrarhitasúlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík nýliðinn vetur, frá nóvember til mars. Tölurnar sem liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Eins og venjulega var hitafar vetrarins upp og ofan en almennilegir hlýindakaflar létu á sér standa þar til undir það síðasta. Nánar um það undir myndinni.

Vetrarhitasúlur 2017-18

Vetur byrjaði nokkuð skart eftir góð hausthlýindi á undan. Nóvember er yfirleitt ekki  skilgreindur sem vetrarmánuður en að þessu sinni náðu vetrarkuldar fljótlega yfirhöndinni í mánuðinum og færðust í aukana eftir því sem á leið. Meðalhitinn endaði rétt yfir frostmarki og varð þetta kaldasti nóvember í Reykjavík síðan 1996, en þá var reyndar mun kaldara. Í desember og janúar var hitinn áfram að dóla sér sitt hvoru megin við frostmarkið. Lægðir færðu okkur hlýindi úr suðri af töluverðu afli en það jafnaðist iðulega út með kuldum úr norðri. Ekki er hægt að tala um öfgar í hitafari og eiginlega mesta furða að köldustu dagarnir hafi ekki verið kaldari en þetta. Almennileg hlýindi létu líka bíða eftir sér en í febrúar skrái ég fyrst 7 stiga hita yfir daginn snemma í mánuðinum. Þess var auðvitað hefnt með meira en vikuskammti af kulda. Svo fór þetta að koma. Eftir miðjan febrúar náðu hlýir loftmassar loks yfirhöndinni og mars hefur stórlega bjargað málunum fyrir hitafar vetrarins. Mér reiknast svo til, út frá opinberum tölum, að meðalhiti þessara fimm vetrarmánaða sé +0,5 stig sem er sambærilegt vetrinum 2001-2002 og að þessir tveir vetur séu þar með þeir köldustu á öldinni. Þetta var sem sagt heldur kaldari vetur en við höfum átt að venjast á þessari öld. Á kalda tímabilinu 1965-1995 hefði hann þó sennilega fengið ágætis eftirmæli.

En til samanburðar og upprifjunar þá á ég sambærilega mynd fyrir veturinn á undan þessum, þ.e. veturinn 2016-2017. Sá vetur var með þeim allra hlýjustu og mældist meðalhitinn hér í Reykjavík 2,6 stig frá nóv-mars. Þar erum við greinilega að tala um allt annarskonar vetur, en þó vetur engu að síður.

Vetrarhitasúlur 2016-17

 


Fína svifrykið og fínu dísilbílarnir

Á sama tíma og hratt hefur dregið úr sölu dísilbíla í Evrópu vegna skaðlegs útblástur þeirra virðist lítið vera að draga úr framboði nýrra dísilbíla hjá íslensku bílaumboðunum. Þetta á sérstaklega við svokallaða um sportjeppa og aðrar stærri gerðir bíla. Í sumum tegundum er einungis boðið upp á dísilvélar og almennt eru fleiri útfærslur í boði af dísilbílum af hverri tegund, heldur en af bensínbílum. Vilji maður til dæmis fá sér heiðarlegan, fjórhjóladrifinn, beinskiptan, bensínbíl, er víða afskaplega fátt í boði samanber þessi dæmi af verðlistum ónefndra bíltegunda.

Disilverdlistar

Eitthvað er þetta þó líklega að breytast. Suzuki-umboðið bíður t.d. einungis upp á bensínbíla í stað dísils og svo er stóraukin sala í þeim bílum sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni. Vandamálið með dísilvélar er að í útblæstri þeirra er að finna mun meira magn af fínlegustu gerðum svifryks (PM2,5) sem einmitt er skaðlegasta gerð svifryks fyrir heilsu fólks. Sjá til dæmis hér: What is PM2,5 and why should you care?

PM2,5 eru það agnarsmátt ryk að líkaminn nær ekki að losa sig við það og því safnast það einfaldlega fyrir í líkömum fólks. Með bættri tækni hefur útblástur þessa fínryks frá dísilvélum að vísu lækkað á síðustu árum  en samt er hlutfall þess í nýlegri vélum að minnsta kosti tífallt það sem kemur úr bensínvélum. Auk þess gefa dísilvélar frá sér mun meira magn köfnunarefnisdíoxíðs NO2 sem getur valdið lungnaskjúkdómum auk þess að hafa skaðleg áhrif á gróður. Myndin hér að neðan er sýnishorn af mengunarmælingu frá Grensásvegi og kemur þar vel fram mikill mengunartoppur í síðdegisumferðinni við Grensásveg, föstudaginn 9. mars. sl. Sjá mengunarmælingar um allan heim hér: Real-time World Air Quality.

Svifryksmælingar
Sjálfsagt vissu menn ekki betur fyrir nokkrum árum en að dísilvélar væru umhverfisvænni en bensínvélar vegna lítillega minni útblástur koltvísýrings, CO2, sem auðvitað er hin fræga gróðuhúsalofttegund. Þannig gat allsherjar dísilbílavæðing með stuðningi stjórnvalda verið liður í baráttunni gegn hlýnun jarðar, eða að minnsta kosti fegrað tölur í kolefnisbókhöldum. CO2 er hinvegar ekki mengun á sama hátt fína svifrykið og NO2. Plöntur þrífast á CO2 og við öndum því frá okkur. Það er því kannski ekki mikið unnið með því að draga agnarögn úr hlýnun jarðar en fjölga um leið hjartveikum, heilabiluðum og lungnaveikum góðborgurum með skaðlegum agnarögnum í útblæstri. Og nú sitjum við uppi með stóran hluta bílaflotans knúinn þessum mengandi vélum og góð ráð dýr. Ekki vilja menn verðfella nýju fínu bílana sína með því að tala þá niður og það væri spælandi að þurfa að greiða sérstök refsigjöld fyrir bíla sem keyptir höfði verið í góðri trú með sérstökum ívilnunum stjórnvalda.

Talandi um mig sjálfan þá er ég keyrandi um á mínum fjórhjóladrifna bíl, beinskiptum og bensínknúðum. Sá bíll er kominn á fermingaraldurinn sem í bílaævi telst til efri ára og því ætti að vera komin tími á endurnýjun miðað við standardkröfur og svo eyðir hann heldur meira en nýrri týpur. Hann stendur þó fyrir sínu þótt hann skorti ýmislegt af þeim fítusum og átómötum sem sjálfsögð þykja í dag. Hann er þó búinn þeim eiginleika að geta lokað fyrir innstreymi utanaðkomandi lofts í farþegarýmið, sem er ákaflega gagnlegt þegar ekið er í  svifryksmóðu morgun- og síðdegisumferðarinnar.

Morgunsól

Miklabraut að morgni. Að þessu sinni var það reyndar sólin sem stal senunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband