Um Kelta, papa og brjóst

Í vikunni bárust okkur fréttir af því að með hátæknilegum aldursgreiningar-aðferðum væri hægt að sýna fram á að landnám Íslands hafi átt sér stað mun fyrr en áður hefur verið talið. Ekki er þó hægt að fullyrða hvaða fólk þetta var, hugsanlega átti landnám norrænna manna sér stað eitthvað fyrr en kemur fram á Íslendingabók Ara Fróða, eða þá að hér hafi verið fólk fyrir þegar norrænu frjálsræðishetjurnar komu hingað á flótta undan ofríki Haralds hárfagra. Keltneskt landnám fyrir landnám er stundum nefnt til sögunnar svo ekki sé talað um papana sem minnst er á í áðurnefndri Íslendingabók og víðar. Hið dularfulla og forna Ultima Thule gæti líka vel hafa átt við Ísland sem bendir um leið til þess að landið okkar hafi verið þekkt aftur í grárri forneskju.

Ef Keltar hafa hugsanlega komið hingað á undan Ingólfi Arnarsyni og félögum má alveg velta upp þeim möguleika að Landnáma og síðar Íslendingabók Ara fróða hafi verið skrifaðar til að réttlæta eignarhald Norrænna manna á landinu. Um þetta er svo sem ekkert vitað en óneitanlega er það mjög flott að geta nefnt fyrsta landnámsmanninn á nafn og vita að hann hafi einmitt tekið sér bólfestu þar sem hjarta höfuðborgarinnar er nú. En af hverju byggði hann sér ekki ból á Suðurlandi?

Í bókinni Þúsund ára sveitaþorp eftir Árna Óla, er fjallað um langa sögu Þykkvabæjar og Þjórsárholta þar sem finna má manngerða hella sem taldir eru bera vitni um byggð af keltneskum uppruna. Einnig er minnst á í bókinni að keltar hafi sett ferju á Þjórsá, Sandhólaferju, sem hafi verið getið um á landnámsöld og haldist þar í rúm 1000 ár. Árni Óla spyr í framhaldi af þessu:

„Hvernig stendur á því að Þjórsárholtin byggðust eingöngu keltneskum mönnum? Komu þeir hingað í hóp á sínum eigin skipum og náðu að nema þetta land, áður en norrænir landnámsmenn sölsuðu það undir sig? Eða völdu þeir sér bústaði þarna vegna þess, að þar voru Papar fyrir? Eða var þarna þegar Keltnesk byggð, áður en landnámsmenn komu, og hún látin í friði? … Það er því undarlegt, hver litlar sögur fara af Þjórsárholtum í fornöld. Var það vegna þess, að þarna byggðist önnur „þjóð“ sem ekki var af norrænum kynstofni“

Hvað þýðir orðið Papi?

Svo maður minnist aftur á Íslendingabók þá segir þar eins og frægt er: „Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru. Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig írskar bjöllur ok baggla; af því mátti skilja, að þeir voru menn írskir.“ 

einsetumannakofiAlmenna skýringin á papa-örnefnum er sú að þar hafi verið byggð írskra einsetumunka eins og til dæmis í Papey og sama gildir um ýmis örnefni á Bretlandseyjum. Hinsvegar er það svo að í norrænum málum þýðir orðið pappebrjóst, speni eða geirvarta“ og það sama gildir um enska orðið pap sem er talið forn-norrænt að uppruna. Það eru ýmis dæmi um að fjöll eða önnur kennileiti á Norðurlöndum og Bretlandseyjum sem kenna sig við pap, séu um margt lík konubrjóstum eða geirvörtum. Eitt helsta einkenni Papeyjar eru sérstakar klettaborgir sem standa uppúr og sjást víða að og ekki ólíklegt að þær hafi verið ástæðan fyrir nafngift eyjarinnar enda er það mjög algengt að örnefni sé dregin líkamshlutum fólks eins og öxl, enni, nes (nef) og háls. Ávalar hæðir hér á landi hafa stundum verið kenndar við bringur en erlendis hefur hefur slíkt einnig verið kennt við pap. Hinsvegar er á þessum stöðum engin sérstök merki um búsetu papa en vel getur verið að sagnir um papa á þessum stöðum hafi orðið til sem eftiráskýringar þar sem merkingin getur einnig átt við klerka (Papa=faðir). Engar minjar eru til á Íslandi af borghlöðnum einsetumannakofum eins og finnast á eyjunum í kringum Skotland en slíkir kofar eru einmitt mjög pap-legir í útliti og því hefur kannski ekkert verið sjálfsagðara fyrir Norræna aðkomumenn en að kalla þá sem þar búa papa

Um þessa nafnagiftarkenningu las ég á sínum tíma í grein sem heitir: Papar og brjóst - papaörnefni í nýju ljósi sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 22. janúar 2005. Höfundur er ekki skráður en er titlaður doktor í norrænum fræðum. Þessu til stuðning eru svo hér nokkrar myndir af pap-landslagi, en eins og sjá má minnir þetta á eitthvað. Kannski eru sagnir af írskum einsetumunkum hér á landi eitthvað orðum auknar en í þeirra stað hafi kannski búið hér venjulegt kristið fólk af keltneskum uppruna nokkru fyrir hið opinbera landnám seint á 9. öld. Allavega þurfa papaörnefni ekkert að benda til þess að þar hafi endilega búið papar.

Papaörnefni

 

 


Bloggfærslur 6. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband