5.12.2009 | 22:54
Nokkur misjafnlega mislæg gatnamót
Þó að Reykjavík sé ekki fjölmenn borg má þar finna mikil umferðarmannvirki. Mislæg gatnamót er til í ýmsum útgáfum og þau geta verið miseinföld eða -flókin. Stundum hafa óvanir ökumenn farið flatt á því að misskilja fráreinarnar eða aðreinarnar og farið norður og niður í staðinn fyrir út og suður. Sem er ekki gott. Hér á eftir koma nokkur dæmi um mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Einfaldasta gerð mislægra gatnamóta er væntanlega þessi tegund, sem má finna á Arnarneshæð þar sem Arnarnesvegur liggur um brú yfir Hafnarfjarðarveg. Þessi gatnamót taka lítið landrými en við sitt hvorn brúarendann eru umferðarljós, stundum eru þar hringtorg ef pláss leyfir.
- - - - -
Höfðabakkabrúin er öllu stærri um sig enda mikil umferð úr öllum áttum. Almennt er útfærslan á vinstri beygjum helsti munurinn á mislægum gatnamótum. Hér eru vinstri beygjurnar látnar skerast uppi á brúnni og ein allsherjar umferðarljós stjórna umferðinni þar. Umferð um Vesturlandsveg fer óhindruð undir brúna en Höfðabakkaumferðin þarf að hinkra eftir vinstri-beygju-bílunum. Misjafnt er hvort hægri-beygju-bílar þurfi að stoppa á ljósum. Hér er eins gott að fá ekki víðáttubrjálæði uppi á brúnni og týna ekki akreininni sinni.
- - - - -
Tveggja slaufu gatnamót þar sem Réttarholtsvegur fer yfir Miklubraut og verður að Skeiðarvogi. Þegar kemur að þessari gerð gatnamóta fara málin að flækjast því þeir sem ætla að beygja til hægri inn á Miklubraut þurfa að stoppa á ljósum og beygja til vinstri inn á slaufu sem leiðir þá inn á Miklubraut áður en þeir koma að brúnni. Þeir sem hinsvegar ætla til vinstri og inn á Miklubraut þurfa ekkert að stoppa á ljósum og fara rakleiðis til hægri inn í slaufuna. Samskonar gatnamót eru þar sem Miklabrautin verður að Hringbraut (áður Miklatorg).
- - - - -
Niðri við Elliðavog erum við svo með elstu mislægu gatnamótin í Reykjavík og einu fullkomnu fjögurra-slaufu-gatnamót landsins. Hér er ekkert verið að spara landrýmið enda eru slaufurnar feiknastórar. Umferðin rennur hindranalaust í allar áttir því að allar vinstri beygjur fara um slaufurnar og hægri beygjurnar liggja þar utan með. Þetta eru þar með einu mislægu gatnamótin á landinu þar sem hægt er að bruna í gegn ofan brúar sem neðan án hindrunar af umferðarljósum eða hringtorgum.
- - - - -
Hér erum við komin út fyrir landsteinanna og til hinnar miklu bílaborgar Los Angeles. Þar má finna þessa gerð af gatnamótum þar sem öll umferðin gengur hindranalaust fyrir sig en í stað slaufa eru vinstri beygjurnar á sér hæðum þannig að alls eru fjórar hæðir á gatnamótunum. Neðst eru tvær vinstri beygjur, síðan bein hraðbraut, tvær vinstri beygjur þar fyrir ofan og efst er hin hraðbrautin. Með þessu sparast heilmikið landrými miðað við slaufugatnamót en mannvirkið er mikið.
- - - - -
Þessa flækju sem einnig er í Los Angeles ætla ég ekki að reyna að útskýra en hætt er við að einhver utanbæjarmaðurinn fari villur vegar í þessu völundarhúsi. Lífið er ekki alltaf einfalt.
- - - -
Læt þetta duga að sinni en er þó að hugsa um að halda áfram í bílaleik í næstu færslu sem verður þó með allt öðru sniði.
Loftmyndirnar eru fengnar af kortavef ja.is og google maps
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)