Færsluflokkur: Samgöngur

Flugvöllur á Bessastaðanesi

Öðru hvoru kemur upp umræða um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í þeirri umræðu er algerlega horft fram hjá því að í höfuðborgarsvæðinu miðju er til staðar marflatt, ónotað landsvæði á stærð við það sem fer undir Reykjavíkurflugvöll í dag. Hér er ég að tala um Bessastaðanes á Álftanesi en þangað hafa fáir komið og margir vita jafnvel ekki að yfirleitt sé til. 

Á meðfylgjandi mynd hef ég teiknað inn flugvöll með þremur flugbrautum sem eru jafnlangar þeim sem eru í dag og stefnan er svipuð. Vegtengingar hef ég einnig sett inn en með þeim fæst ný leið í miðbæinn frá suðurbyggðum sem tengist hinni breiðu Suðurgötu í Reykjavík. Til að trufla ekki skipa- og skútuumferð geri ég ráð fyrir göngum undir Skerjafjörð, þannig að flott skal það vera. Með þessum akbrautum þyrftu menn ekki að keyra í gegnum hlaðið hjá Forsetanum sem áfram ætti að geta sinnt sínum störfum án ónæðis. Aðflugsleiðir sýnast mér vera nokkuð hagstæðar þarna því lítið er um byggð allra næst flugvellinum og ekki er lengur flogið yfir miðbæ Reykjavíkur.

Álftanesflugvöllur

Sjálfsagt hefur þessi kostur verið skoðaður í þeim úttektum sem gerðar hafa verið og af einhverjum ástæðum hefur hann ekki átt upp á pallborðið. Kannski hafa Álftnesingar ekki viljað flugvöll þarna en það sveitarfélag er að vísu ekki til lengur. Kannski þykir þetta vera of nálægt forsetanum eða fuglum, en kannski er málið að svæðið er ekki í eigu borgarinnar – ólíkt Hólmsheiðinni, en sá staður held ég að henti betur föngum en flugvélum. Þetta mun þó auðvitað kosta sitt og auðvitað hefur enginn efni á þessu. Það má samt alveg ræða þetta enda held ég að vitlausari hugmyndir varðandi flugvöllinn hafi komið upp.

 


Á gervitunglamynd sést að mökkurinn er kominn til Noregs

Á gervitunglamynd frá því í dag sést vel það sem málið snýst um núna. Greinilegur gosmökkur liggur austur frá Íslandi alla leið til Noregs og ekki furða að flugumferð liggur niðri á stórum svæðum. Það er þó ekki að sjá að mökkurinn sé þykkur yfir Bretlandseyjum enn sem komið er, en það gæti breyst og samkvæmt fréttum hefur orðið vart við ösku í Skotlandi. Þetta er framlag Íslands til Evrópu í dag og einhverja næstu daga. 

Gosmökkur 15. apríl

Upprunalegu myndina sótti ég af MODIS Rapid Response System gervitunglavefnum:

http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/2010105/ 


mbl.is Flugbannsvæði stækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur misjafnlega mislæg gatnamót

Þó að Reykjavík sé ekki fjölmenn borg má þar finna mikil umferðarmannvirki. Mislæg gatnamót er til í ýmsum útgáfum og þau geta verið miseinföld eða -flókin. Stundum hafa óvanir ökumenn farið flatt á því að misskilja fráreinarnar eða aðreinarnar og farið norður og niður í staðinn fyrir út og suður. Sem er ekki gott. Hér á eftir koma nokkur dæmi um mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

Arnarneshæð

Einfaldasta gerð mislægra gatnamóta er væntanlega þessi tegund, sem má finna á Arnarneshæð þar sem Arnarnesvegur liggur um brú yfir Hafnarfjarðarveg. Þessi gatnamót taka lítið landrými en við sitt hvorn brúarendann eru umferðarljós, stundum eru þar hringtorg ef pláss leyfir.

- - - - - 

Höfðabakkabrú
Höfðabakkabrúin er öllu stærri um sig enda mikil umferð úr öllum áttum. Almennt er útfærslan á vinstri beygjum helsti munurinn á mislægum gatnamótum. Hér eru vinstri beygjurnar látnar skerast uppi á brúnni og ein allsherjar umferðarljós stjórna umferðinni þar. Umferð um Vesturlandsveg fer óhindruð undir brúna en Höfðabakkaumferðin þarf að hinkra eftir vinstri-beygju-bílunum. Misjafnt er hvort hægri-beygju-bílar þurfi að stoppa á ljósum. Hér er eins gott að fá ekki víðáttubrjálæði uppi á brúnni og týna ekki akreininni sinni.

- - - - -

Réttarholtsvegur

Tveggja slaufu gatnamót þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut og verður að Skeiðarvogi. Þegar kemur að þessari gerð gatnamóta fara málin að flækjast því þeir sem ætla að beygja til hægri inn á Miklubraut þurfa að stoppa á ljósum og beygja til vinstri inn á slaufu sem leiðir þá inn á Miklubraut áður en þeir koma að brúnni. Þeir sem hinsvegar ætla til vinstri og inn á Miklubraut þurfa ekkert að stoppa á ljósum og fara rakleiðis til hægri inn í slaufuna. Samskonar gatnamót eru þar sem Miklabrautin verður að Hringbraut (áður Miklatorg).

- - - - -

Elliðáarbrú

Niðri við Elliðavog erum við svo með elstu mislægu gatnamótin í Reykjavík og einu fullkomnu fjögurra-slaufu-gatnamót landsins. Hér er ekkert verið að spara landrýmið enda eru slaufurnar feiknastórar. Umferðin rennur hindranalaust í allar áttir því að allar vinstri beygjur fara um slaufurnar og hægri beygjurnar liggja þar utan með. Þetta eru þar með einu mislægu gatnamótin á landinu þar sem hægt er að bruna í gegn ofan brúar sem neðan án hindrunar af umferðarljósum eða hringtorgum.

- - - - -

LA-fjögurra

Hér erum við komin út fyrir landsteinanna og til hinnar miklu bílaborgar Los Angeles. Þar má finna þessa gerð af gatnamótum þar sem öll umferðin gengur hindranalaust fyrir sig en í stað slaufa eru vinstri beygjurnar á sér hæðum þannig að alls eru fjórar hæðir á gatnamótunum. Neðst eru tvær vinstri beygjur, síðan bein hraðbraut, tvær vinstri beygjur þar fyrir ofan og efst er hin hraðbrautin. Með þessu sparast heilmikið landrými miðað við slaufugatnamót en mannvirkið er mikið.

- - - - -

LA flækja

Þessa flækju sem einnig er í Los Angeles ætla ég ekki að reyna að útskýra en hætt er við að einhver utanbæjarmaðurinn fari villur vegar í þessu völundarhúsi. Lífið er ekki alltaf einfalt.

- - - -

Læt þetta duga að sinni en er þó að hugsa um að halda áfram í bílaleik í næstu færslu sem verður þó með allt öðru sniði.

Loftmyndirnar eru fengnar af kortavef ja.is og google maps
 


Tollhúsið og Geirsgatan

Tollhús

Það hafa verið gerðir margir skipulagsuppdrættir fyrir Reykjavík í gegnum tíðina. Engum þeirra hefur þó verið fylgt eftir til hlýtar, enda þróaðist borgin á tímum mikilla breytinga þar sem fólksfjöldinn jókst miklu hraðar en nokkurn gat órað fyrir og tilkoma einkabílsins gerði eldri skipulagshugmyndir fljótt úreltar.

Einn af þessum skipulagsuppdráttum var kynntur árið 1965 en að honum stóðu danskir skipulagsfræðingar sem fengnir voru til verksins. Í anda þess tíma áttu að rísa stórhýsi í öllum elsta hluta borgarinnar á kostnað gamalla og smærri húsa sem átti að rífa eða að flytja upp í Árbæjarsafn. Hraðbrautarkerfi heilmikið var skipulagt og þarna voru lagðar línurnar að úthverfabyggðinni sem teygði sig upp í holt og hæðir. 

Meðal þeirra húsa sem byggð voru samkvæmt þessu skipulagi var hin metnaðarfulla bygging Tollhúsið sem hafist var handa við árið 1966. Á suðurhlið hússins er hin risastóra mósaíkmynd eftir Gerði Helgadóttur þar sem sjá má lífið við höfnina á fyrri tíð. Á Norðurhlið hússins er minna falleg útbygging sem lögð var undir vörugeymslur en þar er Kolaportsmarkaðurinn í dag. Útbygging þessi var byggð í þeirri framsýni að ofaná henni skyldi liggja fjögurra akreina hraðbraut, Geirsgata, sem var hluti að hraðbrautarskipulaginu danska. Þessi ofanjarðarhraðbraut varð aldrei lengri en þessi stubbur sem þarna er ennþá, en gegndi þó lengi hlutverki bílastæðis á meðan heilmikil trébrú lá þangað upp. Árið 1986 var endanlega hætt við þessi loftbrautaráform og Geirsgatan var síðan lögð meðfram höfninni eins og hún er í dag. Fleiri hraðbrautir átti að leggja um miðbæinn, en þar á meðal var framlenging Suðurgötunnar í gegnum Grjótaþorpið sem átti allt að rífa. Framlengda Suðurgatan átti síðan að tengjast Geirsgötunni þarna aðeins vestar.

Í dag er þetta svæði í kringum Geirsgötuna allt stórlega skaddað að gjaldþrota uppbyggingarhugmyndum síðustu ára en miðbær Reykjavíkur ber þess reyndar merki að sífellt er verið að fara af stað með nýtt skipulag sem á að gefa Reykjavík yfirbragð erlendrar stórborgar. Kannski verður Geirsgatan lögð í neðanjarðarstokk eins og upp eru hugmyndir um, en þannig losnum við vissulega við umferðina sem þarf að fara þarna í gegn. Ég hef hinsvegar ekki mikinn áhuga á að aka neðanjarðar um bæinn. Kannski eru þeir sem fara með skipulagsmálin ennþá fastir í þeirri hugmynd að bílaumferð í miðbæjum þurfi alltaf að ganga óhindruð fyrir sig á fullri ferð, ef ekki ofanjarðar, þá neðanjarðar. Mín vegna mætti leysa Geirsgötuhnútinn með því að fækka bara akreinum úr fjórum í tvær. Umferðin, sem er reyndar ekkert svo mikil þarna, gengi sjálfsagt eitthvað hægar fyrir sig, en ég er ekki viss um að öllum liggi svo mikið á.

- - - - -

Hér kemur svo mynd sem ég bætti við eftir á. Hún er frá Seattle USA, þar sem má sjá hvernig hraðbrautarbrú liggur meðfram hafnarsvæðinu þar. Það var Björn frændi minn Emilsson sem sendi mér myndina, en eins og hann segir í athugasemdum hér að neðan, stendur til að rífa þennan „óskapnað“.

SCENIC_Central_Waterfront_AWV


Stóra jeppavitleysan og stóra jeppageymslan

jepparÉg velti stundum fyrir mér hvernig samsetning bílaflotans hefur þróast undanfarið þar sem stór hluti umferðarinnar er núna stórir bílar svo sem jeppar og pallbílar allskonar. Sú þróun hefur orðið að jeppi er orðinn tákn um velgengni og því hafa menn fjárfest í dýrum og stórum jeppum sem mest þeir mega til að sýna velgengi sína og kraft. Þessir fínu jeppar eru samt misfínir, þeir allra fínustu og dýrustu eru sannkallaðir forstjórajeppar á meðan aðra mætti skilgreina sem millistjórnendajeppa en þeir eru ekki alveg eins fínir. Svo eru líka jeppar sem raunverulega eru gerðir fyrir torfærur, gjarnan upphækkaðir á ofurdekkjum og komast bæði yfir stórfljót og jökla. Allir þessir jeppar eiga það þó sameiginlegt að vera mest notaðir til daglegs brúks innanbæjar, hvort sem það er til að aka til og frá vinnu, í innkaup eða til að keyra börnin í leikskóla. Þetta er satt að segja hálfgerð vitleysa allt saman enda eru þetta eyðslufrek kvikindi, eru mengandi, taka mikið pláss og slíta gatnakerfinu með tilheyrandi svifryksmyndun. Ég held að æ fleiri séu farnir að átta sig á þessu, ekki síst nú þegar bensínverð ríkur upp og stjórnvöld farin að tala um að auka álögur. En það er nú samt að vissu leiti skiljanlegt að margir vilja eiga jeppa enda býður landið okkar upp á slíkt og möguleikar á skemmtilegum jeppaferðum eru margir bæði um sumar og vetur. En það breytir því ekki að torfærubílar eiga auðvitað ekkert heima í borgum.

Um þetta hef ég dálítið hugsað undanfarið en mín vegna mætti alveg takmarka jeppaumferð í borginni eins og farið er að gera sumstaðar erlendis. Það mætti byrja á stærstu jeppunum og pallbílunum en í staðinn væri hægt að byggja stóra jeppabílageymslu í útjaðri borgarinnar þar sem menn geta geymt tröllin sín þangað til þeir þurfa að skreppa út á land í leit að torfærum. Þessir jeppaeigendur geta svo fjárfest í léttum eyðslugrönnum bílum til að nota innanbæjar en ef menn vilja halda „kúlinu“ þá mætti útbúa miða til að líma á borgarbílana þar sem á stendur: „ÉG Á JEPPA Í GEYMSLU“. Nú vill svo til til að það er einmitt verið byggja tvö hús í útjaðri borgarinnar sem gætu verið tilvalin fyrir svona jeppageymslur en þar á ég við hin yfirgengilega stóru verslunarhús sem eru að rísa við Vesturlandsveg rétt hjá Korpúlfsstöðum. Ég held nefnilega að það væri mun skárri nýting á þessum húsum eða að minnsta kosti öðru þeirra að geyma þarna nokkur þúsund jeppa heldur en að auka við stórverslunarhúsnæði hér í borginni.

En jújú ég geri mér alveg grein fyrir að þetta er kannski óraunhæfar hugmyndir, allavega enn sem komið er. Sennilega er þessi hugmynd bara svo góð að hún er langt á undan sinni samtíð, en einhvernvegin svona getur samt verið að málin verði leyst í framtíðinni.

JEPPAGEYMSLAN


Hestöflin eru farin að kosta sitt

Enn ein hækkunin á bensínverði leiðir hugann að því hvort við þurfum að fara að hugsa okkar gang varðandi bílaflotann sem hefur þanist út í magni og stærð í undangengnum góðærum. Hvað með öll hestöflin sem fara í að knýja alla þessa jeppa á götum borgarinnar? Jeppar eru auðvitað ekkert annað en torfærubílar og eyðslufrekir eftir því en eru aðallega notaðir í daglegt innanbæjarsnatt á malbikuðum götum borgarinnar og innihalda oftast bílstjórann einan. Er stöðutáknið kannski orðið að tákni um orkusóun nútímamannsins? Dæmigerður miðlungsfínn jeppi er 165 hestöfl sem jafngildir auðvitað afli 165 hesta. Það þætti nú örugglega dálítið skondið að sjá mann mæta til vinnu á vagni sem dreginn er af 165 hestum og einhver gæti talið að hægt væri að komast af með minna.

165hestar


mbl.is Verðhækkun hjá N1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband