21.11.2009 | 18:25
Veðurfræði í teiknimyndasögum
Það getur vissulega verið leiðinlegt að fá heimsóknir óskemmtilegra manna, ekki síst þegar menn eru langþreyttir á sólarleysi og sífelldu landsynnings- slagviðri, eins og segir í upphafi bókarinnar Ástríkur skylmingakappi. Þegar myndin er teiknuð hefur suðaustan landsynningurinn þó greinilega gengið niður í bili og komið hið besta veður með sólskini, bólstraskýin benda þó til þess að loftið sé óstöðugt og kalt loft í háloftunum. Slíkt er ekkert óalgengt eftir landsynningsslagviðri, ekki síst þegar í kjölfarið fylgir suðvestan- útsynningur með skúraleiðingum.
Nokkrum blaðsíðum síðar erum við komin út í skóg og fylgjumst með þjóð- skáldinu Óðríki Algaula þar sem hann dásamar hinn tólf vindstiga innblástur sem þarna er að finna, algerlega grunlaus um hættuna sem að baki leynist. Gömlu vindstigin hafa nú vikið fyrir metrum á sekúndum þannig að í dag væri talað um innblástur upp á 33 metra á sekúndu, sem jafngildir fárviðri.
Til að verjast söng skáldsins höfðu hermenn rómverska heimsveldisins komið sér upp eyrnatöppum úr fíflalaufum. Þó að aðgerðin hafi heppnast varð árásin ekki eins fjölmenn og til stóð. Tilgangur þessarar árásar var annars sá að fanga eitt eintak af hinum ósigrandi Gaulverjum sem Hnýsíus Glápíkus ætlaði að færa Júlíusi Sesari að gjöf. Bókin fjallaði svo í framhaldinu um frækilegan björgunar-leiðangur Ástríks og Steinríks til Rómar.
- - - - -
Þá eru það Ævintýri Tinna. Í bókinni Svarta gullið þurfti hann kljást við vafasama olíubraskara í miðausturlöndum. Hvassviðri og sandbylur í skrælþurri eyðimörkunni er ekkert grín og því fengu Tinni og Tobbi aldeilis að kynnast. Sem betur fer eru Skaftarnir aldrei langt undan en þeir voru einnig rammvilltir í eyðimörkinni. Að draga réttar ályktanir af hlutunum er ekki helsti styrkur þessara háleynilegu rannsóknarlögreglumanna.
Í sömu bók leiðir atburðarásin söguhetjurnar um borð í olíuskip. Enn sem fyrr kemur veðrið við sögu. Kvess vegna kvessir? spyr skipverjinn. Það skal þó tekið fram að hann hafði fengið höfuðhögg, annars hefði hann kannski áttað sig á að vindur magnast upp vegna þrýstingsmunar og að loft streymir frá hærri þrýstingi í átt að lægri þrýstingi.
En þá að lokum að bókinni Sjö kraftmiklar kristals- kúlur sem gerist á heimaslóðum söguhetjanna. Á einum stað í bókinni fá þeir Tinni og Kolbeinn að kenna á óstöðugleika veðráttunnar þar sem þeir eru á ferðinni á opnum blæjubíl kafteinsins. Skin og skúrir er veðurlag sem fleiri þekkja en við íslendingar. Regnboginn er algengur fylgifiskur slíks veðurs en þá brotnar ljósið upp í vatnsdropunum og regnboginn verður sýnilegur í gagnstæðri átt við sól. Regnboginn rís hærra eftir því sem sólin er lægra á lofti.
- - - - -
Í fréttinni sem hér fylgir er rædd við Úlfhildi Dagsdóttur um afmæli þessara teiknamyndasagna en þó aðallega um Ástríksbækurnar:
![]() |
Íslenskar myndasögur dýrmætar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)