Hitafar heimsins kortlagt

Undanfarið hafa miklir kuldar gengið yfir Evrópu og frést hefur af metsnjókomu í höfuðborg Bandaríkjanna. Þetta er vitanlega ekki góð auglýsing fyrir hlýnun jarðar sem einmitt hefur verið mál málanna undanfarið. En þótt kalt hafi verið víða á norðurhveli, þarf svo ekki að vera allstaðar.

Hér að neðan má sjá afrakstur dálítillar vinnu þar sem ég hef safnað saman mörgum hitakortum og raðað í eitt heimskort, en hvert fyrir sig sýnir frávik frá meðalhita á hverjum stað vikuna 13-19. desember. Kortin fékk ég á vef Bandarísku veðurstofunnar NOAA, þau ná að vísu ekki að dekka allan heiminn, t.d. vantar Íslandið okkar, Grænland og meginhluta Afríku. Þetta gefur þó sæmilega mynd af því hvað er að gerast. (Til að fá kortið stærra er hægt hægt að smella á það nokkrum sinnum)

heimshitakort

Samkvæmt þessu korti var hiti síðustu viku vel undir meðallagi nánast allan hringinn á hinum norðlægari slóðum allt frá Kanada til Evrópu, Síberíu og til norðurhluta Kína. Ég ímynda mér að þetta sé frekar óvenjulegt því yfirleitt ætti hlýtt loft að gera atlögu að norðurslóðum einhverstaðar til mótvægis við kuldana sem streyma úr norðri. En kannski á þetta sér þær eðlilegu skýringar að ísöldin sé að skella á fyrir fullt og allt eða bara næstu hundrað þúsund árin eða svo.

En heimurinn er stór og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að íbúar annarra heimshluta séu að krókna úr kulda. Í Bandaríkjunum var hiti mjög breytilegur eftir svæðum, Mið- og Suður-Ameríka er hlýrri en í meðallagi. Hlýtt er yfirleitt í Afríku af þeim svæðum sem sjást, einnig í Miðausturlöndum, suðurhluta Asíu og Ástralíu. Svo verður að hafa í huga að þarna vantar öll hafssvæðin og heimskautin, en það telur drjúgt þegar meðalhiti jarðarinnar er metinn.

Kannski er of mikið sagt að ísöldin sé að skella á. Hitafar jarðar á sér marga útúrdúra. Þessir vetrarkuldar á norðurhveli breyta engu um að árið 2009 verður meðal allra hlýjustu ára sem mælst hafa. Árið verður örugglega hlýrra en árið 2008 og endar nálægt meðalhita þessa áratugar sem er sá hlýjasti sem komið hefur frá upphafi veðurmælinga og miklu lengur en það.

- - - -

Kortin sem ég notaði er hægt að finna á þessari slóð: http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/analysis_monitoring/regional_monitoring/

Hægt að fara í hvern heimshluta og velja viku-, mánaðar- og 3ja mánaða kort. Til að fá frávik frá meðalhita er farið í Temperature Anomaly, en svo er líka hægt að kalla fram aðrar upplýsingar. Kannski mun ég setja saman svona kort saman aftur síðar og birta. Vonandi þó ekki svona kuldalegt.


Bloggfærslur 22. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband